Þau sem eru hvað hörðust á Twitter hafa kannske tekið eftir mrmujac sem tístir um unglingalið og varalið United. Frá því í haust hafa reglulega komið tíst á borð við þetta
Two youth players start and two on bench…the run continues…3,620+ consecutive games since October 1937 with youth player in squad! #kids
— The MUFC Academy (@mrmujac) February 18, 2013
Tölfræði þessi er sprottin af stórvirki sem mrmujac, sem í raun heitir Tony Park, hefur unnið að í hátt í 20 ár ásamt Steve Hobin. Afrakstur þessara vinnu félaganna er bókin Sons of United og kom út fyrir jólin.
Þeir félagar hafa í allan þennan tíma unnið að því að finna allar þær upplýsingar um unglingastarf Manchester United sem hófst fyrir alvöru árið 1937 með stofnun Manchester United Junior Athletics Club, eða MUJAC.
Síðan þá hefur unglingastarf United verið með þvílíkum ágætum að í öllum leikjum fram til 1. maí 2011 var leikmaður sem kom upp úr unglingastarfinu í byrjunarliði United. Þann dag sat John O’Shea á bekknum og bjargaði því að hægt að segja eins og ofan að uppalinn leikmaður hefur verið í hóp óslitið frá 1937.
Það er því full ástæða til að fylla í skarð það sem hefur verið í bókasafni Manchester United og gera unglingastarfinu hátt undir höfði.
Óhætt er að segja að Sons of United gerir það og vel það. Bókin hefst á inngangi þar sem rekin er saga MUJAC og eiginlegs unglingastarfs. Meginhluti hennar er síðan saga United í FA Youth Cup, eða Bikarkeppni unglinga. Sú keppni var lengst af langmikilvægasta keppnin sem unglingalið tóku þátt í. Aðeins á síðustu árum hafa deildakeppnir unglingaliða fengið aukið vægi. Þetta er því skynsamleg ákvörðun að fókusera á þessa keppni, alveg er bókin nógu stór þó ekki sé bætt við. Unglingabikarinn er að auki United kær enda vann liðið hann fyrstu fimm árin sem keppnin fór fram, 1953-1957 og þarf engum að segja hvaða piltar voru þar á ferð, né örlög sumra þeirra. Aftur vann United bikarinn 1964 og síðan 1992. Um ’92 piltana þarf ekkert sérstaklega að fjölyrða heldur. Loks vannst bikarinn 1995, 2003 og 2011.
Hér er sem sé ekki um að ræða bók sem rekur framgang unglingaliðsins í samfelldu máli eða einstökum sögum, heldur er hver einasti bikarleikur tekinn fyrir. Höfundar hafa grafið upp umsagnir blaða um hvern einasta leik og geta þannig sagt frá þeim hverjum fyrir sig. Inn í umsagnirnar er síðan myndað samhengi við fyrri og síðari leiki þar sem við á, þannig að hægt er að ná samfelldri sögu liðsins og leikmanna.
Bókinni er skipt í kafla eftir tímabilum og milli kafla eru æviágripskaflar þar sem helstu leikmönnum hvers tímabils er gerð greinargóð skil, hvort sem það voru framtíðarhetjur United, leikmenn sem áttu feril annars staðar eða leikmenn sem áttu sinn hátind í unglingaliðinu. Í þeim köflum kemur reyndar einn af fáum göllum bókarinnar í ljós, leikmenn eru þar ekki í stafrófsröð og ekkert efnisyfirlit er í bókinni og nafnaskrá vísar aðeins til ára sem leikmenn léku í unglingaliðinu, ekki síðna þar sem þeir koma við sögu. En við fyrirgefum það, bókin er unnin af höfundum sjálfum og aðstoðarmönnum, ekki atvinnubókaforlagi.
Þetta er því fyrst og fremst bók sem þarf að grípa niður í, renna í gegnum stutt tímabil, skoða leikina, liðin og markaskorarana, taka eftir frægum, og minna frægum nöfnum, lesa æviágripin og týna sér í þessum hluta sögu United. Finna kunnugleg nöfn, rekja feril þeirra og leiki, rekast á önnur minna kunnugleg nöfn, og njóta gríðarlegs fjölda mynda sem höfundar hafa safnað.
Enga samantekna tölfræði er að finna í bókinni af plássleysi, en í stað þess er tölfræðin birt á heimasíðu bókarinnar.
Í stuttu máli sagt, Sons of United er alger skyldueign fyrir þá sem vilja lesa sem mest um Manchester United og safna United bókum. Hún segir söguna sem mörgum United stuðningsmönnum er svo annt um, og er unnin af sönnum stuðningsmönnum og af sannri ástríðu. Sendingarkostnaður er verulegur hingað, en höfundur selur hana sjálfur fyrir utan Old Trafford á leikdögum ef þú ert á leiðinni út, en annars má láta rafrænu útgáfuna nægja. 45 vantar upp á að Facebook síða bókarinnar nái 1500 ‚lækum‘ en þá verða gefnar 5 rafrænar bækur af handahófi.
Á hinn bóginn, ef þú átt enga United bók, þá er þetta ekki bókin fyrir þig. Fyrir þig get hiklaust mælt með „Rauðu djöflarnir: Saga Manchester United 1878-1999“ eftir Agnar Frey Helgason og Guðjón Inga Eiríksson, sem er besta saga félagsins á íslensku, en ég veit ekki hvort eða hvar hún er enn fáanleg. Í Eymundsson í Kringlunni fæst svo The Man Utd Miscellany eftir Andy Mitten, skemmtileg lítil bók uppfull af mismerkilegum staðreyndum og fróðleik um uppáhaldsliðið okkar.
Færsla þessi er nefnd og flokkuð sem „Úr bókaskápnum“ og ætlunin er að þetta verði að reglulegum lið hér á blogginu. Skv. ófullkomnum lista eru eitthvað á níunda tug United bóka í skápnum mínum og ætti því að endast eitthvað. Þessi tala United bóka skýrir líka hvers vegna ég var þollaus að fá Sons of United í hendur frá því ég frétti fyrst af henni.
sigurjón says
Flottur liður.
ellioman says
Sammála, hlakka til að lesa næstu umfjöllun.