Þau sem eitthvað hafa fylgst með fjármálasögu United síðustu árin vita hver Andy Green, eða @andersred er. Enginn hefur gert stöðu mála betri skil og hann hefur verið harður andstæðingur Glazeranna. Í bloggfærslu sem hann birti í gær fjallar hann ítarlega um möguleikann á því að United nái að greiða upp skuldir sínar á næstu árum, ástæður þess og hugsanlegar afleiðingar. Það er rétt að taka hér saman helstu niðurstöður, en ég hvet alla til að lesa greinina, þó löng sé.
Eins og vitað er keypti Malcolm Glazer Manchester United fyrir tæpum átta árum með skuldsettri yfirtöku. Síðan þá hefur stór hluti hagnaðar United farið í að greiða þessar skuldir. Engu að síður fóru þær stighækkandi enda voru vaxtakjör slæm. Í júní 2010 voru heildarskuldir félagsins 784m punda. Síðan þá hafa hlutir frekar snúist við. PIK lánin svokölluðu, lang verstu lánin, voru greidd upp á árinu 2010 án þess að fram kæmi hvaðan sá peningur kæmi. Tekjur af AON auglýsingasamningnum og Ronaldo sölunni voru síðan notaðar til niðurgreiðslu, og loks var helmingur tekna hlutafjárútboði síðasta árs notaðar til skuldaniðurgreiðslu og nú er svo komið að 30. september sl. voru skuldirnar 360m punda.
Green telur nú ljóst að tekjur United muni aukast til muna næstu ár og telur þar til Chevrolet samninginn, síhækkandi sjónvarpsréttartekjur og endurnýjun á treyjusamningnum við Nike. Hann spáir að tekjur muni hafa hækkað um 110m punda, eða 35%, þegar kemur fram á 2015 af þessum þrem ástæðum. Að auki muni 40m punda koma úr öðrum áttum, samtals 150m punda.
Á kostnaðarhliðinni telur hann ekki líklegt að leikmannakostnaður hækki mjög, nýju ‘Financial Fair Play’ reglurnar muni halda aftur af leikmannakaupverði og launum. (þessu tengt sá ég í vikunni af að leikmannatilfærslum á síðasta ári voru 10% kaup, 70% frjálsar Bosman sölur, og 20% lán. Man þó ekki hvort þetta voru evrópskar tölur eða enskar). Einnig muni það fyrst og fremst verða tekjur þar sem öll liðin njóta hækkana (sjónvarpið) sem verði til hækkunar launa.
United standi því betur að vígi og muni enda með meiri hagnað eftir reglulega starfsemi, sem nemur allt að 100m punda á ári sem nýta má til skulda- og arðgreiðslna.
Það er nokkuð ljóst, telur hann, að þetta muni ekki leiða til aukinnar eyðslu í leikmenn, bæði eins og að ofan er talið, og eins þar sem lýst var yfir í tengslum við hlutafjárútboðið að leikmannaútgjöld yrðu áfram svipuð og þau hafa verið.
Niðurstaðan er því: Af ástæðum sem að mestu eru ótengd eigendunum hefur félaginu tekist að vinna á þessari gríðarlegu Grýlu sem skuldsetningin var og því má áætla að skuldir félagsins verði ekki baggi til að hafa áhyggjur af í framtíðinni. Heildarkostnað af Glazerunum metur hann að verði kominn í 1ma punda árið 2016 þannig að þó svona sé komið nú, er ekki nokkur ástæða til að telja þá einhverja frábæra eigendur. Ljóst er að án Sir Alex hefði þessi saga orðið allt önnur.
En, farið og lesið alla greinina.
Við vitum að innan örfárra ára eða jafnvel mánaða verður kominn nýr stjóri á Old Trafford. Það er erfitt að sjá fyrir sér að stjóri á því kaliberi sem við viljum þurfi ekki að fá að eyða peningum, nema kannske Moyes verði ráðinn. Ofangreint gæti því hugsanlega veitt svigrúm til þess, en engu að síður er erfitt að sjá eigendurna breyta frá því sem verið hefur.
