Tölfræðirýnir nokkur tísti eftirfarandi stigatöflu í gær.
Þetta er taflan eins og hún hefði litið út í fyrra eftir fimmtán leiki ef leikjaröð hefði verið sú sama og hún er í ár!
Auðvitað hafa þrjú af liðunum fallið síðan þá en aðferðafræðin er sú að taka þau og nota nýju liðin í ár sem mótstykki. Ég er ekki alveg viss hvernig það er gert en þykir líklegast að þriðja neðsta liðið í fyrra, Norwich og efsta liðið sem kom up, Championship meistarar Leicester séu pöruð saman, og síðan Fulham og Burnley og loks Norwich og QPR.
En nóg um aðferðafræðina, segjum bara WTF!?
United á toppnum! Ef Manchester United hefði leikið við sömu 15 lið í fyrra og þeir hafa gert í ár þá hefði liðið verið á toppnum eftir fimmtán leiki í fyrra.
Ég er ekki David Moyes maður, en verð að viðurkenna að ég leyfi mér að hugsa aðeins út í hvernig stemmingin hefði verið þann 9. desember í fyrra ef deildin hefði litið út eins og að ofan en ekki eins og að neðan. Hver veit nema David Moyes væri enn stjóri og hefði haldið dampi? Kannske var eitthvað til í því sem David Moyes hafði að segja um leikjauppröðunina?
Skoðum úrslit leikjanna í ár og í fyrra.
Infostrada var fyrir tveim árum með lifandi töflu þar sem stigamunur milli ára kom fram, en ég hef ekki fundið sambærilegt síðustu tvö ár, þannig að það er ekki fyrr en nú að þetta kemur almennilega fram. Lítur jafnvel betur út í dag heldur en fyrir leikinn gegn Southampton.
En það þarf ekki að skoða þetta mikið meira til að sjá hvað gerst hefur í vetur, og það stemmir alveg við það hvernig stemmingin hefur verið. Framan af hausti gekk liðinu afleitlega og var enda farið að bera saman Van Gaal og Moyes án þess þó að fara út í þennan samanburð.
Frá því að við gerðum jafnteflið við West Brom hefur liðið staðið sig jafnvel og í fyrra og síðan unnið Arsenal og Southampton á útivelli. Síðan þá hafa raddirnar þagnað um samanburð Moyes og Van Gaal. Það er í sjálfu sér engin stórástæða til þess að fara að vekja þær upp aftur. Liðið er komið á gott skrið, við erum alltaf að vona að meiðslahrinan taki enda og aldrei að vita hvað gerist á leikmannamarkaði. Úr 23 leikjum sambærilega við þá sem eftir eru í vetur tók lið David Moyes færri stig og í þessum 15, eða 31. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því að við fáum bara þrjátíu og eitt stig það sem eftir er tímabilsins! Ekki nokkrar!
En hvað þarf í raun? Frá 2006 til 2012 var liðið í fimmta sæti, sem er liðið sem Manchester United verður að vera fyrir ofan með milli 60 og 67 stig. Síðustu tvö ár hefur liðið í fimmta sæti tekið 72 stig. Eitthvað hefur verið talað um það að þetta tímabil hafi liðin verið slakari en samt er nú liðið í fimmta sæti með 26 stig, en var eftir sambærilega leiki í fyrra með 29. Arsenal er með 23, og með fullri virðingu fyrir West Ham og Southampton, er hægt að telja líklegt að þau gefi eftir. Ég ætla því að spá því að fleiri en 70 stig gulltryggi Meistaradeildarsæti, og líklegt er að 68 stig dugi.
Manchester United þarf því fjörutíu stig úr 23 leikjum, eða 1,73 stig að meðaltali úr leik. Liðið er nú með 1,87 stig að meðaltali úr leik. Eða, svo samanburðinum við árið í fyrra sé haldið til streitu, gera jafn’vel’ og í fyrra en breyta að auki þrem töpum í sigur. T.d. West Bromwich úti, Newcastle heima, og Sunderland heima. Fyrir nú utan Spurs, Liverpool og City heima, og Liverpool, Chelsea, Stoke og Everton úti. Og svo eru það jafnteflin.
