Það er er gaman að vera United-maður í dag. Við höfum skellt hurðinni kröftuglega á andstæðinga okkar í deildinni í undanförnum leikjum og Tottenham, City og Liverpool hafa fengið að kenna á því á afskaplega sannfærandi hátt. Með sigrunum á þessum liðum hefur United tekist að þau senda þau niður í harða baráttu um afgangana á meðan strákarnir okkar hafa komið sér í tiltölulega þægilega stöðu.
Áður en að tímabilið hófst rýndi ég aðeins í stigasöfnunina á síðasta tímabili til að sjá hvar svigrúm væri til þess að ná í stig til þess að ná í eitt af meistaradeildarsætunum, markmiðum þessa tímabils. Við fengum nóg af slæmum úrslitum á síðasta tímabili en frammistaðan gegn toppliðunum sveið mest. Það var eingöngu gegn Arsenal sem leikmenn United litu út fyrir að vera klárir í slaginn en það var nánast tilgangslaust að spila hina leikina, andleysið var algjört. Uppskeran var einungis 6 stig úr 12 leikjum.
Staðan í firmamótinu gegn liðunum í efsta þriðjungnum lítur aðeins betur út í dag en hún gerði undir lok síðasta tímabils:
Þetta er frábært og líklega aðalástæðan fyrir því að nú þegar hefur liðið náð í fleiri stig en á öllu síðasta tímabili. Það er þó eitt að ná í stig gegn toppliðunum en það er allt annað að rúlla yfir þau eins og við höfum séð í síðustu leikjum liðsins. Við eigum eftir að spila gegn Chelsea og Arsenal en maður hefur varla minnstu áhyggjur gagnvart þeim leikjum eftir síðustu vikur.
Meistaradeildarsætið er allt að því orðið tryggt og það þarf hrun í anda 2011/2012 tímabilsins til þess að koma í veg fyrir það að United snúi aftur í keppni hinna bestu. 3 sigrar í þeim 6 leikjum sem eftir eru ættu að duga. Ég get varla verið sá eini sem er verulega bjartsýnn varðandi Meistaradeildina á næsta tímabili? Svipuð spilamennska og við höfum séð í þessum stórleikjum ætti að fleyta okkur langt í þeirri keppni.
Miðjan
Undanfarnar vikur hef ég verið að renna í gegnum gamlar færslur á þessari síðu til þess að rifja upp hvernig stemmingin var síðustu tvo tímabil. Ég rak aukun í þetta í sérstakri uppgjörsfærslu okkar eftir tímabilið 2012/2013, síðasta tímabilið hans Ferguson. Við svörum spurningum um tímabilið og ein af þeim var hvað vildum sjá gerast í leikmannamálum. Svörin voru öll á þessa leið:
Miðjumenn, miðjumenn, miðjumenn.
Sir Alex brenndi sig svo mikið á kaupunum á Owen Hargreaves sumarið 2007 að hann keypti ekki einn einasta miðjumann[footnote]Það fer reyndar eftir því hvort að Kagawa sé talinn með en hann spilaði mestmegnis í holunni eða á kantinum. Honum bauðst að berjast fyrir sæti sínu undir stjórn Louis van Gaal sem vildi færa hann á miðja miðjuna. Hann neitaði því og fór. Ég tel hann því ekki með.[/footnote] það sem eftir var. Þetta skipti kannski ekki máli á meðan við höfum Ronaldo en eftir að hann fór þurfti að finna leiðir til þess að fylla upp í markaskorunar-gatið sem hann skildi eftir sig. Sir Alex leit til miðjunnar í þeim efnum enda yfirleitt hægt að treysta miðjumönnum United til þess að skora nokkur mörk á leiktíðinni:
Going back a few years, we could always guarantee goals from Paul Scholes, Ryan Giggs and David Beckham, who always pitched in with about 10 a season. Those goals from midfield have dried up a little in recent years, so we have to address that. #
Nei, þetta gerðist ekki. Darren Fletcher og Michael Carrick voru aðalmiðjumennirnir okkar á þessum tíma og þrátt fyrir gríðarlega hæfileika á sínum sviðum hafa þeir aldrei verið þekktir fyrir að skora mörk. Eftir því sem árin liðu urðu miðjumennirnir okkar eldri og leikmenn úr unglingastarfinu eins og Gibson og Cleverley voru ekki nógu góðir. Undir það síðasta, frá og með 2012, var miðjan okkar oft á tíðum farþegi í leikjum liðsins. Þegar við mættum alvöru liðum eins og Barcelona tóku þeir okkur í kennslustund.
Í deildinni horfði ég alltaf öfundaraugum á miðjuna hjá City á uppgangsárum liðsins. Krafturinn í Yaya Touré, tæknin hjá David Silva og tæklingarnar hjá Barry/Milner/De Jong. Það var jafnvægi á miðjunni hjá City. Hún skoraði mörk, hún skapaði mörk og hún sá til þess að City fékk ekki á sig mörk. Þetta er eitthvað sem hefur sárvantað hjá United og góð miðja er grundvöllurinn að öllum góðum liðum. Vissulega gekk vel hjá United á sama tíma og þessi miðja hjá City réði ríkjum, tveir deildartitlar og úrslitaleikur í Meistaradeildinni en það var meira vegna drifkrafts Sir Alex og einstaklingssnilli Rooney, Nani og Berbatov frekar en öflugrar miðju.
