Tveir dagar í mót, spennan er í hámarki. Hér spáir ritstjórn síðunnar í spilin og hitar upp fyrir tímabilið.
Tryggvi Páll
Nýtt tímabil, nýr stjóri. Við erum ennþá að glíma við lífið án Sir Alex Ferguson. Það er enginn David Moyes og við erum komin með alvöru knattspyrnustjóra sem veit allt, hefur gert allt og unnið allt. Eftir síðasta tímabil stendur spurningin eftir: Hvernig datt mönnum eiginlega í hug að ráða David Moyes?
Blessunarlega þurfum við ekkert að pæla í því lengur. Við upphaf nýs tímabils höfum við fulla ástæðu til þess að vera bjartsýnir fyrir komandi tímabil. Þó að maður eigi ekki að kannski ekki að veðja aleigunni á að United vinni titilinn eftir að hafa fylgst með þessu undirbúningstímabili sé ég ekki margar ástæður sem mæla gegn því að Louis van Gaal muni fá liðið til þess að gefa vel í og bæta stigasöfnunina duglega frá síðasta tímabili, annað er nú eiginlega ekki hægt eftir lægðirnar sem við fórum í gegnum með David Moyes. Á undirbúningstímabilinu var augljóst hvað Louis van Gaal var að reyna að gera með liðið, liðið mun spila skemmtilegan sóknarbolta á þessu tímabili. Það er á hreinu.
Það er frábært að sjá hann koma inn í þetta rótgróna félag og hrista rækilega upp í undirstöðum þess. Hverjum hefði dottið í hug að sjá United spila þessa 3-4-1-2 uppstillingu, það fer svo innilega gegn öllu því sem maður hefur horft á síðustu tvo áratugi og lengra aftur í tímann. Hann kemur inn í félagið og er ekki lengi að sjá út hvaða uppstilling hentar best fyrir félagið. Mata-Rooney-RvP. Þetta er ansi kröftug framlína. Van Gaal mun ná að kreista fram hvern einasta dropa úr frammistöðu þeirra leikmanna sem fyrir eru.
Við viljum öll sjá fleiri viðbætur við liðið en Luke Shaw og Ander Herrera eru þrælflott kaup. Með Shaw erum við væntanlega komin með toppklassa vinstri bakvörð í að lágmarki áratug. Menn tala um að hann hafi verið keyptur á of mikið en það er bara rugl. Hann er enskur sem er alltaf ávísun á hærra verð og ef maður deildir verðinu á næstu 10 árin eru þetta algjörir smámunir. Ander Herrera kemur svo með það sem vantar á miðjuna okkar. Hann er afskaplega drífandi leikmaður, harður sem nagli og mjög skapandi. Við höfum ekki haft svona miðjumann í afskaplega langan tíma. Hann á eftir að smellpassa í ensku deildina. Vissulega þarf að bæta liðið frekar. Það vantar varnarmann, það vantar miðjumann og topp klassa vængmaður væri ekki eitthvað sem ég myndi afþakka. En þrátt fyrir að deildin sé að byrja og ekki sé búið að kaupa mikið er ljóst að liðið er nú þegar með hóp og stjóra sem getur vel barist um meistaradeildarsætið.
Andstæðingar okkar tala stundum um að hópurinn okkar sé eitthvað algjört drasl, það er auðvitað kolrangt, hann samanstendur af mönnum sem þekkja fátt annað en að vinna. Gamlir siðir deyja seint eins og maðurinn sagði. Louis van Gaal þarf bara að minna á þessa gömlu siði.
Magnús Þór
Það voru ekki margir sem voru yfir sig hrifnir af því þegar van Gaal var orðaður við starfið í vor.
Einhverjir sem töldu að hann væri löngu kominn yfir sitt besta. Gagnrýnisraddirnar hurfu eins og dögg fyrir sólu eftir fyrsta leik Hollendinga á HM. Síðan í næstu leikjum sýndi hann að hann væri óhræddur að taka stórar ákvarðanir þegar leikplanið var ekki að virka eða leikmenn ekki að standa sig.
