Samkvæmt dagatalinu er ég sá eini af ritstjórninni sem man árin fyrir Fergie, enda fæddur 1969, 17 árum fyrir Ferguson. Ólíkt Ómari Ragnarssyni sem komst fram til átta ára aldurs í fyrsta bindi ævisögunnar, get ég hins vegar ekki sagt að ég sé minnugur á atburði. Ég veit það t.a.m. bara af því eldri frændur rifja það alltaf upp að fyrsta sem ég veit um að ég sé United maður er að ég á að hafa grenjað óhuggandi þegar United tapaði fyrir Southampton í bikarúrslitunum ’76. Annars man ég þetta ósköp lítið næstu árin. Maður horfði á útdrætti úr vikugömlum enskum leikjum á laugardögum, las um þetta í Mogga og fylgdist svolítið með. 1982 byrjaði ég að lesa Shoot! og fékk fagra mynd af öllum leikmönnum og liðum, enginn var lélegur, bara stundum smá vonbrigði. Sama ár komu fyrstu beinu útsendingarnar og um haustið byrjaði RÚV að sýna einn leik í viku.
Stóri Ron var kominn til United, búinn að veifa veskinu og spandera í Bryan Robson og Remi Moses og var að reyna að gera þetta svolítið spennandi. Sumarið 1982 kom United til Íslands, og Hótel Loftleiðir fylltist af guttum að snapa eiginhandaráritanir. United rústaði Val og KA, jafnvel þó sá Best-i væri með Val og KA. Vorið 1983 hefði ég séð United lyfta bikar í fyrsta skipti í beinni útsendingu, nema það að aðeins úrslitaleikurinn á laugardeginum var í beinni útsendingu, ekki aukaleikurinn á fimmtudeginum. Aftur segir það aðeins til um minni mitt að ég ákvað að líta á dagskrána það kvöld til að skoða hvað hefði komið í staðinn og fyrst þá mundi ég augljósu ástæðuna. Það var jú barasta ekkert sjónvarp á fimmtudögum!
Útlitið virtist bjart, allir leikmenn voru greinilega frábærir leikmenn, og þetta Liverpool-lið hlaut að vera á niðurleið. Veturinn 1983-4 var Evrópukeppni-bikarhafa-veturinn, man fátt annað en að vakna einn morgun og komast að því í Mogga að United hefði unnið Barcelona 3-0 og væri komið í undanúrslit. Ég man minna eftir því að lesa um jafntefli og tap gegn Juventus í undanúrslitunum. Eitthvað leiðindalið vann víst deild og Evrópukeppni þetta árið, en ekki man ég eftir því frekar en aðrir.
En áfram hélt vonin. Um sumarið komu Strachan, Olsen og Brazil til United, og ég hafði aldrei séð jafn flotta mynd í Shoot! og þessa, þvílík snilldarkaup! Nú hlaut þetta að fara að smella!
Veturinn eftir byrjaði með 4 jafnteflum, hafði viðkomu í að tapa í vítakeppni gegn ungverska liðinu Videoton í UEFA bikarnum, en endað í sólinni á Wembley þar sem Norman Whiteside tryggði bikarsigur gegn Everton, sem einhverra hluta vegna hafði allt einu byggt miklu betra lið en okkar og orðið meistarar á glæsilegan hátt. Ég skildi þetta ekki alveg…
Haustið 1985 small þetta. Loksins loksins loksins. Tíu sigrar í röð! Hvílík vél! Mark Hughes orðinn besti senter í heimi, miðjan stórfengleg með Robson og Whiteside og vörnin örugg með klettinn Paul McGrath. 10 stiga forysta í nóvember! En borgin sú var byggð á sandi. Og bjór. Allir fyrrnefndir voru í raun mestu byttur (einhverra hluta vegna var Shoot! ekki mikið að ræða það og vikulegar greinar Bryan Robson voru allar um hvað þetta væri nú allt frábært. Nú eða hann talaði bara um enska landsliðið), Hughes var seldur á miðju tímabili til Barcelona, þó það mætti ekki segja frá fyrr en hann færi um sumarið, og fannst það svo sorglegt að hann þjóraði enn meira og Big Ron tsjillaði í sólbekknum í skrifstofunni sinni frekar en að taka á málunum. United endaði í fjórða sæti, 12 stigum á eftir Liverpool.
