Það er sæmilega bjart yfir okkar mönnum um þessar mundir eftir ansi myrka byrjun á desember-mánuði. 3 sigrar í röð án þess að fá á sig mark og leikmenn á borð við Tom Cleverley, Danny Welbeck og Ashley Young skoruðu mörk og spiluðu bara ágætlega.
Á morgun kemur Stóri Sam með West Ham í heimsókn á Old Trafford og krafan er einföld: 3 stig og mörk frá Young, Welbeck og Cleverley. Einfalt mál. Er það ekki?
Pottþétt ekki.
Robin van Persie er meiddur eins og kunnugt er og Moyes tilkynnti fyrir leikinn gegn Stoke í vikunni að Wayne Rooney væri meiddur í nára og væri tæpur fyrir jólaleikina. Persónulega held ég reyndar að Moyes sé að púlla klassískan Ferguson á þetta og Rooney verði mættur í byrjunarliðið á morgun. Carrick er ennþá meiddur og Vidic og Fellaini eru tæpir fyrir leikinn á morgun. Moyes tilkynnti einnig áðan á blaðamannafundi að Nani væri meiddur og yrði frá í einhverjar vikur.
Ég sé reyndar ekki eina einustu ástæðu afhverju Vidic ætti að koma inn í byrjunarliðið fyrir Evans/Jones/Smalling. Þeir hafa staðið sig með ágætum og mér finnst vörnin mun stöðugri þegar þeir Vidic og Rio eru ekki í liðinu. Það er af sem áður var.
Andstæðingurinn
Stóri Sam er í ákveðnum vandræðum með liðið sitt. Þrátt fyrir taktíska snilld sína situr hann í 17. sæti með lið sitt. Hann er reyndar kominn í undanúrslit í deildarbikarnum en West Ham á álíka miklar líkur á að komast í úrslitin og að jólin verði 23. desember í ár. (Jinx!)
Frammistaðan í deildarbikarnum og frammistaða Ravel Morrison á þessu tímabili eru jákvæðu punktarnir. Fyrir nokkrum árum var alltaf verið að tala um að Ravel væri nýjasta vonarstjarna Manchester United, Sir Alex Ferguson sparaði ekki stóru orðin um hann og Rio Ferdinand lét hafa eftir sér að hann myndi borga fyrir að fá að horfa á Ravel á æfingum, hvorki meira né minna. Hann var þó í stöðugum vandræðum utan vallar og Sir Alex og Manchester United gáfust hreinlega upp á kappanum. Menn þar á bæ gerðu sér þó nákvæmlega grein fyrir því hversu góður hann gæti orðið enda fékk Big Sam þessi ráð frá Sir Alex þegar hann keypti hann:
„I hope you sort him out because you will have a top-class player.“
Hann er ekki ennþá orðinn topp-topp-topp-topp-topp leikmaður en lífið í London hefur haft jákvæð áhrif á hann. Hann hefur sýnt frábær tilþrif á köflum og gæti gert okkur skráveifu á morgun, enda líklega ákafur í að sýna öllum á Old Trafford hvað þeir létu frá sér fara.
West Ham spilar þennan týpíska direct-stórkallabolta. Þeir verjast vel og treysta á skyndisóknir og háa bolta upp völlinn. Það mun ekkert koma á óvart á morgun í þeirra spilamennsku og spurningin verður bara hversu vel okkar menn verða klárir í þennan leik.
Byrjunarliðið
De Gea
Rafael Smalling Evans Evra
Jones Cleverley
Valencia Kagawa Januzaj
Welbeck
Mér finnst eina spurningamerkið í þessu byrjunarliði vera í sókninni og hvaða fjórir leikmenn fái tækifærið þar. Mér finnst líklegast að Welbeck byrji enda skoraði hann tvö mörk í síðasta deildarleik og staðreyndin er sú að Chicharito hefur bara verið algjörlega týndur í nánast öllum leikjunum sem hann hefur spilað á tímabilinu. Valencia, Kagawa, Young eða Januzaj eiga jafnmikla möguleika á að byrja leikinn og Kagawa ætti að fá sénsinn á nýjan leik, það er að segja ef hann hemur sig í kvöldmatnum í kvöld.
Þessi jólatörn er gullið tækifæri fyrir okkur að saxa á forystusauðina sem spila innbyrðis í næstu umferðum á meðan við mætum West Ham, Hull og Norwich. Við vitum að það er ekkert gefið á þessu tímabili en ef við getum ekki gert kröfu um 9 stig úr þessum leikjum er alveg eins gott að hætta þessu bara.
Leikurinn hefst klukkan 15.00 á morgun, laugardag.
Ilkay says
Jones í miðvörðinn !
Jón G says
Suarez skrifaði undir nýjan samning. Andskotinn. Var byrjaður að hlakka svo mikið til þegar að hann færi í janúar glugganum….
Maggi says
Þetta er einfalt mál. Með þessum samningi gerist tvennt. Liverpool fær hærra verð fyrir Suarez og hann hærra kaup hjá Real Madrid 200 þús pund+
Gunnþór Sig says
3 stig i dag,saxa vel á forskot toppliðana i jóla leikjunum,áfram Man Utd!!