Okkar menn tryggðu sér 1. sætið í A-riðli Meistaradeildarinnar með ágætum sigri á Shakhtar í vikunni. Aldrei þessu vant skiptast liðin í 1. og 2. sæti í riðlum Meistaradeildarinnar nokkurn veginn eftir getu og eigum við ekki möguleika á að lenda á móti hinum af bestu liðum álfunnar i 16-liða úrslitum. Það er jákvætt.
Moyes glímir við talsverð meiðslavandræði. Carrick er ennþá meiddur ásamt Smalling og í gær bættist Robin van Perse í meiðslahópinn en hann verður frá í heilan mánuð. Það er neikvætt. Vidic, Evra og Fellaini eru einnig tæpir og óvíst með þáttöku þeirra í þessum leik. Eins og lesendur hafa bent á lýsti Nani því svo yfir að hann og heitkona hans hefðu eignast lítinn strák og hann hefði fengið frí til þess að eyða tíma með fjölskyldunni. Hann verður því ekkert viðriðinn leikinn en óskum við honum auðvitað til hamingju með föðurhlutverkið. Hann dettur því út byrjunarliðinu eins og ég hafði spáð að það yrði. Set þá Valencia á hægri kantinn og Januzaj færir sig yfir á þann vinstri.
Dembum okkur í byrjunarliðið:
De Gea
Rafael Evans Rio Büttner
Jones Cleverley
Valencia Rooney Januzaj
Chicharito
Rio fær líklega annan leik í röð vegna meiðsla í hópnum. Það er ekkert sérstaklega gott því það verður að segjast eins og er að hann er bara að spila verulega illa og lítur mjög illa út á vellinum. Hann minnir mig mikið á Gary Neville undir það síðasta. Er ekki kominn tími á þig, Rio? Moyes virðist einnig hafa tröllatrú á Büttner og aumingja Fabio fær ekki séns. Ég vildi alveg sjá Fabio fá sénsinn í vinstri bak, hann getur ekki verið mikið verri en Büttner sem er langt frá því að vera nógu góður fyrir þennan kúbb.
Jones er líklega sjálfkjörinn á miðjuna og Cleverley spilaði ekki allan leikinn gegn Shakhtar og ætti að vera nokkuð ferskur. Cleverley hefur legið undir gagnrýni undanfarið. Hann virðist gera sér grein fyrir þessu og hefur lofað að standa sig betur. Kagawa spilar kannski í holunni en er ekki allt í lagi að gefa Chicarito færi á að spila leik? Ég held það en í fjölmiðlum undanfarið hefur verið rætt um að hann verði notaður sem skiptimynt fyrir Freddy Guarin hjá Inter í janúar.
Andstæðingurinn
Ólíkt flestum liðum virðist Aston Villa kunna betur við sig á útivelli heldur en á heimavelli. Liðið hefur spilað 8 leiki á heimavelli og aðeins unnið 2, gert eitt jafntefli og skorað 6 mörk. Villa-menn kunna betur við sig á útivelli enda unnið 3, gert tvö jafntefli og skorað 10 mörk. Nokkuð sérstakt og eitthvað sem ætti vonandi að vinna með okkar mönnum.
Það hjálpar líklega ekki að þeirra besti maður á síðasta tímabili er alveg ískaldur um þessar mundir. Það hefur lítið gengið hjá Christian Benteke á þessu tímabili ef frá er talinn fyrsti leikurinn á tímabilinu þar sem hann sá alfarið um sigur liðsins á Arsenal. Þetta veit væntanlega bara á eitt, hann mun komast í sitt gamla form gegn United á morgun!
Villa-menn munu líklega sitja til baka og reyna að beita skyndisóknum á meðan við gefum boltann til hliðar á næsta mann. Rio og Büttner verða veiku hlekkirnir í vörninni hjá okkur og verða að passa sig á skyndisóknunum frá Villa.
Ég býst varla við spennandi leik á morgun þar sem hvorugt þessara liða er að spila sinn besta bolta um þessar mundir. Við verðum þó að sækja til sigurs til að snúa þessari taphrinu við og til þess að dragast ekki aftur úr toppliðunum. Titilinn verður æ fjarlægari en Meistaradeildarsætin eru vel innan seilingar.
Það verður líklega bara skorað eitt mark í þessum leik og ég vona að það verði við sem náum að pota því inn. Það hefur hinsvegar ekki mikið fallið með okkur í síðustu deildarleikjum, með örlítilli heppni værum við með 9 stig í viðbót á töflunni úr síðustu þremur leikjum. Vonum því að lukkan verði með okkur í liði á morgun.
Leikurinn hefst klukkan 13.30 á sunnudaginn.
Ingvar says
Leiðinlegt hvað maður er orðinn meira kvíðinn en spenntur fyrir leiki. Gjörsamlega óútreiknanlegt þetta lið okkar í dag. Eftir að við slátruðum þjóðverjunum þá höfum við ekki getað baun. Hef ekki trú á að við séum komnir í gírinn, held að það verði ekki á þessu ári.
DMS says
Dreymdi furðulegan draum í nótt. United var að spila við ónefnt lið í gulum búningum, leikurinn endaði 0-0. Andstæðingurinn missti mann út af á 50. mín og United misstu mann út af á 70. mín sem reyndist vera Beckham sem var kominn í þjálfarateymið og fékk rautt fyrir kjaftbrúk. Vonandi á þessi draumur ekki við um leikinn gegn A.Villa – eru þeir nokkuð með gula varabúninga?
En þessa stundina þá tekur maður allt sem gefst, ljótur sigur er samt sigur og 3 stig. Þessa stundina er forgangsverkefnið að klifra upp töfluna.
Ég er sammála með Fabio, vil sjá hann í liðinu frekar en Buttner sem mér finnst vera algjör varaskeifa og varla nógur góður í það hlutverk. Rio er að brenna út ansi hratt.
Ég finn smá til með Chicharito. Við höfum ekki verið að skapa mikið eftir krossa á þessu seasoni og því hefur mötunin inn í teig til hans verið af skornum skammti. Reyndar hafa krossarnir verið ömurlegir eins og Gary Neville kom inn á. Chicharito er framherji sem kann best við sig inn á teignum. Mér finnst ekkert koma út úr honum þegar hann er að þvælast til baka og fá boltann þar. Það þarf að finna hann inn í teignum og þá skorar hann mörkin.
Runólfur says
Er Kagawa off?
Ég vill Kagawa í holuna og Rooney frammi.
Hernandez á bekknum ef við þurfum á come back að halda eins og í fyrra á sama stað.
Hannes says
Því miður fyrir Chicharito þá er hann magnaður super sub, hann er yfirleitt slakur þegar hann byrjar, hans hlutverk er að koma inná og breyta leikjum.
Þorvaldur says
Nani verður sennilega ekki með þar sem hann fór ekki með þeim. Hann var víst að eignast barn eða eitthvað.
Jónas Þór says
Nani skrifaði þetta á facebook síðuna sína –
It’s with great joy that I announce that I’m already a dad of a baby boy. I’m full with happiness in this lovely moment for me and my family. Thanks for all your kind messages.
Með þessum skilaboðum heyrist mér hann ekki hafa verið á staðnum þannig mér finnst líklegt að hann spili á morgun.
Ilkay says
Darren Fletcher er víst á bekknum…