Liverpool – Manchester United er erfiðasti útileikur vetrarins fyrir Manchester United. Það er ekkert flóknara en það. Þetta er líka stærsti útileikur vetrarins fyrir stuðningsmenn, hvort sem er hér heima eða á Englandi, þó að vissulega séu viðhorfin eilítið öðruvísi Það er hægt í Englandi að halda því fram að fólkið í borginni 50 km í burtu sé allt öðruvísi, leiðinlegra og ljótara, heimskara og vitlausara og hvað nú sem er, og í hópefli trúa þessu. En hér heima er Liverpool stuðningsmaðurinn systkini þitt, foreldri, samstarfsmaður eða besti vinur (nú eða al…flest þetta í einu). Og við erum næsta lík öll.
En á morgun setjum við rök á hilluna, og höfum fulla og einarða óbeit á andstæðingnum og öllum þeirra gjörðum. Og mánudagurinn verður erfiður í vinnunni fyrir einhverja. Borði dagsins er í boði United stuðningsmanna og endurspeglar hvernig hægt er að stríða andstæðingnum illa án þess að fara yfir strik velsæmis
Liverpool stuðningsmönnum þykir það enda súrt að þeir stjórar þeirra sem skiluðu jafn mörgum Evrópumeistaratitlum og United stjórarnir fengu aldrei náð fyrir orðunefnd hennar hátignar Englandsdrottiningar
Í fyrra fór Manchester United á Anfield ellefu stigum og fjórum sætum á eftir erkiféndunum með það verkefni að stöðva að því er virtist óumflýjanlega sókn Liverpool að titlinum. Herfilegt 0-3 tap var niðurstaðan og það kom í hlut annarra að sjá til þess að enginn yrði titillinn.
Bæði lið byrjuðu skelfilega illa í haust en United komst fyrr í gang og fór að hala inn stig. Liverpool var lengur að jafna sig eftir fráhvarf Suarez og meiðsli Sturridge og það var víst 3-0 sigur United á Liverpool í desember þar sem púlarar sáu fyrstu batamerki á liðinu. Síðan þá hefur liðið sótt á og nú er Liverpool aðeins tveim stigum á eftir United í baráttunni um Arsène Wenger bikarinn. En eins og við vitum er United síðan aðeins tveim stigum á eftir Manchester City sem situr í öðru sæti.
Leikurinn í dag hefur því meiri þýðingu fyrir bæði lið en verið hefur í sex ár, síðan 14. mars 2009 þegar United fór á Anfield sitjandi á toppnum en Liverpool lið Rafa Benítez var 7 stigum á eftir og þurfti að halda sér í baráttunni. Liverpool gerði það með 4-1 sigri en þegar upp var staðið nægði það ekki og United hirti titilinn og Liverpool liðið brotnaði upp.
Í dag er þetta enn jafnara. Bæði lið þurfa nauðsynlega á meistaradeildarsæti að halda og ljóst er að baráttan um það verður geysihörð. City er að gefa eftir þó að hádegisleikur þeirra í dag móti West Brom muni verða þeim góður. Arsenal er á mikilli ferð sem og Liverpool og United hefur verið að hirða stigin án þess að sýna frábæra leiki.
Þangað til á sunnudaginn var. Þá gekk allt upp og United rústaði Tottenham og sýndi besta leik sem liðið hefur sýnt, jafnvel í mörg ár. Það er leikur sem þarf að byggja á þegar haldið er upp M62 á morgun og sýna að leikspeki Louis van Gaal sé loksins að fara að skila árangri.
Þar sem Van Gaal hefur sagt að hvort Luke Shaw né Marcos Rojo séu í standi til að byrja á morgun er aðeins eitt spurningarmerki við liðið á morgun: Mun Ángel di María koma aftur inn í liðið eftir leikbannið eða verðu Juan Mata áfram? Ekki treysti ég mér til að svara þeirri spurningu en stilli hér upp liðinu eins og það var gegn Tottenham.
Ef liðið spilar eins og gegn Tottenham þá vinnst þessi leikur. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hversu mikið breytist spilamennskan við að fara á útivöll enda er munur á heima og útiformi United all svakalegur. Í heimavallartöflunni trónum við á toppnum, en útivallarframmistaðan er einungis sú sjöunda besta í deildinni. Ef við breytum þessu ekki á morgun mun illa fara. Til þess þarf toppframmistöðu hjá okkar mönnum og eins og á móti Tottenham þarf slagurinn um miðjuna að vinnast. Ég vona að Van Gaal setji fullt traust sitt á Carrick, Herrera og Fellaini og hringli ekki með það. Carrick var frábær móti Spurs, Herrera virðist vera að vinna sig í áliti hjá Van Gaal, kannske farinn að fara eftir því sem fyrir hann er lagt, og mér er alveg slétt sama um fagurfræðileg rök gegn Marouane Fellaini, frammistaða hans undanfarið er lykill að því að United sé að vinna leiki.
Sem fyrr segir er Liverpool búið að vera á mikilli siglingu síðan United vann á Old Trafford. Nýju mennirnir sem komu í sumar hafa verið að koma inn í liðið og Jordan Henderson og Philippe Coutinho eru víst að sýna allar sínar bestu hliðar. Daniel Sturridge er svo kominn til baka og farinn að skora.
