Mikið rosalega var sigurinn í gærkvöldi gegn Tottenham kærkominn. Ekki nóg með það að frammistaða liðsins hafi verið eitthvað sem við höfum beðið eftir í allan vetur (jafnvel lengur) heldur tókst liðinu bæði að setja pressu á Manchester City í öðru sætinu sem og að senda einn af okkar helstu keppinautum um sæti í Meistaradeildinni að ári niður í miðjumoðið. Það er nóg eftir af tímabilinu en hver sigur á þessu stigi deildarinnar er einfaldlega gulls ígildi.
Mig langar að skoða tvennt að þessu sinni. Í fyrsta lagi ætla ég aðeins að kíkja á varnarleik liðsins en nú hefur liðið haldið hreinu í síðustu þremur deildarleikjum. Í öðru lagi ætla ég aðeins að skoða leikmannamálin fyrir næsta tímabil.
Varnarleikur liðsins
Varnarleikur United hefur ekki þótt sérstaklega merkilegur á þessu tímabili. Hann hefur fengið sinn skerf af gagnrýni. Heldur betur. Talsvert af þessari gagnrýni á rétt á sér. Það er tiltölulega erfitt að setja niður varnarlínu á blað og bera hana saman við þau lið sem við viljum bera okkur saman við. Kæmist Valencia eða Evans í vörnina hjá Chelsea eða Real Madrid. Væru Jones eða Smalling fastamenn í City eða Barcelona?
Það hjálpar ekki til að varnarmenn okkar eru oft sjálfum sér verstir. Valencia gaf mark gegn Arsenal fyrir viku, Jones var nálægt því að gefa mark gegn Tottenham í gær. Það vill svo til að af þeim 20 liðum sem eru í Úrvalsdeildinni er United í 2. sæti þegar kemur að tölfræðiþættinum varnarmistök (Defensive Error). Everton trónir á toppnum með 30 stykki og við fylgjum þeim fast á hæla með 26. Chelsea er með 11, City með 14. Varnarmenn okkar gera því mikið af mistökum og líta því oft illa út inni á vellinum.
Það vill okkur til happs að bakvið vörnina er besti markmaður heimsins um þessar mundir. Hann á stóran þátt í því að aðeins 2 af þessum 26 mistökum hafa leitt til marks. Everton hefur fengið á sig 14 í kjölfar varnarmistaka. Aðeins Burnley og Chelsea fá á sig færri mörk en United vegna varnarmistaka. Blessunarlega koma þessi mistök því ekki alvarlega í bakið á liðinu.
Það hjálpar auðvitað ekki til að varnarmenn okkar er ekki úr mikið sterkara efni en hvaða meðalpappakassi sem er. Louis van Gaal hefur þurft að rótera ansi grimmt vegna meiðsla allt tímabilið og þá sérstaklega fyrri hluta þess. Á meðan hafa Chelsea, City og Southampton sem eru þau lið fyrir utan United sem hafa fengið fæst mörk á sig í deildinni og gert einna fæst varnarmistök verið að rúlla á sömu varnarmönnum leik eftir leik. Þessi lið hafa að miklu leyti sloppið við meiðsli og það er á kristaltæru hvernig besta varnarlína þessara liða er. Þetta er munaður sem við höfum ekki geta leyft okkur á þessu tímabili.
Þrátt fyrir þetta hafa bara Chelsea og Southampton fengið á sig færri mörk á þessu tímabili. Aðeins þrjú lið hafa skorað tvö eð fleiri mörk á okkur í leik á þessu tímabili, WBA, Swansea (2x) og Leicester(!). Það er því undantekning ef liðið fær á sig meira en 1 mark. Að auki hefur liðið ekki fengið á sig mark í 10 leikjum á tímabilinu og af toppliðunum hafa bara Chelsea, Liverpool og Southampton haldið hreinu oftar.
Hvernig er hægt að útskýra þetta? Ég er búinn að nefna David de Gea. En má ef til vill finna aðra skýringu? Má benda á hinn varfærna og tiltölulega leiðinlega leikstíl sem við höfum séð liðið spila á stórum hluta þessa tímabils. Getur verið að þessi hægi og áhættulausi sendingarstíll sé kominn til vegna þess að varnarmönnum okkar sé ekki treystandi og að þeir þurfi alla þá vernd sem hægt er að fá? Hvernig er annars hægt að skýra það að United gerir næstflest varnarmistök allra liða í deildinni en er samt eitt af bestu varnarliðum deildarinnar? David de Gea er góður en er hann svo góður?