Þetta gat bara haft einn endi. Þeir sem lásu DV hefðu átt að vera með á nótunum strax í október, enda lásu blaðamenn þar skosku blöðin, en 5. nóvember 1986 var staðan í deildinni svona:
og United hafði tapað fyrir Southampton í deildarbikarnum 1-4. Það var nóg komið. Big Ron tók hatt sinn og sólbekk, Bobby Charlton og Martin Edwards rúntuðu til Skotlands og sögðu Alex Ferguson að koma strax með suður. Charlton var búinn að lauma þessari hugmynd í kollinn á Ferguson í Mexíkó þá um sumarið þegar Fergie var að stýra Skotlandi í HM og Ferguson þurfti ekkert að hugsa sig um þegar alvörulið kom og þurfti hjálp. Ólíkt því þegar Arsenal vildi fá hann.
Mogginn var sem fyrr aðalheimildin, og fjallaði mjög ítarlega um ráðninguna eins og sjá má. Shoot! bjargaði málunum og opnugrein Robson um Fergie og Big Ron var djúp og ítarleg… eða ekki. Robson sagði Alex vera þöglari en Ron, hugsandi mann sem eyðir ekki orðum í óþarfa. Annað hvort vill svo ólíklega til að það hafi verið nokkrar vikur þarna í byrjun þar sem ekki var kveikt á hárblásaranum, eða hitt, að Shoot! fékk ekki sannleikann, hráan og ósminkaðan.
Fyrstu ár Ferguson eru síðan efni í aðra grein en skemmst frá því að segja að breytingarnar tóku tíma. En þá fengu stjórar aðeins meiri tíma en nú og Ferguson fékk þann tíma sem þurfti. Það er eina lexían sem hægt er að draga af þessu yfirliti um árin fyrir Fergie. Moyes tekur vissulega við örlítið betra búi, en ef við viljum fá stjóra sem endist, þarf hann að fá tíma til að móta liðið að sínu höfði.
Valdi Á says
Frábært innlegg frá þér!
Á ekki bara breyta tímatalinu í heiminum í fyrir og eftir Ferguson?
McNissi says
Var að lesa nokkrar greinar um Moyes og hvernig hann vinnur og sá þá að hann fylgist gífurlega mikið með tölfræði. Ef hann dembir sér í það í sumar að skoða tölfræði United manna á þessu tímabili þá vita allir hver verður seldur á staðnum…. Antonio ,,Tony V“ Valencia.
Ekki að ég sé með það á hreinu, en maðurinn hlítur að vera með hræðilega tölfræði. Fyrirsendingar hans hafa verið lélegar, hlaup hans hafa ekki virkað, ef hann sendir þá er það til baka, mér finnst hann ekki nýta eða ekki sjá góð hlaup í kringum sig, ekki búinn að leggja upp mörg mörk og skorar nánast aldrei.
Ég er btw. bara að tala um þetta tímabil.
McNissi says
Ég sá Palace leikinn um daginn þar sem Zaha skoraði 2 mörk, eitt þeirra var gullmoli. Fyrir utan þessi mörk þá var hann frábær, næstum allt sem hann reyndi gekk upp. Hann er gífurlega teknískur og er óhræddur við að taka menn á og það er það sem við höfðum í Valencia en höfum ekki lengur og mun því Zaha labba nokkuð auðveldlega inní liðið á kostnað Tony.
jóhann ingi says
Ég er Thá faeddur 7 fyrir Ferguson. 7 ára polli thegar hann tók vid thessu batteríi og hefur ekki komid 1 ár sídan til ad skammast sídan eitthvad fyrir.
Nú óttast madur ad thad fari ad halla undan faeti eitthvad á naestu árum. Hef samt fulla trú á Moys en gud minn gódur hvad hann er ad fara í allt annad verkefni heldur hann hefur verid í. Nú fyrst reynir á hann sem stjóra. Verdur toluvert erfidara ad halda klefanum og miklu meiri krafa gerd um árangur. Thad er mín skodun ad hann thurfi ad byrja 1. seasonid vel og vinna helst deildina af ollum theim dollum sem eru í bodi. Ekki bara fyrir mig eda adra studningsmenn heldur fyrst og fremst fyrir sjálfan sig til ad halda stjórn uppá framhaldid. Ferguson sagdi einhverntíman ad 1.titillinn hafi verid lykillinn af thessu ollu. Eftir thad hafi hann fengid miklu meiri virdingu og starfid verid audveldara. Held thad sé mikid til í thví.
