Við eigum harma að hefna gegn Leicester sem eru að koma á Old Trafford á morgun. Við máttum þola alveg sérstaklega óþolandi tap gegn þeim í fyrri leik þessara liða. Leikurinn var spilaður 21. september og var annar leikurinn sem liðið spilaði eftir lokun sumargluggans. Hinn leikurinn var gegn QPR þar sem liðið sundurspilaði máttlaust lið QPR og vann 4-0. Eftir brösuga byrjun á tímabilinu vonaði maður því að framtíðin yrði eins og QPR-leikurinn. Öll sumarkaupin komin í hús, allt klárt.
Eftir klukkutíma leik gegn Leicester litu hlutirnir mjög vel út. United var 1-3 yfir og var á köflum að spila alveg frábæran bolta. Markið hjá Ángel di Maria var auðvitað alveg stórglæsilegt og ef það hefði verið árið 2012 hefði Robin van Persie auðveldlega verið kominn með þrennu. Ég var svo ánægður með spilamennsku liðsins eftir um klukkutíma leik og bjartsýnn á framhaldið að ég asnaðist til þess að láta þetta út úr mér:
Núna er maður með glott allan helvítis hringinn allan leikinn og manni finnst eins og United geti skorað í hverri einustu sókn.
— Tryggvi Páll (@tryggvipall) September 21, 2014
Eins og við má búast við þetta stórkostlega jinx mitt hrundi allt hjá United. Dómarinn kom Leicester-mönnum aftur inn í þetta með því að gefa þeim ódýrt víti 5 sekúndum eftir að James Vardy, sem leit út eins og heimsklassaleikmaður á þessum síðasta hálftíma, braut á Rafael. Leicester skoraði úr vítinu og eftir það þurftu andstæðingarnir enga hjálp frá dómurunum, liðið okkar sá alveg um það. Mínútu eftir vítið jafnaði Leicester og við þekkjum framhaldið. Þetta endaði 5-3. Gegn Leicester. Þess má geta að Leicester hafði skorað 4 mörk í leikjunum á undan og í næstu 8 leikjum skoraði Leicester hvað mörg mörk? Jú, auðvitað 4 mörk. Hvernig í andskotanum fórum við eiginlega að því að fá á okkur 5 mörk gegn þessu liði? Þetta tap situr ennþá svo í mér að í hvert sinn sem ég lít á töfluna bæti ég þessum þremur töpuðu stigum úr þessum leik við töfluna. Ég verð bara pirraður á því að rifja þetta upp.
Eftir að hafa náð að skilja okkur aðeins frá þessum Meistaradeildarsætabaráttupakka með 6 leika sigurhrinu fyrir jól erum við aftur komin í bullandi baráttu um 3-4. sæti. Jafnteflahrinan um jólin, tapið gegn Southampton og ágætis form hjá liðunum í kring hefur gert það að verkum. Taflan lítur svona út:
Þetta er nokkuð þéttur pakki og til þess að ná markmiðum þessa tímabils megum við ekki misstíga okkur mikið. Þegar við vorum að velta fyrir okkur þessum örlitlu möguleikum sem við höfðum á Meistaradeildarsæti undir lok síðasta tímabilsins útbjó ég þessa töflu:
Við þurfum líklegast rúmlega 70 stig til þess að tryggja a.m.k. 4. sætið og því er ekkert brjálað svigrúm í þessum 16 leikjum sem eftir eru. Það eru 48 stig í pottinum og ég myndi halda að við þyrftum svona 38 af þeim til þess að vera alveg örugg með að spila í Meistaradeildinni á næsta tímabili. Við þurfum því að fara að setja saman svipaða sigurhrinu og við sáum fyrir jól. Næstu 6 umferðir eru lykilinn að góðum árangri á tímabilinu. Hér eru næstu 6 umferðir hjá liðunum sem eru að berjast um 3-4. sæti:
Á pappír eigum við léttustu umferðirnar framundan. Við mætum einungis West Ham af þessum liðum í kringum okkar á meðan t.d. Liverpool, Spurs og West Ham eiga tiltölulega erfiða dagskrá framundan. Liðin í kringum okkur eru því að fara að taka stig af hverju öðru á meðan við sleppum að mestu við það. Við þetta bætist að á sama tímabili spila Arsenal, Liverpool og Spurs í Meistaradeild og Evrópudeild auk þess sem að Liverpool og Arsenal eru ennþá í bikarkeppninni auk okkar og Tottenham spilar úrslitaleik deildarkeppninnar. Þetta er kjörið tækifæri til þess að gera eins og fyrir jól og skilja okkur aðeins frá pakkanum með því að fara á góða sigurtörn.