Þetta er athyglisverð pæling og ef það er sannleikskorn í henni er ekki laust við það að maður finni fyrir örlítilli tilhlökkun og bjartsýni varðandi næsta tímabil enda öllum fulljóst að helsta markmið sumarsins sé að fylla liðið af varnarmönnum sem hægt er að treysta. Fáum við þá að sjá United spila viku eftir viku eins og það spilaði gegn Tottenham í gær? Eða er þetta kannski aðeins of hentugt til þess að vera satt?
Leikmannaslúður
Mike Keegan er blaðamaður Daily Mail. Hann tísti þessu á föstudaginn:
Told tonight United have already agreed three deals for the summer. No names mentioned but it’s looking like a better structured window.
— Mike Keegan (@MikeKeegan_DM) March 14, 2015
Daily Mail er auðvitað ekki áreiðanlegasti miðill heimsins en þessi tiltekni blaðamaður er búinn að vera í bransanum í dágóðann tíma. Hann starfaði áður hjá Manchester Evening News og BBC en íþróttadeild BBC er staðsett í Manchester. Hann ætti því, að minnsta kosti ef hann vill láta taka sig alvarlega sem íþróttablaðamann sem á að fjalla um Manchester United, að vera með þokkalega heimildarmenn innan félagsins. Annað sem vekur athygli er að þessu tísti fylgir enginn tengill inn á neitt. Þetta var því ekki eitt af þessum skemmtilegu tístum sem fær mann til þess að fara inn á síðu blaðsins hans í von um að finna eitthvað bitastætt.
Hann lét engar frekari skýringar falla en þetta eina tíst. Þetta hefur orðið tilefni mikilla vangaveltna á Twitter. Ég held að það sé morgunljóst að Ed Woodward & co hafi allt þetta tímabil verið að vinna í leikmannamálum fyrir sumarið. Undanfarin tvo sumur hefur United farið alltof seint af stað og stundað sín viðskipti undir lok gluggans. Það er ekki vænlegt til árangurs en má ef til vill skýra með því að undanfarin tvo tímabil hafa nýir stjórar tekið við og þeir hafa báðir tekið við tiltölulega seint. Moyes í byrjun júlí og Van Gaal um miðjan júlí.
Í sumar vonar maður innilega að United klári sín viðskipti fljótt og vel og fréttir á þessu tímabili benda til þess sú verði raunin. Sagan segir að menn viti nákvæmlega hvaða stöður menn vilji styrkja og hvaða leikmenn menn vilji fá. Það hafa margir leikmenn verið orðaðir við okkur en ef maður sigtar í gegnum allt það er ljóst að Van Gaal er að leita að miðverði, hægri bakverði, miðjumanni, kantmanni og líklega sóknarmanni því að ekki virðist allt þetta Falcao-umstang vera að borga sig.
Ef við gefum okkur að Mike Keegan sé með réttar upplýsingar og að Woodward sé búiinn að klára þrjú leikmannakaup nú þegar, hvaða kaup eru þetta?
Það er hægt að fara með þetta fram og aftur en ég tel að hér sé ekki átt við einhver stórkaup á leikmönnum á borð við Hummels, Pogba eða Ronaldo/Bale ef menn vilja láta sig dreyma. Ég tel að hér sé átt við leikmenn sem eru hjá minni liðum Evrópu, leikmenn sem hafa átt gott tímabil og vilji spreyta sig hjá stærri félögum. Jafnvel geta þetta verið leikmenn sem eru samningslausir eftir tímabilið og er þá þeim mun auðveldara að fá. Ef ég ætti að giska á nokkur nöfn myndi ég segja að hér væri að ræða um einhverja af eftirtöldum leikmenn:
Memphis Depay – PSV: Besti leikmaður besta lið tímabilsins í Hollandi. Hefur skorað 16 mörk í 23 deildarleikjum og er mikill aðdáandi Louis van Gaal eftir að okkar maður gaf Memphis tækifæri með hollenska landsliðinu. Kantmaður sem er mjög eftirsóttur um þessar mundir og fyrrverandi njósnari United telur vera meira efni en sjálfur Cristiano Ronaldo var á sínum tíma. Það er talið öruggt að hann fari frá PSV eftir tímabilið.
