Eftir vonbrigði helgarinnar er vel þegið að fá leik strax í kjölfarið svo að hægt sé að einbeita sér að einhverju öðru en eingöngu því neikvæða. Á morgun mætum við Sunderland í úrslitum deildarbikarsins. Sem betur fer á útivelli.
Ég las ágæta grein fyrir helgina um mikilvægi bikarkeppna. Í henni er haldið fram að sigur í bikarkeppni geti virkað sem stökkbretti fyrir lið og fleytt þeim í átt að frekari velgengni. Tekið er dæmi um Nottingham Forest lið Brian Clough frá áttunda áratugnum sem vann hina merku keppni Anglo-Scottish bikarinn árið 1976. Kannski ekki stærsta bikarkeppnin en Clough sagði seinna að þetta hefði haft sín áhrif:
„You got the sense, though, that it was also like we’d been given a shot of something positive that only a trophy, whatever it is, can bring. We’d won something and it made all the difference.„
Þetta hafði sín áhrif. Tímabilið eftir vann Nottingham Forest gömlu 1.deildina og aftur árið eftir. Ekki nóg með það heldur vann þetta Forest-lið Clough Evrópukeppni Meistaraliða, forvera Meistaradeildarinnar, tvö ár í röð, 1979 og 1980. Geri aðrir betur.
Hvaða máli skiptir þetta fyrir United? Sigursælasta lið Englands sem er stútfullt af leikmönnum og starfsmönnum sem þekkja ekkert annað en það að vinna titla. Þeir þurfa ekkert að komast á bragðið, það gerðist fyrir mörgum árum.
Allir nema David Moyes.
Ólíkt nánast öllum leikmönnunum sem hann stjórnar frá degi til dags hefur hann ekki unnið neitt sem skiptir máli. Hvernig ætli það sé fyrir hann að mótivera þessar stórstjörnur, þessa sigurvegara frá degi til dags? Geta þessir sigurvegarar tekið mark á honum sem aðeins hefur unnið ensku 2.deildina? Hvað getur hann kennt þeim? Hvað hefur hann fram að færa?
Þetta eru spurningar sem allir stuðningsmenn Manchester United eru að velta fyrir sér um mundir en enginn hefur svörin við. Það er of snemmt að dæma en í sannleika sagt hefur Moyes sýnt fátt sem bendir til þess að hann hafi eitthvað fram að færa sem stjóri Manchester United.
Deildarbikarinn er því mikilvægari fyrir United í ár en hann mun nokkurntíman vera. Þetta er ekki merkilegasta keppni í heimi og sannarlega höfum við sem stuðningsmenn United gert grín að stuðningsmönnum annara liða þegar þeir fagna sigri í þessari keppni. En í ár getur hún þjónað þeim tilgangi að koma David Moyes á bragðið líkt og Brian Clough talaði um að Anglo-Scottish bikarinn hafði gert fyrir sitt lið. Kampavínið er nefnilega svo bragðgott að þegar menn hafa smakkað það vilja menn ekki neitt annað. Manchester United lið Ferguson smakkaði kampavínið fyrst með sigri í FA-bikarnum árið 1990 og fyrir Chelsea lið Mourinho var það deildarbikarinn 2005. Fyrst að við erum dottnir út úr FA-bikarnum þetta tímabilið skal það vera deildarbikarinn 2014 sem kemur David Moyes á bragðið.
Fyrst þarf þó að sigrast á Sunderland á morgun sem stendur í vegi fyrir okkar mönnum í átt að Wembley. Undanúrslitin eru spiluð heima og heiman og er fyrsti leikurinn á útivelli.
