Þá er komið að því sem allir hafa beðið eftir, uppgjör Rauðu Djöflanna fyrir tímabilið 2013/2014.
Hver er ykkar skoðun á frammistöðu United á þessu tímabili?
Tryggvi
Frammistaða félagsins á þessu tímabili var afleit frá A-Ö. Allt frá sumrinu 2013 til vorsins 2014. Það var ljóst að þegar snilli Sir Alex Ferguson nyti ekki lengur við þyrfti að fjárfesta verulega í nýjum leikmönnum. Það gerðist ekkert nema það að Moyes og Woodward keyptu Fellaini á örvæntingarfullan hátt korter fyrir lokun á sjoppunni. Sumrið setti bara tóninn fyrir tímabilið sjálft sem gekk ekki vel, vægast sagt Liðið endar í 7. sæti með lélegustu titilvörn í sögu deildarinnar frá því að Blackburn gerði það sama árið 1996. Það er ekki boðlegt og það er afar fáir sem geta stigið frá þessu tímabili og verið ánægðir með sjálfan sig. Það er ekki bara hægt að enda fingrum á Moyes, leikmennirnir verða að taka sinn skerf af sökinni. Eftir allt saman er þetta sama lið og rúllaði upp deildinni tímabilið áður. Þeir tóku Moyes aldrei í sátt og ef þeir hefðu kannski lagt sig aðeins meira fram um að hjálpa Moyes væri liðið ekki í þessari stöðu. Á móti kemur að kannski var það bara jákvætt. Við erum laus við Moyes, sem var líklega aldrei að fara gera neitt með þetta félag.
Magnús
Nýr stjóri kemur inn og hreinsar út þjálfaraliðið sem var með því besta á Englandi og setur inn sitt lið svo tekur nýr og óreyndur Chief-Executive við af hinum þaulreynda David Gill. Svo eru öll met liðsins í að tapa fyrir hinum og þessum liðum slegin og nálgunin á alltof marga leiki neikvæð og talaði Moyes eins og Manchester United sem underdogs sama hvort sem það var gegn Liverpool eða Newcastle. Svo var átakanlegt að sjá hrun á formi margra leikmanna og þá sérstaklega Rio Ferdinand og Michael Carrick. Tveir leikmenn eru keyptir, Marouane Fellaini og Juan Mata. Fellaini var aldrei að fara að standa undir verðinu sem er hlægilegt miðað við takmarkað getu. Juan Mata er leikmaður sem ég hef verið frekar hrifinn af síðan hann lék með Valencia á Spáni og hann mun verða frábær fyrir okkur þegar við höfum stjóra sem kann að nota hann. Stóri gallinn við tímabilið var að stjórinn og leikmenn voru aldrei á sömu blaðsíðunni og sennilega ekki sama bókasafninu.
Bjössi
Skelfileg frammistaða. Það eru auðvitað margar ástæður fyrir því eins og við erum búnir að vera að velta okkur uppúr í vetur, en nr. 1 er að David Moyes réði ekki við starfið. Aukaástæða var að leikmenn treystu ekki David Moyes og leikskipulagi hans nógu vel til að leggja sig alla fram til að framfylgja því.
Ellioman
Tryggvi eiginlega sagði allt sem segja þarf um þetta tímabil. Alveg skelfilegt frá fyrstu mínútu þó maður hafi verið í afneitun í langan tíma. Veltið þessu fyrir ykkur: Geti þið nefnt 3 leiki á þessu tímabili þar sem ykkur fannst gaman að horfa á liðið spila? Ég get það ekki enda var ekkert sérlega skemmtilegt að sjá um leikskýrslurnar á þessu tímabili eins og sést ef þið rennið yfir þær hérna á blogginu. Ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta annað en að hlutirnir hljóta að fara batna núna. Fyrir áhugasama, þá eru hér vídeó af Gary Neville, Jamie Redknapp, Graeme Souness og Jamie Carragher að ræða um Moyes og tímabilið hjá United (takið eftir löngu pásunni hjá Neville í byrjun).
