Nú er heimsmeistaramótinu í knattspyrnu lokið. Veislan er búin. Áhugamenn um venjulega sjónvarpsdagskrá Ríkissjónvarpsins eða heilbrigða samverustund fjölskyldunnar geta tekið gleði sína ný. Fyrir okkur hin var þetta bara upphitun, enski boltinn er handan við hornið.
Þetta mót hefur verið sérstaklega kærkomið fyrir okkur United-menn. Ekki nóg með það að það hafi hlíft okkur við endalausum ITK-týpum og Silly Season vangaveltum höfum við United menn fengið forskot á sæluna, ákveðin forsmekk af því sem koma skal:
Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að fylgjast með Louis van Gaal að störfum hjá hollenska landsliðinu. Eftir hið fullkomna afhroð sem síðasta tímabil lítur allt út fyrir að van Gaal sé frískandi sumardrykkur í sólinni á meðan David Moyes var flatur bjór klukkan 5 að morgni. Í desember. Á Norðurpólnum.
Louis van Gaal stýrði hollensku skútunni til verðlauna á þessu HM og minnti stuðningsmenn annara liða í deildinni rækilega á sig. Hann þurfti þess, við þurftum þess. Hann er þannig knattspyrnustjóri að ég held að flestir sem fylgist með enska boltanum hafi ekki vitað neitt sérstaklega mikið um hann. Jújú, maður vissi alltaf af honum, hann var eitt af þessum þokkalega stóru nöfnum í boltanum, búinn að stýra Ajax, Barcelona og Bayern München og náð ágætis árangri á flestum vígstöðum. Aldrei bjóst maður samt við því að hann myndi stýra Manchester United. Hann var bara einn af þessum ágætu stjórum sem störfuðu í Evrópu og liðið manns mætti liðum hans einstaka sinnum í Meistaradeildinni.
Þessvegna var maður ekki alveg viss þegar hann var ráðinn sem stjóri Manchester United. Manni fannst þetta starf öskra Jürgen Klopp. United er fullkomið fyrir hann. Hann er fullkominn fyrir United. Af því varð þó ekki og því hóf maður að kynna sér Louis van Gaal nánar. Smám saman læddist að manni sú tilfinning að þarna hefði Manchester United hitt á rétta manninn til að rétta skipið af eftir. Eins og David Moyes var rangur maður, á röngum stað, á röngum tíma er van Gaal réttur maður, á réttum stað og á réttum tíma.
Þegar hann var ráðinn lagðist ritstjórn þessarar síðu í smá rannsóknarvinnu um Hollendinginn. Það kom ekkert sérstaklega á óvart að hann legði áherslu á sóknarþenkjandi sendingarbolta a la hollenski skólinn. Það kom ekkert sérstaklega á óvart að hann gæti verið pínu erfiður í umgengni og liti stórt á sig. Hann er jú Hollendingur. Það kom ekkert sérstaklega á óvart að það hafa verið hæðir og lægðir á knattspyrnustjóraferli hans. En það sem kom okkur á óvart var ákveðinn hluti af starfi hans með Barcelona og Bayern München. Hann vann sína titla með þessum félögum en lenti líka í ákveðnum vandræðum. Það var þó ekki það sem kom á óvart, heldur þetta:
Xavi, Andrés Iniésta, Thomas Muller, David Alaba, Toni Kroos. Victor Valdes.
Þetta eru allt leikmenn sem fengu sitt fyrsta tækifæri undir stjórn Louis van Gaal. Þetta eru allt leikmenn sem eru lykilmenn í sínum félagsliðum í dag og flestir þeirra spiluðu stóran þátt í síðustu tveimur sigurliðum HM. Louis van Gaal hefur auga fyrir hæfileikum. Þetta hafði Christian Nerlinger að segja, fyrrum leikmaður Bayern og yfirmaður íþróttamála þegar van Gaal var að störfum um stjórnartíð hans hjá Bayern:
Bastian Schweinsteiger, for example, became a world-class central midfielder under his tutelage. Collectively the team went up another notch in the space of six months. He gave Bayern a strong football identity that subsequent coaches – Jupp Heynckes, Pep Guardiola – have successfully built upon.
