Tímabilið er ekki alveg búið hjá okkar mönnum eftir þennan glæsilega sigur í 16-liða úrslitum gegn Olympiakos. Það verður dregið í 8-liða úrslitin á morgun og því er ekki úr vegi að kynna sér aðeins hverjir séu mögulegir andstæðingar okkar þar. Það er oft talað um mikilvægi þess að sigra riðilinn sinn í Meistaradeildinni, það sannaði sig í ár því að öll liðin sem eru komin áfram í 8-liða úrslit stóðu uppi sem sigurvegarar í sínum riðlum. Hér er örlítið yfirlit yfir þau lið sem verða í pottinum á morgun og geta dregist á móti Manchester United.
Atlético Madrid
Atlético sigraði G-riðilinn örugglega en í honum, ásamt Atletico voru Zenit, Porto og Austria Wien. Atlético er spútnikliðið í spænsku deildinni. Það hefur veitt risunum tveimur, Barcelona og Real Madrid harða samkeppni í ár og á raunhæfa möguleika á spænska titlinum þegar 10 leikir eru eftir af deildinni. Liðið sló út AC Milan frekar örugglega 5-1 samtals í síðustu umferð. Diego Simeone er að gera frábæra hluti með þetta lið og verður spennandi að sjá hvernig lokaspretturinn í spænsku deildinni þróast í ár en liðið situr í 2. sæti, þremur stigum á eftir Real Madrid. Þeirra besti leikmaður er Diego Costa sem hefur farið á kostum á tímabilinu. Hann kláraði AC Milan og hefur skorað 7 mörk í meistaradeildinni á tímabilinu og 22 mörk í spænsku deildinni.
FC Barcelona
Barcelona sigraði H-riðilinn en í honum voru ásamt Barcelona, AC Milan, Ajax og Celtic. Það hefur verið eitthvað vesen á liðinu í vetur, það er í þriðja sæti spænsku deildarinnar og mikið hefur verið fjallað um vandamál liðsins utan vallar. Kaupin á Neymar voru eitthvað vafasöm, Barcelona borgaði risasekt til spænskra skattayfirvalda og formaður félagsins sagði af sér í kjölfarið. Nýverið bárust fregnir af því að Tata Martino, þjálfari liðsins hygðist hætta með liðið eftir tímabilið. Það breytir þó því ekki að liðið inniheldur leikmenn eins og Lionel Messi, Neymar og Xavi og er alltaf sigurstranglegt í þessari keppni enda var liðið ekki í miklum vandræðum með að slá Manchester City úr 16-liða úrslitunum. Þeirra besti leikmaður er auðvitað Lionel Messi. Hann er þó búinn að vera rólegur í ár, bara með 8 mörk í Meistaradeildinni og 18 mörk í deildinni.
FC Bayern München
Ríkjandi meistarar Meistaradeildarinnar stóðu uppi sem sigurvegarar D-riðils eftir harða baráttu við Manchester City en bæði lið enduðu með 15 stig. Hin liðin í riðlinum voru CSKA Moskow og Viktoria Plzen. Pep Guardiola hefur tekið sterkasta lið heimsins og gert það enn sterkara. Liðið er gjörsamlega að rúlla yfir þýsku deildinni með 23 stiga forystu þegar 9 leikir eru eftir. Leikmenn liðsins hafa semsagt alveg keypt fótboltaheimspeki Guardiola og ljóst að Bayern München er liðið sem þarf að sigra ætli einhver sér að vinna Meistaradeildina í ár. Arséne Wenger og Arsenal-lið hans voru fórnarlömbin í 16-liða úrslitum eftir hetjulega baráttu en það er bara svo erfitt að vinna lið sem Guardiola er að stýra, það þekkjum við, stuðningsmenn Manchester United. Það er erfitt að velja einn lykilmann í þessu liði enda liðið afskaplega jafnt og með afskaplega mikla breidd, Franck Ribéry, Arjen Robben, Philipp Lahm, Thomas Müller, allt frábærir leikmenn.