Sigurjón
Jesús minn, það er varla hægt að koma orðum að því hvað liðið var lélegt í vetur. Frá því dómarinn flautaði til leiksloka í 5-5 jafnteflinu gegn WBA í maí 2013 hefur Manchester United verið með eindæmum flatur klúbbur, allt frá stjórnarmönnum til leikmanna. Starfsmannamál og leikmannakaup voru í algjöru rugli allt sumarið, svo þegar tímabilið byrjaði sá maður að leikskipulag og spilamennska leikmanna reyndist síðan á sama leveli. Eftir slakan september fékk maður ágætis kafla í október og nóvember, en síðan eftir það var þetta bara endalaust “eitt skref áfram, tvö skref afturábak” fótbolti.
Eru þið sammála stjórn United að reka Moyes eftir einungis 10 mánuði?
Tryggvi
Já, það er ekki hægt annað en að vera sammála því. Auðvitað vill maður að stjórar fái tækifæri en það var bara svo augljóst að þetta var ekki að virka. Eftir áramót tók liðið svo mörg skref afturábak að þetta var óumflýjanlegt. Moyes náði aldrei að setja mark sitt á neitt og hann var alltof lítið númer til þess að fylla skarð Sir Alex Ferguson. Hvaða stjóri Manchester United segir að Liverpool sé sigurstranglegra liðið? Hvaða stjóri Manchester United segir að markmiðið sé að verða eins og Manchester City? Hvaða stjóri Manchester United lætur liðið eingöngu æfa varnarleik? Hann bara skildi þetta ekki og sem betur fer er hann farinn áður en að skaðinn varð meiri. Það hefði einfaldlega verið stórslys og stórhættulegt fyrir framtíð félagsins ef hann hefði fengið að kaupa leikmenn í sumar og halda áfram næsta tímabil.
Magnús
Það hefur mikið verið talað um að margt hafi verið að og David Moyes hafi bara verið hluti af því. Reynsluleysi Edward Woodward hafi einnig séð til þess að stjórinn fékk enga af þeim leikmönnum sem hann vildi (og vantaði) mest. Ég vil meina að Moyes beri mjög mikla ábyrgð og þá fyrst og fremst vegna glórulausra þjálfaraskipta og breytinga á þjáfunaraðferðum. Svo talaði hann alltaf eins og hann væri ennþá að stjórna Everton eða Preston North End. Manchester United var einfaldlega allaf of stór biti fyrir skotann. Þetta var algjörlega hárrétt ákvörðun sem líklega var búið að taka töluvert fyrr en líklega átti hann að fá sjensinn til að koma liðinu í Meistaradeild Evrópu. Moyes náði aldrei til leikmanna sem botnuðu ekkert í stjóranum og fyrir mitt leyti er ég feginn að hann sé ekki maðurinn sem mun endurbyggja liðið og versla inn leikmenn fyrir 200 milljónir punda.
Bjössi
Ha?
Ellioman
Já. Ömurlegt að skrifa það, en já. Ég ætlaði svo að vera stuðningsmaður númer eitt hjá Moyes þegar hann var ráðinn en þessa síðustu mánuði var það orðið bersýnilega ljóst að hann var einfaldlega ekki að ráða við starfið. Þetta var áhætta hjá United og hún borgaði sig ekki. Onwards and upwards, eins og þeir segja á enskunni.
