Það er ótrúlegt að fyrir nákvæmlega einu ári síðan hafi leikmenn og stuðningsmenn Manchester United verið að fagna meistaratitli nr. 20 eftir glæsilegan sigur á Aston Villa. Allt var eins og það átti að vera. United á toppnum, langt á undan öllum hinum liðunum. Besta liðið, besti stjórinn. Business as usual.
Það er ótrúlegt að ári seinna standi varla steinn yfir steini hjá þessu sama knattspyrnufélagi. Liðið er í 7. sæti og aumasta titilvörn í sögu Englands síðan Manchester City féll tímabilið eftir að hafa unnið titilinn er óumflýjanleg. Við erum stödd í skemmtilegasta hluta tímabilsins, þar sem úrslitin eru að ráðast og öllum keppnum að ljúka. Við erum stödd á heimavelli Manchester United. En Manchester United er ekki í baráttu á neinum vígstöðum og ef félagið myndi sleppa því að senda til leiks í þessum fjórum leikjum myndi það ekki skipta einu einasta máli. Leikirnir sem skipta máli tengjast Manchester United ekki á neinn hátt. Ótrúlegt.
Maðurinn sem er talinn ábyrgur fyrir þessu hruni var sagt upp störfum í dag. David Moyes er farinn. Eftir að fregnir þess efnis bárust í gær um að hann væri á förum barst tístið sem stuðningsmenn liðsins hafa beðið eftir snemma í morgun:
BREAKING: Manchester United announces that David Moyes has left the club. (part 1 of 2) #mufc
— Manchester United (@ManUtd) April 22, 2014
Stuttri stjóratíð David Moyes er lokið, enda komst hún aldrei á flug.
Stuðningur okkar
Ég og ritstjórn þessarar síðu studdum Moyes lengst af. Við gerðum okkur grein fyrir því að þrátt fyrir að liðið hefði unnið deildina á þægilegan hátt tímabilið áður væri ýmislegt sem betur mætti fara í leikmannahóp liðsins. Við gerðum okkur grein fyrir því að Sir Alex Ferguson skilaði ekki af sér jafn sterku búi og hann hélt að hann væri að gera. Við gerðum okkur grein fyrir því að það hefði verið erfitt fyrir nánast hvaða knattspyrnustjóra sem er að taka við af mesta knattspyrnustjóra allra tíma. Um þetta skrifaði ég langa grein fyrr í vetur þar sem ég fór yfir afhverju Moyes beið eitthvað það erfiðasta starf sem nokkur knattspyrnustjóri hefur þurft að glíma við.
Við gerðum okkur grein fyrir því að engar líkur væru á því að David Moyes myndi ná árangri um leið. Það var alveg ljóst frá byrjun að hann hefði enga reynslu sem myndu gagnast honum í að stýra einum af heimsins stærstu íþróttafélögum þar sem allar væntingar eru þúsundfaldar á við það sem hann upplifði hjá Everton. Manchester United er þó félag sem hefur í gegnum tíðina verið byggt á því að gefa mönnum tækifæri á að axla ábyrgðina sem fylgir því að vera í Manchester United, sumum höndla það og ná gríðarlegum árangri, aðrir ekki og verða lítið annað en neðanmálsgrein í sögu félagsins.
Stuðningur okkar við David Moyes var byggður á þeirri von að hann myndi verða einn þeirra sem myndi axla ábyrgðina. Gary Neville, einn af þeim sem veit einna mest um hvað þetta félag snýst sagði í byrjun tímabilsins að Manchester United myndi breyta Moyes, Moyes ætti engan séns á því að breyta Manchester United. Í þessu lá stuðningur okkar við Moyes. Hann var falinn í því að David Moyes myndi vaxa í starfinu og að hann myndi einmitt ekki láta liðið spila þann tröllabolta sem skóp árangur hans hjá Everton. Við vorum alltaf að bíða eftir því að það myndi gerast og á köflum leit þetta ágætlega út. Stundum glitti í eitthvað sem lofaði góðu fyrir framhaldið eins og leikurinn gegn Leverkusen á útivelli í Meistaradeildinni. En þegar liðið tók eitt skref fram á við, tók það tvö skref aftur á bak. Í kjölfar sigursins á Leverkusen komu tvö töp gegn Everton og Newcastle. Svona gekk þetta allt tímabilið og það varð alltaf erfiðara og erfiðara að réttlæta áframhaldandi veru David Moyes á knattspyrnustjórastólnum.