Þegar van Gaal tók loksins formlega við liðinu um miðjan júlí eftir flottan árangur á HM voru menn spenntir fyrir að sjá hvað hann myndi gera. Hverja hann myndi selja og kaupa o.s.frv. Hann sló rækilega í gegn í sínum fyrsta blaðamannafundi og var munurinn á honum og Moyes frekar sláandi. Ég hlakka mjög mikið að sjá til hvernig honum mun takast í viðureignum gegn Mourinho og Wenger.
Ander Herrera stóð sig mjög vel í fyrsta leiknum gegn Galaxy og átti margar lykilsendingar í leiknum og var eiginlega potturinn og pannan í öllu spili liðsins í seinni hálfleiknum. Hann hefur sýnt það að hann er óhræddur að stinga boltanum fram og svo þykir honum ekkert leiðinlegt að henda sér í eina og eina tæklingu. Luke Shaw virkar líka mjög vel á mig en hann á helling inni. Hann er augljóslega vanari bakvarðarstöðunni en vængbakverðinum en það kemur með æfingunni. Hann er náttúrulega gríðarlegt efni og ég hlakka mikið til að fylgjast með honum.
Louis van Gaal ákvað eftir að hafa metið hópinn á æfingum að 3-5-2 eða réttar sagt 3-4-1-2 sé það kerfi sem henti núverandi leikmannahópi best. Svo er hann ekki búinn að algjörlega afskrifa 4-3-3 sem er svo hans uppáhaldskerfi. Það er mikilvægt að athuga að þetta kerfi mun líklega ekki algjörlega ráða innkaupastefnu þar sem þetta er talið henta núverandi hópi.
Eftir æfingaleikina er ég spenntur fyrir Tyler Blackett varnarmanni og vona að hann fái leiki í vetur. Ander Herrera er leikmaðurinn sem Tom Cleverley hefði átt að verða. Darren Fletcher mun vonandi vera í stóru hlutverki og það er virkilega frábært að hann sé varafyrirliði. Ég held að fyrirliðastaðan verði hvatning og áskorun á Wayne Rooney og ef móttökurnar hjá honum verða í lagi þá held ég hann gæti átt gott tímabil.
Það eru einfaldlega ennþá of mikil óvissa með hópinn til að ég geti spáð um lokastöðu í deildinni. Ef Woodward tekst að kaupa flottan miðvörð, backup bakvörð fyrir Shaw, Vidal og flottan kantmann þá myndi ég þora að spá 2-3 sæti. En miðað við hópinn nú myndi ég búast við 4-5 sæti og ágætis atlögu að bikurum.
Sigurjón
Ég fer bara nokkuð hress inn í þetta tímabil því það er enginn séns að það verði eins ömurlegt og það síðasta.
Stuðningsmenn annara liða hafa verið duglegir að draga í efa ágæti Louis Van Gaal og segja hann óreyndan í ensku deildinni. Slíkar yfirlýsingar eru neyðarlegar því maðurinn er hokinn af reynslu á öllum sviðum fótboltans og það er deginum ljósara, fyrir alla sem eru með augun opin, að hann gerir ALLT betur en David Moyes.
Fyrir utan að láta liðið spila mun skemmtilegri fótbolta (bolti sem leikmenn virðast njóta að spila) er hann harður í horn að taka. Hann virðist óhræddur (af myndböndum að dæma sem hafa verið tekin í sumar) að taka menn á beinið, hvort sem það eru leikmenn eða fréttamenn. Það sést mjög vel í viðtölum eftir leiki að hann er ekkert að skafa af hlutunum ef honum finnst liðið ekki hafa spilað vel. Þannig að hann hefur ákveðinn “fear factor” sem týndist algjörlega með brotthvarfi Ferguson. Leikmenn bera virðingu fyrir honum og trúa á verkefnið, það eitt og sér er gríðarlega mikilvægt, því við sáum öll á síðasta tímabili hvað gerist þegar menn tapa sjálfstrausti og trú.