Á síðasta tímabili var miðjan svo alveg gjörsamlega steingelt. Hún gerði nánast ekkert nema að gefa boltann til hliðar. Hún veitti litla hjálp í vörninni og alls enga hjálp fram á við. Ef við tökum bara miðjumennina, þá sem spiluðu á miðri miðjunni, lögðu þeir samtals til 1 mark og 2 stoðsendingar. Á öllu tímabilinu! Þetta skánar aðeins ef maður bætir við Mata sem skoraði 6 og lagði upp 4 mörk en hann spilaði megnið af tímabilinu úti á kanti. Miðjan var varla með á þessu tímabili, eitthvað sem var farið að sjást merki um að myndi gerast 2-3 tímabilum áður en að Moyes tók við.
Þessvegna gladdi það mig mjög mikið að horfa á leikinn gegn City[footnote]Sem og leikina gegn Spurs og Liverpool. [/footnote] í gær og sjá hvernig miðjan okkar, Carrick, Herrera og Fellaini gjörsamlega yfirspiluðu miðjuna hjá City. Þessi blanda af miðjumönnum er alveg frábær og eitthvað sem hefur vantað í svo langan tíma hjá United.
Carrick verndar vörnina og róar spilið niður, alltaf klár í að fá boltann og halda honum gangandi. Fellaini, með sína stærð, tekur í sig nokkra menn, djöflast og er nánast ódekkanlegur. Hann er ómetanlegt vopn í að leysa hápressu og alltaf ógnandi í vítateignum. Svo er það Ander Herrera. Elsku Ander Herrera, miðjumaðurinn sem maður vonaðist til þess að Anderson myndi vera. Alltaf lítandi upp og fram á við, sítæklandi og pressandi. Alhliða miðjumaður par excellense. Þessir leikmenn hafa byggt grunninn að góðum frammistöðum liðsins að undaförnu. Miðjan okkar er farin að taka yfir leikina. Hún verndar vörnina, hún skapar mörkin og hún skorar mörkin. Loksins erum við með miðju sem getur yfirgnæft andstæðingana.
Það er alveg svart og hvítt að bera saman mörk og stoðsendingar frá þeim leikmönnum sem spilað hafa á miðjunni[footnote]Leikmenn sem hafa spilað á miðri miðjunni samkvæmt tölfræðisíðunni WhoScored. Þarna inni eru mörk sem t.d. Rooney og Di Maria hafa skapað úr þeim stöðum en ekki þau mörk sem þeir hafa komið að er þeir hafa spilað frammi eða á kantinum. [/footnote] í ár og í fyrra. Þessir tölfræðiþættir segja auðvitað ekki alla söguna en sagan er samt sem áður nokkuð áhrifarík:
Tímabilið er ekki einu sinni búið! Það er gaman að halda með United í dag.
Dagur Björnsson says
Dásamleg mánudagspælingur. Algjörlega sammála öllu sem fer hér fram.
Stefán Agnarsson says
Frábær miðja og gaman hvernig Valencia tengist þeim vel í spili.
Spurning hvernig Hummels og Cavani kæmu í þetta :)
Thorleifur Gestsson says
Loksins komin miðja sem virkar :)
Arnar Már Ármannsson says
Takk fyrir frábæra pistla. Ekki verið jafn hamingjusamur stuðningsmaður í alltof langan tíma.
Halldór Marteinsson says
Van Gaal talaði um að það tæki yfirleitt ca. þrjá mánuði að innleiða heimspeki sína eftir að hann tekur við félagi. Eins og við vitum hefur það tekið aðeins lengri tíma núna. Ég hef ekki fylgst ítarlega með ferli meistara Louie fram að þessu svo ég veit ekki hvernig ástandið hefur verið á liðunum sem hann hefur tekið við hingað til en einhvern veginn stórefast ég um að það hafi nokkurn tímann verið þörf á annarri eins bráðaendurnýjun og -grisjun og við sáum síðasta sumar. Það hlýtur að vera extra erfitt fyrir leikmenn að læra að endurhugsa fótboltann sem þeir spila á sama tíma og þeir þurfa að kynnast og læra hverjir á aðra.
Og varðandi þessa nýju heimspeki þá heyrði ég góða samlíkingu um daginn sem lýsir þessu vel. Þetta er eins og að flytja á fullorðins aldri til Bretlands og þurfa allt í einu að fara að keyra á öfugum vegarhelmingi. Í fyrstu gengur það gegn öllu sem líkaminn er vanur og eru orðin ósjálfráð viðbrögð. Til að byrja með þarf hugurinn að vera 100% fókuseraður á það að keyra vinstra megin, annars er hætta á að eitthvað fari úrskeyðis. En á móti verður aksturinn ofur varkár og jafnvel of varkár og stirður. En eftir því sem hugurinn venst þessari nýju vegferð þá verður þetta eðlilegur hluti af því að keyra og um leið og þetta verður ósjálfráðara þeim mun liprari verður aksturinn og þá kemur líka sjálfstraustið í að leika sér aðeins.
Ég er líka orðinn enn spenntari fyrir því að sjá hverjir koma inn í sumar. Því það verður ekkert keypt nema til að bæta liðið og hópinn og þar sem færri koma inn og koma inn í mótaðan hóp er ekkert því til fyrirstöðu að United mæti gríðarsterkt til leiks næsta haust.