Mörg okkar kannast við nafnið FC United of Manchester en færri vita ef til vill mikið um félagið.
FCUM vann hins vegar loksins sæti í National League North deildinni með því að tryggja sér meistaratign í Northern Premier League í fyrradag og stíga þannig upp úr sjöunda þrepi deildarpýramídans og upp í það sjötta.
Það er því ekki úr vegi að fara aðeins yfir sögu þessa félags og þau bönd sem það tengist Stóra United eins og sumir kalla það. Sagan varpar ljósi ámargt það sem er að gerast í knattspyrnunni í dag og hvernig lítill hópur stuðningsmanna fékk nóg af nútímaknattspyrnu. Enda er svo að slagorðið Against Modern Football er vinsælt meðal stuðningsmanna og má sjá það víða um Evrópu á leikjum minni liða sem oft eru í eigu félagsmanna. Slík félög eru nú orðin þó nokkur.
„Against Modern Football“
Eins og flestir vita eru eigendur Manchester United Glazer fjölskyldan bandaríska. Glazerar tóku yfir United í skuldsettri yfirtöku árið 2005 við hávær mótmæli stuðningsmanna United. Sjö árum áður hafði Sky sjónvarpsstöðin í eigu Ruperts Murdoch gert yfirtökutilboð í United. Þá tókst stuðningsmönnum með skipulagðri baráttu að koma í veg fyrir hana, þar sem að á endanum dæmdi Samkeppniseftirlit Bretlands að Sky gæti ekki hvort tveggja sýnt Úrvalsdeildina og átt lið í henni. En árið 2005 voru engar slíkar varnir. Glazerar hlóðu liðið skuldum[footnote]Hvernig sú skuldasúpa reddaðist er efni í aðra grein[/footnote] og margir stuðningsmenn voru ýmist uggandi um hag félagsins eða þótti einfaldlega nóg um hvernig peningar voru orðnir alfa og ómega í boltanum.
Á innan við tuttugu árum var þróunin orðin sú að ekki var lengur hægt að fara á völlinn fyrir pening sem allir höfðu efni á, og það var ljóst að ef átti að borga niður skuldir, þá yrði þróunin aðeins á einn veg. Yfirtakan var einungis lokahnykkurinn á löngu ferli sem gert hafði marga afhuga félaginu. Og þá sögðu sumir: Stopp.
Hlutirnir gerðust hratt vorið 2005. Glazerar náðu stjórn á United 12. maí og viku síðar var haldinn fundur þeirra sem mótmælt höfðu yfirtökunni. Andy Walsh sem leitt hafði andstöðuna bæði þá og gegn Sky/Murdoch var fundarstjóri og ákveðið var að skoða stofnun nýs félags. Það var síðan stofnað 14. júní 2005. Karl Marginson var ráðinn knattspyrnustjóri 22. júní og er það enn.
Góð byrjun og umspilsraunir
Félagið hóf keppni þá um haustið í tíunda þrepi deildapýramídans og var fyrsta árið samfelld sigurganga. Meðalfjöldi á leikjum var yfir þrjúþúsund manns, meira en hjá sumum liðum í D deild og liðið vann sína deild. Næstu tvö árin á eftir fækkaði aðeins á leikjum en liðið fór upp um deild bæði árin og var þá árið 2008 komið í sjöunda þrepið, Northern Premier League,
Síðan þá hefur liðið verið í þeirri deild. Aðeins fer eitt lið beint upp um deild, en fjögur næstu fara í umspil um eitt laust sæti að auki. Síðustu fjögur ár hefur FC United tapað í þessu umspili, þrisvar í úrslitum og í fyrra í undanúrslitum. Í ár var síðan loksins komið að því að vinna deildina. Liðið var lengi vel með mun færri leiki spilaða en önnur lið, en mikil sigurganga nú síðla vetrar kom þeim átoppinn og þrátt fyrir smá hikst, tryggðu þeir loksins sigurinn nú þegar ein umferð er eftir.
Liðið mun því næsta ár spila í sjötta þrepi ensku knattspyrnunnar, National League North, eða eins og hún hefur heitið þangað til nafninu verður breytt nú í vor, Conference North. Aðeins eru tveir deildir á þessu stigi, norður og suður og næst fyrir ofan er National Premier League eina fimmta deildin. Stærsta takmark FC United er því ekki eins fjarlægur draumur, og það er að komast í deildakeppnina.
Broadhurst Park
Stærsta skrefið í þá átt verður stigið nú á næstu dögum þegar liðið flytur inn á nýjan heimavöll, Broadhurst Park. Í tíu ár hafa FC verið leigjendur annars staðar og þó markmiðið hafi verið að byggja eigin völl hefur sú saga ekki verið þrautalaus. En með miklu fjáröflunarátaki og styrkjum er það nú loksins að nást og fyrsti leikurinn verður nú í maí gegn B-liði Benfica. Og ef einhver áttar sig á tengingu við Stóra United, þá er sú tenging engan veginn tilviljun[footnote]Úrslitaleikur Evrópukeppninnar 1968[/footnote].
Eitt af því sem FC United of Manchester hefur snúist um frá upphafi er að vera lið fólksins. Liðið er rekið sem félag þar sem allir geta verið félagsmenn og á aðalfundi gildir sú einfalda regla: Einn félagi, eitt atkvæði. Punk Football er annað slagorð hreyfingarinnar sem vill að knattspyrnufélög séu í eigu stuðningsmanna, og vísar ekki síst til stemmingarinnar sem slík félög get myndað.