Fallið
Eftir áramót varð það svo endanlega ljóst að David Moyes réði engan veginn við það að stýra Manchester United. Svona var staðan þegar tímabilið var hálfnað, þann 29. desember sl.
Liðið var tveimur stigum frá núverandi toppliði Liverpool og 8 stigum frá Arsenal í fyrsta sæti. Þetta er kannski ekki besta staða í heiminum en algjörlega ljóst að liðið var að minnsta kosti í bullandi séns á því að ná einu af meistaradeildarsætunum.
Gengi liðsins í deildinni á seinni helming tímabilsins er það sem gerði út um stjóratíð David Moyes. Eftir því sem vorið nálgaðist varð alltaf deginum ljósara að Moyes var að synda í djúpu lauginni með enga hjálparkúta nálægt sér. Fyrir mér og líklega mörgum af þeim sem voru tilbúnir til þess að gefa Moyes tíma var leikurinn á heimavelli gegn Fulham vatnaskilin. Þar kristallaðist hugmyndaleysi í sóknarleik liðsins og segja má að þarna á þessum vetrardegi í Manchester hafi liðið orðið gjaldþrota undir stjórn David Moyes.
Moyes náði að blása einhverju lífi í liðið með ágætum sigrum á minni spámönnum eins og WBA, Crystal Palace og svona en jarðarförin fór endanlega fram fyrir og eftir leikina gegn Liverpool og Manchester City. Fyrir leikinn gegn Liverpool viðurkenndi David Moyes að Liverpool væri sigurstranglegra liðið í leiknum og eftir leikinn gegn City sagði Moyes að City væri að spila á því stigi sem United væri að reyna að komast á. Tvær heilagar syndir og eitthvað sem enginn knattspyrnustjóri Manchester United má nokkru sinni viðurkenna eða láta út út sér.
Á þessum tímapunkti voru flestir búnir að missa trúnna á því að David Moyes myndi nokkurn tímann ná einhverjum árangri með þetta lið og ef fregnir eru réttar virðast eigendurnir hafa gert það líka. Eftir tapið var svo endanlega ljóst að liðið myndi ekki spila í Meistaradeildinni í fyrsta skipti síðan 1993. Þar með virðist klásúla í samningi Moyes um að hægt væri að rifta samningnum hans hafa virkjast og því fór sem fór. Stjóratíð David Moyes er því runnin sitt skeið á enda og þungu fargi virðist vera létt af stuðningsmönnum Manchester United.
Það sem David Moyes virðist ekki hafa áttað sig á er að Manchester United er miklu meira en knattspyrnufélag, þetta er stofnun, heimsfrægt íþróttafélag sem hefur ákveðin gildi. Hér á að spila leiftrandi sóknarbolta þar sem hið óvænta ræður ríkjum, helst með uppöldum leikmönnum þar sem allt snýst um sókn og ekkert annað en sókn. Manchester United er félag þar sem gerð er krafa um að liðið sé ávallt í fremstu röð á öllum sviðum.
David Moyes náði þessu aldrei, fregnir frá æfingarsvæðinu segja að liðið hafi nánast ekkert æft sóknarleik í allan vetur, öll áherslan hafi verið á varnarleik. Sóknarleikur liðsins undir stjórn Moyes var alveg einstaklega einhæfur, út á kant, gefa fyrir. Rinse and repeat. Þegar kom að stórleikjum snerist allt um að vonandi myndi liðið reyna að sigra leikinn eða að liðið myndi reyna að gera andstæðingunum erfitt fyrir. David Moyes er einfaldlega neikvæður þjálfari sem virðist ekki hafa skilið það hugarfar sem þarf til þess að stjórna stórliði á heimsmælikvarða. Svo sem ekkert skrýtið, maðurinn hafði auðvitað enga reynslu á því sviði. Þessi tækni hafði virkað ágætlega hjá Everton en með fullri virðingu fyrir Everton, þá er það ekki Manchester United.