Sjálfstraustið er þó ekki það eina sem þurfti að bæta. Vissulega þurfti að stykja hópinn og það var gert að einhverju leyti með kaupunum á Shaw og Herrera. Ég er mjög ánægður með þau kaup, Shaw er góður leikmaður (og aðeins 19 ára gamall) og Herrera verður einn aðal miðjumaður Man Utd næstu 10 árin, ég segi það og skrifa. Tveir leikmenn eru hinsvegar langt frá því að vera nóg, vörnin (frá vinstri til hægri) þarf á verulegri styrkingu að halda og meiri breidd þarf í liðið á nánst öllum vígstöðum (nema frammi). Það þarf ekki nema 1-2 að detta í meiðsli (eins og nú þegar hefur gerst) til þess að liðið lendi í vandræðum. Ég er ansi hissa á því að hafa ekki séð fleiri nýja menn nú þegar, en það er ennþá rúmar 2 vikur eftir af glugganum þannig að ég ætla að bíða með frekari yfirlýsingar þangað til honum lokar.
Annars eru nokkrir ungir strákar að banka á dyrnar og það væri gaman að sjá nokkra af þeim koma meira við sögu í vetur. Ég bind líka vonir við að Rooney, sem er nú kominn með mun meiri ábyrgð, komi inn með krafti, sem og Mata sem mun spila meira í sinni stöðu í vetur. Svo má ekki gleyma Ashley Young krakkar mínir!
Það getur allt gerst í vetur. Ef ég á að vera raunsær þá tel ég Chelsea, Man City og Arsenal muni bítast um 3 efstu sætin. Öll hafa átt fínt sumar á markaðnum og hafa ekki orðið fyrir neinni blóðtöku. United verður í baráttu við Liverpool um 4 sætið. Þrátt fyrir það hef ég fulla trú á mínum mönnum og tel þá alveg eins líklega til að gera betur en það!
Björn
Nýtt tímabil, nýr stjóri, engir nýir leik… jú reyndar, Louis van Gaal samþykkti kaup á tveim leikmönnum sem Moyes var nær búinn að ganga frá að yrðu keyptir. Mikið óskaplega er þetta eitthvað kunnuglegt, er það ekki?
Og þó.
Það er engum ofsögum sagt að ráðning Louis van Gaal hefur gerbreytt andrúmsloftinu í klúbbnum. Nú er komkinn framkvæmdastjóri sem er hokinn af reynslu, hefur gert allt, séð allt og unnið allt. Virðing leikmanna fyrir stjóranum var skylda frá fyrstu stundu og nú verður ekki liðin nein linkind.
Eftir ófarir síðasta árs verður varla hægt annað en að gera betur, en þó Ajax-upprunninn stormsveipur fari um klúbbinn er enn skúm í skotum.
Þrír reyndustu varnarmenn félagsins eru á braut, og sama hvað við vitum að þeir hefðu fæstir komið mikið við sögu í vetur þá er ekki hægt að segja að við höfum fengið menn í manna stað. VIð erum með þrjá tiltölulega unga miðverði, og enginn þeirra virðist ætla að taka það skref upp á við sem þarf til að vera óumdeilanlega frábær miðvörður.
Varnarvesenið hefur leitt til þess að Van Gaal hefur neyðst til að stilla upp nýju og áður óséðu leikkerfi á Old Trafford. Þó vel hafi gengið á undirbúningstímabilinu, finnst mörgum, og þar með talið mér, að það gæti verið fölsk von. Við þurfum nauðsynlega á styrkingu að halda á miðju og í vörn, og þó orðrómar gangi víða jafngildir það ekki leikmannakaupum.
