United nældi sér í afskaplega mikilvægan sigur í gær gegn Newcastle, sérstaklega í ljósi þess að öll hin liðin í efsta hluta deildarinnar unnu sína leiki. Staðan er því óbreytt fyrir leikjahrinuna núna í mars og apríl sem mun skera úr um hvort að þetta tímabil megi fara á ruslahaugana eða ekki. Heimaleikir gegn Spurs og City, útileikir gegn Liverpool og Chelsea auk bikarleiks við Arsenal. Jesús Pétur.
Ég ætla þó ekki að skrifa um það enda erum við og aðrir búnir að hamra nóg á mikilvægi þessara leikja. Það var eitt atvik í leiknum í gær sem menn fóru ekki að veita athygli fyrr en eftir að leiknum lauk.
@StrettyNews pic.twitter.com/qep7iufp6P
— BeautifullyRed (@BeautifullyRed) March 4, 2015
United skorar sigurmark leiksins á lokamínútunum og af öllum mönnum býst maður við því að Ryan Giggs muni algjörlega missa sig. Nei, í staðinn sjáum við hann með steinrunnið andlit, nánast eins og að sigurmarkið hafi verið vonbrigði. Ekki batnar það svo þegar Louis van Gaal öskrar eitthvað á hann og klappar honum á kinninna, svona eins og hann sé að segja: „Djöfull, veit ég miklu betur en þú, barnið þitt.“
Þetta myndskeið hefur vakið nokkurra athygli, menn voru að pæla í þessu hér í athugasemdarkerfinu við leikskýrslu leiksins og það stóð ekki á viðbrögðum blaðamanna. Hinn ágæti blaðamaður Telegraph, Mark Ogden veltir upp þeirri spurningu hvort að Ryan Giggs sé búinn að missa þolinmæðina gagnvart Louis van Gaal? Það þarf svosem engan gríðarlegan speking til þess að leggja saman tvo og tvo hérna. Fyrst að hann fagnar ekki einu sinni þessu mikilvæga marki hlýtur að vera eitthvað að, ekki satt? Þetta hlýtur að benda til að hann sé eitthvað ósáttur með Louis van Gaal. Eðlileg pæling, þetta er eitthvað sem ég hugsaði þegar ég sá þetta myndskeið fyrst.
Manni fannst nefnilega vanta meiri ákefð í liðið á síðustu 20 mínútunum. United undir stjórn Sir Alex tók alltaf allar áhætturnar til þess að ná í þau úrslit sem liðið þurfti á að halda. Þetta fannst manni skorta á í gær og ég er alveg handviss um að Ryan Giggs hafi verið að reyna að fá Louis van Gaal til að gera breytingar a la Sir Alex, taka sjénsinn, henda mönnum fram. Skora mark.
Eftir allt saman rímar leikstíll Louis van Gaal ekki fullkomnlega við leikstíl Ryan Giggs. Þetta sagði Giggs á sínum fyrsta blaðamannafundi í apríl í fyrra eftir að hann tók við af Moyes:
I want players to play with passion, speed, tempo and be brave with imagination. All the things that are expected of a Manchester United player. Manchester United’s philosophy is to attack.
Ekki beint það sem við höfum séð í vetur og Van Gaal virðist ekki taka hafa tekið tillögur Giggs um hvernig ætti að snúa leiknum gegn Newcastle upp í sigur í mál og þegar United slysast svo á markið getur Hollendingurinn ekki hamið sig í því að segja: „Hah, hvað sagði ég ekki! HVAÐ SAGÐI ÉG EKKI!“
Og þegar maður sér Ryan Giggs ekki einu sinni fagna sigurmarki United veldur það manni áhyggjum.
Svo sá ég þetta:
Þetta breytir eiginlega öllu. Í staðinn fyrir einhverja undirliggjandi gremju sem hefur verið bullandi í einhverja mánuði og suðan orðin svo mikil að hann gat ekki einu sinni fengið sig til að fagna marki sjáum við okkar mann taka þátt í fagnaðarlátunum. Miðað við hvernig Van Gaal virðist segja „Wayne“ í sífellu við Giggs bendir það til þess að Giggs hafi viljað taka Rooney útaf til þess að freista þess að ná marki, ef til vill fyrir ákveðinn kólumbískan framherja sem sat á bekknum allan leikinn.
