Sem betur fer er alveg hreint stórundarlegum félagaskiptaglugga lokið. Í allt sumar höfum við beðið eftir að félagið léti til sín taka og myndi styrkja liðið fyrir komandi átök. Ekki veitti af. Pressan er gríðarleg á Moyes og góður gluggi hefði auðvelda honum starfið til muna. Menn létu það hinsvegar dragast til allrar mögulegu seinustu stundar að ganga frá einu alvöru kaupum sumarsins. Staðfesting á kaupum United á Marouane Fellaini, miðvallarleikmanni Everton, barst ekki fyrr en eftir lokun gluggans. Ekki það að maður sé ósáttur við kaupin á Fellaini. Hann er akkúrat sá leikmaður sem liðið vantar. Nagli á miðjuna sem gefur okkur vídd inn á vellinum sem okkur hefur alveg skort hingað til.
Það er hinsvegar ekki kaupin á honum sem eru vandamálið. Vandamálið virðist vera þeir tilburðir sem félagið hefur sýnt bakvið tjöldin í allt sumar. Þeir benda til þess að eitthvað verulegt sé að þar á bæ og Ed Woodward þarf væntanlega að svara fyrir þennan skrípaleik. Nú keppast bloggarar og blaðamenn á Englandi við að skrifa greinar um hversu mikið aðhláturs-efni hann og United séu í kjölfar þessa glugga. Traustið á honum er í algjöru lágmarki og pressan á Moyes hefur núna margfaldast. Var hún alveg nóg fyrir.
Hvað gekk eiginlega á í sumar?
Fljótlega eftir að David Moyes tók við stjórnartaumunum lét hann hafa þessi orð eftir sér:
„Isn’t it great that the club says: ‘There’s no budget here, you go get who you want to get, just go and do it“
Einhverjir *hóst* Glazer-fjölskyldan og Woodward *hóst* hafa sagt þetta við David Moyes og aumingja maðurinn hefur kopgleypt við þessu. Það útskýrir líklega skotmörkin í byrjun sumars. Cristiano Ronaldo, Gareth Bale, Thiago, Fabregas. Ed Woodward fór skyndilega heim frá Ást-ralíu til þess að glíma við mikilvæg félagaskiptamál. Við það fóru væntingar stuðningsmanna United fóru alla leið upp til himna, og voru þær ekki lágar fyrir. Það er ekki skrýtið að menn séu ekki sáttir við að enda með Fellaini sem einu kaup sumarsins þegar búið var að byggja upp væntingar fyrir einhverjum ofurkaupum. Woodward hlýtur að hafa ferðast með skipi frá Ást-ralíu.
Félagið virðist hafa eytt of miklu púðri í eltingarleikinn við Fabregas en hafði einhver trú á því að hann myndi nokkurn tíma fara frá Barcelona, sérstaklega eftir að Thiago fór til Bayern? Fregnir herma að óþekktur aðili hafi gefið til kynna við forráðamenn United að Fabregas væri falur og svo virðist sem okkar menn hafi keypt það og látið draga sig á asnaeyrunum í þessu máli. Fabregas hefur líklega verið skotmark Moyes nr. 1 í sumar sem útskýrir afhverju var ekki löngu búið að ganga frá kaupunum á Fellaini sem hægt var að fá á 23.5 milljónir punda til 31. júlí. 4 milljónum minna en við enduðum á að kaupa hann.
Þegar ljóst var að Fabregas var ekki falur fóru menn að einbeita sér að því að öðrum skotmörkum og þá var sjónunum beint að Everton. United bauð 28 milljónir í þá Baines og Fellaini. Það er hálfri milljón meira en við borguðum fyrir Fellaini. Fyrir tvo leikmenn! United hlýtur að hafa verið gert ljóst að Baines væri ekki til sölu en að þeir væru opnari fyrir sölu á Fellaini, enda reyndist það raunin þegar upp var staðið.