En það er ekki allt alslæmt. VIð erum með einhverja sterkustu sóknar- og sóknarmiðjumenn í Englandi og sá besti þeirra er ekki enn byrjaður að spila eftir frí. Unglingarnir okkar hafa staðið sig vel og við vitum að þetta er tímabilið sem Januzaj gæti sprungið út, ef hann fær tækifæri. Verkefnið hans í leikkerfinu er að slá Juan Mata út úr liðinu, en einnig gæti hann fengið tækifæri sem framherji. Það er því miður erfitt að sjá hann sem varnarkant, sem leiðir til þess að við óskum þess að Van Gaal fái sem fyrst mannskap í hendurnar til að geta spilað 4-3-3, án þess að gráta það að þá sé ekki pláss fyrir alla þrjá, Mata, Rooney og Van Persie.
Ef Tyler Blackett heldur áfram að spila eins og undanfarið yrði ég ekki hissa að sjá hann margoft í vetur, jafnvel þó mjög svo nauðsynlegur miðvörður verði keyptur, og ef hræringar verða í framherjastöðunum og Robin verður að meiðslapésast þá bíður James Wilson eftir tækifærinu. Og það mun hann nýta.
Eins og staðan er núna þá er miðjan vandamál, Fletcher og Carrick eru ekki áreiðanlegir, Cleverley stendur frammi fyrir stórum þröskuldi sem hann hefur ekki hingað til yfirstigið, Herrera er óslípaður og allt í einu er Fellaini besti maðurinn. Ja hérna. Þarna þarf samt ekki nema topp miðjumann og hver sem er af þessum myndi standa sig feykivel við hliðina á slíkum,
En jú, tímabilið verður erfitt, þó að við þurfum ekki að eyða orku í Evrópukeppni. Ef engir fleiri koma til félagsins er ég ansi hræddur um að fimmta sætið verði raunin, og þá eftir þónokkra baráttu. En réttu kaupin eiga að geta skilað félaginu undir styrkri stjórn i þriðja sætið.
Mun Louis van Gaal ná meira úr mönnum sem við vitum að geta betur en þeir hafa sýnt undanfarið ár? Mun hann ná meiru út úr ekki-lengur-ungum leikmönnum á borð við Cleverley, Smalling og Jones sem hljóta að vera að á síðasta séns? Og síðast en ekki síst, og óskaniðurstaðan: Mun hann geta gert menn eins og Adnan, Wilson og Blackett að framtíðarleikmönnum United og jafnvel stórstjörnum?
Eitt er víst, þetta verður gríðarlega spennandi.
Elvar
Ég er spenntur. Mjög spenntur. Eftir þetta hörmungartímabil sem við fengum að upplifa síðast þá er maður búinn að fá vonina að nýju eftir æfingarleikina sem United spilaði í Bandaríkjunum.
Ástæðan er einföld. Herra Louis Van Gaal. Hann er gjörsamlega búinn að sannfæra mig um að hann sé hárrétt ráðning á hárréttum tíma fyrir klúbbinn okkar. Það er ekkert kjaftæði, hann veit hvað hann vill og heimtar það. Hann er óhræddur við að gera breytingar, og hafa leikmennirnir flestir tekið áskoruninni og stigið upp úr þessu miðjumoði sem einkenndi leik liðsins á síðasta tímabili. Van Gaal hefur opinberlega sagt að hann þurfi 10 vikur til að móta og gera liðið klárt sem er enn ein vísbendingin að hann veit hvað hann er að gera. Þegar maður er byrjaður að sjá stuðningsmenn Liverpool missa sig af pirringi yfir Van Gaal umræðunni, þá eru góðar líkur á að United hafi gert eitthvað rétt :)
Svo eins og hefur verið nefnt áður, þá er liðið búið að gera tvö frábær kaup, Luke Shaw og Anders Herrera. Óþarfi fyrir mig að endurtaka það sem hefur verið sagt en ég held að fáir hafi verið eitthvað sérstaklega spenntir fyrir Herrera þegar hann var keyptur en ég er fullviss núna að langflestir stuðningsmenn geri þá kröfu sjá hann í byrjunarliðinu gegn Swansea eftir frábærar frammistöðu í leikjum liðsins hingað til.