Það sama má segja um tíma hans hjá Barcelona. Hann bjó til undirstöðurnar sem aðrir þjálfarar byggðu ofan á til þess að ná ennþá betri árangri. Hann gaf ungum leikmönnum tækifæri, losaði sig við þá sem hann vildi ekki hafa og gerði þá sem eftir voru betri. Barcelona og Bayern München eru ennþá að uppskera eftir stjórnartíð Louis van Gaal. Þetta kom okkur á óvart og sannfærði okkur endanlega um að hann væri rétti maðurinn í starfið. Þetta er nákvæmlega það sem United þarf á að halda í augnablikinu. Einhver nýr til þess að beina skútunni í rétta átt nú þegar Sir Alex Ferguson tímabilið er liðið undir lok.
Svo kom HM.
Það var ekki búist við miklu af Hollendingum á HM. Erfiður riðill. Ungt og óreynt lið. Ríkjandi heimsmeistar og hið spennandi lið Chile. Meirihluti hollenska liðsins hafði spilað minna en 20 landsleiki og þetta var yngsta liðið sem Holland hefur farið með á HM síðan 1938. Bjarstsýnustu menn spáðu Hollandi áfram í fjórðungsúrslit.
Svo gerðist þetta:
Louis van Gaal sýndi það einfaldlega á þessu móti að hann er heimsklassa þjálfari og allt það gríðarlega álit sem hann hefur á sjálfum sér, já, það er líklega bara innistæða fyrir því. Við fylgdumst með honum á þessum móti taka hverja ákvörðunina á fætur annari sem skilaði árangri. Í raun hófst það fyrir mót. Kevin Strootman, miðvallarleikmaður Roma og sá leikmaður sem van Gaal hafði byggt 4-3-3 kerfi hollenska liðsins í kringum, mótorinn í liðinu meiddist í mars og gat ekki tekið þátt á HM. Mánuði fyrir mót breytti van Gaal uppstillingunni í þá 5-3-2/3-5-2 sem við sáum. 4-3-3 kerfið sem Holland hafði spilað alla undankeppnina var einfaldlega ekki að virka án Strootman.
Stór ákvörðun og það hefur örugglega ekki verið auðvelt að taka hana. Líklega álika erfitt og að skipta markmanninum sínum út 30 sekúndum fyrir vítaspyrnukeppni. Louis van Gaal vissi hvað hann var að gera. Alveg eins og þegar hann skipti Memphis Depay , Leroy Fer og Klaas-Jan Huntelaar inná sem síðar skoruðu eða lögðu upp sigurmörkin í leikjum Hollands. Alveg eins og þegar hann breytti um leikkerfi í hálfleik. Allar þessar litlu tilfæringar hér og þar. Hann veit einfaldlega hvað hann er að gera, hann hefur trú á eigin aðferðum og það sem meira er, þær virka. David Moyes hafði líka trú á eigin aðferðum og vissi sjálfsagt hvað hann væri að gera. Gallinn var bara sá að aðferðirnar hans virkuðu ekki fyrir Manchester United.
Með Louis van Gaal höfum við fengið alvöru knattspyrnustjóra. Auðvitað geta menn bent á að Holland sé ekki Manchester United, að hann hafi ekki náð stórkostlegum árangri með Bayern og Barcelona, að hann sé gamall og allt það. Það er gott og vel. Menn mega endilega vanmeta hann. Við fengum hinsvegar að sjá þá hæfileika sem hann býr yfir á einu allra stærsta sviði knattspyrnunnar. Hann hefur það sem þarf.
Hann kann nefnilega öll brögðin í bókinni. Við sáum hvernig hann kann að stýra stórstjörnum, við sáum hvernig hann kann að bregðast við aðstæðum í fótboltaleik, við sáum hvernig hann er óhræddur við að taka stórar ákvarðanir, við sáum hvað hann og lið hans var vel undirbúið. og við sáum hvernig hann kann að ná því besta fram úr leikmönnum sínum. Ég meina, hafa einhverjir leikmenn í heimsboltanum staðið sig betur í að stöðva Lionel Messi undanfarin ár en hin afar óspennandi vörn Hollands með Ron Vlaar í fararbroddi? Ég held ekki. Hefur eitthvað lið tekið ríkjandi Heims- og Evrópumeistara og gjörsamlega pakkað þeim saman? Nei.