Félagið er yfirlýstur andstæðingur yfirdrifinnar auglýsingamennsku í knattspyrnu og í reglum félagsins er kveðið á um bann við að selja auglýsingar á búninga. Frávikið er auðvitað að keppnistreyjur þurfa að bera merki deildarinnar á erminni eins og nú er orðið algilt og óhjákvæmilegt.
Félagið leggur gríðarmikið upp úr samskiptum við nágrennið, og lykilatriði í að leyfi fékkst fyrir nýjum velli og að styrkir til byggingarinnar voru veittir var umfangsmikil áætlun um barna- og unglingastarf og önnur tengsl við hverfið sem völlurinn verður í. Kvennaknattspyrna hefur verið tekin upp og með föstu aðsetri mun félagið vinna sér sess í samfélaginu.
Broadhurst Park mun taka um 4.500 áhorfendur og það er auðvitað von félagsins að með betra gengi á vellinum og eigin velli muni félagið fjölga verulega í áhorfendahópnum. Það sem hefur umfram allt einkennt leik FC United er alveg öldungis frábær stemming. Það var auðvitað ein af ástæðunum fyrir að margir harðir stuðningsmenn United voru óánægðir árið 2005 að stemmingin var ekki sú sem hún hafði verið. Þegar að stæðin hurfu upp úr 1992 og dýrara varð að fara á völlinn gátu risastórir hópar ekki staðið saman í þéttpökkuðum stúkum og sungið. Það var öðruvísi að sitja og eftir því sem á leið fjölgaði rækjusamlokunum.
Á leik með FC United má bóka að stærstur hluti stuðningsmanna stendur og syngur leikinn út. Sjálfur hef ég séð einn leik með FC og það var algerlega ógleymanlegt, þó að aðstæður á Gigg Lane í Bury þar sem FC spilaði lengi hefðu verið þannig áhorfendur voru aðeins í annarri langstúkunni og annarri endastúkunni. Á leiknum gegn Stourbridge á þriðjudaginn voru 3.600 manns sem gefur vonir um að Broadhurst Park verði vel nýttur. Og ef 4.500 manns fylla völlinn þá má alveg bóka það að stemmingin verði ógleymanleg.
Því miður er það svo að langt er síðan farið var að koma því fyrir að FC og Manchester United eiga sjaldnast heimaleiki sömu helgi. Annars væri hægt að mæla með ferð á Broadhust Park í sömu ferð og farið er á Old Trafford. En munurinn er sá að á Broadhurst Park þarftu að taka þátt. Það kemst enginn hjá því að læra lögin hratt og örugglega og í stemmingu eins og á leikjum FC þá er það ekkert val að að sitja bara og fylgjast með.
Tengslin við Stóra United
Ef það er eitthvað eitt sem stuðningsmenn FC United greinir á um þá eru það tengslin við Manchester United. Tíu ár eru langur tími og líklegast er svo að á þeim tíma hafa flestir stuðningsmenn FC United tekið þvílíkri tryggð við félagið sitt að Manchester United hefur setið á hakanum jafnvel hjá þeim sem halda með báðum. Margir eru alveg hættir að fylgjast með stóra klúbbnum og finnst ekkert spennandi við auðmannaboltann í úrvalsdeildinni og hluti þessara lítur hreinlega niður á Manchester United og stuðningsmenn þess. Aðrir fylgjast vel með og styðja Manchester United úr fjarska og svo eru enn þó nokkrir sem mæta eftir megni á leiki beggja félaga og segja „Two Clubs, One Soul“
Það kemur alltaf einhver kýtingur upp milli þessara hópa, en lokaniðurstaðan er alltaf: Meðan að hagur FC gengur fyrir þá skiptir annað litlu.
Á hinn bóginn eru það viðhorf stuðningsmanna Manchester United sem ekki teljast meðal stuðningsmanna FC United. Telja má að flestir þeirra líti velvildaraugum á FC United, dáist hugsanlega að því hvernig félagið er rekið, hvernig stemmingin er en taki stóra klúbbinn fram yfir. Aftur á móti er svo nokkur hópur sem lítur á FC United sem svikara sem gengið hafi úr stykkinu.
Hvernig svo sem það er þá er ljóst að FC United of Manchester er komið til að vera og ef áfram verður vel haldið á spilum og FC kemst í deildakeppnina sjálfa, þá gætum við einhvern tíman séð FC United of Manchester mæta Manchester United. Það yrði fróðleg viðureign og afskaplega spennandi að sjá hvernig hún yrði. Það má telja víst að óvildin sem myndast þegar MK Dons og AFC Wimbledon mætast verður ekki til staðar, en slíkur leikur yrði einhver sá forvitnilegasti sem um getur.
Ljúkum þessu á heimildarmynd um félagið frá 2013
Audunn says
Hef farið á nokkra leiki bæði með FC United og svo Salford City (sem er í eigu Giggs, Scholes, Neville bræðra, Butt og Peter Lim sem á 50%) það er alltaf skemmtileg, vinaleg og þægileg stemmning hjá báðum þessum liðum.
Finnst orðið ansi vænt um bæði þessi lið og mun fylgjast vel með þeim um ókomin ár.
Ef eignarhald beggja liða breytist ekki á komandi árum þá hef ég trú á (sérstaklega Salford City FC) geti náð langt.
Aldrei að vita nema það verða þrjú risa lið hérna á svæðinu eftir 10 ár c.a