Vonbrigði sumarsins eru hinsvegar hvað það gengur erfiðlega að fá fleiri toppleikmenn til United. Fyrir HM var maður orðinn svaka spenntur fyrir að sjá menn eins og Kroos, Fabregas og Carvahlo koma til liðsins. Það klikkaði svo sannarlega þannig að maður byrjaði að slefa yfir tilhugsuninni að fá að sjá Vidal og Di Maria á Old Trafford en nei, ekkert virðist ganga upp hjá Woodward og félögum. Það er ekki eins og peningar ættu að vera vandamál eftir þessa snarbiluðu auglýsinga- og treyjusamninga við Chevrolet og Adidas (sem by the way heimtar að við komumst í meistaradeildina eftir þetta tímabil eða næsta). Við þurfum fleiri leikmenn og glugginn er að fara lokast. Nú verður maður einfaldlega að krossleggja fingurna og vona að eithvað gerist á næstu dögum. Sérstaklega þar sem helstu andstæðingar United hafa styrkt sig allsvakalega í sumar.
Því miður byrjar tímabilið illa hvað varðar meiðsli, Rafael og Carrick meiddust á æfingatúrnum og svo kom í ljós að Evans, Valencia og Luke Shaw eru einnig meiddir og munu ekki spila um helgina. Ofan á það eru Van Persie, Januzaj og Fellaini ekki komnir í leikæfingu og spila ekki fleiri mínútur en í leiknum gegn Valencia á þriðjudaginn. Á móti kemur hinsvegar að leikjaplanið er gott við okkur í byrjun; Swansea, Sunderland, Burnley, QPR, Leicester City og West Ham áður en við mætum Everton á Old Trafford. Van Gaal fær því draumabyrjun til að móta liðið og koma því í gírinn (Ólíkt því sem vesalings Moyes fékk á síðasta tímabili: Swansea, Chelsea, Liverpool, Crystal Palace, Manchester City).
Ég hef fulla trú á að United geti náð fjórða sætinu en ef liðið á að gera eitthvað betra en það, þá þarf að kaupa toppleikmenn. Plain and simple. Miðað við núverandi leikmannahóp þá væri ég sáttur við fjórða sætið + að sjá liðið spila flottan fótbolta, eins og við sáum í æfingarleikjunum.
Ekki ánægður en sáttur.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Liggur við að ég sé með alveg sömu skoðun/tilfinningu og Elvar skrifar þarna. Ég verð rólegur ef ég sé Di Maria og Rojo koma, síðan má sjá í janúar hvort það þurfi að styrkja meira.
Bjarni says
Góðir pistlar en það er samt áhyggjuefni að fá ekki leikmenn til okkar sem hafa verið linkaðir við okkur í allt sumar en ekkert gerist. Er orðinn ansi þreyttur á því að ekkert er að gerast hjá okkur og það eru allt of margir farþegar í hópnum sem lítið er hægt að stóla á. Byrjunarliðið í dag er þokkalegt sóknarlið en mér finnst hópurinn frekar þunnur til að ná árangri ef menn taka upp á því að meiðast. Vonandi koma einhver fyrir lok gluggans, leikmenn sem passa inn í hópinn og eru tilbúnir að leggja sig fram fyrir félagið. Þó við séum titlaðir „stærsta félag í heimi“ þá líta fáir leikmenn í hópnum á það sem forréttindi að deyja fyrir klúbbinn. Sennilega er sú hugsjón á enda komin, snýst í dag allt um að lúkka vel og hafa WAGs á kantinum til að sleikja egóið á hverjum degi.
Gunso says
Öllum útileikmönnum liðsins fór aftur í fyrra! meira að segja Januzaj var betri síðasta haust en í vor…. vonlausir þjálfarar.