Því næst fara menn að skoða Ander Herrera, miðvallarleikmann Athletic Bilbao. Hann var með ákvæði í samning sínum um að hægt væri að kaupa upp samninginn fyrir 36 milljónir evra. Athletic Bilbao er í Baskalandi og með liðinu spila aðeins leikmenn frá því héraði. Það er því erfiðara fyrir þá en önnur lið að starfa á félagaskiptamarkaðnum. Þeir þurfta að treysta á unglingastarfið meira en önnur lið. Þeir hafa því engan áhuga á að selja sína bestu leikmenn.
Fregnir herma að hinir frægu svikahrappar þrír hafi í raun og veru verið lögfræðingar frá virtri lögfræðistofu sem sérhæfir sig í svona málum, störfuðu meðal annars með Bayern til þess að kaupa Javi Martinez sem tók margar vikur enda virðist það vera afskaplega flókið mál að klára svona kaup frá Bilbao. Það sem tók Bayern margar vikur ætluðum við að gera á örfáum tímum. Á endanum sögðu forráðamenn United við blaðamenn að þeir hefðu einfaldlega ekki talið Herrera jafn mikils virði og þurfti að borga til að fá hann. Þeir hefðu þó mátt segja sér að Bilbao var ekkert að fara í neinar samningaviðræður við þetta mál, það var upsett verð eða ekki neitt!
Á endanum einbeita menn sér því aðeins að Fellaini. Það tókst að koma honum yfir línuna en fyrir 4 milljónir meira en nauðsynlegt var ef menn hefðu gengið frá þessum kaupum 31. júlí.
Svo virðist af ofangreindu að Ed Woodward hafi einfaldlega ekki ráðið við verkefnið að þessu sinni. Hann er mikill viðskiptamaður sbr. alla styrktaraðilina sem liðið er með en er greinilega ekki jafn mikill fótboltamaður. Verðum við ekki að líta svo á að hann beri ábyrgð á því að semja við félög og leikmenn. Honum mistókst næstum því allstaðar og þar sem dæmið gekk upp borgaði hann of mikið! Þetta lyktar allt af mikilli vanhæfni og afhverju í ósköpunum fengum við óreyndan stjórnmann akkúrat eftir að Sir Alex ákveður að hætta. David Gill skildi boltann út og inn og ljóst að við söknuðum þekkingar hans gríðarlega í þessum glugga. Aumingja Ed virðist hafa verið skilinn eftir í djúpu lauginni með Moyes sér við hlið og hann er bara hreinlega ekki með á hreinu hvernig á að synda í þessum fótboltaheimi. Menn hafa ekki mikinn tíma í þessum heimi til þess að læra á hlutina. Transitional managment. Einmitt!
Sir Alex Ferguson hvatti stuðningsmenn í lokaræðu sinni sem stjóri Manchester United til að standa þétt við bakið á David Moyes, hann þyrfti á því að halda. Þessi skilaboð virðast þó ekki hafa náð til stjórnarinnar sem klikkuðu algjörlega á því að standa þétt við bakið á okkar manni. Við skulum ekki gleyma því að fyrir þetta tímabil fengu öll liðin í deildinni gríðarlega upphæðir vegna nýja sjónvarpssamningsins og því viðbúið að liðin myndu styrkja sig verulega. Þetta var ljóst og það er fáranlegt að David Moyes skuli nú standa uppi með einn miðjumann þegar öll liðin sem munu berjast um titilinn hafa styrkt sig verulega. Mun meira en við.
Ed Woodward tekur þó á sig alla gagnrýna eins og sönn brúða fyrir eigendur liðsins. Glazer-fjölskyldan. Hver er þáttur hennar í þessu? Skuldirnar eru að falla, tekjurnar að aukast, vaxtagreiðslur að minnka. Afhverju tímir fjölskyldan ekki að leggja pening í liðið? Hvað eru þeir að hugsa varðandi framtíð félagsins. Meðaleyðsla síðustu fimm ár er 13.5 milljónir nettó. Það gekk upp meðan Ferguson var við stjórnvölinn en það mun ekki ganga lengur upp. Moyes er undir svo mikilli pressu að hann verður að fá stuðning frá eigendum liðsins. Annars mun þetta enda illa. Mjög illa.