Manchester United er í þriðja sæti í deildinni, á það sæti skilið og mun halda því sæti. Næsta skref í áframhaldandi sókn verður stigið gegn særðu liði Liverpool á sunnudaginn.
Heiðar says
Frábær pistill og róar heldur betur taugarnar fyrir komandi mánuðum. Þegar öllu er á botninn hvolft held ég að liðinu muni duga að „laga“ þau úrslit sem illa fóru gegn „smærri liðum“ á síðasta tímabili. Við erum nú þegar búnir að gera svo í einhverjum tilfellum, s.s. með heimasigri gegn Everton. Heimasigur gegn Newcastle er annað sem þyrfti að gerast og að ég tali nú ekki um að klára nýliðana en sá vígvöllur hefur reynst okkur stundum erfiður gegn liðum eins og Leicester, Burnley, Norwich, Barnsley o.fl.
Það að hala inn stig gegn stóru liðunum er bónus en nauðsynlegur þó. Á síðasta tímabili var gengið í þeim leikjum hörmulegt ef frá eru talin 4 stig í leikjunum tveimur gegn Arsenal. Við erum nú þegar búnir að vinna þá úti, gera jafntefli við Chelsea og tapa gegn City (í leik sem undirrituðum fannst reyndar býsna góður af okkar hálfu miðað við að vera einum færri gegn City í ham). Ég gæti best trúað því að þetta record (50%) gegn stóru liðunum í bland við að klára flesta leiki sem ættu á venjulegum degi að sigrast dugi í þriðja og jafnvel annað sætið. Í bili er ég ekkert sérstaklega stressaður yfir því að United haldi ekki þessu þriðja sæti. Ef að meiðslamál fara aðeins að róast verður hópurinn bara sterkari og van Gaal gæti farið að leyfa sér þann munað að stilla fram 3-4 varnarmönnum í hverjum leik…. og jafnvel þeim sömu!!
Spilamennskan undanfarið hefur verið svona og svona… svo ekki sé meira sagt! Á einhvern ótrúlegan hátt eru þó komin 15 stig af 15 mögulegum í síðustu 5 leikjum. Gary Neville hefur bent á það að ekkert lið komist upp með að spila svona illa en sigra alla leiki. Ég er því sammála en tel jafnframt að með hverjum sigri aukist sjálfstraustið sem gerir það ólíklegra að við töpum… svo lengi sem við höfum í lið! Þetta verður spennandi á sunnudaginn…. set fram frumlega spá, 2-1 fyrir United!
Runólfur Trausti says
Frábær samantekt Bjössi.
Mörgum finnst þetta pointless tölfræði en hún sýnir svart á hvítu hversu fáránlega erfið byrjunin var hjá Moyes – sem betur fer í rauninni. Ef ekki þá værum við eflaust ennþá fastir með trúðinn. Það er líka vert að benda á að liðið var í rauninni í ágætis málum í kringum áramótum – fórum upp úr riðlinum í CL og vorum í 4. sæti að mig minnir með Liverpool eftir einhverja 15 leiki. Svo eftir áramót fór allt til helvítis.
Tölfræðin sem sveið hvað mest hjá Moyes var átakanlegur árangur gegn top5 (var held ég top7 samt) liðunum í deildinni. Eina liðið sem United náðum í stig gegn voru skyldu leikirnir gegn Arsenal.
Í dag er liðið á frábæru run-i af úrslitum og ef þessi meiðsli fara að hjaðna eitthvað þá gæti 2015 orðið frekar skemmtilegt ár.
Svo finnst mér að menn eigi að hætta að tala um að „ná“ 4.sætinu – það er ekkert ef hérna, það er einfaldlega krafa. Fyrir mér ætti liðið að stefna á að lenda í 2. eða 3. sæti (lágmark) og vinna helvítis FA bikarinn – been a long time coming!