Sigurjón
Engin spurning. Ég persónulega gafst upp eftir 5 mánuði, en mér fannst það aðdáunarvert að United skyldi þó leyfa Moyes að hanga alveg þangað til ALLIR möguleikar voru úr sögunni. Ég þekki nokkra sem sáu þetta fyrir um leið og Moyes var ráðinn sem stjóri. Ég var duglegur að taka upp hanskann fyrir hann á þeim tíma en eftir að tímabilið byrjaði fóru að renna á mig tvær grímur. Ekki bara var liðið að spila hrikalega lélegan fótbolta, heldur virkaði Moyes líka rosalega bitlaus á hliðarlínunni, svo ekki sé talað um súrealísk sjónvarpviðtöl eftir leiki. Það var bara ekkert sem benti til þess að hann væri starfi sínu vaxinn, nákvæmlega ekki eitt atriði. Hefði hann sýnt smá geðveiki og “United sigurvilja”, þá kannski hefði maður gefið honum aðeins meiri séns.
Hvað þarf stjórnin að gera til að koma United aftur í toppbaráttuna?
Tryggvi
Stjórnin virðist vera að taka fyrsta skrefið í rétta átt sem er það að ráða stjóra sem er með nógu góða ferilskrá og nógu stórt egó til þess að ráða við verkefnið. Auðvitað hefði verið ótrúlega mikið ævintýri að láta Giggs fá starfið en viljum við að félagið taki þá áhættu á þessu stigi málsins? Nei. Næsta skref verður svo að láta síðasta sumar ekki endurtaka sig. Ég held að liðið þurfi ekkert endilega að kaupa 10 nýja leikmenn eða eyða 200 milljónum eins og sumir miðlar halda fram. Við verðum ekki í Evrópukeppni á næsta ári og því er ekkert endilega gott að vera með of stóran hóp. Ég vil sjá stjórnina tryggja liðinu 3-5 gæðaleikmenn og ég vil sjá það gerast sem fyrst svo að nýr stjóri geti hafið störf á undirbúningstímabilinu með þá leikmenn sem munu koma til með að spila með félaginu á næstu leiktíð.
Magnús
Louis van Gaal virðist vera svo gott sem búinn að taka við sjoppunni og þar erum við komin með heimsklassa stjóra sem mun ekki taka það í mál að leikmenn séu með einhverja stæla og það er vel. En betra er að það lítur út fyrir að Giggs verði hans aðstoðarmaður og er það einnig vel. Svo þarf að fjárfesta í lykilstöðum og þá meina ég svona 4-5 leikmenn sem geta labbað beint í byrjunarliðið. Svo hjálpar að vera ekki í Evrópudeildinni upp á að losna við ansi marga farþega og það er sjálfsagt betra að það sé ekki Giggs sum þurfi að standa í því.
Bjössi
Stjóri. Veski.
Louis van Gaal verður stjórinn og eftir að hafa verið mjög skeptískur fyrst þegar hann bar á góma er ég kominn á þá skoðun að hann sé langbesti kosturinn sem býðst. Þannig það virðist í lagi.
Við þurfum vinstri bakvörð, a.m.k einn haffsent, tvo miðjumenn og svo helst kantmann. Og það þarf að ganga frá þeim flestum fyrir HM.
Ellioman
Stjóra með pung og róttæka endurstokkun á mannskapnum. Það er bara svo einfalt. Ég er kominn á þá skoðun að Louis Van Gaal sé réttur stjóri á þessum tímapunkti (Ekki taka mikið mark á því þar sem ég náði að sannfæra sjálfan mig um að Moyes væri réttur stjóri fyrir United áður en tímabilið hófst) og með réttum leikmannakaupum (lesist, topp leikmenn!) verður liðið komið aftur í toppbaráttuna fljótt. Van Gaal mun ekki láta neinar stórstjörnur hafa áhrif á sig og gerir hlutina eins og honum sýnist sem hefur oftar en ekki skilað sínum liðum titlum og flottri spilamennsku.
Það þarf að kaupa leikmenn sem þurfa lítinn sem engan tíma til að stimpla sig inn í liðið og er vörnin og miðjan (eins og svo oft áður) lykilsvæðin sem þarf að styrkja. Mörg nöfn hafa verið nefnd undanfarið og hef ég verið sáttur við mörg þeirra. Verður fróðlegt að sjá hvort við fáum alvöru leikmannakaup í stað ruglsins sem átti sér stað síðasta sumar.