Það sem mér þykir verst í þessu að þetta setur aukna pressu á Moyes og við megum ekki gleyma sálfræðilega þættinum í þessu eftir þetta fíaskó. Það lítur út fyrir að klúbburinn sé að misstíga sig. Fyrir hin liðin í deildinni og í Evrópu lítur það út eins og risin sé að falla og kannski verður ekki jafn ógnvekjandi að koma á Old Trafford og áður. Þetta skiptir máli og skýrir árangur Sir Alex að hluta. Menn voru skíthræddir við að mæta á Old Trafford. Akkúrat núna er United aðhlátursefni sem er eitthvað sem við þekkjum hreinlega ekki.
Þetta er þó enginn heimsendir. Auðvitað er þetta vandræðalegt fyrir félagið en við skulum ekki gleyma því að þetta er sama lið og pakkaði saman deildinni í fyrra. Hópurinn er góður og enn sterkari nú fyrst að Fellaini er mættur. Moyes tæklaði Rooney-málið vel og við erum vel mannaðir í vel flestum stöðum. Ef Moyes nær að nýta sér Kagawa og koma Nani og Rooney í gang munum við fara á flug. Moyes er ennþá að feta sig og hann verður að fá tíma til þess. Í dag er liðið sterkara en það var í gær og líkurnar aukast á því að fyrsta tímabil Moyes endi vel.
Við skulum þó vona að svona leikmannagluggi endurtaki sig aldrei aftur.
Karl says
Mér finnst þú nú taka full sterkt til orða í þessum pistli. Ef lið fara að vanmeta United með alla sína frábæru leikmenn þá er það verst fyrir þau. Það var vitað fyrir löngu að það yrði eitthvað bakslag þegar sá gamli færi og nú verður fólk bara að anda með nefinu og gefa þessu tíma.
Tómas Freyr Kristjánsson says
Ég trúi ekki öðru en að þessi maður þurfi að standa fyrir máli sínu. Þvílíkt klúður frá A til Ö. Flott samantekt.
Hjálmar says
Þótt þetta hafi ekki farið eins og menn hafi viljað þá er þetta frábært tækifæri fyrir Moyes og að sjálfsögðu ákveðin áskorun. Hann þekkir svona leikmannamál og hvernig þetta gengur fyrir sig annað en Woodward virðist vera.
Hann á því að sýna yfirvegun og mæta á skrifstofuna og spurja/fara yfir það sem klikkaði. Nú getur hann fengið ákveðin völd yfir því hvernig hann vill að hlutirnir gangi fyrir sig með sína reynslu og sett sitt mark á að móta klúbbinn og þær vinnuaðferðir sem verða viðhafðar.
Þótt þetta sýnist vera algjört klúður þá ber ég fullt traust til Moyes!
Runólfur says
Hvar færðu tölurnar um leikmannakaup síðustu 5 ár? Efast um að þessi tala sé rétt. Nema þú sért að tala um að „Meðaleyðsla“ sé í raun Nettó eyðsla, þá kannski gengur þetta upp.
Tryggvi Páll says
Já, þetta er nettó-tala. Skal taka það betur fram.
Steini says
Mér finnst þetta orðið ofboðslega mikið óþarfa drama og menn að panikka óþarfa mikið.
