Eitt sinn sagði góður vinur minn, „Ég er ekki hrifinn af pólítík, ég vil einungis komast lífs af“. Sú setning kemur þessari upphitun ekki nokkurn skapaðan hlut við, fyrir utan það að ég vona að hún lífgi aðeins upp á lífið og tilveruna hjá lesendum Rauðu Djöflanna á þessum kosningadegi. Er ég sit hér fyrir framan tölvuna klukkan hálf tvö að nóttu til og skrifa þessa upphitun, þá átta ég mig á því að vinur minn sagði ansi margt sem á mjög vel við þennan stórleik sem við fáum að upplifa á morgun. Ég ætla því að nýta tækifærið og samtvinna þessa upphitun við marga gullmola sem hann hefur látið frá sér í gegnum tíðina. Til að forðast óþægilegar samræður í framtíðinni verður þessi vinur minn kallaður Benjamín eða hinn spaki maður í þessari grein. Kæru lesendur, It’s Showtime!
Á morgun heimsækir United Emirates leikvöllinn í London þar sem þeir mæta Wenger og leikmönnum hans í Arsenal. Í fjöldamörg ár var herra Robin Van Persie búinn að vera aðalmaður liðsins og kallað hann til stuðningsmanna eftir hvert mark „Hver elskar ykkur og hvern elskið þið?“ en eins og gerist fyrir bestu menn þá fékk kappinn nóg af titlaleysi Arsenal og ákvað að yfirgefa London. Er hann talaði um að litli strákurinn í honum hafi viljað United, þá hafa eflaust margir Arsenal stuðningsmenn hugsað með sér að þessi meiðslapjési myndi pottþétt enda á sjúkrabörunum í Manchester og að hann myndi einungis sjást aftur í endursýningu. En eins og Benjamín sagði við óvin sinn einu sinni: „Ég tek ekki við óskum“, sem er nákvæmlega upp á teningnum núna er hann kemur aftur á Emirates sem markahæsti leikmaður deildarinnar og nýbúinn að tryggja nýja liðinu sínu tuttugasta deildartitilinn. Til að gefa stuðningsmönnum United enn meiri standpínu þá neitaði Persie samningstilboði frá City sem ég tengi alltaf við orð spaka mannsins er hann fékk slæman samning í hendurnar: „Ég myndi óska að sjá þig borða þennan samning, en ég vona að þú skiljir eftir örlítið pláss fyrir hnefa minn því hann mun fylgja með og kitla á þér mænuna“. Svolítið gróft hjá spaka manninum en kom skilaboðunum til skila og gladdi aðstandendur umtalsvert.
Heimavöllur Arsenal er hinn stórglæsilegi Emirates völlur sem rúmar rétt yfir sextíu þúsund manns og skemmtilegt að segja frá því að áhorfendametið var sett árið 2007 þegar United kom í heimsókn. Þrátt fyrir að veðurspáin spái 10° hita og rigningu þá býst ég við ansi miklum kulda á milli leikmanna liðanna. Sem maður getur nú skilið að vissu leyti fyrir hönd vesalings Arsenal stuðningsmanna. En þá er um að gera að hugsa til spaka mannsins er hann sigraðist á nýstingskulda eitt skiptið og sagði: „Hér er ykkar nýstingskuldi, nú aðeins kuldi“. Þessi orð hafa fylgt mér í mörg herrans ár enda ristir það alldjúpt í lífssálina.
Arsenal hafa ekki unnið titil í ansi langan tíma, eða eins og þessi stórskemmtilega heimasíða sýnir okkur, þá eru orðin sjö ár og ellefu mánuðir síðan þeir unnu FA bikarinn. Mig dreymdi eitt skipti draum sem útskýrir vandamál Arsenal manna nokkuð vel og hina óþægilegu stöðu sem Van Persie var staddur í. Þar birtist hinn spaki maður og sagði: „Það eina sem ég hef séð er hópur af mönnum með lág enni sem halda að þeir geti breytt heiminum með draumum og tali. Ég skal segja þér nokkuð, ef þú ert ekki tilbúinn til að taka af skarið þá skaltu einfaldlega láta mig vera og þegja“. Mikill sannleikur í þessum orðum og ætti að gera ákvörðun Van Persie skiljanlegri fyrir flesta.