Louis van Gaal er einfaldlega hokinn af reynslu og hann hefur þá eiginleika og hæfileika sem til þarf til þess að stjórna félagi eins og Manchester United. Það hafði Moyes ekki, hann þorði ekki að taka Robin van Persie útaf vegna þess að hann var hræddur við viðbrögð stuðningsmannanna. Louis van Gaal skipti um markvörð fyrir vítaspyrnukeppni.
Umræðan yfir leikjum Hollands var ekki síður skemmtileg en að fylgjast með Louis van Gaal að störfum. Við United-menn skemmtum okkur konunglega yfir tilhugsuninni um Louis van Gaal að störfum í vetur á meðan stuðningsmenn annara liða reyndu að gera lítið úr honum og leik hollenska liðsins. Eftir frammistöðu hollenska liðsins á HM eru allir hinir nefnilega orðnir nokkuð skelkaðir. Síðasta tímabil var þægilegt fyrir alla nema okkur. Við hurfum úr toppbaráttunni á einu bretti, hin liðin fengu smjörþefinn af því hvernig lífið væri án Manchester United að sigra allt og alla eins og venjulega.
Það er óhætt að segja að þeir hafi haft gaman að óförum okkar. Þórður kom í heimsókn og hann skemmti sér vel. Í staðinn fyrir að njóta titilbaráttunnar eins og venjulega fengum við að kynnast bráðfyndni kímnigáfni stuðningsmanna hinna liðanna. Hvergi voru menn fyndnari en á spjallsíðum og twitter-síðum Liverpool-manna. Svosem ekki skrýtið, liðið þeirra hefur staðið í skugganum af Manchester United í rúmlega tvo áratugi. Nú var loksins kominn tími til þess að njóta sólarinnar. Flestir Liverpool-menn sem ég þekki líta svo á að réttmætt staða Liverpool sé sú staða sem Manchester United hefur notið undanfarna áratugi. Á toppnum. Stærstir. Bestir. Sir Alex var sá sem stóð í vegi fyrir þessu. Þegar hann myndi loksins hætta myndu yfirburðir Manchester United líða undir lok, alveg eins og yfirburðir Liverpool á sínum tíma. Bíðið bara, það er í eðli stórvelda að rísa og falla.
Lengi vel leit út fyrir að þetta væri rétt hjá þeim. David Moyes og Brendan Rodgers voru í sameiningu að færa okkur hraðbyri í átt að 8. og 9. áratugnum. Tími Manchester United var að líða undir lok. Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að það var líklega Liverpool sem rak síðasta naglann í líkkistu David Moyes. 3-0 tap á Old Trafford var samkvæmt fregnum kornið sem fyllti mælinn þó að Moyes hafi ekki verið rekinn strax eftir þann leik. Með David Moyes við stjórnvölinn næstu ár er líklegt að United hefði dregist svo langt aftur úr hinum liðunum að erfiðara og erfiðara hefði verið að ná toppliðunum. Þá hefði leiðin verið greið fyrir Liverpool að taka við kyndlinum á nýjan leik.
Þetta var þægileg tilhugsun fyrir þá og ég er tilbúinn til þess að veðja á það að þetta var sú framtíð sem margir Liverpool-menn sáu fram á. Þegar Louis van Gaal var ráðinn held ég að það hafi ekkert breyst. Eins og áður sagði held ég að flestir hafi ekki þekkt Louis van Gaal neitt sérstaklega. Hann var bara einn af þessum gömlu nöfnum sem maður kannaðist við. Í raun ekkert sérstakt til þess að hafa áhyggjur af. Brendan Rodgers og Liverpool var nýi tíminn. Louis van Gaal og Manchester United var gamli tíminn.
Svo kom HM.
1-5, 16-liða úrslit, 8-liða úrslit, markmannsskiptin, þriðja sætið á HM. Allar litlu breytingarnar sem fleyttu hollenska liðinu áfram. Menn fóru að grafa upp greinar um snilligáfu Louis van Gaal. Menn fóru að birta viðtöl þar sem leikmenn og þjálfarar lýsa yfir hrifningu sinni á Louis van Gaal. Það voru allir að tala um Louis van Gaal og hæfileika hans.
Þessvegna eru þeir skelkaðir við Manchester United undir stjórn Louis van Gaal. Þessvegna gerðu þeir lítið úr frammistöðu hollenska liðsins á HM. Þessvegna töluðu þeir Louis van Gaal niður á meðan HM stóð yfir. Þeir eru hræddir. Það var enginn hræddur við David Moyes. Liverpool-menn fögnuðu manna mest þegar hann var ráðinn og voru hans helstu stuðningsmenn.