Svona fótbolti eins og Moyes lét United-liðið spila virkar ágætlega hjá minni liðum sem hafa það að markmiði að vera um miðja deild en í dag er ómögulegt að byggja upp meistaralið með þessum hætti. Árangur í deildinni næst með því að spila hugmyndaríka knattspyrnu sem byggist á sóknarleik. Hvergi er þetta augljósara en þegar gengi Everton og Liverpool á tímabilinu er skoðað. Everton er að mestu leyti byggt upp á sömu leikmönnum og Moyes hafði stýrt áður en spilar nú með allt öðruvísi áherslum. Það hefur tekið Roberto Martinez eitt tímabil að ná fleiri stigum en Moyes náði nokkurntíman.
David Moyes er ágætur knattspyrnustjóri og er örugglega fínasti náungi. Því miður fyrir hann snýst knattspyrnan hans um að verjast andstæðingum, í staðinn fyrir að sækja á þá. Þannig knattspyrna er fín fyrir minni lið þar sem ekki er gerð krafa um titil á hverju einasta tímabili. Það er glerþak á þessari tegund af knattspyrnu, hún virkar ekki hjá liðunum sem sækjast eftir titilinum, og þessvegna var David Moyes líklega aldrei að fara að ná árangri með Manchester United. Því miður.
Framtíðin
Ryan Giggs tekur við liðinu tímabundið og er það frábær leið fyrir hann að ljúka því sem er líklega hans síðasta tímabil sem leikmaður liðsins. Hann og Moyes voru á andstæðum pólum hvað varðar leikskipulag og æfingar og fregnir herma að Giggs hafi verið á útleið. Hann fær nú tækifæri til þess að sigla skútunni heim áður en að nýr stjóri verður valinn. Nú munu hefjast miklar vangaveltur. Nú í morgun voru Guardiola og Mourinho orðaðir við starfið auk þess sem að í kaupbæti komu fregnir um að United ætli sér að kaupa Messi. Líklega hefur einhver farið fram úr sér í þessum efnum og ólíklegt að einhverjir þessa muni spila á Old Trafford næsta tímabil. Líklegt er að stjórnin taki sér einhvern tíma í þetta og íhugi alla kosti. Klopp virðist hafa sagt nei en það þýðir ekki endilega að hann sé þar með útilokaður, ég myndi veðja á að menn væru að reyna að sannfæra hann, þrátt fyrir að hann hafi lýst yfir tryggð sinni við Dortmund í morgun. Louis van Gaal virðist þó vera líklegastur og það kæmi mér ekki á óvart ef að Hollendingurinn fengi það verkefni að rétta skipið við.
Hvaða stjóra sem tekur við bíður þó erfitt verkefni, þó kannski ekki alveg jafn erfitt og það sem beið Moyes. Nýr stjóri þarf að taka á leikmannahóp sem virðist hafa tekið sér meiri völd um hvað gerist innan félagsins en nokkurn tíman hefur þekkst hjá United. Ef nýr stjóri er ekki nógu kraftmikill til þess að ná stjórn á leikmönnum liðsins mun sagan bara endurtaka sig.
Við erum kannski laus við David Moyes, en það er ekki þar með sagt að allt sé orðið gott á ný og félagið geti sett titilinn aftur í áskrift. Það er ýmislegt að hjá félaginu sem þarf að laga. Vonandi ber stjórn félagsins gæfu til þess að ráða stjóra sem hefur reynslu og ræður við verkefnið. Stjórnin klikkaði á því síðast, ekki bregðast okkur aftur. Við viljum að titill nr. 21 sé væntanlegur í bráð.
Ísak Agnarsson says
heyr heyr, frábær pistill.
Kemur þessu virkilega vel í orð, auðvitað er nauðsynlegt að hafa patience fyrir þjálfaranum en þú útskýrðir mjög vel hver var ástæðan fyrir því að hann átti að vera rekinn.
Hinsvegar er ég líka sammála Gary Neville að það hefði bara átt að verið teknar miklu betri ákvarðanir.
Láta manninn hafa 6 ára samning var bara vitleysa.