Paulo Dybala – Palermo: Hefur vakið mikla athygli fyrir vaska framgöngu á tímabilinu. Framherji sem skorar ekki bara mörk heldur leggur upp fyrir félaga sína. Er með 12 mörk og 7 stoðsendingar í Serie A. Stjórnarformaður liðsins segir að hann sé með tilboð í höndunum frá ónefndu félagi auk þess hann sagði í janúar að United hafi spurst fyrir um leikmanninn í janúar.
Danny Ings – Burnley: Þessi enski framherji hefur komið flestum í opna skjöldu með góðum frammistöðum með Burnley á tímabilinu. Það sást þegar Burnley spilaði gegn United á Old Trafford um daginn að þarna er á ferðinni fínasti framherji. Ungur, enskur og samningslaus eftir tímabilið og fengist því frítt en hann hefur mikið verið orðaður við Liverpool og vin okkar Moyes hjá R. Sociedad.
Nigel de Jong – AC Milan: Þennan leikmann þekkja allir og fáir betur en Louis van Gaal. Spilaði með City og er eiginlega alveg óþolandi leikmaður en hann er óumdeilanlega góður í því sem hann gerir sem er að vera brimbrjótur sem stöðvar uppspil mótherjans. Ekki mest spennandi leikmaðurinn á markaðinum en gæti þó verið ágætur kostur á miðjuna í 1-2 tímabil hjá United. Hann er samningslaus eftir tímabilið og kæmi því frítt.
Af þessum leikmönnum hefði ég mesta trú á að Depay verði keyptur til liðsins. Sambands við Louis van Gaal á að vera með besta móti. Hann myndi jafnframt henta fullkomnlega í þá uppstillingu sem liðið er að spila um þessar mundir. Þetta er þó auðvitað hægt að ræða fram og aftur án þess að það skili nokkrum árangri. Auðvitað gæti þessi tiltekni blaðamaður bara verið að bulla og auðvitað þarf enginn af þessum leikmönnum endilega að vera á ratsjánni. Það sem skiptir mestu máli er að mönnum takist að ganga frá leikmannamálum sumarsins hratt og örugglega. Það er aldrei gott að vera að ýta á F5 klukkan 23.59 á síðasta degi leikmannagluggans í von um eitthvað bitastætt.
Annars gef ég bara orðið laust ef menn hafa einhverjar aðrar vangaveltur sem þeir vilja lofta um.
Eymi says
Í leiknum í gær voru Smalling og Jones á pari með bestu varnarmönnum heims. Sérstaklega Smalling, hann var hreint og beint rosalegur, át allt. Það skýrist auðvitað á því að liðið var aggresívara sem heild, enginn Tottenham maður fékk að snúa með boltann og sækja á vörnina. Það var vörnin sem sótti að sóknarmönnum Tottenham.
Að mínu mati eru þessi varnarmistök að miklu leyti vegna leikstílsins og óöryggis í liðinu. Miðvernir okkar eru flottir leikmenn en allt liðið þarf að verjast og allt liðið að þarf að sækja saman sem heild einsog við gerðum í gær.
Hægri bakvörður er algjört lykilatriði að mínu mati, heimsklassa miðvörður væri óskandi en ekki bráðnauðsynlegt. Frekar að spandera í einhverja maskínu á miðsvæðið og einhvern huggulegan og varnarhrellandi kantmann. Þá förum við langleiðina að titlinum á næsta tímabili ef þú spyrð mig.
Halldór Marteinsson says
Skemmtilegar hugleiðingar :)
Reyndar skoruðu WBA og Swansea 2 mörk gegn United svo það er bara neðsta liðið Leicester sem hefur skorað fleiri en tvö mörk gegn United í deildinni. Sem er mjög fyndið, sérstaklega miðað við að United spilaði mjög skemmtilegan bolta megnið af þeim leik.
