United er komið til Denver
Hm. Vitlaus Denver. En við þekkjum lagið.
Í kvöld mætum við svo AS Roma í fyrsta leik Guinness International Champions Cup, enn einni tilrauninni til að gera fótbolta vinsælan í Bandaríkjunum með að flytja inn vinsæl lið. Og selja nokkrar treyjur. Leikið verður á Íþróttavörubúðarvellinum í Denver, 76 þúsund manna velli í 1600 metra hæð. Skv. alnetinu er enn hægt að fá miða á leikinn, en það er víst of seint að koma sér til Denver. Eftir að hafa rústað meðalslöku liði LA Galaxy sem hefði gefið einhverjum hugmyndir um að skreppa á næsta leik, má búast við erfiðari raun í kvöld.
AS Roma átti hreint prýðilegt tímabil síðasta vetur og kom liða mest á óvart. Þeir enduðu í 2. sæti í deildinni með 85 stig, sem engu að síður þýddi að þeir voru litlum 17 stigum á eftir yfirburðaliði Juventus. Það var þó að stórum hluta vegna þess að Roma gaf eftir eftir að Juve tryggði sér titilinn, síðustu þrír leikirnir töpuðust. Liðið byggði fyrst og fremst á sterku samspili, þeir voru með hæsta „posession“ hlutfall í deildinni. Að auki voru þeir með næst bestu vörnina og fína sókn.
Í sókninni voru þeir Gervinho, Mattia Destro og gamli maðurinn Francesco Totti atkvæðamestir. Fyrrverandi næstum-United leikmaðurinn Adem Ljajić er hörku kantmaður fyrir þá en hefur verið að koma inn af bekknum.
Á miðjunni er einn af þeim mönnum sem United hefur oft rennt hýru auga til gegnum árin ef trúa á slúðrinu, Daniele De Rossi og vörnin er næsta brasilísk, Leandro Castan, Maicon og Dodô voru allir með leikjahæstu mönnum.
Rudi García var nýr stjóri Roma fyrir tímabilið, Frakki sem hafði verið að stjórna ýmsum liðum í Frakklandi áður en hann fékk sénsinn og virðist hafa gripið hann höndum tveim, enda var hann einn af þeim sem nefndur var til sögunnar sem mögulegur stjóri United í vor.
En glögg augu hafa tekið eftir að tveir leikmenn eru enn ónefndir.
Kevin Strootman hefur verið á radarnum hjá United í mörg ár og slúðrið margoft búið að selja hann til Unied frá PSV. Í fyrra kom hann hins vegar á markaðinn. David Moyes vildi sem oft áður vita alltof mikið um leikmanninn, þorði ekki að taka sénsinn þó United vissi allt um hann fyrir og Strootman fór til Roma fyrir 17 milljónir. Evra. Það eru tæpar 15 milljónir punda. Nei, ég ætla ekki að bera það saman við önnur kaup í fyrra.
Skemmst er frá því að segja að Strootman sló í gegn. Gjörsamlega. Hann var besti maðurinn hjá Roma í fyrra, spilið sem var svo árangursríkt gekk allt í gegnum hann og á einhverjum lista sem eitthvað fyrirtæki tekur saman um áhrifamestu leikmenn Evrópu var hann í 5 sæti, á eftir Suarez, Messi, Zlatan og Ronaldo. Það eina sem á skyggði voru hnémeiðsli sem hlaut 9. mars. Þau bundu enda á tímabilið hjá honum og hann var ekki með á HM og verður líklega ekki með aftur fyrr en liðið er á haust.
Gæti verið að þetta hafi verið afdrífaríkustu mistök Moyes? Líklega bara. A.m.k. fyrir hann sjálfan. Nú er landsliðsþjálfari Strootman við stjórnvölinn á Old Trafford. Louis van Gaal veit allt um Strootman og á fréttamannafundi núna áðan var hann spurður um Strootman. Hann kvaðst aldrei tjá sig um einstaka leikmenn… en hélt svo samt áfram:
I never say anything about individual players. It is my vision that we talk about a team and not individual players.
Strootman I can judge, but he is injured for more than six months. We have to wait and see how he comes back.
It is not easy to say how he comes back from injury, but we will wait and see.
Semsé „við“ ætlum að bíða og sjá. Þannig að Kevin Strootman er enn á radarnum. Eina vandamálið er að núna mun hann kosta vel yfir 30 milljónir punda. Þannig að mestu mistök Moyes verða kannske leiðrétt. En þau yrðu þá dýrustu mistök, nei, líklega bara næst dýrustu mistök Moyes.