Sunderland situr í botnsæti Úrvalsdeildarinnar og hefur Gus Poyet ekki náð að rífa liðið upp eftir að Paolo di Canio var rekinn fyrr á tímabilinu. Gengið í Deildarbikarnum hefur því verið ljóstýran á þessu tímabili fyrir stuðningsmenn liðsins enda fátt sem bendir til þess að liðið nái að forðast fallið þegar stigin verða talin saman í vor. Við eigum nokkra menn í þessu Sunderland-liði enda Wes Brown og John O’Shea fastamenn í vörninni ásamt Phil Bardsley. Þeir eru þó ekki að standa sig neitt sérstaklega vel, enda aðeins Fulham sem hefur fengið á sig fleiri mörk í deildinni.
Það verður þó að segjast að Sunderland-menn stóðu sig gríðarlega vel gegn Chelsea í 8-liða úrslitum þegar þeir slóu Mourinho & co út úr keppninni á dramatískan hátt á heimavelli. Þó að liðið sé sýnd veiði er hún alls ekki gefin enda fylgja bikarleikir ekki hefðbundnum lögmálum, það getur allt gerst. Okkar menn eru jafnframt ekkert á neinni sérstakri siglingu um þessar mundir auk þess sem að meiðslalistinn okkar er orðinn ansi langur.
Rooney, van Persie, Rafael, Nani, Rio, Young og Phil Jones eru allir frá ásamt Fellaini sem má reyndar ekki spila í þessari keppni. Fabio er svo í banni eftir að hafa nýtt langþráð tækifæri svona líka glæsilega í síðasta leik.
Moyes ætti að stilla upp eins sterku liði og hann getur á morgun til þess að koma okkur í góða stöðu fyrir heimaleikinn, enda alls óvíst að okkar menn geti sótt nógu góð úrslit þaðan ef leikurinn á morgun fer illa. Miðað við allt er eftirfarandi byrjunarlið líklegt:
Lindegaard
Smalling Vidic Evans Büttner
Valencia Giggs Carrick Januzaj
Welbeck Chicharito
Leikurinn hefst klukkan 19.45
Magnús Þ Friðriksson says
Það má halda því fram að þessir tveir leikir á móti Sunderland geti verið það sem „bjargi“ tímabilinu hjá okkar mönnum, eins sorglegt og það kann að hljóma. Ef drengirnir girða sig í brók, ganga inn á völlinn með höfuðið hátt og hafa einhvern vott af trú á því sem þeir eru að gera, þá á Sunderland ekki að vera nein fyrirstaða… en það er þetta stóra EF. Maður getur nánast gengið út frá því að City muni kjöldraga West Ham í þessum tveimur leikjum, nema það botnfrjósi í helvíti og Pellegrini ákveði að gefa algjörann skít í þessa keppni og notast við B eða jafnvel C liðið sitt. Þá er „bara“ City eftir á Wembley… og það getur reynst þrautin þyngri ef bæði leikmenn og stjórinn ætla að sýna sama gunguhátt og algjöra skort á sjálfstrausti og maður sá skína úr örvæntingafullu andliti David Moyes í leiknum á móti Swansea. Man ekki hvort það sé ennþá þannig að liðið sem tapar bikarúrslitaleik fái „Tottenham-deildarsætið“ sem hefiði annars runnið til sigurverarans hefði hann ekki komist í „æðri“ keppni… ef það er svo, þá gæti það bjargað tímabilinu… ef ekki… þá verða menn að fara að drullast til þess að muna fyrir hvaða lið þeir eru að spila og hætta að vera búningnum til skammar.
Atli says
Eins gódur og Januzaj er tha má samt ekki ofnota hann, lika midad vid medferdina sem hann fær ad fyrr eda sídar meidist hann og hann gæti ordid bara algjör meidslapesi
Hannes says
átti ekki kampavínið sem Moyes fékk eftir sigurinn í samfélagsskildinum að koma honum á bragðið ?
Jóhann says
Skildu þessir alvöru stuðningsmenn vera ánægðir með frammistöðuna núna erum að drulla á okkur á móti neðsta liðinu.
Jóhann says
Held að hann sé búinn að vera skakkur síðan.