Meistaradeildin heldur áfram á morgun og munu okkar menn mæta Real Socidead á nýjan leik en við mættum þeim auðvitað í seinustu umferð þar sem Own Goal tryggði okkur fínan 1-0 sigur. Eftir þann leik sitjum við því á toppnum á A-riðli:
Eftir leikinn gegn Real Sociedad ferðumst við svo til Þýskalands í útileik gegn Leverkusen áður en riðlakeppninni lýkur með heimaleik gegn Shakthar. Leverkusen eru erfitt lið heim að sækja, það hefur unnið báða heimaleiki sína til þessa í keppninni og pakkaði m.a. Shakthar saman í síðasta leik, 4-0. Liðið er jafnframt taplaust á heimavelli í þýsku Bundesligunni.
Ég vil því fá 3 stig á diskinn minn á morgun til þess að klára þessa riðlakeppni.
Hópurinn
Þar sem leikmenn Fulham höfðu meiri áhuga á að sparka í andstæðinginn frekar en í boltann meiddust nokkrir leikmenn um helgina. Rafael, Evans og Cleverley fóru allir útaf í hálfleik auk þess sem að Patrice Evra kláraði leikinn þrátt fyrir að meiðast. Rafael mun missa af leiknum og er einnig tæpur fyrir leikinn gegn Arsenal. Helvítis Fulham. Michael Carrick og Danny Welbeck eru einnig tæpir en Cleverley og Rio tóku þó þátt í æfingu í morgun. Þetta kemur þó allt saman í ljós á eftir þegar það er ljóst hverjir flugu til Spánar en flugvélin er líklega í loftinu í þessum skrifuðu orðum.
Byrjunarliðið
Moyes mun líklega ekki stilla liðinu upp með tilliti til leiksins gegn Arsenal um helgina. Ef liðið nælir sér í þrjú stig á morgun er framganga í 16-liða úrslitin svo gott sem tryggð. Það hjálpar líka að við spilum á morgun og svo er Arsenal-leikurinn á sunnudeginum þannig að liðið fær góðan tíma til að jafna sig og hvíla sig. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að Moyes stilli upp sterku liði á morgun.
De Gea
Smalling Vidic Jones Evra
Fellaini Giggs
Nani Rooney Kagawa
RvP
Hægri bakvarðarstaðan er vafaatriði og spurning hvort að Valencia eða jafnvel Fabio fái tækifæri þar. Báðir spila þessa stöðu að mínu mati betur en Smalling sem er auðvitað ekkert annað en miðvörður og ágætur sem slíkur. Giggs átti fínan leik gegn Sociedad síðast og mun líklega koma inn í fjarveru Carrick. Fellaini ætti einnig að fá tækifæri til þess að standa sig. Hann hefur kannski ekki byrjað neitt frábærlega þessa fyrstu mánuði en United-stuðningsmönnum þótti þó vænt um að sjá hann verja Januzaj eftir árásina hjá Riether. Hann hefur jafnframt gefið liðinu góða varnarlega nærveru í Meistaradeildarleikjunum sem sást best gegn Shakhtar-leiknum en eftir að hann fór útaf galopnaðist miðjan hjá United.
Það er engin ástæða til þess að hvíla Wayne Rooney en þar sem Fulham-menn einbeittu sér að því að sparka Januzaj niður í leiknum um helgina væri ágætt að hvíla hann. RvP ætti að byrja leikinn en svo er hægt að gefa Chicharito tækifæri þegar líða fer á leikinn.
Best væri að liðið myndi byrja að svipuðum krafti og gegn Fulham um helgina þar sem leikurinn var búinn eftir 20 minútur. Moyes gæti þá hvílt lykilmenn fyrir Arsenal-leikinn sem verður óneitanlega mikilvægasti leikur David Moyes sem stjóri liðsins hingað til. Real Socidad eru þó sýnd veiði en ekki gefin og sýndu á Old Trafford að þeir geta sótt og skapað færi. Varnarleikurinn er þó höfuðverkur hjá þeim þar sem United átti að vinna þann leik með 4-5 marka mun miðað við færin sem náðist að skapa.
Ég set á þetta fínan 0-2 sigur, Leverkusen og Shakhtar gera jafntefli og við bókum okkar sæti í 16. liða úrslitum. Svo gott sem allavega.
Leikurinn hefst klukkan 19.45.
Friðrik says
Fellaini var nú bara að verja liðsfélaga sinn , það hefðu allir gert. Hann á enn eftir að sýna að hann sé 30 milljóna virði.
Nonni Sæm says
@ Friðrik:
Hann á líklegast aldrei eftir að sanna það fyrir okkur því hann er aldrei 30 milljóna króna virði.. hann getur hins vegar staðið sig vel og er mjög góður… vonandi fáum við bara að sjá það.
Ingi Rúnar says
Get ómögulega spáð okkur tapi, en ég ætla að segja jafntefli að þessu sinni, 2-2
Tómas G says
Young má án gríns fokka sér. Við vrum komnir með yfirhöndina á leiknum og hver í andskotanum var ástæðan að gera sorglega dýfu. Ef Young ætlar að eiga eitthvern möguleika á að eiga heima í þessu liði þá má hann drullast til þess að gera eitthvað fleira en að verða okkur til skammar. Fínt að RVP klikkaði á vítinu..