Annars er ég gríðarlega spenntur fyrir sumrinu og hlakka mikið til að sjá hvað verður. Líst rosalega vel á Depay. Svo er spurning um að kíkja á Janmaat í hægri bak.
Cantona no 7 says
Ég held það komi 5-6 nýjir menn í sumar.
Okkur vantar tvo mjög góða varnarmenn og þá er ég að tala um miðvörð og hægri bakvörð.
Okkur vantar einn klassa miðvallarmann í viðbót og vængmann.
Okkur vantar tvo jafnvel þrjá framherja í viðbót.
Það verður hreinsað eitthvað til í sumar líka.
Þannig að 2015-2016 munum við keppa um stóru titlana.
G G M U
Runólfur Trausti says
Ef liðið fær til sín 5-6 nýja leikmenn í sumar (og losa sig við jafna marga) þá erum við að fara díla við annan eins vetur og í vetur. Róm var ekki byggð á einum degi.
Það sem er öðruvísi við þetta sumar er auðvitað það að a) við erum með þjálfara b) það er ekkert stórmót í sumar.
Að því sögðu þá held ég að það komi í mesta lagi þrír nýjir leikmenn (nema e-h ungir, efnilegir leikmenn bætist við). Þessir þrír menn verða að öllum líkindum hægri bakvörður / hafsent, miðjumaður og kantmaður.
Þeir leikmenn sem ég held að gætu komið eru
Nathaniel Clyne; hann er að renna út á samning og er fínn hægri bakvörður. Að því sögðu þá tel ég hann ekki mikið betri en Rafael og ég persónulega væri til í að halda Rafael. Eða þá að selja Antonio Valencia og kaupa Clyne.
Hvað varð hafsent þá er liðið með fullt af hafsentum sem eru allir mjög fínir þegar þeir eru leikfærir og erfitt að bæta þá varnarlínu nema með því að fá leikmenn að sama kalíberi og Mats Hummels – sem ég tel engar líkur á að komi svo að …
Svo reikna ég með því að liðið fái miðjumann, sá miðjumaður er að öllum líkindum Kevin Strootman, ég veit lítið um hann en hann ætti að vera góð viðbót. Annars finnst mér miðjan okkar mjög fín. Miðjan eins og allar aðrar stöður þarf bara að vera minna meidd og þá erum við að tala saman :)
Svo er ég sammála Tryggva varðandi Memphis. Virðist vera fullkominn fyrir Van Gaal. Ef hann er of dýr þá ætti Man United alveg að geta notað Nani, hann er að eiga ágætis tímabil (4mörk og 2 stoðs. í 6 leikjum í Meistaradeildinni t.d.) í Portúgal og ætti að geta nýst United næsta vetur.
Hvað varðar framherja stöðuna þá vill ég sjá liðið spila 4-3-3 og þá ættu Wayne Rooney – Robin Van Persie og James Wilson að duga sem framherjar í þessa stöðu.
Þannig að leikmenn inn (fyrir mína parta): Clyne, Strootman og Memphis.
Ef liðið fer í Evrópukeppni þá er algjör óþarfi að losa sig við leikmenn því meiðslabölvunin er ekki að fara neitt – fínt að hafa hópinn sem stærstan.
Sem hluta af Mánudagspælingum þá fór ég að velta fyrir mér hvort það væri tilviljun að nánast tveir bestu hálfleikar Man United í vetur hafi komið gegn Tottenham? Fór vissulega 0-0 á White Hart Lane þá var fyrri hálfleikurinn þar mjög svipaður og á Old Trafford. Það er líka magnað að liðið haldi hreinu gegn Eriksen og Kane :) Í fyrri leiknum spilaði liðið 352 leikkerfið en 433 á Old Trafford. Þyrfi líklega að leggjast í smá tölfræði en það er eitthvað þarna … ég er viss um það. Vonum bara að eigum jafn auðvelt með Liverpool næstu helgi.
Góðar Stundir.