Borussia Dortmund
Hið feykiskemmtilega lið Dortmund sigraði dauðariðil Meistaradeildarinnar í ár, F-riðilinn, en í honum voru ásamt Dortmund, Napoli, Arsenal og Marseille. Dortmund er annað uppáhaldslið margra. Það spilar mjög skemmtilegan fótbolta, er ekki eitt af hinum hefðbundnu stórveldum álfunnar og heimavöllurinn og stuðningurinn þar er ótrúlegur. Þeir hafa þó verið í talsverðu basli á þessari leiktíð enda hafa margir leikmenn liðsins verið að glíma við meiðsli. Ilkay Gundogan, Neven Subotic og Mats Hummels hafa allir verið mikið frá en liðið hefur þó náð að rétta úr kútnum undanfarið og er búið að tylla sér í 2. sætið í deildinni. Jürgen Klopp er einn eftirsóknarverðasti þjálfarinn í heiminum í dag enda hefur hann gert ótrúlega skemmtilega hluti með þetta Dortmund-lið þrátt fyrir að hafa ekki alla peninga heimsins undir höndunum. Þetta lið komst í úrslit Meistaradeildarinnar í fyrra og sló Zenit út tiltölulega auðveldlega í 16-liða úrslitum. Þeirra skeinuhættasti leikmaður er án efa Robert Lewandowski, hann er með 6 mörk í Meistaradeildinni og 15 mörk í deildinni. Hann verður þó í banni í fyrri leik 8-liða úrslitanna.
Chelsea
Chelsea stóð uppi sem sigurvegari í E-riðlinum og var fyrir ofan Schalke, Basel og Steaua Bucuresti. José Mourinho tók auðvitað við liðinu í sumar og hefur skilað liðinu á toppinn á ensku úrvalsdeildinni og í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir sigur á Didier Drogba og félögum í Galatasaray. Mourinho kann öll trixin í bókinni, hann hefur unnið þessa keppni í tvígang og veit nákvæmlega hvað þarf til þess að standa uppi sem sigurvegari í maí. Liðin hans Mourinho hafa oft legið undir ámæli fyrir að spila leiðinlegan og functional fótbolta en það er afskaplega erfitt að sigra þessa erfiðustu keppni heimsins án þess að spila agaðan fótbolta. Mourinho hefur gert þetta Chelsea lið að afskaplega öflugri vél sem fær á sig lítið af mörkum og skilar sigrum í massavís. Þeirra besti leikmaður hefur verið Eden Hazard sem er að þroskast í einn af allra bestu fótboltamönnum heimsins í dag. Hann er bæði marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Chelsea á tímabilinu en hefur þó haft hægt um sig í Meistaradeildinni í ár en við munum væntanlega sjá hann blómstra á seinni stigum þessarar keppni.
Paris Saint-Germain
PSG sigraði C-riðil Meistaradeildarinnar en í honum voru ásamt PSG, Olympiakos, Benfica og Anderlecht. PSG er tiltölulega nýtt lið, stofnað árið 1970 og hefur yfirleitt verið í skugganum á öðrum frönskum liðum eins og Marseille og Lyon. Það breyttist þó allt þegar Quatar Investment Authority keypti félagið árið 2011. Síðan hafa eigendurnir dælt peningum í liðið og PSG er komið með afskaplega sterkan leikmannahóp þar sem snillingurinn Zlatan Ibrahimovic fer auðvitað fremstur í flokki. Sóknarlína PSG er geysisterk því að Edinson Cavani og Ezequiel Lavezzi mynda framlínuna með Zlatan. Í vörninni stýrir svo Thiago Silva aðgerðum. Ekkert slor. Carlo Ancelotti stýrði liðinu til sigurs í frönsku deildinni á síðasta tímabili í fyrsta sinn síðan 1994 en þetta var aðeins þriðji titill félagsins. Ancelotti fór auðvitað til Real Madrid í byrjun tímabilsins og í staðinn kom Laurent Blanc, góðkunningi Manchester United. Hann hefur stýrt skútunni af öryggi, liðið er á toppnum í deildinni og sló út Leverkusen auðveldlega í 16-liða úrslitum meistaradeildarinnar. Þeirra besti leikmaður er auðvitað Zlatan Ibrahimovic. Hann hefur verið í miklum ham á tímabilinu, hann er næst markahæstur í Meistaradeildinni með 10 mörk og hefur skorað 25 mörk í deildinni.
