Sem betur fer er þetta hrikalega tímabili lokið. Síðasti leikurinn endaði í jafntefli 1-1, gegn Southampton. United-liðið endar því í 7.sæti með færri stig en liðið hefur nokkurn tíman fengið í sögu úrvalsdeildarinnar. Ryan Giggs stýrði liðinu í síðasta skipti (í bili) og uppstillingin var eftirfarandi
United
De Gea
Smalling Vidic Rio Evra
Fletcher Kagawa
Januzaj Mata Welbeck
RVP
Bekkur: Amos, Carrick, Cleverley, Lawrence, Young, Valencia, Hernandez
Southampton
Boruc
Clyne Fonte Lovren Shaw
Wanayama Davis
Cork Scheiderlin
Lallana
Lambert
Bekkur: Gazzaniga, Ward-Prowse, Guly, Chambers, Hooiveld, Reed, Gallagher.
Það var afskaplega erfitt fyrir United-menn að brjóta upp þennan miðjupakka hjá Southampton. Þeir stilltu upp 5 miðjumönnum á miðjuna og létu bakverðina Clyne og Shaw sjá um að hlaupa upp og niður kantana. Það var mikið pláss á köntunum en með menn eins og Kagawa og Mata í liðinu sem vilja spila boltanum á miðjunni fóru sóknartilburðir United eingöngu í gegnum miðju vallarins. Það var einfalt fyrir Southampton að stoppa það. Í þau örfáu skipti sem United reyndi að fara upp kantana komst liðið í ágæta stöður sóknarlega en það var mjög fátítt. Þetta var eiginlega algjör andstæða við sóknarleik liðsins undir David Moyes þar sem allt snerist um að fara upp kantana.
Southampton-menn stjórnuðu leiknum í fyrri hálfleik og uppskáru mark um miðjan hálfleikinn sem hefði reyndar aldrei átt að standa. Rickie Lambert olnbogaði Nemanja Vidic í drasl í skallaeinvígi. Vidix lá eftir alblóðugur og óvígur. Lambert fékk boltann einn á móti markmanni og kláraði örugglega. Slök dómgæsla hjá Mike Dean sem átti afskaplega dapran leik fyrir bæði lið. Þetta var að vísu fyllilega verðskuldað mark hjá Southampton. Lallana, Lambert og Shaw voru líklega að spila sig endanlega inn á HM í Brasilíu með Hodgson í stúkunni.
Nah, never a freekick that ref. Or a head injury. Smart. pic.twitter.com/cjF6Up2qYm
— Scott (@R_o_M) May 11, 2014
Vidic og allt United-liðið varð alveg brjálað við það að markið fengi að standa og það lifnaði aðeins yfir United-liðinu eftir markið og liðið kláraði fyrri hálfleikinn mun betur en liðið byrjaði hann í það minnsta. Í seinni hálfleik mætti annað lið til leiks. Liðið setti mun meiri pressu á Southampton og uppskárum við mark á 54. mínútu. Juan Mata skoraði eitt af mörkum tímabilsins, beint úr aukaspyrnu, nema hvað. Gjörsamlega frábært mark.
Ekki hægt að segja annað en að Mata sé einn af örfáum ljósu punktum þessa tímabils. #Djöflarnir
— Rauðu djöflarnir (@raududjoflarnir) May 11, 2014
Eftir markið jafnaðist þetta aftur út, það var nánast eins og bæði lið væru sátt við jafnteflið. Það gerðist afskaplega lítið merkilegt það sem eftir var leiks og 1-1 sanngjörn niðurstaða þessa leiks. Lokastaða í deildinni er því eftirfarandi:
Við gerðum okkur grein fyrir því að að þetta yrði erfitt án Sir Alex en ef einhver hefði sagt mér að þetta myndi enda svona hefði ég sagt viðkomandi að hann væri geðveikur.
Að mörgu leyti var þetta endir á ákveðnu tímabili í sögu félagsins. Eftir þetta tímabil er félagið endanlega búið að segja skilið við Sir Alex Ferguson tímabilið. Á næsta tímabili mun Manchester United ekki taka þátt í Evrópukeppni í fyrsta skipti í aldarfjórðung. David Moyes reyndi að fleyta sér áfram á Sir Alex Ferguson öldunni með engum árangri. Sú alda hefur fjarað út. Á næsta tímabili munu margir af helstu máttarstólpum liðsins undir stjórn Ferguson halda á nýjar slóðir. Nemanja Vidic fer. Ryan Giggs mun líklegast hætta ásamt Rio Ferdinand og Patrice Evra. Næsti stjóri mun á næstu 2-3 árum skapa nýtt lið, lið sem er ekki byggt á leikmönnum sem Sir Alex Ferguson ól upp. Hann mun skapa sitt lið, nýtt Manchester United. Stundum þarf nefnilega að rífa niður til þess að byggja upp. Það er verkefnið fyrir næsta stjóra Manchester United.
Við kveðjum því þessar miklu hetjur í sögu Manchester United. Þá félaga Rio Ferdinand og Nemanja Vidic, eitthvað allra besta, ekki það besta, miðvarðapar sem spilað hefur í þessari deild.