Það er líka eiginlega eins gott að liðið geri það. Þessir 6 leikir eru gegn liðum sem í venjulegu árferði ættum við alltaf að ná í meirihluta stiganna. En eftir þessa hrinu bíður rosaleg prófraun á Louis van Gaal og félaga. Í næstu 6 leikjum mætum við Spurs, Liverpool, Villa, City, Chelsea og Everton. Ef við ætlum okkur eitthvað á þessu tímabili verðum við einfaldlega að láta til okkur taka í næstu 6 leikjum. Miðað við hvað við megum tapa fáum stigum í þeim leikjum sem eftir er væri ekki gott að þurfa að vinna upp stigamun á önnur lið í þessu rosalegu leikjadagskrá sem bíður okkar eftir næstu 6 leiki.
Fyrsta skrefið er því sigur gegn Leicester.
Leicester er á botni deildarinnar með 17 stig eftir 22 leiki. Þeir hafa skorað 20 mörk sem þýðir að fjórðungur marka þeirra á tímabilinu kom gegn Manchester United! Eftir sigurinn gegn United fór liðið í svakalega dýfu sem það hefur ekki náð að lyfta sér úr. Þetta var reyndar svo harkaleg dýfa að liðið vann ekki leik í deildinni fyrr en 28. desember. Hvernig í andskotanum töpuðum við gegn þessu liði!? Ég vil fá þrjú stigin okkar aftur. Merkilegt nokk þá hafa Leicester-menn staðið skítsæmilega í stærri liðum deildarinnar. Gegn Chelsea í byrjun tímabilins voru þeir óheppnir að tapa og þeir hafa náð jafnteflum gegn Arsenal og Liverpool auk þess að standa vel í City-mönnum og slá Tottenham út úr bikarnum fyrir skömmu.
Þeirra besti leikmaður á tímabilinu, Alsír-maðurinn Riyad Mahrez, verður ekki með enda með Alsír í bullandi baráttu í Afríkukeppninni. Í Leicester er alveg haugur af fyrrum United-mönnum. Ritchie de Laet spilar alla leiki og hefur staðið uppúr á þessu tímabili hjá Leicester. Aðrir leikmenn eru Matty James, Danny Simpson, Danny Drinkwater og Tom Lawrence og spila þeir allir mismikið. Nick Powell var þarna á láni en fékk engin tækifæri og var því sem betur var kallaður heim.
James Vardy hefur ekki gert neitt af viti síðan hann kláraði United í september og því reikna ég fastlega með að hann fari aftur í gang á morgun. Leicester hefur styrkt sig í janúar, fengið til liðs við sig Mark Schwarzer eftir að Kasper Schmeichel meiddist illa auk þess sem að þeir eiga ef til vill athyglisverðustu kaup þessa afskaplega slappa janúarglugga. Þeir nældu sér í einn heitasta framherja Evrópu beint fyrir framan nefið á Chelsea. Andrej Kramaric kom frá Rijeka í Króatíu þar sem hann var aldeilis að finna netmöskvana með meira en mark í leik. Áhugasamir geta lesið um þennan unga Króata hér. Hann á nú að lífga við ansi dapra framlínu Leicester. Hann kom inn á í síðasta leik Leicester en ég geri fastlega ráð fyrir að hann fái fyrsta tækifærið í byrjunarliðinu á Old Trafford. Augljóslega hæfileikaríkur framherji en við skulum vona að hann bíði aðeins með að finna sig í ensku deildinni.