Real Madrid
Síðast en ekki síst, Real Madrid. Liðið sigraði B-riðil auðveldlega en í honum voru ásamt Madrid, Galatsaray, Juventus og FC Kaupmannahöfn. Þetta er sigursælasta lið Meistaradeildarinnar frá upphafi með 9 titla alls en það hefur gengið brösulega síðustu árin að ná þeim tíunda. Liðið hefur komist í undanúrslit síðustu þrjú tímabil en ekki náð að tryggja sér sæti í úrslitaleiknum. Liðið hefur reyndar ekki komist alla leið í úrslitaleikinn síðan árið 2002 þegar liðið sigraði Bayern Leverkusen með frábæru marki Zinedine Zidane. Carlo Ancelotti var hinsvegar ráðinn til þess að ná í þennan Meistara-deildartitil og það er augljóst að menn ætla sér að ná í hann. Liðið hefur stillt upp sterku liði í öllum leikjum keppninnar, jafnaði met Manchester United yfir flest mörk skoruð í riðlakeppninni (20) og liðið slátraði Schalke í 16-liða úrslitunum samanlagt 9-2. Besti leikmaður Madrídinga og besti leikmaður heimsins í dag, Cristiano Ronaldo vantar fleiri meistaradeildartitla í safnið og það sést. Hann er langmarkahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar í ár með 13 mörk, sló met yfir flest mörk skoruð í riðlakeppninni af einum leikmanni og vantar aðeins tvo mörk til þess að slá met Lionel Messi yfir flest mörk skoruð á einu tímabili í Meistaradeildinni. Hann er einnig með 25 mörk í deildinni. Nú, ef hann er svo ekki í stuði getur Real Madrid alltaf gripið til Gareth Bale sem hefur smellpassað inn í þetta Real Madrid lið sem situr á toppnum í spænsku deildinni með þriggja stiga forustu þegar 10 leikir eru eftir.
————-
Þetta eru allt saman geysisterk lið og ljóst að Meistaradeildin stendur undir nafni í ár. Það er alveg sama hvaða lið við fáum í 8-liða úrslitunum, þetta verða allt saman hörkuleikir þó það væri ágætt að sleppa við Real Madrid, Barcelona og Bayern München fyrst um sinn. Þetta kemur þó allt í ljós á hádegi á morgun þegar búið verður að draga í 8-liða úrslit og undanúrslit en sú athöfn hefst klukkan 11.00 að íslenskum tíma.
Björn Friðgeir says
Ég vil fá Bayern, Barça eða Real. Ég vil að David Moyes fái risaleik í andlitið. Ég vil að David Moyes þurfi að fara í brekkuna með svörtu flöggunum og sýni hvort hann sé maður eða mús. Og, líka, að *leikmenn* fái risaleik í andlitið. Þá hafa allir aðilar tækifæri til að bjarga andlitinu. Eða ekki.
Keane says
Sammála því !
Bósi says
En að fá Dortmund, byggja ofan á sigurinn á móti Olympiakos, vinna west ham city og alla aðra leiki fram að 8 liða úrslitum. Við vinnum Dortmund i æsispennandi rimmu og þá loks getum við vonast til að hafa sjalfstraustið sem þarf til að vinna eitthvert af eftirfarandi – Barca Bayern Real.
Byrjum bara á að vinna West Ham takk, bið ekki um meira i bili.
Jón G says
FC Bayern var það!! 2 leikir eftir í meistaradeildinni þangað til í fyrsta lagi 2015/16 tímabilið ;)