Egill says
Frábær pistill, takk fyrir hann. En það er samt eitt sem er rangt þarna, „Nýr stjóri þarf að taka á leikmannahóp sem virðist hafa tekið sér meiri völd um hvað gerist innan félagsins en nokkurn tíman hefur þekkst hjá United.“
Svo lengi sem kókaín hneykslið sé ekki tengt Man Utd þá er ekkert sem toppar það sem var í gangi innan félagsins þegar SAF tók við. Menn voru að fá sér bjór fyrir og eftir æfingu á þeim tíma. :)
Mér fannst einmitt Fulham leikurinn marka nokkur þáttaskil í stjóratíð Moyes, þarna gafst hann loksins upp á endalausu fyrigjafaspili og fór að nota kanntmenn sem inside forwards og var með tvo djúpa miðjumenn. Það er spil sem hentar okkur að ég held mjög vel í dag, vandamálið var líka að hann gat ekki fengið Rooney og Persie til að virka saman. Um leið og Persie meiddist forum við að spila betur, og um tíma leit út fyrir að Moyes myndi lifa þetta af. Frábær endurkoma gegn Olympiacos og flottir leikir gegn Bayern t.d. En eins og allir vita þá gátum við aldrei tekið skref fram á við án þess að taka tvö aftur á bak og því fór sem fór.
Moyes er ekki lélegur stjóri, en þetta var einfaldlega of stór biti fyrir hann. SAF hættir, David Gill hættir og félagið þarf að fara í vissa endurnýjun á mörgum stöðum. Við höfum ekki miðju sem er mannsæmandi og vörnin komin á aldur. Það má vel vera að þetta hefði gengið upp á öðrum tímapunkti, en alls ekki núna.
Ég sýndi honum stuðning allt til lokadags og er sáttur með að hann hafi verið látinn fara.
Enn og aftur sýnum við að við erum bestu stuðningsmenn í heimi, alla leiktíðina hafa stuðningsmenn sungið lög til að styðja hannm traveling fans eru eflaust þeir bestu í allri evrópu hjá okkur og fyrir utan einhvern smá hóp af fávitum sem leigðu flugvél, þá fékk Moyes allan þann stuðning sem hægt var að veita honum. Ég fullyrði að ekkert annað knattspyrnufélag hefði staðið jafn þétt við bakið á stjóranum sínum við þessar aðstæður.
Núna verða klárlega bjartari tíman framundan.
Siggi P says
Ég er spenntur að sjá hvað Giggs gerir í næstu leikjum. Það er engin pressa á honum og hann gæti bara losað liðið úr þessu slæmu karma. Það eru fordæmi fyrir því að ungir menn á enda leikferils taki við stórliði og gangi vel, t.d. Guardiola hjá Barcelona. En hvort hann fær starfið til frambúðar er kannski ekki líklegt. Það liggur svo mikið undir að það er varla treystandi á að taka neinn séns. Ætli þess vegna verði ekki ráðinn einhver gamall fautur sem kemur okkur upp í fjórða sætið, ekki með frábærri spilamennsku, heldur áhrifaríkum bolta. Allir geta þá andað léttar, en enginn verður í raun rosalega sáttur.
DMS says
Flottur pistill. Það hlaut að vera eitthvað ákvæði í samningnum sem gerði þeim kleyft að segja honum upp með styttri starfslokasamningi heldur en 6 árunum. Kannski voru þeir bara að bíða eftir að stærðfræðilega væri útilokað að ná 4. sætinu til að geta sagt honum upp með þessu ákvæði.
Ég hef á tilfinningunni að liðið muni þjappa sér saman núna og sigra þessa lokaleiki sem við eigum eftir. Trúi ekki öðru. Það hefur greinilega verið undirliggjandi gremja meðal leikmanna líka. Rio, Vidic, RvP, Giggs og Welbeck eru meðal þeirra sem pressan hefur sagt að hafi verið orðnir nokkuð pirraðir á honum.
United eru að feta ótroðnar slóðir ef svo má segja, við erum ekki félag sem hefur verið í því að skipta um stjóra og höfum því ekki mikla reynslu af því. Þetta verkefni gekk ekki upp í fyrstu tilraun, við verðum bara að taka því og ganga ur skugga um að þetta gerist ekki aftur. Það þarf að vanda valið. Það er til lítils að ætla að spreða 200 milljónum punda í sumar ef það verður ekki ráðinn réttur og hæfur maður til að stýra skútunni.
Auðunn Atli Sigurðsson says
Mjög góður og skemmtlegur pistill, takk fyrir hann.
Þetta með að leikmenn hafi tekið sér meiri völd er í sjálfu sér ekkert nýtt hjá stórum klúbbum með nokkrar prímadonnur innanborðs, Chelsea er einmitt eitt af þeim liðum og þar hafa stjórar komið og farið eins og ég veit ekki hvað.