Hjá okkar mönnum veit ég ekki betur en allir séu heilir utan Smalling, Evans og Young. Ég trúi eiginlega ekki öðru en að Louis van Gaal negli í demantinn gegn Leicester enda ættu þeir ekki að valda okkur miklum vandræðum sóknarlega. Leicester-menn virðast þó stíga upp um gír gegn stærri liðunum. Við eigum samt alltaf að sigra þetta blessaða lið og það er alveg víst að við munum fá færi til þess, við þurfum bara að nýta þau en færanýtingin hefur verið döpur frá því að við unnum góða sigra gegn Newcastle og Liverpool á heimavelli.
Verkefnið á morgun er því þrjú stig og ná að hefja næstu sigurhrinu. Liðið verður svona, allt annað er bara vitleysa, VITLEYSA SEGI ÉG!
Spái baráttusigri og að við skorum a.m.k. eitt mark eftir hornspyrnu frá Phil Jones.
Uppfært 13:31. Louis Van Gaal tilkynnti á blaðamanna fundi núna rétt í þessu að Michael Carrick væri að glíma við vöðvameiðsli og er frá næstu fjórar vikurnar. Einnig kom fram að Darren Fletcher sé staddur í London að tala við West Ham United svo það má reikna með því að Daley Blind komi inn í hlutverk Carrick´s á miðjunni í þessum leik. Að lokum virðist vera sem samningi Anderson hafi verið rift og á hann að vera staddur í Brasilíu sem stendur að semja við nýtt lið.
Stefan says
Rojo og Jones eiga að vera nógu góð vörn, en er ekki hægt að fá einn góðan RB á láni bara til að hafa. Væri fint að fá Laporte eða Hummels bara til að gefa Jones séns á halda sig frá meiðslum og standa sig betur.
Rauðhaus says
Staðfest að Carrick er meiddur í 4 vikur. Ekki bara slæmar fréttir, heldur hræðilegar.
Elmar says
Ég reyni oftast nær að láta leiki liðsins ekki hafa of djúpstæð áhrif á mig, en leikurinn gegn Leicester gerði mig pirraðan í marga daga á eftir. Hvernig er hægt að glopra niður svona forystu gegn botnliðinu. Það er eins gott að okkar menn mæti dýrvitlausir og hefni fyrri leik liðanna.
Skelfilegar fréttir með Carrick sem er að mínu mati einn okkar besti maður. Eins gott að Blind stígi upp og eigi góða leiki í fjarveru hans. Hef tröllatrú á honum og finnst viðhorf hans gott þó hann sé ekki orðinn okkur jafn mikilvægur og Carrick.
Sigurjón Arthur Friðjónsson says
Carrick bestur ásamt DDG ! Vil enga martröð á morgun ! Ég hef bullandi trú að þessu liði sem Tryggvi Páll stillir hér upp og þeir eiga að valta yfir Leicester….nú heiti ég á knattspyrnuguðina og ætlast til að þeir komi þessari liðsuppstillingu inn í höfuðið á LVG :-)
ÁFRAM MANCHESTER UNITED ALLTAF !
Guðni says
Fellaini inn fyrir Blind og ég er sáttur :)
Atlas says
Það var ánægjuleg fréttin sem kom inn á fotbolti.net áðan en þar kom fram að LVG ætlar að hlusta á gagnrýni og fara aftur í 4-4-2.
„Louis van Gaal, stjóri Man Utd, hefur verið gagnrýndur af stuðningsmönnum félagsins fyrir leikskipulag liðsins.
Van Gaal hefur notast við útfærslu af 3-5-2 leikkerfi og hefur liðinu gengið afar illa að skapa sér marktækifæri.
Hollendingurinn virðist vera tilbúinn að kyngja stoltinu og færa sig yfir í 4-4-2.
,,Það er mikilvægt að skapa sér færi og við höfum ekki verið að skapa mikið af þeim undanfarið svo ég mun fara aftur í 4-4-2.“ sagði van Gaal.
Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://www.fotbolti.net/news/31-01-2015/van-gaal-buinn-ad-gefast-upp-a-3-5-2#ixzz3QPKSncUT„