Á morgun heldur keppni í Úrvalsdeildinni áfram og fáum við Stoke í heimsókn á morgun kl. 14:00.
Gengi liðsins í deildinni hefur verið upp og ofan frá því í leiknum gegn City í september. Í deildinni höfum við mætt WBA, Sunderland og Southampton þar sem krafan um 9 stig var fullkomlega réttmæt. Við náðum hinsvegar aðeins í 4 stig í þessum leikjum. Afhverju?
Liðið er kannski ekki að spila einhvern glimrandi bolta um þessar mundir en í leikjunum gegn þessum liðum sem taldir eru upp hér að ofan höfum við verið betri aðilinn. Raunar má heimfæra það upp á alla leiki þessa tímabils að undanskildum City leiknum auðvitað. Það sem hrjáði okkar í upphafi tímabils var algjör skortur á sköpun færa. Við vorum betri aðilinn í leikjum liðsins en steingeldir fram á við. Frá opnunarleiknum gegn Swansea þann 17. ágúst sl. skoraði liðið ekki mark nema eftir fast leikatriði þangað til gegn Sunderland þann 5. október sl. Það er einn og hálfur mánuður án þess að skora mark úr opnu spili, gott fólk!
Með innkomu Adnan Januzaj í byrjunarliði blésu ferskir vindar um liðið. Hann skoraði gegn Sunderland og braut þessi álög sem lágu á liðinu. Síðan þá hefur liðið haldið áfram að vera betri aðilinn í leikjum liðsins en jafnframt farið að skapa sér færi. Þrátt fyrir að við höfum tapað stigum gegn Southampton áttum við að vera löngu búnir að klára leikinn enda fengu menn nóg af tækifærum til þess. Það sama var uppi á teningnum gegn R. Sociedad í vikunnu. Sá leikur hefði átt að enda 3 til 4-0 fyrir okkar mönnum. Menn eru því farnir að skapa færin. Næst er því bara að fara að nýta þau.
Það er því ljóst að Moyes og félagar hafa verið að vinna í þessu á æfingarsvæðinu enda hefur leikur liðsins snarbatnað frá því að við töpuðuð gegn WBA. Hluti af þessu er hvíldin á Rio og Vidic. Það er farið á hægjast á þeim og því þurfa þeir alltaf að detta neðar og neðar á völlinn til að bæta sér það upp. Það þýðir að allt liðið þarf að færa sig neðar á völlinn til að verjast. Með því að spila einhverjum af Smalling/Jones/Evans saman getur liðið spilað mun hærra á vellinum, minna bil myndast á milli miðju og varnar og miðju og sóknar og því auðveldara fyrir liðið að verjast og umfram allt að sækja sem heild.
En nóg um þessar vangaveltur. Tölum aðeins um andstæðinginn.
Andstæðingurinn.
Stoke er auðvitað ekki lengur Stoke. Það er búið að særa Tony Pulis út úr þessari deild og þrátt fyrir að mannskapurinn sé að stærstum hluta sá sami þá er áherslan á þennan trukkabolta Pulis orðin minni hjá Stoke með tilkomu Mark Hughes í stjórasætið. Liðið reynir að halda boltanum meira en áður, er ekki jafn gróft og varnarlínan er hærri á vellinum áður. Svo geta þeir víst ekkert í föstum leikatriðum lengur. Mark Hughes virðist því í raun vera að reyna það ómögulega: Að breyta Stoke í knattspyrnulið.
Hversu vel er það að takast? Ekkert sérstaklega. Liðið situr í 16. sæti með 8 stig og er í neðsta sæti þegar kemur að markaskorun með aðeins fjögur mörk til þessa. Mönnum hefur ekki tekist að koma tuðrunni í netið í síðustu þremur leikjum liðsins. Liðinu skortir algjörlega afgerandi markaskorara, í það minnsta sæmilegan framherja. Enginn af þeim hefur komið boltanum yfir línuna og það er enginn leikmaður liðsins með meira en eitt mark skorað. Það gengur ekki upp til lengdar. Það sem heldur þeim á floti er varnarleikurinn. Liðið er í 5. sæti varnarlega séð. Hljómar kunnuglega?