Ef stjórinn ræður ekki við þessa menn þá er hann ekki maður í að stjórna svona félagi og við þurfum svo sem ekkert að ræða það að Moyes réði aldrei við þetta starf.
Jæja Guardiola búinn að gefa það út að hann verði hjá Bayern amk næstu tvö árin, þá væri í mínum huga ekki vitlaust að ráða Van Gaal núna til 2-4 ára og fá svo Guardiola til að taka við keflinu…;)
En sjáum til hvernig þetta þróast, tóm spenna framundan..
Már Ingólfur Másson says
Einhversstaðar las ég að Round væri kallaður „F**k off“ á æfingum því hann hefði ekkert fram að færa og viðbrögð leikmanna væru yfirleitt þessi tvö orð þegar hann byrjaði að tjá sig.
Giggs er algerlega pressulaus, ef hann færi Scholes til að aðstoða sig og Butt þá verður þetta gúrmei. Þessir 4 leikir koma til með að klárast nokkuð sannfærandi.
Guðni says
Núna vantar bara að Beckham komi heim líka í þjálfarateimið :) Giggs, Scholes, Butt og Beckham væri snilld :)
Jóhann Mar Ólafsson says
Frábær pistill. Það væri auðvitað algjör draumur að fá annaðhvort Guardiola eða Klopp, ég held þó að við munum enda með Val Gaal. Það er samt ágætis spurning hvernig hann muni standa sig þar sem þetta er líklega endastöðin á hans þjálfaraferli. Hefur hann metnaðinn til þess að taka félagið alla leið?
Ég ætla svo að fá að spyrja eina aulaspurningu sem að ég vona að einhver geti svarað.
Ef að félagið eyðir þessum 200 milljónum punda í sumar eins og talað er um í fjölmiðlum, hvernig tengist það nýju Financial Fair Play reglunni og hvaða áhrif mun það hafa á United? Hefur félagið fjárhagslega getu til þess að eyða svona miklu og samt ekki brotið regluna? Erum við þá í hættu að lenda í félagsskiptabanni eins og önnur félög?
DMS says
Án þess að ég viti það sérstaklega, en eru Financial Fair Play reglurnar ekki í grunninn að félagið verði að vera rekið a.m.k. á núlli? Ekki bara sífelldar innspýtingar frá moldríkum eigendum til að dæla fé í leikmannakaup og launakostnað.
United er vel rekið félag. Eins ógeðsleg og yfirtakan var hjá Glazer feðgum árið 2005 þá mega þeir eiga það að þeir hafa aukið rekstrar-og auglýsingatekjur félagsins til muna. Enda þurftum við nauðsynlega á því að halda til að geta ráðið við alla þessa skuldabyrði sem þeir skelltu á okkur. Það er þó vonandi að sjást til sólar í þeim efnum. Það var þeim til happs að Ferguson gat kreist ansi mikið út úr meðalmönnum. Núna þarf hinsvegar að fjárfesta töluvert í endurnýjun á hópnum.
Hanni says
Mjög góður pistill. Hræddur um að hlutirnir eigi eftir að verða verri áður en þeir verða betri. Vonandi verður samt ekki eins langt þurrkatímabil og síðast.
abcd says
Þið sem viljið Mourinho, horfið á þennan CL leik. Sofnaði 3svar í fyrri hálfleik. CFC með 1 skot sem var aukaspyrna í varnarvegginn. Besta marktækifærið var skot úr horni. Sennilega hafa um hálfur milljarður sagt upp íþróttaáskriftinni sinni eftir þennan fyrri hálfleik. Þætti fall í championship ákjósanlegri kostur en þetta.
Bósi says
Var adeins ad checka a Van Gaal, hann hljomar mjog vel og med sinn feril ladar hann leikmenn ad.
Maeli med thessu vidtali thar sem hann talar um vidhorf sitt sem thjalfari hja klubbi.
https://www.youtube.com/watch?v=7cgAKZkX_yE
Roy says
Held að allir geti verið sammála um það að van gaal er ekki united týpa. Yfirborðslegur hrokagikkur og alls ekki maður fólksins… Vil ekki sjà hann.