En það var ekki bara spurt um Strootman í gær. Það var lika minnst á annan leikmann Roma
Mehdi Benatia er 27 ára marókkoskur miðvörður sem var hornsteinn þessar annars brasilísku varnar Roma síðasta vetur. Á ofangreindum lista BSports er hann í 7. sæti, hvorki meira né minna. Benatia er fæddur í Frakklandi, lék þar víða áður en hann fór til Udinese og síðan til Roma í fyrra á tæpar ellefu milljónir punda. Nafn hans hefur af og til dúkkað upp í slúðrinu en oftar sem möguleika en því að United hafi áhuga. Miðað við að Van Gaal ætlar að spila með þrjá miðverði er kýrskýrt að við kaupum einn slíkan í sumar. Spurningin er hvort að Benatia sýni sínar bestu hilðar í kvöld?
Eftir flugeldasýninguna aðfaranótt fimmtudags vonumst við auðvitað eftir jafn góðum leik í dag. Van Gaal gaf það skýrt út í gær að Tom Cleverley og Tyler Blackett muni spila allan leikinn en að öðru leyti verði skipt um lið í hálfleik.
Það er því frekar til lítils að spá um lið, en þó er vitað að Rafael haltraði af æfingu í gærkvöld, meiddur í nára og verður ekki með í kvöld. Javier Hernandez mun án efa koma við sögu sem og Nick Powell sem kom til Bandaríkjanna í vikunni.
Það verður fróðlegt að vita hvort Wilfried Zaha fær tækifærið sem hann fékk ekki á fimmtudagsmorgun. Saga kom frá James Ducker, blaðamanni Times í gær um að á undirbúningstímabilinu hefðu leikmenn verið látnir vita á föstudegi að þeir þyrftu ekki að koma til æfinga á laugardeginum nema þeir vildu. Aðeins einn leikmaður sat heima, Zaha. Eftir efasemdaraddir síðasta vetur bæði frá United og Cardiff um að hann væri ekki með hausinn alveg í lagi, þá er þetta ekki rétta aðferðin til að hrífa nýjan þjálfara.
Leikurinn hefst kl. 20:06 að íslenskum tíma og er í beinni á Stöð 2 Sport 2.
DMS says
Það verður spennandi að fylgjast með þessum leik. Er líka spenntur að sjá hvort Van Gaal byrji með sama kerfi og gegn LA Galaxy eða hvort hann prófi að skipta yfir í 4-3-3
On a side note, Mourinho er byrjaður að skjóta.
http://www.433.is/enski-boltinn/mourinho-med-fast-skot-united-vaerum-daudir/
Svolítið eins og að kasta steini úr glerhúsi…já eða grjóthnullungi.
Björn Friðgeir says
Van Gaal var spurður útí þetta og svaraði einfaldlega að þetta ætlaði hann að ræða við Móra persónlega en ekki í gegnum blöðin. Vel gert.
Annars lítur Tom Cleverley svo á að hann sé ekta leikmaður fyrir Van Gaal. Það væri nú ekkert leiðinlegt ef hann tæki skrefið upp.
Ísak Agnarsson says
Haha rett, thetta er einhver salfraedi hja honum, also to make Luis more welcome
Magnús Már says
Hrifning mín á Van Gaal verður meiri og meiri í hvert skipti sem hann opnar kjaftinn á sér. Spennandi season fram undan og greinilegt að Van Gaal er winner og með hlutina á hreinu. Herrera er strax farinn að hrífa og ótrúlega gaman að sjá liðið spila sóknarbolta í 3-5-2 kerfinu. Spurningin bara hvort að stjórinn ætli ekki að fá 1-2 leikmenn í viðbót og hverjir það verða. Get með sanni sagt að ég bíði spenntari eftir EPL heldur en ég gerði fyrir HM í sumar!
hiddi says
Er einhver pöbb i Rvk að sýna leikinni kvöld
Björn Friðgeir says
Án þess að vita það myndi ég giska á að Bjarni Fel sýni leikinn. Veit ekki stöðuna á Spot svona á laugardagskvöldi?
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Ég hef haldið uppá Cleverley síðan ég horfði á hann spila með Wigan, vona að hann komist á næsta stig og verði sterkur Iþunited spilari :)