Hið spræka lið West Bromwich Albion mætti til leiks í rigninguna á Old Trafford. Fyrir leik var rigningin reyndar svo mikil að óttast var um tíma að fresta þyrfti leiknum. Völlurinn fékk þó grænt ljós og leikurinn fór fram. Sir Alex kom mörgum á óvart með liðsvali sínu í dag en liðið sem hóf leikinn var svona:
De Gea
Smalling Evans Vidic Evra
Valencia Carrick Cleverley Young
Kagawa
Welbeck
Bekkur:
Lindegaard, Giggs, Hernández, Scholes, Büttner,Ferdinand,RvP
Kagawa kom óvænt beint í byrjunarliðið eftir langa fjarveru, Robin van Persie fékk verðskuldaða hvíld og Danny Welbeck fékk tækifæri í sinni réttu stöðu, uppi á toppi. United-menn byrjuðu leikinn af krafti og yfirleitt fór það í gegnum Kagawa sem spilaði í holunni fyrir aftan Welbeck. Welbeck, Young og Kagawa náðu vel saman í framlínunni og sköpuðu nokkurn usla. Strax á 9. mínútu leiksins kom fyrsta mark leiksins. Young og Kagawa tóku nettan þríhyrning, Young fékk boltann og dúndraði honum inn í teiginn þar sem McAuley varð fyrir því óláni að reka löppina í boltann, 1-0 fyrir United. Own goal mættur aftur.
Eftir markið hélt ég að United myndi ganga frá WBA í þessum leik. Liðið spilaði skemmtilegan og hraðan bolta og satt best að segja voru strákarnir hans Steve Clarke varla með í leiknum, liðið átti varla skot á markið í fyrri hálfleik. En þessir yfirburðir United skiluðu sér ekki í mörkum, fyrir framan markið gengu hlutirnir ekki upp og það vantaði aðeins meiri kraft og áræðni í sóknarleikinn. Liðið skapaði sér nokkur hálffæri en það var lítið um opin marktækifæri í þessum leik. Í lok fyrri hálfleiks fengu WBA-menn nokkrar aukaspyrnur á hættulegum stöðum en varnarlína United var, aldrei þessu vant, algjörlega vandanum vaxin.
WBA-menn voru töluvert sprækari í seinni hálfleik og leikurinn opnaðist í kjölfarið. Bæði lið sköpuðu sér nokkur hálffæri en United-menn voru klaufar að nýta sér ekki góðar leikstöður á meðan varnarlína okkar varðist fimlega með tæklingum og blokkeringum þegar WBA komst í skotfæri. Þannig gekk þetta út seinni hálfleikinn, liðin skiptust á að sækja án árangurs. Ferguson var þó augljóslega orðinn stressaður síðustu 20 mínútur leiksins því að þá sá maður að Valencia spilaði nánast sem bakvörður á meðan Smalling færði sig í miðvörðinn með Evans og Vidic. Þetta var líklega gert til þess að berjast gegn Lukaku sem kom með aukinn kraft inní lið WBA.
Það var þó aðeins maður sem gat gert út um þennan leik, um miðjan síðari hálfleik kom Robin van Persie inná fyrir Kagawa og hann kláraði leikinn fyrir okkur á 91. mínútu með laglegu skoti við vítateigslínuna, staðan orðinn 2-0 og úrslitin því ráðin.
Heilt á litið var frammistaða liðsins svolítil vonbrigði, liðið spilaði flottan bolta en náði ekki að skapa sér færi gegn afar döpru liði WBA. Varnarmenn WBA voru oft á tíðum algjörlega úti á þekju og synd að við skulum ekki hafa getað nýtt okkur það betur. En á þessum tímapunkti er frábært að ná sigri og láta með því City þurfa að elta okkur áfram. Þessi frammistaða var líklega mörkuð af því að menn eru orðnir þreyttir eftir þessa leikjatörn og því ætti maður ekki að vera að kvarta yfir þessum þremur stigum.
Auk þessara þriggja stiga er það klárlega jákvætt að liðið hafi náð að halda hreinu. Varnarlínan var frábær í þessum leik og réði við allt það sem WBA henti að henni. Vidic, Evans, Smalling og Rio vernduðu De Gea afskaplega vel enda þurfti hann varla að taka þátt í þessum leik. Það er augljóst að Ferguson og þjálfarateymi hans hafa nýtt tímann á milli leikjanna til þess að fara vel yfir varnarleik liðsins. Það var einstaklega ánægjulegt að sjá Nemanja Vidic stíga upp og hann var einfaldlega frábær í þessum leik og óhætt að segja að hann hafi verið besti maður liðsins í leiknum, með þá Evra, Evans og Smalling í öðru sætu á eftir honum. Meira svona.