Einnig væri nú gott ef stjórnin myndi losa sig við Ed Woodward. Hans frammistaða hvað varðar leikmannakaup síðasta sumar, brottrekstur Moyes og svo núna Rio Ferdinand er ekki stórliði sæmandi. Langt því frá.
Sigurjón
Sama og allir United aðdáendur hafa talað um; stjóra sem leikmenn bera virðingu fyrir (aka hræðast!) og pening til að kaupa 3-5 HEIMSKLASSA leikmenn. Louis Van Gaal er næsti stjóri United og það héld ég að sé bara gott mál, hann virðist hafa geðveikina til að keyra þessa menn áfram og láta liðið spila skemmtilegan fótbolta. Núna er bara að sjá hvað gerist í leikmannamálunum í sumar.
Hvaða leikmenn eru líklegir til að yfirgefa United?
Tryggvi
Rio Ferdinand er farinn og Patrice Evra er líklegur. Væri þó til í að halda Evra í eitt tímabil með því skilyrði að liðið kaupi Luke Shaw. Nani og Ashley Young gætu líka farið. Javier Hernandez er líka líklegur til þess að fara, hann spilar frekar takmarkað hjá United og það kæmi mér ekki á óvart ef hann vildi fá tækifæri til þess að vera byrjunarliðsmaður einhverstaðar annarstaðar. Aðrir verða líklega áfram.
Magnús
Patrice Evra, Javier Hernandez, Nani og Ashley Young. Rio Ferdinand er farinn eftir að hafa runnið út á samning og leiðinlegt að það hafi gerst á þennan hátt upp á að kveðja stuðningsmenn og allt það. Svo eru hreinlega leikmenn sem ættu að fara. Alexander Büttner, Marouane Fellaini og Tom Cleverley fyrir utan Bébé og Macheda sem virðast hreinlega bara að klára samninginn sem lánsmenn hér og þar.
Bjössi
Evra og Rio. Nani virðist til sölu. Aðrir fara ekki nema við fáum sérlega góð boð. T.d. túkall fyrir Ashley Young. Og þó. Ætli Hernandez fái ekki að fara fyrir meðalpening.
Ellioman
Við vitum núna að Vidic og Ferdinand eru farnir frá liðinu. Satt að segja held ég að United muni í sumar losa sig við Anderson, Nani, Chicharito, Young, Macheda og hinn æðislega Bebe. Einnig gæti ég séð fyrir mér United losa sig við Zaha miðað við fregnir um lélegt attitúd og stjörnustæla (ala Ravel Morrison).
Á sama tíma finnst mér líklegt að það verði reynt að halda í Evra, í amk eitt ár í viðbót, svo Shaw (sem ég geri ráð fyrir að United kaupi) hafi hann mentor. Ég væri mjög sáttur við það, flott leið til að láta Shaw taka við keflinu.
Sigurjón
Rio og Vidic eru farnir og síðan virðist Evra vera á leiðinni út líka. Að nefna einhverja aðra á þessum tímapunkti væri í raun bara óskhyggja. Ég hef sagt að leikmenn eins og Young, Valencia, Büttner og Cleverley eru ekki á United leveli, ef þeir vilja hinsvegar hanga á bekknum og koma inn í deildarbikarnum, þá er það í lagi mín vegna. Menn tala um að Hernandez fari kannski, ég vona svo sannarlega ekki, persónulega væri ég frekar til í að halda honum en til dæmis Danny Welbeck (ég veit, er líklega réttdræpur núna af ritstjórnarmeðlimum fyrir að tala um möguleikann á að selja Welbeck) [Innskot ritstjórnar: Það er rétt hjá þér!] [Innskot ritstjórnar 2: Svona tala bara menn sem búa í útlöndum og eru ekkert að plana heimsóknir í sumar]
Besti leikurinn?