Stoke eru auðvitað fastir fyrir ennþá enda ekki hægt að fjarlægja eitrunaráhrif Tony Pulis á örfáum mánuðum, það er margra ára verk. Hughes er þó að reyna en honum hefur ekki tekist að snúa við þeirri þróun sem átti sér stað á lokametrum stjóratíðar Pulis. Liðið hefur aðeins unnið 3 af síðustu 32 leikjum liðsins. Þeim hefur þó tekist að stríða stærri liðunum á þessu tímabili, voru óheppnir að stela ekki þremur stigum gegn City og þrátt fyrir að tapa gegn Arsenal 3-1 voru þeir síst verri aðilinn í leiknum.
Stoke-liðið hefur þó að öllu jöfnu ekkert sérstaklega gaman að því að mæta á Old Trafford. Til að sýna fram á það skulum við færa okkur yfir í tölfræðihluta þessarar upphitunar.
Tölfræði!
- Síðasti útisigur Stoke á Manchester United átti sér stað árið 1976.
- Síðan þá hefur Stoke 12 sinnum komið á Old Trafford í deildinni. Þeir hafa tapað 11 sinnum og nælt sér í eitt jafntefli
- Manchester United hefur unnið síðustu 9 leiki þessara liða á Old Trafford.
- Manchester United hefur einnig unnið 9 af síðustu 10 viðureignum þessara liða í öllum keppnum.
- Robin van Persie er sjóðandi heitur gegn Stoke. Hann hefur skorað 8 mörk í síðustu 6 leikjum sem hann hefur tekið þátt í gegn Stoke.
Uppstilling.
Tom Cleverley og Darren Fletcher eru frá vegna meiðsla. Robin van Persie og Danny Welbeck eru tæpir en eiga séns á því að ná leiknum. Allir aðrir eru frískir.
Á heildina litið stóð liðið sig vel gegn Real Sociedad og ég sé ekki mikla ástæðu til þess að hræra mikið í liðinu. Evans og Jones stóðu sig vel í miðvarðarparinu og engin ástæða til þess að hleypa Rio og Vidic í byrjunarliðið þó þeir séu lausir við meiðsli. Varnarlínan ætti því að haldast óbreytt.
Giggs spilaði allar 90. mínúturnar á fullu gegn R. Sociedad og verður líklega ekki með á morgun. Carrick er fyrsti maður á blað og eina spurningin hver verður hliðina á honum á miðjunni. Líklegast verður það Marouane Fellaini en Anderson virðist ekki hafa heillað Moyes mikið. Nani spilar alltaf vel gegn Stoke og ætti að byrja inná hægra megin. Ég held að Januzaj ætti að fá að hvíla í þessum leik með það markmiði að byrja honum inná gegn Norwich í deildarbikarnum í næstu viku. Kagawa var verulega sprækur gegn Sociedad og á skilið að fá að byrja þennan leik. Moyes hrósaði honum mikið eftir leikinn og launar honum vonandi frammistöðunni með því að byrja honum gegn Stoke.
Ef Robin van Persie er eitthvað tæpur ætti Moyes bara að hvíla hann og annaðhvort gefa Chicharito annað tækifæri eða setja Rooney sem fremsta mann og Kagawa fyrir aftan hann í holunni. Hvernig væri það nú?
Spái byrjunarliðinu svona:
De Gea Rafael Evans Jones Evra Carrick Fellaini Nani Rooney Kagawa Chicharito
Við ættum auðvitað að sigra þennan leik og við munum gera það ef liðið heldur áfram að skapa færi eins og í síðustu tveimur leikjum. Moyes mun leggja áherslu á að menn séu ekki kærulausir í markteig andstæðinganna. Við erum að mæta lélegasta sóknarliði deildinnnar og ættum því ekki að fá á okkur mark. Ef við skorum mark snemma leiks vil ég sjá okkar menn klára leikinn fljótlega eftir það með fleiri mörkum. Það er algjör óþarfi að skora eitt mark og halda að það sé nóg, það kom illilega í bakið á okkur seinustu helgi.
Spá.
Set 3-0 á þetta. Kagawa með tvo og Fellaini skorar með afró-inu.
Leikurinn hefst kl. 14:00. Dómari er Lee Mason.
Ingi Rúnar says
Must win leikur. Vill sjá 4 Utd mork, helst frá fjórum leikmonnum. Persie, Hernandes, Kagawa og Rooney.
Verum bjarts´ynir tangad til yfir líkur.
siggi utd maður says
ég er rugl spenntur fyrir þessum leik, og held að liðið sé komið í gang.
Come on United! Get in!