Satt að segja býst ég við, þegar leikmennirnir stíga inn á völlinn, að sjá United liðið kalla til Arsenal: „Sælar elskurnar, annað okkar er í miklum vandræðum“. Af hverju spyrjið þið. Því United hefur efni á slíkum orðum því í síðustu tíu viðureignum liðanna þá hefur United unnið átta leiki, gert eitt jafntefli og tapað einum. Hin fínasta tölfræði þar á ferð. Bæði lið eru svo á ágætis siglingu þessa dagna, Arsenal hefur unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum (+ eitt jafntefli) á meðan United hefur unnið fjóra, tapað einum og gert eitt jafntefli. Annars þá hafa nú leikir á milli þessara tveggja liða oftast verið stórskemmtilegir og á ég ekki von á það breytist á morgun. Þetta ‘Guard of honor’ rugl, sem Arsenal þarf að ganga í gegnum á morgun, ætti að hleypa smá drama inn í leikinn sem oft er ávísun á góða skemmtun fyrir áhorfendur.
Meiðsli/Veikindi/Leikbönn
Hjá United….
- N Vidic (Smámeiðsli) => Tilbúinn: 28 apríl
- C Smalling (Smámeiðsli) => Tilbúinn: 28 apríl
- A Young (Ökkli/Fótur) => Tilbúinn: Óvitað
- P Scholes (Hné) => Tilbúinn: Óvitað
- D. Fletcher (Sáraristilbólga) => Tilbúinn: Óvitað
Hjá Arsenal….
- Arteta (Ökkli/Fótur) => Tilbúinn: 28 apríl
- Miyaichi (Ökkli/Fótur) => Tilbúinn: 14 maí
- Fabianski (Rifbein) => Tilbúinn: Óvitað
- Diaby (Hné) => Tilbúinn: Óvitað
Lykilmaður Arsenal
Santi Cazorla. Verður ekki sagt annað en Wenger hafi gert snilldarkaup er hann náði í Santi Cazorla frá Málaga. Cazorla hefur núna spilað 34 deildarleiki og í þeim hefur hann skorað tólf mörk og gefið sjö stoðsendingar. Hann er markahæsti leikmaður Arsenal og skoraði meðal annars eina mark Arsenal í síðustu viðureign liðanna á Old Trafford. Ekki slæmt hjá leikmanni að spila sitt fyrsta tímabil á Englandi. United þarf því að hafa góðar gætur á spænska miðjumanninum á morgun.
Líkleg byrjunarlið
Ég er nokkuð viss um að liðsuppstillingin verði eitthvað í líkingu við þetta í byrjun útsendingarinnar:
En svo þegar leikurinn hefst þá á ég von á að liðinu verði stillt upp svona:
De Gea
Rafael Jones Vidic Evra
Cleverley Carrick
Valencia Rooney Kagawa
Van Persie
Að lokum
Hef grun um að margir muni telja mig snargeðveikan eftir þessa upphitun. Vil bara taka það fram að ég er fullkomlega heill á geði… held ég…
Pétur says
Þessi upphitun er náttúrulega tær snilld hjá þér.. hélt fyrst að uppstillingin hafi eitthvað klúðrast en hló svo upphátt þegar ég áttaði mig á þessu
Annars er ég sammála seinni uppstillingunni, er spenntur að sjá hvort Valencia haldi áfram að bæta sig eftir síðasta leik
Binni says
hversu marga kalda varstu búinn að fá þér þegar þú skrifaðir þessa upphitun ? :D
brilliant upphitun
Sigurjón says
Ég ætlaði mér aldrei að vera sá sem tilkynnti tíðindin…en Elli, þú ert geðveikur. Sorry!
;)
Ingi Rúnar says
Èg vill ad Carric, Persie, Giggs, Evra, Rooney, Vidic og Ferndinand fari bara í sumarfrí núna, mér er slétt sama um stigametid og markakóngstitilinn. Powell, Anderson og Cleverley á midjuna restina af mótinu takk. Hernandes upp á topp.
Fyrir mig skiptir tad nákvæmlega engu máli tó við topum restinni af leikjunum, titillinn er kominn. En allavega, til lukku med tuttugu :)
Óskar Ragnarsson says
Ég vill sjá stigametið tekið. Ég hefði reyndar líka viljað sjá liðið fara í 100 mörk en þá þurfa þeir að skora 22 mörk í 4 lekjum. Það ætti reyndar ekki að vera vandamál ef að draumur minn síðastliðnu nótt rætist því þar vann United Arsenal 12-0. Er svona hóflega bjartsýnn á að það gangi eftir :)
Óli says
Hneykslaður á síðasta commenti. pfff
Óli says
á commentinu hjá Inga Rúnari
siggi utd maður says
Maður þarf að komast í kynni við Spaka manninn, virðist tala í gullkornum.
TN says
Snilldar upphitun ! Ég vona að Nani fái eitthvað að spreyta sig , ég held að hann gæti gert góða hluti á næsta tímabili. Ég held samt að hann fari í sumar og ég myndi vilja fá James Rodriquez frá Porto í staðinn.