Tryggvi
Besti leikurinn var 0-5 sigurleikurinn gegn Leverkusen í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það var eini leikurinn undir stjórn Moyes þar sem liðið spilaði glimrandi góðan sóknarbolta. Frábær frammistaða hjá liðinu og ef Moyes hefði getað töfrað fram fleiri slíkar frammistöður væri hann ennþá knattspyrnustjóri Manchester United.
Magnús
Heimaleikurinn gegn Norwich. Það var svo mikil stemming fyrir leiknum og fólk hlakkaði til að sjá United spila í fyrsta sinn í langan tíma. Ryan Giggs virtist vita hvað vantaði og seinni hálfleikurinn í þessum leik minnti á United undir Ferguson. Ég veit að andstæðingurinn var engan veginn í sama klassa en það birtist þarna hungur og drápseðli sem hafði svo sárlega vantað í vetur.
Bjössi
Þessar 20 sekúndur eða hvað það nú var eftir að Evra skoraði í München.
Ellioman
Uhmmm….uhummm….uuuu….hmmm…. segjum bara United gegn Wigan í leiknum um Góðgerðarskjöldinn.
Sigurjón
1-0 sigurinn gegn Arsenal í nóvember. Það var EINA skiptið í vetur þar sem ég hélt að United ætlaði sér kannski að berjast um titilinn. Baráttuandinn í liðinu og stemningin á Old Trafford var á pari við bestu leikina undir stjórn Ferguson. Ég var virkilega spenntur í tvær vikur eftir þennan leik, eða þangað til United gerði jafntefli við Crystal Palace í næsta leik.
Helstu vonbrigði þessa tímabils?
Tryggvi
David Moyes. Ég hélt að hann myndi átta sig á því að hann væri að stjórna risastóru knattspyrnufélagi þar sem allt snýst um að vinna. Hann virðist aldrei hafa fattað að Manchester United er ekki Everton og aldrei hafa skilið það að aðferðir sem skila manni ágætum árangri virka hjá miðlungsliði skila ekki ágætum árangri hjá stórliði. Það er ekki til neitt sem heitir ágætur árangur hjá Manchester United. Það eru titlar eða dauði.
Magnús
Deildin, FA bikarinn, Deildarbikarinn. Michael Carrick. Hugmyndasnauð spilamennska. David F***in Moyes. Marouane Fellaini. Að missa Nemanja Vidic. Að Giggs hafi ekki skorað í deildinni. Sumarfélagaskiptaglugginn.
Bjössi
Að Ryan Giggs skyldi ekki skora mark í deildinni
Ellioman
Einfalt: Moyes og spilamennska liðsins. Ég bjóst ekki við titlum í ár en ég bjóst ekki við svona svakalegu hruni á þessum 10 mánuðum sem Moyes stjórnaði liðinu. Phooey, Indeed, Phooey!
Sigurjón
Haha, allt, frá A til Ö. Ætla þó að nefna tvö atriði; Að David Moyes réði ekki við starfið og að United skyldi oft á tíðum spila einn ömurlegasta fótbolta sem ég hef nokkurn tímann séð spilaðan.
Hvaða leikmaður sýndi mestu framfarir?
Tryggvi
Adnan Januzaj hlýtur að fá þessi verðlaun. Sprakk gjörsamlega út á sínu fyrsta tímabili í aðalliðinu og kom öllum verulega á óvart. Ef hann verður rétt meðhöndlaður gætum við verið að sjá næstu stjórstjörnu Old Trafford um ókomin ár.
Magnús
Adnan Januzaj og James Wilson virðist vera frábært efni. Svo var Nick Powell að gera frábæri hluti hjá Wigan framundan vetri.
Bjössi
James Wilson.
Ellioman
Það eru bara tveir sem koma til greina hérna að mínu mati, Januzaj og Wilson. Þar sem Januzaj hefur verið að blómstra í úrvalsdeildinni, ætla ég að velja hann. Pælið í því að drengurinn var einn af bestu leikmönnum liðsins á þessu tímabili og hann er bara nítján ára! Hann á eftir að vera súperstjarna. Tröst mí onn þiss!
