Árið 2014 er að renna skeið sitt á enda. Og þvílíkt ár. United hóf árið í sjötta sæti, tveim stigum á eftir Liverpool og þrem á eftir Everton, og það var ekki öll nótt úti fyrir David Moyes. Við endum árið í þriðja sæti, þrem stigum á undan liðinu í fjórða, með nýjan stjóra, nýja leikmenn uppá 165 milljónir punda og einn dýrasta framherja í heimi að auki að láni. Það er óhætt að segja að það gefi síðasta ári ekkert eftir í sviptingum.
Fyrsti leikur liðsins á nýju ári er ekki auðveldasti útileikur vetrarins. Einu sinn var heimsókn til Stoke uppáskrift að baráttu og barningi og enskum leik. Það hefur ekki breyst að það er erfitt að heimsækja Brittannia en nú er þar við stjórnvölinn fyrrum leikmaður Barcelona, með tvo fyrrverandi Barcelona leikmenn í liðinu, og annan þeirra sem sinn besta leikmann. En þó að fyrrum ungstirnið Bojan Krkic sé að lýsa upp leik Stoke, þá er það nú samt svo að við stjórnvölinn er fyrrum leikmaður Manchester United, með þrjá fyrrum leikmenn United í hópnum og það er stutt í baráttuna og barninginn ef á þarf að halda. Annars er óvíst hvort Bojan spilar, hann á við meiðsli í læri að stríða. Eins gæti Phil Bardsley misst af því að taka á móti sínu gamla liði.
Stoke hefur unnið Manchester City, Arsenal og Tottenham á tímabilinu og er búið að vinna tvo síðustu leiki. Mame Biram Diouf sem gerði stuttan stans á Old Trafford áður en hann fann skotskóna í Þýskalandi skoraði bæði mörkin í síðasta leik, sigri á West Brom.
Það er ekkert gaman að rifja upp leikinn hér í fyrra þegar Stoke vann og varð eitt af fjölmörgum liðum til að binda endi á áratuga sigursleysi á United. En núna verður nýtt ár, nýr stjóri og nýtt United lið og það er ekki mánuður síðan United vann nokkuð öruggan sigur á Stoke á Old Trafford
Meiðslafréttir eru góðar, Di María, Herrera og Januzaj byrjaðir að æfa aftur og ég geri ráð fyrir Herrera á bekknum. Að öðru leyti verður þetta lítt breytt. Van Gaal er ekki mikið fyrir að setja menn beint inn í lið þannig að ég býst við að bæði Shaw og Rafael verði áfram á bekknum. Ég býst frekar við að ef eigi að gera einhverjar stórar breytingar á liðinu verði það gegn Yeovil á sunnudaginn kemur.
Að þessu sögðu þá mun Van Gaal koma með eitthvað nýtt útspil, eins og t.d. að fara aftur í 4-4-2 með tígli eins og við unnum leikinn á á Old Trafford með bæði Rafael og Shaw inni. En það verður allt að koma í ljós. En áður en að leiknum á morgun kemur (sem hefst kl 12:45) bíður okkar það verkefni að fagna áramótum
Ritstjórn Rauðu djöflanna þakkar lesendum fyrir árið sem er að líða og hlakkar til samfylgdarinnar á ári komanda.
Gleðilegt ár!
P.s. Til hamingju með daginn, Sir Alex!
Björn Friðgeir says
Nýjasta slúður er að Di María sé það hress að hann verði með á morgun. Það væri nú gaman!
Andri H. Oddsson says
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir ykkar framlag á árinu. Ég hlakka til að fylgjast með ykkur á nýju ári er United kemst almennilega á skrið og gerir alvöru atlögu að titlinum!
andrithor2014 says
Gledilegt ar! Keep up the good work!
Valdi Á. says
Gleðilegt ár félagar!! Takk fyrir viðburðaríkt ár. Næsta ár verður betra. Þið hafið unnið glæsilegt starf með síðunni. Takk fyrir það.
Hannes says
Held það verði lítið um breytingar gegn Yeovil. Held að LvG sé enn ílla brenndur eftir slátrunina gegn MK Dons