Hræðslan er nefnilega svo mikilvæg. Hún var mikilvægasta vopn Sir Alex Ferguson. Hræðslan við Manchester United átti einna mestan þátt í velgengni Sir Alex og liðsins undir hans stjórn. Jamie Carragher orðaði þetta best:
The opposition playing in a game felt it was going to happen and that’s why a lot of the
times it did happen. They all believed it would happen: Man United thought they would score,
the opposition though they would concede.
Undir stjórn David Moyes snerist þetta upp í andhverfu sína. Það var einmitt það versta við David Moyes. Undir stjórn hans var enginn hræddur við Manchester United. Þvert á móti, menn runnu á lyktina af blóði og lögðu sig sérstaklega fram um að ná hefndum fyrir 20 ár af litlu sem engu. Nú skyldi hefna sín. Það var óþolandi.
Ef Louis van Gaal tekst að endurvekja þessa hræðslu geta Liverpool-menn og stuðningsmenn allra hinna liðanna einfaldlega gleymt því að Manchester United hverfi af toppnum. Hræðslan við United tryggir árangur. Ég vil að andstæðingar okkar mæti á Old Trafford og hugsi bara um hversu stórt þeir muni tapa. Ég vil að andstæðingar okkar gefist upp þegar þeir fái mark á sig. Ég vil að allir séu hræddir við Manchester United.
Louis van Gaal mætir til vinnu í vikunni. Stjórn félagsins minnti á stærð félagsins þegar staðfest var að Adidas ætlar að borga 75 milljónir á ári fyrir að framleiða búningana okkar eins og við munum fjalla betur um í vikunni. Á næstu vikum mun félagið klára að versla inn fyrir komandi tímabil. Fyrstu skrefin í uppbyggingu félagsins eftir afhroð síðasta tímabils eru hafin. Louis van Gaal fékk þriggja ára samning sem líklega verður hans síðasti á ferlinum. Hans hlutverk er ósköp einfalt:
Að endurvekja hræðsluna við Manchester United. Hann sýndi okkur það á HM að hann er maðurinn í starfið. Velkominn til starfa, Louis van Gaal. Við hlökkum til að fylgjast með þér.
Halldór Marteinsson says
Frábær pistill. Mikið sem maður hlakkar til. Get ekki beðið eftir að æfingarleikirnir byrji og svo tímabilið.
Mínar væntingar eru aðallega í þessum þremur flokkum:
1) ná meistaradeildarsæti
2) gera alvöru atlögu að FA cup
3) fara að spila meira eins og Manchester United. Meiri gleði, meiri ástríðu og hugmyndaríkari bolta.
Elías Kristjánsson says
Mjög góðir punktar. Að vera í sumarfríi og fá þessar frábæru hugleiðingar beint í æð með morgunkaffinu er bara ljúft. Bíð spenntur eftir blaðamannafundinum n.k. fimmtudag. I love love ManUtd.
Sigurbjörn says
Frábær grein. Sérstaklega parturinn þar sem fjallað er um hræðsluna.
Það verður risaverk fyrir LVG að vinna upp svoleiðis factor upp aftur eftir síðasta tímabil. Þess vegna er lykilatriði að byrja næsta season vel.
Sigurjón Arthur says
Með nýju blóði (þ.e. nýir leikmenn) ….Hollenskum hroka (LVG)…..Þýsku stáli (Adidas 2015)….losa sig við ruslið (t.d. Young) þá getur þetta ekki klikkað…..ég er fullur bjartsýni :-)
kv,
SAF
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Ég vil ekki fá annað tímabil þar sem ég fagna sigri gegn liðum eins og Stoke eins og við höfum verið að vinna titilinn
DMS says
Fyndið að rifja upp hvað Hjörvar Hafliðason sagði í Messunni þegar það var verið að orða Louis van Gaal við stjórastöðuna. Það er til videoupptaka af þessu á visir.is en ég nenni ómögulega að finna hana núna. Það sem hann sagði var eitthvað á þessa leið:
„Ég trúi því ekki að það sé verið að tala við Louis van Gaal. Bara alls ekki, ég hreinlega nenni þessu ekki með Van Gaal þarna.“
Hinsvegar breyttist viðhorf hans fljótt eftir að hann fylgdist með Hollendingum á HM og viðurkennir hann það hér:
http://www.visir.is/hjorvar–taktiskt-meistaraverk-hja-van-gaal—myndband/article/2014140709834
Hinsvegar hefur Louis van Gaal enn ekki áorkað neinu hjá United (nema kannski átt þátt í tveimur flottum leikmannakaupum). Það er samt á hreinu að það er spenningur í mönnum, hollenski hrokinn, sjálfstraustið og orðsporið mun strax hjálpa okkur. Það sem ég þoldi ekki við Moyes var ráðaleysið sem hrjáði hann, ákvörðunarfælnin og skortur á taktískri þekkingu. Hann var hugmyndasnauður og leikmenn virtust hreinlega aldrei hafa trú á honum.