Sigurjón
Adnan Januzaj, það er í raun ekki hægt að nefna neinn annan. Jújú, við getum talað um James Wilson en hann spilaði bara 1 leik þar sem ekkert var í húfi, Januzaj aftur á móti dróg vagninn á tímabili í haust og svo er hann að fara að spila á HM í sumar. Má ég minna ykkur á að drengurinn er 19 ára.
Hver var besti leikmaður United?
Tryggvi
David de Gea. Hann var einfaldlega sá leikmaður sem spilaði best yfir allt tímabilið. Bjargaði okkur oft á tíðum og hefur vaxið gríðarlega frá því sínu fyrsta tímabili. Hann á bara eftir að verða betri.
Magnús
David de Gea er klárlega eini maðurinn sem kemur frá þessu tímabili óskaddaður. Enginn annar leikmaður var nógu stabíll til að eiga sjens í þessa nafnbót.
Bjössi
David de Gea var eini maðurinn sem spilaði allt tímabilið af fullri og frábærri getu
Ellioman
Þrír leikmenn sem koma til greina hérna, De Gea, Rooney og Januzaj. Samt er þetta auðvelt val þar sem De Gea er búinn að vera einfaldlega langbesti leikmaður United allt tímabilið og skákar hinum nokkuð auðveldlega þrátt fyrir frábærar frammistöður frá Januzaj og þessum nítján mörkum og sautján stoðsendingum frá Rooney á þessu tímabili.
Til að fagna vali mínu þá er hér er vídeó sem sýnir snilli De Gea á þessu tímabili
Sigurjón
Einfalt svar: David de Gea
Draumasumarið?
Tryggvi
Shaw, Carvalho, Reus, Kroos og einhver solid miðvörður, allt klappað og klárt fyrir 15-20. júlí.
Magnús
Mats Hummels, Luke Shaw, Toni Kroos, Marco Reus, William Carvalho, selja Fellaini og Young. Síðan er vonandi að James Wilson og Tom Lawrence fái sjensinn.
Bjössi
Shaw, Carvalho, Kroos, Xavi, einhver solid miðvörður og Cameron Diaz býður mér á úrslitaleikinn í HM.
Ellioman
Kroos, KROos, KROOOOOOOOS! Carvalho, Shaw og amk einn góðan miðvörð. Reus ofan á það myndi flokkast sem Inception-draumasumar.
Sigurjón
Heimsklassa miðvörð, hægri og vinstri bakvörð, og svo Kroos og Reus. Ekkert mál haaa??
Markmið næsta tímabils?
Tryggvi
Fyrsta markmið er að komast aftur í Meistaradeildina, næsta markmið er að endurheimta titilinn. Einnig vil ég sjá liðið gera harða atlögu að deildarbikarnum og FA-bikarnum, sérstaklega þar sem liðið spilar í engri Evrópukeppni. Það er glæpsamlega langt síðan félagið vann FA-bikarinn.
Magnús
Líklega verður talað um meistaradeildarsæti en við vitum öll að stefnan verður tekinn á að vinna bikarinn okkar aftur frá háværu nágrönnunum. Svo væri það glimrandi snilld að vinna bikarinn aftur. Höfum ekki unnið hann frá árinu 2004. Þannig að tvennan og jafnvel Domestic Treble (deild og báðir bikarar.)
Bjössi
Markmið er tvennan. Klárlega.
Ásættanlegt: 2. sæti og bikarinn.
Ellioman
Spila aftur eins og Manchester United, vinna deildina og á sama tíma komast aftur í Meistaradeildina! Allt annað er bónus.