Allir leikmennirnir munu taka framförum í vetur! maður sér mikinn mun á mörgum þeirra nú þegar… Menn taka mun betur á móti boltanum og eru fljótari að losa sig við hann, hvort heldur er með skoti eða sendingu. (dæmi: Wellbeck var gjörbreyttur í æfingaleikjunum). Betri þjálfunaraðferðir þýða líka færri tognanir (Persie) og að mönnum verður kennt að bæta það sem á vantar (Dæmi: Jones að vera yfirvegaðri og Smalling að taka á móti bolta).
Liðið er samstilltara og kraftmeira! Í vörn eru 35 metrar á milli fremsta og aftasta manns,,, ekki 60 eins og í fyrra… og liðið því miklu þéttara og andstæðingarnir fá minni tíma til að taka skot.
Það er fullt af efnilegum drengjum sem eru komnir fram og aðrir sem eru á leiðinni… því á ekki að vera að kaupa inn nýja leikmenn nema þeir séu í efsta klassa… 10 – 15 milljónum betri en það sem til er í herbúðunum. (Fellaini var t.d. mikilvægari fyrir Belgíu en Rojo fyrir Argentínu og því kannski ekki einsýnt að það sé þess virði að kaupa Rojo og þar með að hindra Blackett í að þróast)
Ég er viss um að Van Gaal telur það betra fyrir orðsporið að ná árangri með núverandi hóp og nokkrum homegrown strákum, heldur en að kaupa 3 – 4 miðlungs (+) gaura (Bild: Rojo…)
Kaupa alvöru stórstjörnur (Hummels; DiMaria; Vidal(?)) eða láta það vera…
Lið sem enda fyrir ofan United… verður meistari.
Gunso
Hannes says
Þetta var aldrei spurning hver tæki við af Ferguson, þetta var spurning um hver tæki við af manninum sem tók við af Ferguson
Mr.T says
Já. Maður er orðin spenntur. Ég bið bara ritstjóra að dæla fleiri pistlum inn.
Maður bíður alltaf eftir nýjum pistlum hér á síðunni. En þetta horfir í allt annað en í fyrra sem var bara skelfilegt. Búið að laga æfingasvæðið og fleira og núna vantar bara 2-3 topp menn og smá tíma.
Einar B says
Snilldar póstur hjá ykkur.
Man. City, Chelsea og Arsenal hafa öll styrkt sig meira en United í sumar og munu skipta með sér efstu 3 sætunum. Ég tel raunsætt markmið vera að ná 4 sætinu. Við komum til með að berjast um það við Liverpool og Spurs.
Spurs á eftir að vera mun betra en í fyrra og margir leikmenn þar sem voru nýjir/að aðlagast og spila langt undir getu í fyrra. Liverpool hefur bætt við sig slatta af fínum leikmönnum sem kemur til hjálpa þeim, sérstaklega með að cope’a við aukið álag útaf meistaradeild en hafa blessunarlega misst einn besta leikmann í heimi, Suarez.
Herra Ed Woodward verður að rífa upp veskið og reyna kaupa 1 til 2 stykki varnarmenn, allavega Blind. Ég veit lítið um Rojo nema það sem maður sá af honum á HM. Skylst að hann sé eilítið klikkaður en þrátt fyrir það örugglega betri kostur en þeir varnarmenn sem við höfum núna. Fjandinn, hann spilaði alla leiki Argentínu á HM – það hlýtur að segja eitthvað. Tal um Hummels eru bara draumórar sem munu aldrei rætast, því miður.
Svo er maður að heyra að Reus sé að fara til Atletico Madrid fyrir 27m evrar?!? Fabregas fór til Chelsea og Kroos til Madrid. Allt leikmenn sem maður hefði óskað að kæmu hingað.
Ég nenni ekki að eyða orðum í þessa Vidal umræðu. Klassísk link-beita / sölumaskína sem slúðurblöðin keyra í gang á hverju ári til að selja meiri clicks og blöð. Nákvæmlega sama þvæla og með Thiago, Sneijder, Fabregas í fyrra o.s.fr.v – m.ö.o hef ég 0% væntingar til þess að Vidal komi því miður.