Eru fleiri spenntir en ég fyrir blaðamannafundunum í vetur? Núna fáum við loks að sjá alvöru kandídat til að fokka upp í Mourinho og hans sálfræðitaktík. Blaðamannafundirnir með Moyes voru með eindæmum leiðinlegir, alltaf sama tuggan, spiluðum vel en gekk ekki í þetta skiptið. Yeah right.
Magnús Þ Friðriksson says
Þegar Moyes var ráðinn í fyrra þá varð maður frekar klofinn í afstöðu sinni gagnvart honum. Hann hafði ekki unnið til neinna afreka sem þjálfari nema þá helst það að breyta Everton úr liði sem maraði í sætum neðan við miðja deild í að koma þeim upp í miðbik efri hluta deildar og það fyrir „klink“. En Guðfaðir okkar allra, Sir Alexander Chapman Ferguson sagði okkur að standa við bakið á nýja þjálfara okkar. Hann valdi hann sjálfur, og maður sagði bara AMEN eins og hver annar heittrúaður United maður. Svo gekk hvorki né rak og maður stappaði stálinu í sjálfann sig með því að þylja „Þetta kemur“… nánast sem Mantra. Snemma fór að bera á því að leikmenn virtust ekki bera virðingu fyrir honum, skildu ekki miðlungs hugsanaganginn sem hann hafði og því fór sem fór. Moyes var rekinn.
Svo var Luis van Gaal ráðinn. Ég skal fúslega viðurkenna það að ég fylltist efasemdum, brenndur eins og maður var eftir martraðartímabil sem maður hefur ekki séð frá því maður var nánast ennþá á táningsaldri (er hálf fimmtugur í dag). Maður spurði sig: hvað hefur þessi maður gert nýlega? Jú maður mundi eftir því að hann gerði Ajax að Evrópumeisturum hérna þegar elstu börnin manns voru einnþá að skíta í bleyjur. Svo kom HM… og þar sá maður að þetta var enginn helv… Moyes. Þessi maður á ekki eftir að nefna Jagielka og hans varnarstíl á nafn við neinn af varnarmönnum United. Hann á ekki eftir að láta þá steypu út úr sér að hann hafi metnað til þess að spila eins og City! FOKKING CITY! Það eitt hefði átt að vera samningsbrot og brottrekstarsök!! Hvað næst? Hrósa frábært starf LIVERPOOL???
Nei. Louis van Gaal er enginn helv… Moyes. Leikmenn munu bera óttablandina virðingu fyrir honum og vonandi eins og komið er inn á í þessum snilldarpistli hér að ofan, þá munu andstæðingar United mæta á Old Trafford með pípandi ræpu yfir þeirri útreið sem þeir reikna með að fá af hálfu okkar manna.
GGMU!
DMS says
Wenger má eiga það að hann fær allavega value for money í þessum kaupum. 27 ára reynslumikill nýkrýndur heimsmeistari á 20 milljónir punda – Sami Khedira.
http://fotbolti.net/news/16-07-2014/arsenal-naer-samkomulagi-um-kaup-a-khedira
Grunar að Arsenal verði sterkir í ár.
Núna bíður maður bara spenntur eftir fregnum af Vidal…
Ottó says
http://fotbolti.net/news/16-07-2014/juventus-vidal-fer-ekki-til-manchester-united
Ætli þetta séu ekki nýjustu fréttirnar af Vidal, þvi miður.
Hvaða miðjumaður verður næsta skotmark?