Sigurjón
Finna eldmóðinn og sigurviljan aftur, spila blússandi sóknarbolta og sjá til þess að Old Trafford verið aftur sú ljónagryfja sem hann hefur alltaf verið. Gangi það eftir þá kemst liðið klárlega aftur í Meistaradeildina á næsta ári, og hver veit, kannski skilar það líka einhverjum dollum.
Sindri Sigurjónsson says
Skemmtileg samantekt, verður áhugavert að sjá hvað gerist í sumar
Bjarni says
Nú talar Woodward um að verið sé að ganga frá kaupum á nokkrum leikmönnum, vonandi talar hann ekki með r…gatinu eins og algengur frasi er í dag. Treysti Gaal til að leysa vandamál innan vallar sem utan þó svo hann hafi stundum tekið rangar ákvarðanir í gegnum árin. Ef leikmenn nenna ekki að hysja upp um sig buxurnar fyrir þennan mann þá mega þeir fara og þeir munu fara, það er ljóst. ENGINN er stærri en félagið, heyrðist oft hjá Ferguson og vil ég fá þá hugsun aftur inn þó það kosti svita og tár. Framtíðin liggur í ungu leikmönnunum og nýjum leikmönnum sem hafa hungur til að ná árangri. GGMU
Elvar says
Flitter pistill. Vill halda Evra ef við fáum Shaw, hef heyrt að Evra sé góður í klefanum og erum að missa bæði Rio og Vidic.
Virkilega ósáttur með Woodward er svekktur yfir að rio hafi ekki fengið að kveðja almennilega eftir 12 ár hjá félaginu.
Finnst allir segja að við þurfum 6-7 leikmenn en ég er sammála Tryggva þurfum 3-4 góða. Miðjan finnst þér lang mesta vesenið. Kroos væri draumur, er hræddur við þessi Carvahlo kaup hann er búin að eiga eitt gott tímabil í portúgal þar sem fyrrnefndur Bebe er einnig að gera góða hluti. Talað hefur líka verið um Strootman en ég er spenntur fyrir því.
Ég er spenntur að fá fleiri úr akademíunni upp wilson og lawrence eru búnir að spila sinn fyrsta leik. Pereira og Janko finnast mér spennandi kostir. Janko virðist allaveganna vera með líkamsbygginguna í úrvalsdeildina minnir frekar á A Valencia.
Þeir sem mega fara mín vegna: græt ekkert af okkar miðjumönnum þ.e carrick,fletcher,clev og fella geri mér samt fulla grein fyrir að þeir fara ekki allir,
Young, Nani, Hernandes mega einnig fara.
Welbeck á klárlega að vera áfram vanmetnasti leikmaður United að mínu mati. Fínn varnarmaður, hraði, tækni , góður að halda bolta. Hann byrjar að nýta færin sín ef hann fær stöðugleika gleymum því ekki að hann var maðurinn sem sá um að skora í fjarveru persie og rooney. Þegar þeir eru ekki meiddir skorar hann kannski ekki mikið en hann gerir margt annað. Var lang mesti maður united í fyrri leiknum á móti Bayern og þrátt fyrir klúðrið einn á móti Neuer skoraði hann stórkostlegt mark sem var óréttilega dæmt af.
Sigurjón Arthur says
Sammála flest öllu sem fram hafur komið og ég þekka kærlega fyrir vandaða og heiðarlega umfjöllun um okkar frábæra félag !!
Það var fátt eitt sem gladdi okkur manu menn í vetur en Januzaj og de Gea voru svo sannarlega ljósið í myrkrinu. Hef það á tilfinningunni að kaupin á de Gea muni fara í sögubækurnar sem ein af 5 bestu kaupum SAF á ferlinum.
EEEENNNNNN varðandi Welbeck þá ætla ég bara að tjá mig með meðfylgjandi videoi, og þetta eru svo langt í frá að vera einu mistök hans á þessu tímabili !!
http://www.youtube.com/watch?v=_yiftp5ICJA
ÁFRAM MANCHESTER UNITED ALLTAF !!!