Við kveðjum líklega Patrice Evra, þann frábæra leikmann sem hefur átt vinstri bakvarðarstöðu United síðustu árin. Á hátindi ferli síns var hann besti vinstri bakvörður í heiminum, ótrúlegur varnarlega og frábær sóknarlega, ekki nóg með það, hann spilaði nánast hvern einasta leik liðsins.
Síðast en ekki síst munum við líklega ekki sjá þennan snilling leika listir sínar í hinni rauðu United-treyju á ný. Við förum betur yfir það í sérstakri grein síðar. Takk fyrir allt, Sir Ryan Giggs.
Og þar með er þessu afleita tímabili lokið. Liðið brotlenti á tímabilinu á fyrsta tímabilinu eftir lok stjóratíðar Sir Alex Ferguson. Við förum betur yfir þetta járnbrautarslys í sérstakri uppgjörsgrein sem birtist á næstu dögum.
Gunnþór Sig says
það kemur annað tímabil á eftir þessu sem betur fer……,en takk fyrir frábæra síðu og vonandi nær maður að fylgjast með gangi mála hérna i sumar,áfram Man Utd.
Hjörtur says
Já það er sko ekki hægt að segja annað en að afleitt hafi tímabilið verið hjá okkar mönnum, eða réttar sagt að það hafi verið hrein hörmung, og vonandi fáum við aldrei að líta svona tímabil aftur. Nú þarf bara góðan og kraftmikinn stjóra (með Giggs sem aðstoðarmann) sem laðar að góða leikmenn, þannig að liðið komist á réttu brautina á næsta tímabili. Það er ekki hægt að láta það viðgangast að við dólum í þetta 5-6 eða 7unda sæti næstu ár, eins og þeir rauðu frá bítlaborgini eru búnir að verma síðustu ár. Nei og aftur nei því þarf að snúa við á næstu leiktíð 1-4 sæti er krafan. Góðar stundir og takk fyrir veturinn.
Atli says
Ömurlegt tímabil en vill þakka ritstjórn hér fyrir ávalt fagleg og metnađargjörn vinnubrögđ í leikskýrslum og pistlum þótt ađ móti blási hjá liđinu og neikvæđni í stuđningsmönnum. Hlakkar til ađ fylgjast međ ykkur í sumar og á komandi tímabili, takk fyrir mig og keep up the good work! :)
siggi utd maður says
ég verð bara að viðurkenna að ég hef haft lúmskt gaman af þessu öllu í vetur. Fá aðeins að tuða og væla, og sjá hvernig öðrum stuðningsmönnum hefur oft liðið undanfarin 24 ár. Manchester United er eina liðið sem ég held með, og ég hafði aldrei lent í því að vera með annan manager en Fergie. Að sjá Moyes rekinn eftir vonlaust gengi, veitti mér ánægju. Og að fá að spekúlera hver verður næstur gerði það líka.
Að því sögðu þá er þetta að sjálfssögðu eitthvað sem maður vill ekki sjá mikið oftar. En gaman að fá að prófa. Við munum njóta þess enn meira þegar og ef við vinnum næst Premier League. Ég ætla að leyfa mér að halda að við verðum pottþétt í top3 á næsta ári.
siggi utd maður says
Og ef einhver hefur ekki séð þetta, þá er þetta og hvernig Dortmund spilar ástæðan fyrir því að ég vil þennan mann til að stýra framtíð Manchester United.
https://www.youtube.com/watch?v=fgpc3QeKR30
Elvar says
Takk fyrir skrifin í vetur strákar, flottar leikskýrslur alltaf hjá ykkur :)
Vonandi verður næsta tímabil betra(það er alltaf næsta tímabil).
Kristján Birnir Ívansson says
Óhætt að segja að hápunktur tímabilsins 2013-14 var þegar David Moyes var rekinn.
siggi utd maður says
Vil endilega fara að fá nýjan pistil hérna inn, transfer speculation, hver verður nýji managerinn, viðtalið hans Vidic, farvel Rio, af nógu er að taka, koma guys maður kíkir hérna inn á hverjum degi, það þarf að halda þessu fersku.
Björn Friðgeir says
@ siggi utd maður:
Rétt, rétt. Uppgjörið er á leiðinni sem og kveðjugreinar Vidic og Rio!
Nýr stjóri verður auðvitað Van Gaal, líklega kemur ekkert meira um það fyrr en við fáum *staðfest* greinina.
Bendi á að kíkja á slúðursíðuna líka af og til: http://www.raududjoflarnir.is/sludur/ Við uppfærum hana alltaf þegar eitthvað meira en CaughtOffside slúður kemur og þá án þess að benda sérstaklega á það af forsíðunni. Við deilum líka alltaf góðum linkum á https://www.facebook.com/raududjoflarnir og https://twitter.com/raududjoflarnir
Byrjum samt á því að gefa ykkur smá linkalestur með morgunkaffinu núna!
http://www.raududjoflarnir.is/2014/05/14/med-morgunkaffinu/