Nú er rykið aðeins farið að falla til jarðar, en og helstu staðreyndir á bak við brottrekstur David Moyes að koma í ljós, þó að það bíði sjálfsævisagna komandi ára til að allt verði staðfest og rétt. Smá samantekt er því við hæfi.
Eftir tapið gegn Olympiakos í fyrri leiknum sagði ég „Ei meir, Dave“ og stökk á #MoyesOut vagninn. Nú er ljóst að það sama gerðu Glazerar. Eftir þann leik lögðu eigendurnir blessun sína yfir að reka mætti Moyes. Það var bara eitt smáatriði: Hann var með sex ára samning.og fimm ára starfslokagreiðsla er ekkert smá. En þar var ljós við enda ganganna: Það var „break-clause“, eins og það heitir á góðri bankamannaíslensku, í samningnum. Tækist United ekki að komast í Meistaradeildina. Moyes var því á dauðadeild tvo mánuði, á meðan eigendur og stjórn biðu, og vonuðu væntanlega líka, að hann klúðraði tímabilinu endanlega.
Um leið og það var frágengið, með Everton tapinu þá var allt ljóst og þá byrjum að greina frá aðeins óljósari atburðum. Red Issue stendur fast við það að Ryan Giggs hafi vitað strax á sunnudagskvöldið að hann yrði nýr bráðabirgðastjóri United og að það hafi Woodward sjálfur sem lak í mánudagshádeginu að Moyes yrði rekinn.
Manchester United hefur gefið út yfirlýsingu um að félagið líti ekki svo á að uppsögnin hafi verið gerð á óviðeigandi hátt. eftir að Félag framkvæmdastjóra gagnrýndi United formlega fyrir slíkt. Í yfirlýsingu Félags framkvæmdastjóra er auðvitað sérstaklega vitnað til þessara frétta sem settu allt á hliðina á mánudag. Þá birtu, svo til á sömu sekúndunni, allir helstu blaðamenn og fréttastofur fréttina „Moyes verður rekinn“. Síðan þá hafa menn verið að skjóta aðeins, aðallega þannig að blaðamenn hafa verið að hrósa þessum blaðamennum fyrir næmt fréttanef og góða blaðamennsku, í því samhengi að þetta séu sko engir bloggarar heldur menn að vinna vinnuna sína.
United staðhæfir þó að ákvörðun um brottrekstur hafi ekki verið tekin fyrr en á mánudagskvöld. Eitthvað hefur verið talað um pappírsvinnu í þessu sambandi, þeas að það hafi þurfti fundi og eitthvað fleira til að hægt væri að segja að ákvörðun hafi verið tekin (og þá fyrst mætti lögformlega segja Moyes frá) en lekinn virðist samt svo skelfilega viljandi. Það er ekki möguleiki að þarna hafi Rio Ferdinand verið að leka einhverju sem hann hleraði óvart á göngunum, sá sem lak hlýtur að hafa verið einhver af toppunum, og hver sem ástæðan er þá er þetta ekki sæmandi Manchester United. Meira að segja Sir Alex er sammála og í The Times í morgun er vitnað í hann að honum þyki umgjörð brottrekstrarins slæm.
Ég persónulega tek því fullkomlega undir að United hafi staðið verulega illa að brottrekstrinum. Slúðrið sem gekk á mánudeginum um að þetta hafi verið sett í gang til að fá Moyes til að segja upp til að þurfa ekki að borga upp samninginn virðist þó ekki rétt fyrst það var ekki nema ár sem þurfti að greiða. Hvað um það, þetta var svolítið skítlegt.
Aðeins að öðru. Eftir að Moyes er nú farinn eru sögurnar um stjóratíð hans og endalaus mistök að koma í röðum. Engum þarf að koma á óvart að Renè Meulensteen fannst Moyes vonlaus frá fyrsta fundi þeirra og öll plön Moyes vita gagnslaus. Einnig þau plön hans að taka með Everton mennina í stað þjálfaranna sem fyrir voru. Svo eru fréttirnar um óánægju leikmanna og hvernig þeir fengu að leika lausum hala. Aginn sem Sir Alex hafði haldið upp var horfinn og eins og skólakrakkar sem fá lélegan kennara varð allt viltlaust. Gott dæmi eru lekarnir um liðsuppstillinguna: Þar var ekki Rio á ferð heldur einhver ónefndur ungur leikmaður sem var að leka liðsuppstillingu í Mirror. Ekkert var gert til að siða þann til og ólíkt Sir Alex sem bannaði farsíma í búningsklefanum fyrir leik eftir svipað tilfelli fyrir nokkrum árum, þá gerði Moyes ekkert frekar í þessu.
Eins í leiknum herfilega gegn Olympiakos lenti Moyes saman við fjórða dómarann og heyrðist þá rödd af bekknum „Rekt’ann bara útaf, við verðum betri án hans“. Ef rétt er að það hafi verið Tom Cleverley þá hefur hann svo sem ekki leikið mikið meira á leiktíðinni, nema í smáleikjunum gegn Liverpool og City. Ha?
Þannig að nú vita menn hvað gerist þegar hópur af fótboltastrákum sem eru vanir heraga fá að leika lausum hala undir stjórn manns sem skilar ekki þeim árangri sem gæti fengið þá til að virða hann. Lokaniðurstaðan úr þessu er sú að eigendurnir hafa lofað að vandræðagemsarnir fá að fjúka í sumar. Gerum þá ráð fyrir að Rooney sé ekki vandræðagemsi…
Elías Kristjánsson says
Lýsing atburðarásar góða. Athyglisvert gæti framhaldið orðið.
Emil says
Mín skoðun er sú að stærstu mistök Moyes voru að selja ekki Rooney!!!
Auðunn Sigurðsson says
Persónulega finnst mér allt allt allt of mikið gert úr þessum brottrekstri sérstaklega í ljósi þess að annað var ekki í stöðunni ef vilji var til að halda klúbbnum á floti.
Við höfum séð stórlið Evrópu og víðar reka þjálfara hægri vinstri undanfarin ár og áratugi, svo gerir United það einu sinni á tæpum 30 árum og allt verður vitlaust!
Hvað eru menn að reyna að segja? Að United kunni ekki að reka þjálfara? Það er reyndar nefnilega bara málið og allt í góðu með það enda er það svo sjaldgjæft á Old Trafford.
Þessi brottrekstur fer mikið í taugarnar á stuðningsmönnum annara liða, þeir virðast eiga erfitt með að þola það að United hafi sagt þessum trúð upp.
Það eru allt of margir að reyna að giska á einhverja atburðarás sem þegar upp er staðið er eitthvað sem skiptir nákvæmlega ekki nokkru einasta máli.
Það sem máli skiptir er að Moyes er loksins farinn (hann hefði þurft að fara fyrr) og menn eru bjartsýnni í dag en fyrir viku síðan, stuðningsmenn hafa lang flestir tekið gleði sína á ný og bíða núna spenntir eftir því hver tekur við og svo hvað liðið gerir í sumar, það eru spennandi og góðir tímar framundan..