Vissulega rennur á hann gríma þegar Louis van Gaal klappar honum á kinnnina en í ljósi þessa myndskeið og í þessu samhengi hverfur brosið af vörum Giggs ekki vegna einhvers undirliggjandi ósættis yfir leikstíl liðsins heldur fremur vegna þess að yfirmaður hans kemur að honum og glottir yfir því að hafa haft rétt fyrir sér á meðan Giggs hafi haft rangt fyrir sér.
Hver myndi brosa í gegnum það?
ke says
„Nei, í staðinn sjáum við hann með steinrunnið andlit, nánast eins og að sigurmarkið hafi verið vonbrigði“
Hann virðist segja „yeah“, brosir og klappar. Svo verður hann hálf vandræðalegur þegar LVG fer að hnefa hann í fésið. Ef að forsenda pistilsins er að Giggs hafi ekki fagnað markinu finnst mér þessi staðreynd gengisfella hann.
Eiríkur Red says
Það sást líka hvað LVG var ánægður með Rooney í leikslok, knúsaði hann í bak og fyrir :)
McNissi says
Það að hann fagnaði markinu breytir því samt ekki að hann er POTTÞÉTT ekki ánægður með leikstílinn sem LVG vill spila. Engar áhættur, senda til baka og hægt spil… Sjáið þið fyrir ykkur að Giggs væri jafn góður í þessu liði eins og hann var í Ferguson liðinu?
Sigurjón Arthur Friðjónsson says
Ég vil ekki koma sem einhver spekingur eftir á en ég er búin að benda á samband þeirra félagana á Facebook og held einnig hér inni :-) Hef tekið eftir því leik eftir leik að þegar myndavélin er á þeim félögum þá virðast þeir vera alveg hættir að tala saman ? Þetta var ekki svona í byrjun tímabilsins eða ég er næstum alveg viss um það ! En er viss um þetta á eftir að lagast ef þetta er eitthvað yfir höfuð.
Eitt af því sem stóð uppúr í þessum leik var að LVG stóð á fætur og öskraði á menn…að mínu mati algjör tímamót og þó fyrr hefði verið.
Eitt er alveg á hreinu að ég skil vel reiðina sem sást framan í Di Maria þegar honum var skipt útaf, hann var búin að eiga nokkrar heimsklassa sendingar sem áttu alltaf undir venjulegum kringumstæðum að gefa mark eða tvö ! Ég sá það líka að hann átti slatta af feilsendingum en það er alls ekki alltaf honum að kenna, stundum er eins og menn séu ekki tilbúnir eða hreinlega fatti ekki hversu klár knattspyrnumaður Di Maria er eða þannig lítur þetta út séð frá mínum bæjardyrum.
kv,
SAF
Audunn says
Guð minn góður,
mér finnst menn fara ansi langt fram úr sér í skáldskapnum og ágiskunum.
Giggs fagnar greinilega markinu, þannig að það er bara bull að halda öðru fram.
Það er algjörlega ómögulegt að giska á hvað var þarna um að vera, kannski voru þeir í veðmáli um hver myndi skora sigurmarkið og Van Gaal hafði rétt fyrir sér, eða bara allt allt allt annað.
Mér finnst alveg meira en nóg að hlusta og lesa skrif stuðningsmanna annara liða sérstaklega Arsenal og Liverpool þegar kemur að því gagngrína allt sem Van Gaal gerir og segir að það er ekki bætandi á það þegar aðdáendur United eru farnir að gera það líka.
Þetta var fínn leikur að hálfu United, þeir fengu færi til að skora fleiri mörk og skoruðu annað algjörlega löglegt mark sem dæmt var af þeim. Þrjú stig í hús og allt í góðu en nei nei þá þurfa menn að reyna að finna eitthvað neikvætt og ef það finnst ekki þá er bara um að gera að búa það til með einhverjum ágiskunum..
Gylfi Hallgrímsson says
Audunn og séstaklega ke: þið ættuð að lesa allan pistilinn í heild sinni. Höfundur segir að hann hafi haft áhyggjur.. þangað til að hann sá klippu þar sem sést að Giggs fagnar…eitthvað sem var auðvitað ekki sýnt í útsendingu í gær.