Kv. RTÞ
Sæmundur says
„van Gaal gæti farið að leyfa sér þann munað að stilla fram 3-4 varnarmönnum í hverjum leik…. og jafnvel þeim sömu!!“
Eru menn ekki aðeins að fara fram úr sér í draumórunum þarna, Að sjá 4 varnarmenn inná í einum og sama leiknum hjá United gerist varla fyrr en 2016 með þessu áframhaldi .)
Tryggvi Páll says
Skemmtilegar pælingar. Við þennan pistil má svo bæta að frá því að glugginn lokaði í byrjun september höfum við náð í 26 stig. Chelsea sem er nánast nú þegar búið að hampa titlinum náði sér í 27 stig á sama tíma. Það er hreint ekki svo slæmt.
Helsti munurinn á Moyes og Van Gaal er samt auðvitað ekki stigasöfnunin heldur einfaldlega spilamennska liðsins inni á vellinum. Þetta er allt annað lið sem sýnir allt aðra spilamennska. Það helgast líklega af því í fyrsta lagi er hópurinn betri en í fyrra og í öðru lagi eru menn tilbúnir að leggja sig 100% fram og rúmlega það fyrir Louis van Gaal. Það er lúxus sem Moyes fékk aldrei að njóta og það er líklega það sem varð honum helst að falli, sumt af því ástæðunni fyrir því var ekki honum að kenna en sumt var algjörlega honum að kenna. Það skiptir svo sem ekki öllu máli. Moyes er farinn og við þurfum ekkert að pæla í honum lengur.
Þetta byrjaði ekki vel hjá Van Gaal og eftir byrjun tímabilsins sá ég fyrir mér harða baráttu við að næla í fjórða sætið en eins og liðið er að spila núna ættum við líklega ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur af því að United verði ekki í Meistaradeildinni að ári. Sigur á Liverpool og 10+ stig yfir jólin gætu meira segja fleytt okkur eitthvað lengra en það. En það er önnur umræða fyrir seinni tíma. Við förum yfir þá brú þegar við komum að henni.
Hjörvar Ingi says
Ekki tengt færslunni en þarf ekki að henda svona inn fyrir næsta leik :D
http://www.espn.co.uk/football/sport/story/328287.html
„At Liverpool there’s a strategy behind what we are doing.“
Hvernig gengur þessi strategía upp hjá þér í dag Rodgers?
Eymi says
Skemmtileg lesning. Finnst þó svona samanburður alltaf tilgangslaus. Við elskum fótbolta vegna þess að hann er óútreiknanlegur og hann er óútreiknanlegur vegna þess að það eru óteljandi þættir sem hafa áhrif á úrslit leikja.
Form liðanna. Á hvernig róli voru liðin þegar þau mættust?
Leikmenn. Hvaða leikmenn voru að spila. Hverjir voru í banni. Hverjir voru meiddir.
Þjálfarar. Eru sömu þjálfarar að mætast?
Dómarar. Hverjir voru að dæma og hvernig dag áttu þeir?
Áhorfendur. Hvernig var stemningin í stúkunni?
Og svona mætti lengi telja.
Þegar samanburðurinn á Moyes og Van Gaal kom á Sky og nokkrum miðlum fyrir skemmstu þá skrifaði Tryggvi góða grein hér þar sem hann blés á allan svona samanburð. Við stuðningsmennirnir sjáum greinilegan mun á liðinu núna og undir Moyes. Tölfræði á þessu stigi málsins er algjörlega óhæf mælistika. Moyes er góður stjóri en Man Utd og hann áttu ekki samleið, þannig er þetta bara.
Rauðhaus says
Styttist í Sunnudaginn. Af því tilefni er hollt og gott að horfa á þetta:
https://www.youtube.com/watch?v=QubF5Afcuek
og ekki síður þetta:
https://www.youtube.com/watch?v=eJqs4OFsiKA
Keane says
Moyes var rekinn, fögnum því!