DMS says
Menn geta verið með sínar efasemdir um Van Gaal, ég hef vissulega mínar efasemdir. En hann kann að spila sóknarbolta, eitthvað sem Moyes kunni ekki öðruvísi en að sparka háum boltum inn á teiginn. Van Gaal leggur áherslu á liðsheildina. Hann myndi vonandi ná meira út úr mönnum eins og Januzaj, Kagawa, Mata og RvP.
Hann virkar vissulega pínu arrogant, en þarf hann ekki bara að vera það til að þrífast í stórum klúbbi fullum a egóistum? Held stundum að Moyes hafi verið of mikill nice guy til að ráða við þessar stjörnur.
Mig grunar samt að Van Gaal sé ekki langtímakostur United. Kemur inn í kannski 2-3 ár og svo tekur einhver annar við. Kannski bara Giggsarinn, who knows.
Keane says
Snýst um að ná árangri og ekki skemmir ef boltinn er skemmtilegur á að horfa.. van Gaal þekki ég ekki persónulega og veit ekki hvort hann er hrokafullur eða maður fólksins en honum ferst örugglega starfið betur úr hendi en Moyes.
úlli says
Var að hlusta á skemmtilegar umræður hér: http://www.ruv.is/ithrottir/ferguson-valdi-viljandi-lakan-eftirmann
Skemmtileg þessi pæling hjá Hjörvari að Ferguson hafi valið eftirmann sem væri örugglega síðri en hann. Vildi hann kannski ekki sjá einhvern koma og halda áfram að raða inn titlum eins og það gerðist bara sjálfkrafa hjá félagi eins og Manchester United? Ég trúi því varla en kannski var það í undirmeðvitundinni.
Siggi P says
Horfið á þetta
http://m.youtube.com/watch?v=cuaGQ7qlQPk&feature=youtu.be
Margt til í þessu. Ég minntist áður á The Damned United, þegar Brian Clough tók við Leeds United sem þá voru meistarar. Hann kom inn og sagði þá spila ljótan fótbolta og ætlaði að breyta því. Það gekk náttúrulega alls ekki upp og hann var rekinn eftir nokkra mánuði eftir afleitt gengi því leikmennirnir gerðu í þvi að spila illa til að koma höggi á hann.
Þetta Moyes mál lyktar af því sama. Moyes tók ekki við liðinu sem Ferguson skildi eftir í þeirri merkingu. Hann ætlaði að byggja nýtt. Þegar þú ert með yfirlýsingar um að þú verðir að kaupa nýja leikmenn til að byggja upp þá fara þeir leikmenn sem fyrir eru að hugsa hvort þeir eigi nokkurn séns. Þetta er eins og stjórinn sem hvatti leikmenn sína til að leggja hart að sér að vinna sig upp um deild, svo liðið gæti keypt betri leikmenn í staðinn fyrir þá.
Moyes náði aldrei trausti eða virðingu leikmannanna. Hann hefði aldrei náð því nema kaupa „hans leikmenn“. En hvað hefðum við þá? Eitthvað samansafn af smástjörnum með glýju í augunum yfir að vera í stærsta klúbbi í heimi? Alla vega ekki lið fullt af sigurvegurum. Kaupin hingað til virtust handahófskennd og það virtist ekki vera neitt plan. Ég held að stjórnin hafi farið að hugsa „hvað höfum við gert“ og gripið tækifærið að losa sig við hann eftir að CL sætið var farið. Stjórnin gerir varla önnur eins mistök og Moyes.
Kristjans says
Takk fyrir flottan pistil.
Hér er áhugaverð grein:
http://thepeoplesperson.com/2014/04/23/mourinho-is-trying-his-hardest-to-get-sacked-with-united-job-vacant/
Las einhvers staðar á Twitter í gær að hugsanlega er þetta úthugsað hjá Mourinho. Hann ætli sér að nota meintan áhuga Utd á sér í valdabaráttunni innan Chelsea, í von um að fá meiri völd svo hann fari ekki frá félaginu.
Samt afar fróðlegt þetta tíst frá Daniel Taylor hjá Guardian í ofangreindi grein:
Very strange, and unusual, for Mourinho to bring Abramovich into it publicly. He’s up to something. No idea what. But felt pre-planned.
Þetta segir Taylor varðandi orðróminn um að Ancelotti hætti hjá Real og fari til Utd:
I’m in Madrid now and a lot of the journalists here (who are closer to it than me) think there’s a good chance he would
United rant er með 3 mjög góðar greinar.