En stóru fréttirnar á morgun verða líklega þær að þó Steven Gerrard sé að koma til baka úr meiðslum og hafi spilað 25 mínútur í leik Liverpool gegn Swansea á mánudaginn þá eru fæstir stuðningsmenn sem vilja sjá hann byrja á morgun. Miðja Liverpool er víst að spila svo vel að gamli höfðinginn á ekki greiða leið til baka. Ég reikna hins vegar fastlega með að sjá hann koma inn á, og verð ekkert glaður við það, enda er hann búinn að vera leiðinlegur við okkur oftlega.
Liverpool breytti um leikstíl um það leiti sem leikurinn gegn United var og hefur síðan þá spilað með þriggja manna vörn sem hefur lagt grunninn að þessari velgengni þeirra. Guardian spáir liðinu þeirra svona.
Síðan eru menn að spá í það hvort Sterling verði framar, hvort Marković komi inn í liðið (fyrir Lallana þá og Sterling framar) og hvort Gerrard fari inn. Þeir eru þess vegna með mjög stöðugt lið sem búið er að standa sig vel.
En það er nú eitt sinn þannig að Manchester United er tveim stigum á undan áður en blásið er til leiks og tap þýðir engin endalok þó vissulega geri það okkur erfitt fyrir. Jafntefli á Anfield er alltaf ásættanleg úrslit en ef fer eins og okkur dreymir um og Járntúlípaninn sækir þrjú stig á Anfield þá mun stigataflan í lok dags á morgun líta gríðarfallega út.
Til að hita ennfrekar fyrir leikinn stilltum við á X977 og hlustuðum á Fótbolti.net þáttinn milli 12 og 14 í dag. Þar var okkar eigin @tryggvipall ásamt @maggamark frá kop.is og fóru þeir yfir leikinn. Upptakan af því er hér.
Og ef þú varst ekki búinn að hlusta á sameiginlegt podkast Rauðu djöflanna og kop.is frá því á miðvikudaginn, þá er ekkert annað að gera akkúrat núna en að fara og hlusta!
Leikurinn hefst á morgun kl. 13:30
Svo skil ég eftir hérna Bryan Robson að tala um einn uppáhalds leikinn minn gegn Liverpool og einhver flottustu mörk sem United hefur skorað.
Tvö svona á morgun, takk!!
Hannes says
0-3 og 1-4 tapið voru bæði á trafford því miður en ekki á anfield.
arnar freyr says
Mér finnst búið að hæpa þetta upp úr öllu valdi með spurs leikinn, jú við spiluðum ágætlega í 40 min í þeim leik ekkert meira en það gegn ömurlegu tottenham liði. og örlítið heppnir bara að ná inn þessum 3 mörkum enda gáfu þeir okkur 2 mörk. En að leiknum sjálfum þá tæki ég 1-1 jafntefli fyrirfram og tap yrði skelfilegt veganesti fyrir leikina framundan. ég vona að van gaal setji ekki di maria inná strax og haldi sig við mata sem var flottur síðustu helgi mín spá er 2-0 tap ..
Halldór Marteinsson says
Flott upphitun, takk kærlega :)
ManUtd.com setti í dag inn myndband af æfingu. Þar sást skipt í lið og miðað við þá skiptingu má telja líklegt að Fellaini, Herrera og Mata verði í byrjunarliðinu ásamt t.d. Rooney, Smalling og Tony V.
Ég man hvernig mér leið fyrir seinni leik þessara liða síðasta tímabil. Þrátt fyrir að hann væri á Old Trafford þá hafði maður litla sem enga trú á því að United væri að fara að gera einhverja góða hluti í þeim leik. Enda fór hann illa.
Núna hins vegar er maður bara nokkuð bjartsýnn. Liverpool er á góðu rönni og verða strembnir en samt finnst mér eins og eitthvað sé svona að byrja að smella almennilega hjá United. Og jafnvel þótt það smelli ekki 100% í þessum leik þá finnst manni liðið samt eiga góðan séns á að ná einhverjum úrslitum út úr þessu.
Einar T says
Úff allir unnu í dag. Þetta verður mikilvægur og skemmtilegur leikur í einhverju stjarnfræðilegu veldi. Koma svo
Ingvar says
Erfiðasti leikur tímabilsins, hefur alltaf verið og mun alltaf vera. Það virðist ekki skipta máli hvernig LP ganga í leikjum á undan, þeir virðast alltaf geta gírað sig all verulega upp í þessum leikjum.
Miðað við útivalla árangur tímabilsins þá er bara rökrétt að spá 3-1 tapi, við jöfnum í 1-1 en Tony V fær rautt snemma í seinni og LP bætir við tveimur. Dómarinn verður í miklu aðalhlutverki í leiknum.
Cantona no 7 says
Vinnum 1-3 á morgunn og Rooney skoarar tvö og Fellaini eitt,
G G M U
eeeeinar says
Þetta verður erfitt, einsog alltaf á Anfield. Jafntefli yrði fín úrslit og ætla ég að spá 2-2, þó miðað við form og spilamennsku þessara lið upp á síðkastið sé tap ekki ólíklegt.
Lampi says
Ég segi hörkuspennandi 0-0 þar sem að báðir markmennirnir á vellinum eiga stjörnu leik og já Rooney fær rautt fyrir slagsmál