Þetta er held ég örugglega orðið ruglaðasta ‘silly season’ sem ég man eftir hvað United varðar.
Síðan við heyrðumst síðast fyrir tveim dögum:
- Tito Vilanova segir að Cesc vilji vera áfram.
- Reyndar var það í vor sem Cesc sagði það.
- Thiago segist hafa tekið ákvörðun um að fara til Bayern eftir að hafa talað við Pep eftir HM U-21. Áttum semsé aldrei séns.
- Wayne Rooney er “reiður og ringlaður” vegna þess að United er að fara illa með hann.
- Það er hollt að lesa hvað Moyes sagði í raun um Rooney. (Takk Kristjans)
- Chelsea býður 10 milljónir punda í Rooney, plús annað hvort Mata eða Luiz
- Chelsea neitar að hafa boðið leikmenn, segir það frá United komið til að hræra í leikmönnum Chelsea (en Chelsea er þá augljóslega ekkert að hræra í Rooney)
- Blaðamenn neita að ‘Mata eða Luiz’ slúðrið hafi komið frá United.
- Svona í millitíðinni berast fréttir um að Nani fái nýjan samning og sé alveg á tæru að sé sterklega inni í myndinni hjá Moyes.
- Andy Mitten, gegnheill United maður og traustur, segir alveg á hreinu að Fàbregas vilji spila og vilji koma til United en sé að bíða eftir að Barcelona taki fyrsta skrefið og segi í lagi að hann fari.
- Ed Woodward, stórleikari úr The Equa… nei ég meina varaforseti Manchester United yfirgaf túrinn í Ástralíu í gær og flaug heim til Englands, nei, ég meina, flaug „til Evrópu“ til að sinna „mikilvægum leikmannaviðskiptum“
- Þessi leikmannaviðskipti eru að tryggja okkur Fàbregas.
- Nei, Modrić, sem við fengum allt í einu aftur áhuga á. (Skv Tancredi Palmieri og Sky Italia. Nei, það eru ekki traustar heimildir)
- nú, eða Gareth Bale, sem Daily Mirror slær upp í dag að við ætlum að bjóða 60 milljónir punda í.
Er nema von menn verði ringlaðir!
En ef ég ætti að leggja undir pening í dag hvað gerðist þá þætti mér líklegustu atburðir næstu vikna vera þeir að Wayne Rooney fari, og Fellaini komi. Síðan virðist alveg séns að næla í Fàbregas. Ef Rooney verður notaður sem skiptimynt, er ekkert óvitlaust að vonast eftir t.d. Mata, sem er eiginlega vitað að Mourinho er alveg til í að láta frá sér. (Sama gildir um Luiz og Torres).
Rooney upp í Bale? Já, hvers vegna ekki? Um daginn var slúðrið meira að segja Rooney OG Nani upp í Bale.
Ef Rooney fer þá er það ekkert alnauðsynlegt að taka framherja inn í staðinn. Við höfum Chicharito og Danny til að leysa Robin af, og Kagawa myndi taka holuna eða fremsta miðjumann með Powell og Januzaj sem varaskeifur. Það er ekkert slæm tilhugsun.
Yfir til ykkar. Hverjar eru líkurnar á að miðjan okkar næsta vetur verði Fellaini, Mata og Fàbregas? Eða Bale, Carrick, Cleverley, Fàbregas og Nani
Ingvar says
Flottur pistill!! Fer reglulega inná gossip dálkinn á United síðunni og það er svolítið skondið að nafn Wayne Rooney komi hvergi við sögu í slúðri vikunnar, er klárlega á leiðinni burt.
En almennt um silly season-ið þá held ég að það væri hollast fyrir mann að hætta að lesa allt þetta djös rugl. Ekki heil brú í sumu af þessu og blaðamenn setja fram greinar sem þeir vita að sé uppspuni frá rótum. En vonum það besta, væri meira en til í Fabregas og Mata en svona miða við allt þá á ég von á hvorugum.
Elvar says
Svona verður þetta sumar örugglega .. því miður..
https://www.facebook.com/photo.php?fbid=629086890442339&set=pb.469671399717223.-2207520000.1374152386.&type=3&theater
Birkir says
Manutd sagt hafa hækkað boð sitt i Fabregas:)
http://www.433.is/frettir/england/as-united-med-nytt-tilbod-i-fabregas/
Kristjans says
Mér finnst Björn varpa fram athyglisverðum pælingum hérna. Af hverju ekki að nota Rooney upp í Bale? Ég myndi svo gera Chelsea gagntilboð, Rooney er falur fyrir Mata og Torres! Ég myndi ekki gráta það að fá Fabregas og/eða Fellaini.
Vonandi fer svo eitthvað að fara að gerast, silly season er alveg að fara með mann!
Davíð Orri Guðmundsson says
„Manchester United isn’t about Wayne Rooney.” – DM
Segir allt sem segja þarf!