Að lokum ætla ég að smella hér inn mynd sem ég hef lumað á og átti að fara í aðra færslu um fjármálasöguna, sem bið hefur orðið á að skrifa. Þessi mynd sýnir án nokkurs vafa hversu aðhaldssamir United hafa verið í leikmannakaupum.
Grafið er einfaldlega nettó eyðsla á hverju ári, með tveim breytingum sem jafna út risastórar sveiflur. Stærstu kaup síðustu ára, Dimitar Berbatov, voru gerð sumarið áður en Ronaldo fór. Á þeim tíma var samt yfirmönnum United algerlega ljóst að Ronaldo færi sumarið eftir, og því færi ég þessi kaup yfir á sumarið eftir. Á sama hátt var salan á Ronaldo þannig að hún setur tekjur af leikmannasölu það ár í 64m punda. Ég ákvað, af handahófi, að dreifa tekjunum af Ronaldo sölunni á fjögur ár.
Loks er rétt að minna á það að þegar Glazerar tóku við, lýstu þeir yfir að á hverju ári yrði eytt um 20m punda í leikmannakaup, og 25 að auki ef einhver alveg sérstakur var í boði. Það þótti ekki vita á gott þá… en raunin er sú að við erum fjarri því að hafa eytt þessu!
Sæmundur says
Eins og þessi tindáti segir svo skemmtilega, þá þegar skuldirnar hækkuðu (í beinum tengslum við hrun fjármálakerfis alls heimsins) þá var það allt Glazier fjölskyldunni að kenna EN þegar þær lækka (með beinum aðgerðum frá UTD og Glazier fjölskyldunni, s.s. nýjum lánasamningum, öllum arðgreiðslum beint í skuldinar en ekki teknar út, hlutafjárútboði os.frv.) þá hefur þetta ekkert að þakka Glazier fjölskyldunni.
Þvílíkt endemis andskotans rugl……….
Ætli Andy þessi hafi verið ráðgjafi hjá íslenskum stjórnvöldum og bönkunum eftir hrun?
Önsusususmuusssum ekki
Björn Friðgeir says
Það er hreinlega rangt hjá þér að skuldirnar hafi hækkað í beinum tenglum við hrun fjármálakerfisins. PIK lánin, sem voru á hæstu vöxtunum, voru á þeim vöxtum allt frá 2005.
Björn Friðgeir says
En annars skil ég ekki hvað þú ert að verja. Þér finnst æðislegt að skuldir einhverja kóna í Ameríku lækki, þegar öll sú lækkun er á kostnað liðsins. 1 milljarður punda soginn út úr United til eigandanna. Það er heilt lið af Ronaldoum…
Sæmundur says
Sæll
Gott að þú lest ekki eigin greinar en hvað með það.
PIK lánin voru með álagi (eins og flest öll stór lán) sem var tengt við LIBOR sem snarhækkaði við hrunið (fact)
Þau voru greidd niður af peningum sem ekki er vitað hvaðan komu (ef einhver heldur að Glazier hafi ekki greitt þetta úr eigin vasa, þá er hinn sami automatiskt Liverpúúl aðdáandi ;)
Sá grein í haust á Skysports um eyðslu stærstu félagana í enska í leikmenn og á seinustu 5 árum voru Utd í 110 mill punda í mínus. Þarna inni var tekin salan á Ronaldo.