Einnig var gaman að sjá Kagawa koma svona sterkt til baka. Hann var arkítektinn af flestu því besta sem United gerði í fyrri hálfleik, spilaði boltanum frábærlega frá sér og birtist allstaðar á vellinum. Það er frábært að fá hann aftur og vonandi að hann nái að haldast heill út tímabilið.
Næsti leikur er svo á nýársdag gegn Wigan á útivelli, þrjú stig þar og þá er ljóst að jólavertíðin hefur reynst liðinu afar vel.
Atli Þór says
Flottur leikur og vel gert hjá vörninni. leiðinlegt bara að sjá að flott spil upp allan völlin þurfti alltaf að stoppa á Welbeck, hann er engan veigin nógu ákveðinn í þessum 50/50 sénsum þótt hann sé duglegur að hlaupa og trufla andstæðinginn þá er eins og það vanti smá ákveðni fyrir framan markið. en á heildina litið flottur leikur og gott að halda hreinu og gaman að sjá Kagawa koma aftur og vera allt í öllu.
Cantona no. 7 says
Mjög góður sigur.
Fínt að halda hreinu.
G G M U
Gleðilegt nýtt ár og þakka gamla.
DÞ says
Það má gleðjast yfir mörgu úr þessum leik. Það augljósa er að við tókum þrjú stig og héldum hreinu, en einnig hvíldum við tvö stærstu nöfnin í deildinni og notuðum þrjá leikmenn sem eru að spila sig í form eftir löng meiðsli.
Það var sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með Vidic og Kagawa í leiknum, Kagawa var mun öflugri en ég bjóst við og varnarleikur Vidic gaf mér von um langþráðann stöðugleika í vörninni.
Bara ekki meiðast meir, plís, vertu heill.
Aron says
Flottur fyrri hálfleikur en stressandi seinni hálfleikur. Vörnin var góð allan leikinn, sóknarmönnunum tókst að skapa smá hættu án þess að klára færin (fyrir utan RVP að sjálfsögðu), miðjan var mjög góð í fyrri hálfleik en hvarf í þeim seinni sem olli miklu stressi aftast. Ég tel að miðjan okkar sé stærsta vandamálið þegar kemur að marktækifærum og markaskorun andstæðinganna en ekki varnarlínan. Einhverstaðar hefjast sóknir andstæðinganna og mörkin sem við höfum fengið á okkur komu annað hvort frá miðjuspili eða föstu leikatriði (sem skrifast nú vart á miðjuna einvörðungu verð ég að viðurkenna þó). Carrick er besti miðjumaðurinn okkar sem stendur. Hann er yfirvegaður (kannski einum of yfirvegaður) og er sá lang besti í að brjóta upp miðjuspil og sóknir andstæðinganna, einnig hefur hann átt frábærar stungusendingar og fyrirgjafir síðustu leiki. En Cleverley er fullur orku og á að byrja leiki, hann virkar reyndar mjög þreyttur í síðari hálfleikjum sem hann þyrfti að bæta en hann er hlaupandi út um allt og skilar sínu. Ég sakna Rooney mjög mikið og með hann í liðinu og RVP aftur saman munu mörkin koma aftur (á réttum enda skulum við vona).
Það verður léttir að fá Rafael aftur í hægri bakvörðinn gegn Wigan. Vidic og Evans verða e.t.v. hvíldir og Rio og Smalling verða því saman í miðverðinum og Evra alltaf á sínum stað. Jones mætti taka við af Carrick á miðjunni og Kagawa ætti klárlega að byrja í holunni með Persie fremst. Cleverley á að byrja við hliðina á Jones, Young og Valencia munu án efa byrja á köntunum líka. Ég vona að flestir verði orðnir heilir gegn Liverpool svo maður geti andað léttar fyrir þann leik. GGMU
úlli says
Er ég sá eini sem fæ hræðilegan kjánahroll þegar ég sé þess „GGMU“ undirskrift?
siggi United maður says
Örugglega ekki sá eini. En einn af mjög fáum býst ég við.
Björn Friðgeir says
GGMU er alveg skelfilega hallærisleg eftiröpun á hinu mjög svo hallærislega YNWA.
Ritstjórn hefur rætt að banna þetta :)
Már Ingólfur Másson says
Er að venja mig við að kíkja hérna inn. Flott framtak þessi síða.
Endurkoma Vidic er ótrúlega mikilvæg og gæti verið þetta örlitla sem okkur vantaði í fyrra.
Já og ggmu er hryllilega tacky