Friðrik says
Held að Rooney hafi engan áhuga á að fara til Tottenham ! En hversu vitlaus er Rooney að vera fara frá Man Utd ? Er samt nokkuð viss um að það koma 2 stór kaup í ágúst, en annars er leikmannahópurinn ekkert veikur fyrir. De Gea er að verða betri og betri og hefur verið að verja skot sem maður gerir ekki einu sinni kröfu á að markmann verji. Vörnin ætti að verða öflug ef að Vidic helst heill og Rafael á eftir að verða einn besti hægri bakvörður heims, munið það. Ef að Cleverley stígur upp núna á þessu tímabili þá hefur getur hann orðið öflugur með Carrick á miðjunni. Kagawa í holunni og Nani á hægri kant og RVP frammi. Eina sem ég hef áhyggjur af er Valencia á vinstri sem stóð sig hræðilega á síðasta tímabili og allir vita hversu ömurlegur hann var, væri algjör snilld að fá Bale þar.
Runólfur says
Nú veit ég ekki hversu lyfjaðir menn eru en A. Valencia hefur bara ALDREI spilað á vinstri kanti fyrir Manchester United, hvað þá Wigan eða Ekvador. Hann hefur spilað inn á miðri miðjunni með landsliðinu og spilað sem Hægri kantur og jafnvel sem hægri bakvörður hjá Manchester United. En að ásaka hann um slakan leik á vinstri kanti er út úr korti. Annars er ég viss um að hann hafi verið að spila meira og minna meiddur allt síðasta tímabil og hann fór vonandi í aðgerð í sumar sem vonandi keyrir „gamla“ Valencia í gang í vetur.
Ég held að Moyes sé fyrst og fremst að leita að miðjumanni (mönnum) í glugganum, erum frekar vel mannaðir fyrir utan það – spurning hvort við ættum ekki að fjárfesta í betra sjúkraliði svo menn hætti að vera krónískt meiddir.
sigurjón says
Er ekki bara smá spuni í gangi? Sko… Rooney vill burt, Cesc er á óskalista ManUtd, en Arsenal er með forkaupsrétt á honum. Forkaupsrétturinn er á þá leið að Arsenal getur gengið inn í öll samþykkt kauptilboð á Cesc. Forkaupsréttarákvæði geta haft þau áhrif að pressa verð leikmanna upp- einmitt til þess að félag með réttinn gangi ekki inn í kaupin. Moyes bíður Rooney til Arsenal, svo hann geti tekið Cesc á viðráðanlegu verði…gegn því að forkaupsréttur verði ekki nýttur. Mér sýnist hlutirnir strandi á því að Roo langi annað. og útspil Jose er ekki til að liðka fyrir.
sigurjón says
Þetta myndi lika útskýra frostið sem Roo er í og tafaleikina sem leiknir eru þessa dagana.
Björn Friðgeir says
Það er auðvitað alls konar taktík í gangi og held að Sigurjón sé með réttari hugmyndir þarna en flest.
Annars er Moyes búinn að staðfesta að United er að bjóða í Cesc, og að Rooney sé ekki til sölu. Ekki að hið síðarnefnda hafi nokkuð að segja.
DMS says
Af hverju ætti Rooney að vilja fara til Arsenal eða Tottenham? Reyndar skil ég ekki alveg af hverju Rooney er svona óánægður yfir höfuð. Þegar hann tók upp á þessu 2011 þá var útskýringin að United væri ekki að keppast um bestu bitana á markaðnum. Eftir væna launahækkun og væntanlega loforð um að United væri samkeppnishæft á markaðnum og væri enn að keppast um alla titla (döh) þá skrifaði hann undir framlengingu. Núna er hann að því virðist óánægður því hann var tekinn út af í nokkrum leikjum í röð undir lok síðasta tímabils og virðist hafa lent upp á kant við Ferguson. Skugginn af RvP kannski að trufla hann líka. Núna er kominn nýr stjóri sem vill halda honum og nýta krafta hans en hann vill samt fara. Það væri nú ágætt ef hann myndi bara koma fram og segja hvað er að angra hann og hvað hann vill – eyða þessum eilífu vangaveltum. Kannski vill hann vera stór fiskur í lítilli tjörn, hann um það. Þá gæti Arsenal eða Tottenham verið góður áfangastaður. Hinsvegar held ég að hann vilji án efa fara til Chelsea. Það vita það kannski ekki margir en Ashley Cole er besti vinur hans og Colleen eflaust spennt fyrir að búa í London – sé það alveg fyrir mér.
En varðandi slúðrið þá tel ég ólíklegt að við náum að krækja í Fabregas. Ekki nóg með að Barcelona vilji ekki selja þá virðist leikmaðurinn nokkuð sáttur í Barcelona. Ef að þetta gengur ekki upp, sem virðist stefna í, þá munum við eflaust landa Fellaini og Baines saman í pakka. Það er mín ágiskun og mér finnst hún ansi raunsæ miðað við margt annað.
Hvað varðar Bale slúðrið þá er algjörlega tilgangslaust að vera spenntur yfir því. Ég sé það engan veginn gerast nema að Rooney verði á endanum seldur fyrir 40m punda eða meira. Þá gætu United mögulega boðið 50-60m punda í Bale. Hvort að Tottenham myndu vilja selja er svo annar handleggur.
DMS says
Stórar fréttir frá Barca. Vilanova hættur. Kannski mun þetta auka möguleikana á að krækja í Fabregas…