Að halda því fram að fjármál Utd á seinustu 8 árum komi umheiminum og fjármálakerfinu ekkert við og að allt neikvætt í fjármálunum sé beint Glazier að kenna og allt jákvætt komi Glazier bara ekkert við er álíka heimskulegt og….. og…… halda því fram að Liverpúúl sé topp 4 lið í enska boltanum (varð að finna eitthvað rosalega heimskulegt :)
Þessi grein er skrifuð af manni sem hefur staðið í ströngu við að reyna að ná yfirtökum á utd (hefur verið talsmaður þess að „aðdáendurnir“ taki yfir. Eins og enskir segja það „sour grapes“
Og btw, ég er enginn talsmaður eða aðdáandi Glazier en minn raunveruleiki er að þeir eru eigendur liðsins sem ég hef stutt í um 30 ár og liðið stendur vel, því styð ég þá. Ekki gleyma að við gætum hafa fengið trúðana sem hafa verið og eru hjá Liverpool, Roman Alltkaupavich eða Shakin Stevens. Af öllum þessum kýs ég þá Glazier fjöldskylduna.
Magnús Þór Magnússon says
Ég skil ekki hvernig er hægt að saka menn um að halda Liverpool ef þeir gagnrýna eignarhald félagsins. Ef það væri ekki fyrir Glazer-ættina þá væru skuldirnar engar. Það er heldur ekki sjens í helvíti að leikmannakaup séu að koma okkur mínus, skoðaðu bara leikmenn inn og út á þessum tíma.
Björn Friðgeir says
3ja mánaða USD líbor lækkaði úr 4,681% í janúar 2008 niður í 1,45% í desember 2008. Í desember 2009 var hann kominn í 0,255% PIK lánin voru á föstum vöxtum og voru í 16,25% þegar þau voru greidd upp.
Það veit enginn hvaðan þessir peningar komu til að borga PIK lánin. Ekki er vitað um eignasölu Glazera, og vitað er að aðrar helstu eignir þeirra standa ekki það vel að líklegt sé að þær hafi staðið undir. Þú mátt alveg kalla mig Liverpool aðdáenda, en það segir meira um þig en mig.
Eins og sést undir myndinni eru tölurnar um kaup og sölur fengnar af transferleague.co.uk. Þér er velkomið að skoða þær og gagnrýna. Linkurinn fer beint á United síðuna þar. Skv þeim höfum við eytt 83m frá sumri 2007. (það er það sem þú meinar með mínus, geri ég ráð fyrir)
Ef ég ætti að telja upp þá sem eiga hrós skilið fyrir fjárhagsstöðu United, þá eru það Sir Alex Ferguson, David Gill, og auglýsingadeildin. Glazerar geta sem fyrr segir ekki þakkað sér sjónvarpstekjur þó vissulega megi viðurkenna að þeir hafi farið út í þetta með von um auknar slíkar.
Svo er auðvitað eitt enn, sem sjónvarpsstuðningsmenn United hér uppi á klaka nenna oft ekki að hugsa um, en það er að á sama tíma hefur miðaverð tvöfaldast á Old Trafford. Eru menn virkilega svo ótengdir því sem virkilega skiptir máli að átta sig ekki á hversu miklu máli skiptir að það sé grasrótarstuðningur við félagið? Dyggasti hópur knattspyrnuáhugamanna í gegnum hundrað ár, verkamannastétt, hefur ekki lengur efni á að fara á völlinn. United er að tapa heilli kynslóð því unglingarnir eru ekki að mæta. Þetta er allt gott og blessað meðan heilu flugin frá útlöndum koma vikulega og fylla völlinn af áhorfendum frekar en stuðningsmönnum, en hvað ef eitthvað klikkar? Haldið þið ef allt fer úr skorðum eftir stjóraskipti og við förum í eitthvað 2-3ja ára tímabil um miðja deild að áfram verði þessi útlendingaskari?
Glazerar hafa ekkert gert fyrir United. Þeim tókst ekki að eyðileggja félagið, ólíkt Gillett og Hicks, aðallega af því þeir héldu Sir Alex og Gill. Jafnvel þó sponsordílarnir væru mun færri, þá væri samt mun meiri peningur til í kassanum ef United hefði ekki verið selt Glazerum. Það er alger staðreynd. Við þurfum ekki að bera okkur saman við klikkhausa eigendur, við getum borið okkur saman við hlutafélagið sem við vorum.