Birgir Örn Birgisson says
Er ekki sammála Steini þetta var tómt klúður frá A-Ö hefðum frekar átt að segja bara við erum með nógu sterkan hóp og sleppa þessum sirkús! Vonandi mun UTD taka við sér í næstu leikjum því liðið leit ÖMURLEGA út á móti meðaliði (Liverpool)
Viktor Guðmundsson says
@ Birgir Örn Birgisson:
mér finnst við oftast lélegir ef Rooney er ekki með
Ölver says
Flott grein, en er búinn að vera að spá í af hverju hættu aðstoðar menn Fergusons í sumar? Vildu þeir ekki starfa áfram, með Moyes, eða vildi hann fá sína menn með sér sem hann var að vinna með hjá Everton. Þegar Ferguson var með góða aðstoðarmenn gekk vel hjá okkar mönnum, þegar þeir fóru til að taka önnur lið fór að halla undan fæti.
Björn Friðgeir says
Og þið hélduð að þetta gæti ekki verið verra?
http://www.theguardian.com/football/2013/sep/03/ander-herrera-manchester-united
DMS says
Björn Friðgeir skrifaði:
Basically, þegar farið var af stað að reyna að klára Herrera dílinn á lokastundu, þá höfðu Woodward oc oc. ekki hugmynd um hvað felst í því að kaupa leikmann frá Spáni með því að virkja klásúlu í samningnum og því lagalega umstangi sem fylgir þar í landi. Maður hefði nú haldið að menn sem eru í vinnu hjá einu stærsta félagi heims ættu að vera fagmenn með einhverja vitneskju um hvað þeir eru að gera. Eflaust hefði Herrera díllinn dottið í gegn ef þeir hefðu gefið sér meiri tíma og ekki beðið með þetta fram á lokastundu!! En Woodward virðist ekki bara skorta þekkinguna til að virkja klásúlu í samningi leikmanns á Spáni því hann virtist ekki kunna það heldur með Fellaini í sumar.
Manni líður eins og að Moyes hafi gefið Woodward lista af miðjumönnum sem hann hefði áhuga á að fá til liðsins. Woodward hafi svo bara ákveðið að fara af stað með listann, eyða alltof miklum tíma í Fabregas og svo panikka, bjóða í þá flesta á listanum og sjá hver myndi bíta á. Því miður fyrir hann þá ganga hlutirnir ekki alveg svona fyrir sig.
Sir Alex Ferguson tekur sitt sæti í stjórninni á næstu vikum/mánuðum þegar hann er búinn að jafna sig eftir mjaðmaaðgerðina. Vonum að sá gamli gefi Woodward smá innsýn inn í þennan heim sem hann er nú kominn í.
siggi utd maður says
sjett hvað ég er sáttur með þessi kaup, sjáið hvernig þessi gæji hegðaði sér í fyrra á móti United: http://www.youtube.com/watch?v=43QjOV2G7-c
Björn Friðgeir says
Einhverjar fréttir eru að koma að með því að fara fram á skipti hafi Fellaini orðið af 4m punda ‘loyalty bonus’. United hafi síðan bara borgað 23,5 m punda ‘lausnargjaldið’. Skiptin því samtals 27,5m punda virði en kostuðu United aðeins 23,5 m.
Ég segi bara fyrir mig: Ég ætla rétt að vona að United hafi borgi á endanum Fellaini þessar 4 kúlur því annars er þetta næstum verra en að hafa borgað Everton 4m of mikið. Að borga ekki lausnargjaldið fyrir 1. ágúst… en láta svo leikmanninn blæða 4m til að liðka um. Ég bara trúi því ekki.
En það er eins og með Herrera sem var lílka í sama gír:.
Ef þetta er svona á versta veg þá er það svo Glazerskt að ég æli.
Björn Friðgeir says
Meira um þetta úr Manchester Evening News
http://www.manchestereveningnews.co.uk/sport/football/football-news/fellaini-sacrifice-join-moyes-manchester-5836060
Thorhallur Jonsson says
Athyglisverd grein í Guardian skrifud af Daniel Taylor sem er vel ad sér í United málum
http://www.theguardian.com/football/2013/sep/04/manchester-united-ander-herrera-transfer-farce
Björn Friðgeir says
Þú dattst í kæfusíuna Þórhallur, það skýrir hversu seint þetta kemur hér inn!