-RTÞ
Halldór Marteinsson says
Átti að vera að læra svo ég fór auðvitað í það að kíkja á hvernig þetta hefur spilast hjá efstu liðum í þeim leikjum sem þau hafa fengið á sig 2 eða fleiri mörk. Það er nokkurn veginn svona, ef ekkert hefur sloppið framhjá mér:
Chelsea:
– Everton (útileikur 30/8, Chelsea vann 6-3)
– Swansea (heimaleikur 13/9, Chelsea vann 4-2)
– Newcastle (útileikur 6/12, Chelsea tapaði 1-2)
– Tottenham (útileikur 1/1, Chelsea tapaði 3-5)
6 stig af 12 mögulegum
Manchester City:
– Arsenal (útileikur 13/9, jafntefli 2-2)
– Hull (útileikur 27/9, City vann 4-2)
– West Ham (útileikur 25/10, City tapaði 1-2)
– QPR (útileikur 8/11, City tapaði 1-2)
– Burnley (heimaleikur 28/12, jafntefli 2-2)
– Sunderland (heimaleikur 1/1, City vann 3-2)
– Arsenal (heimaleikur 18/1, City tapaði 0-2)
– Liverpool (útileikur 1/3, City tapaði 1-2)
8 stig af 24 mögulegum
Arsenal:
– Everton (útleikur 23/8, jafntefli 2-2)
– Man. City (heimaleikur 13/9, jafntefli 2-2)
– Chelsea (útileikur 5/10, Arsenal tapaði 0-2)
– Hull (heimaleikur 18/10, jafntefli 2-2)
– Swansea (útileikur 9/11, Arsenal tapaði 1-2)
– Man. Utd. (heimaleikur 22/11, Arsenal tapaði 1-2)
– Stoke (útileikur 6/12, Arsenal tapaði 2-3)
– Liverpool (útileikur 21/12, jafntefli 2-2)
– Southampton (útileikur 1/1, Arsenal tapaði 0-2)
– Tottenham (útileikur 7/2, Arsenal tapaði 1-2)
4 stig af 30 mögulegum
Manchester United:
– Swansea (heimaleikur 16/8, Utd. tapaði 1-2)
– Leicester (útileikur 21/9, Utd. tapaði 3-5)
– WBA (útileikur 20/10, jafntefli 2-2)
– Swansea (útileikur 21/2, Utd. tapaði 1-2)
1 stig af 12 mögulegum
Liverpool:
– Man. City (útleikur 25/8, Liverpool tapaði 1-3)
– West Ham (útileikur 20/9, Liverpool tapaði 1-3)
– QPR (útileikur 19/10, Liverpool vann 3-2)
– Chelsea (heimaleikur 8/11, Liverpool tapaði 1-2)
– Crystal Palace (útileikur 23/11, Liverpool tapaði 2-3)
– Man. Utd. (útileikur 14/12, Liverpool tapaði 0-3)
– Arsenal (heimaleikur 21/12, jafntefli 2-2)
– Leicester (heimaleikur 1/1, jafntefli 2-2)
– Tottenham (heimaleikur 10/2, Liverpool vann 3-2)
8 stig af 27 mögulegum
Southampton:
– Liverpool (útileikur 17/8, Soton tapaði 1-2)
– Man. City (heimaleikur 30/11, Soton tapaði 0-3)
– Man. Utd. (heimaleikur 8/12, Soton tapaði 1-2)
– Liverpool (heimaleikur 22/2, Soton tapaði 0-2)
0 stig af 12 mögulegum
Veit svosem ekki hvað má greina af þessari yfirferð nema þá helst það að flest þessara liða eiga það til að leka nokkrum gegn alls konar liðum, nema þá helst Southampton.
Cantona no 7 says
Nei Róm var ekki byggð á einum degi Runólfur Trausti satt er það.
Það sem ég vil sjá hjá okkar mönnum er einfaldlega að keyptir verði klassamenn í vörnina,miðjuna og frammi.
Eini alvöru framherjinn sem er hjá okkur núna er Rooney.
Það vita það allir sem fylgjast með fótbolta að nóg er til af peningum hjá Man Utd og tel ég að það sé kominn tími t.þ.a. fjárfesta almennilega í liðinu okkar.
Við þurfum ca 4 klassamenn og jafnvel tvo efnilega í viðbót.
Runólfur þú talar um Strootman sem er í meiðslum og ekki líklegt að hann komi úr þessu.
Evans,Jones,Rafael og RVP mega fara í sumar.
G G M U