Tryggvi Páll says
Ég skrifaði þessa grein aðallega vegna fyrra myndskeiðsins. Það hefur verið tilefni vangaveltna, bæði hér og hjá enskum blaðamönnum, um hvort ekki sé allt í lagi á milli Louis van Gaal og Giggs. Skiljanlega, þessu myndskeiði var dreift af mjög vinsælum United-manni á Twitter og það lítur bara verulega illa út.
En þegar maður sér heildarmyndina sem n.b. fékk ekki jafn mikla dreifingu, sér maður að þetta er bara smáatriði og ekkert til þess að gera veður út af. Það er það sem ég er að reyna að segja en ef til vill tek ég það ekki nógu skýrt fram. Biðst velvirðingar á því.
Auðunn A Sigurðsson says
Já ok, ég gerði þau fáránlegu mistök að klára ekki að lesa þennan pistil til enda, enda að flýta mér þótt það sé léleg og ekki marktæk afsökun með öllu.
Biðst afsökunar á því hér með og skal svo sannarlega ekki koma með svona komment á pistla fyrr en að vera búinn að lesa þá til enda og það helst tvisvar sinnum. Svona uppákomur eru fáránlegar og ekki boðlegar að minni hálfu.
Þú þarft ekki að afsaka þig Tryggvi Páll, það kemur alveg skýrt fram hvað þú átt við ef menn LESA pistilinn til enda, ekki við þig að sakast að menn eins og ég hafi ekki gert það í þessu tilfelli.
AFSAKIÐ!!
En það væri afskaplega gaman að vita hvað fór þarna á milli Giggs og Van Gaal og ræða það svo, það er alveg með öllu ómögulegt að reyna að giska á það.
Vona svo sannarlega ekki að það sé eitthvað ósamkomulag þarna á milli þótt maður geri sér jú alveg grein fyrir því að svona samband gangi ekki fyrir sig árekstra laust enda afar ólíkir persónuleikar þarna á ferð.
Held samt að Giggs sé það þroskaður að kyngja því að það er Van Gaal sem ræður á endanum þótt hann hafi og meigi svo sannarlega hafa skoðanir.
þegar öllu er á botninn hvolft þá vilja þeir báðir það besta fyrir klúbbinn.
Ég er mjög ánægður með þá báða og vona að þeirra samstarf endist í nokkur ár.
Barði Páll Júlíusson says
Er alveg sammála Auðinni að það er algjörlega tilgangslaust hjá fólki út í heimi að vera reyna leita af einhverju ósætti og nánast leggja allt í að búa það til, sbr. dreifa video’inu sem sýndi ekki alla myndina.
Hins vegar langar mér að nefna einn hlut og það er það sem allir eru að tauta með að van Gaal sé ekki að spila „Manchester United“ leiðina og sé að spila alltof hægan bolta. Jújú það er nú kannski alveg rétt að það er ekki búið að vera mikill hraði í spilinu og ætla ég ekkert að taka fyrir það. Hins vegar þá þarf maður ekki að fara langt aftur í ár Ferguson nema kannski 1-2 tímabil og ég gæti haldið áfram að grafa dýpra til þess einmitt að finna það sama.
Hver man ekki eftir mörgum árum með O’Shea og Fletcher á miðjunni? Þarna er ég þó að grafa dýpra en ég ætlaði upprunarlega en fannst þetta kannski besta dæmið en Cleverley á miðjunni átti það til að gefa alveg rúmlega 95% sendinga sinna til baka eða til hliðar frekar en framm á við. Er það allt í einu gleymt og grafið?
Á meðan við höldum boltanum og reynum að sækja, þó svo að það muni include’a það að gefa aftur til baka er bara það sem kallast færsla í fótbolta. Það eru ekki allir Paul Scholes eða Wayne Rooney(sem hefur reyndar klikkað mikið á þessu upp á síðkastinu) sem geta gefið 60 metra sendingar yfir á hinn kantinn og stundum þarf þá bara að vera færsla á liðinu til að reyna finna einhverjar glufur.