Ëg er líka grídarlega spenntur fyrir thessu Sillyseasoni og vona ég svo ynnilega ad Moyes taki med sér stóra Belgann Fellaini. Hann er klárlega einn sterkasti leikmadurinn í thessari deild og í United gaeti hann blómstrad sem midjumadur eda fyrir aftan framherjann. Gaeti bodid okkur upp á ad breyta toluvert um leikadferdir í ákvednum leikjum og svo framvegins. Einnig grídarlega spennandi ad sjá hvad verdur um Rooney. Ég spái thví ad hann verdi áfram enda faer hann hvergi thennan samning sem hann er med og hvergi til betri klúbbur. Fyrir utan thad thá er madur ekki ad sjá neitt af thessum stóru lidum í evrópu hafa einhverja sérstaka thorf fyrir hann.
Áfram United og áfra Moyes
Ingi Rúnar says
Good bye David Beckham, i will miss you
úlli says
„Í þá daga fengu stjórar miklu lengri tíma“ eða „Alex Ferguson þurfti nú 4-5 ár“ eru þreyttustu frasar sem ég veit um. Engin tvö dæmi eru alveg sambærileg, og það verður að hafa í huga hverju menn eru að taka við. Það sem Brendan Rodgers er að fá upp í hendurnar er dæmi um eitthvað sem mun taka tíma og spurning hvort honum verði sýndur skilningur og hvort hann sé rétti maðurinn.
Ef þú ert að taka við félagi eins og ManUtd eða ManCity þar sem allt er fyrsta flokks er staðan einfaldlega allt önnur. Í tilviki David Moyes, þó að til dæmis fyrstu tvö árin verði titlalaus, þá verður að mínu mati alveg ljóst eftir tvö ár hvort hann sé starfi sínu vaxinn eða ekki og eigi skilið að halda vegferð sinni áfram.
Björn Friðgeir says
Tja, nokkuð sammála, en ‘Í þá daga fengu stjórar meiri tíma’ er nú alveg staðreynd frekar en frasi. Ferguson var auðvitað ekki rekinn af því að yfirmennirnir sáu hvað hann var að gera bak við tjöldin, en samt tók það alveg þrjú ár þangað til farið var að heimta brottrekstur.
Þess vegna fer það alveg eftir hvað er að gerast í klúbbnum, frekar en úrslitin, sem ráða hvað Moyes fær mikinn tíma. Mancini var rekinn þrátt fyrir árangur vegna þess að hann var að klúðra innra starfinu og stemmingunni. Er sammála að eftir tvö ár verði nokkuð ljóst hvort Moyes er að gera réttu hlutina. En „réttu hlutirnir“ verður ekki talið í bikurum. Við erum að reyna að taka annað langhlaup hér og ef breytingarnar sem Moyes gerir eru ekki að skaða klúbbinn til langs tíma er ég (og þú, sýnist mér) alveg sáttur við titlalaus ár meðan hann er að endurskipuleggja, og ég býst alveg við að breytingarnar verði fyrst og fremst í innra starfinu.
Við vitum jú að milljarðamæringarnir í Chelsea og City eru ekkert að fara að gefa eftir og þó Sir Alex hafi unnið kraftaverk er ekki víst að aðrir geti það, Moyes eða aðrir. Mér líst alla vega betur á 10 ár með Moyes og stöku titli frekar en að skipta á tveggja ára fresti til að reyna að fá einum fleiri. Hvernig svoleiðis hugsun fer í GGMU gengið, sem ég innra með mér get ekki annað en hugsað um sem gloryhuntera, það verður að vera þeirra mál.
Björn Friðgeir says
Gleymdi reyndar einum lykilpunkti: Frekar skemmtilegan bolti og færri titla en boring bolti og örlítið skárri árangur!