Mæli hiklaust með þeim:
http://www.unitedrant.co.uk/latest/moyes-ignored-fergies-plan-and-it-cost-him-his-job/
http://www.unitedrant.co.uk/latest/the-new-man-has-much-to-do/
http://www.unitedrant.co.uk/latest/brutal-disrespectful-and-uniteds-only-choice/
gunso says
Í þessum pistli og eins í langa pistlinum um daginn þá finnst mér stórlega vanmetið hversu miklu máli æfingar skipta í því að viðhalda getustigi íþróttamanna, ekki hvað síst afreksíþróttamanna. Strax í september var orðið auðséð að hraði og snerpa leikmannanna hafði minnkað. Einnig var mótttaka á bolta orðin verri og það varð sífellt sjalgæfara að leikmenn stýrðu boltanum meðsér þegar þeir fengu sendingu… þeir þurftu alltaf að taka boltann beint á sig og síðan að gera eitthvað við hann. Skot á mark hafa orðið sjalgæfari að því að menn þurfa of langan tíma. Þessi mikla hrörnun verður seint skýrð með því að leikmenn hafi elst svona mikið á 3 mánuðum eða allt í einu misst áhugann.
Topp íþróttamenn þurfa topp þjálfun til þess að halda sér á toppnum…. Og það verður að vera gaman í vinnunni.
Ferguson var örugglega að velja mann sem hann hélt að gæti sest í stólinn sinn, þ.e. mann sem mundi sitja á skrifstofunni og stýra þeim sérfræðingum (þjálfara og læknaliði) sem kallinn hafði viðað að sér. Því miður kom í ljós að Moyes hafði ekki sjálfstraust í að stjórna þessum mönnum og tók í staðinn með sér óhæfan hóp frá Everton.
Strax í oktober mátti sjá fullyrðingar frá hollenskum sjúkraþjálfara að Persie mundi aldrei geta haldið heilsu við þær þjálfunaraðferðir sem Moyes og félagar beita. Allt liðið hefur virkað þungt og hægt, eins og um ofþjálfun væri að ræða… það hef helst verið þegar liðið hefur þurft að leika marga leiki á stuttum tíma (semsagt ekki verið tími fyrir miklar æfingar) sem örlað hefur á smá hraða og leikgleði.
Þetta var alltaf vonlaust dæmi! Maður vissi það fyrirfram og varð fullviss þegar Moyes rak þjálfarateymið.
með vissu um bjarta framtíð og þakkir fyrir frábæra síðu.
Gunnar
Tryggvi Páll says
Ég er alveg hjartanlega sammála þér, Gunso. Það er hinsvegar mjög erfitt að leggja mat á hvernig æfingarnar spila inn í þetta þar sem æfingarsvæðin hjá félögunum, sérstaklega United, eru nútíma virki þar sem enginn fer inn án þess að vera með leyfi. Maður veit í raun ekkert hvað gengur á inn á æfingarsvæðunum og því er erfitt að reikna með því þegar maður er að pæla í þessu. Ég kom aðeins inn æfingarnar hjá Moyes í þessum pistli enda var ýmislegt farið að leka út undir restina og æfingarnar líklega ein af stóru ástæðunum fyrir því að liðið undir stjórn Moyes náði sér aldrei á strik.
Helgi Edvard Gunnarsson says
Flottur pistill,
Það er bara eitt, ég vona það innilega að Man Utd sé bara að hugsa um van Gaal sem skammtímastjóra, verður í nokkur tímabil til að rétta úr kútnum á meðan stjórnin finnur yngri og graðari stjóra, vonandi Klopp eins og eflaust langflestir vilja. Gaal er orðinn 63 ára og talaði einmitt um það fyrr i vetur að honum langaði að taka við liði á Englandi áður en hann sest í helgan stein, ef hann myndi ekki taka við lið á Uk, þá ætlaði hann að flytja með konunni til Portúgal.
Ef Gaal væri 10-15 árum yngri myndi ég allan tímann vilja fá hann en hann er hreinlega orðinn of gamall og á ekki mikið eftir þannig hann er ekki að fara duga lengi. Hefði samt ekkert á móti því að fá hann í 2-3 tímabil og vinna upp alla titlana sem við misstum af í vetur áður en klopparinn tekur við ;)