Yfirferðin yfir síðasta tímabil heldur áfram. Við podköstuðum og við skoðuðum nýju leikmennina en núna eru það stóru spurningarnar sem svarað verður
Hver er ykkar skoðun á þessu tímabili með United?
Tryggvi:
Svo að það sé alveg á hreinu þá er 4. sætið enginn árangur fyrir félag eins og Manchester United og ekkert til þess að stæra sig af. Undir venjulegum kringumstæðum myndi þetta tímabil flokkast undir: „Gleymist“. Kringumstæðurnar hafa þó auðvitað ekki verið venjulegar. Louis van Gaal tók við algjöru skipbroti eftir langt tímabil vanfjárfestingar og svo auðvitað David Moyes. Annað sumarið í röð tók nýr stjóri við og það tekur bara sinn tíma fyrir nýjan stjóra að ná áttum, meta hópinn og svo framvegis. Ólíkt Moyes fékk Louis van Gaal góðan stuðning á leikmannamarkaðinum og ólíkt Moyes hafði van Gaal tök á verkefninu. Við náðum 4. sæti þrátt fyrir talsverða leikmannaveltu og algjörlega fordæmalausa tíðni meiðsla hjá leikmönnum liðsins, sérstaklega varnarmönnum félagsins. Með þetta á bakinu náði van Gaal markmiðum tímabilsins. Það besta við tímabilið hefur líklega verið frammistaða liðsins gegn liðunum sem við erum í helstri samkeppni við og það er það sem hefur fleytt okkur í þetta fræga 4. sæti.
Maggi:
Maður er náttúrulega sáttur við að ná aðalmarkmiði tímabilsins. Auðvitað hefði verið skemmtilegra að fara lengra í bikarkeppnunum. Eina svekkelsið er að fylgja ekki eftir stórkostlegum kafla þar sem keyrt var yfir Liverpool, Tottenham og City. Tíð meiðsli settu auðvitað strik í reikninginn á tímabilinu og þá sérstaklega í vörninni.
Bjössi:
Þokkaleg. Þetta er auðvitað næst versta tímabil félagsins síðan 1991, en það sem skiptir auðvitað mestu máli í því að versta tímabilið var í fyrra. Það er sama hvað hrópað er hátt um eyðslu United, hún var svo gersamlega nauðsynleg til að byrja endurnýjun á lið sem var komið á algera endastöð. Og það sem meira er, það var fullkomlega vitað strax í fyrrahaust að annað eins þurfti til nú í sumar. Og þá fáum við það vonandi.
Byrjunin var auðvitað skelfileg og það er alveg rétt hjá Van Gaal að ef við hefðum byrjað betur þá hefði þetta þróast öðruvísi. En svo fór sem fór og því var liðið alltaf tveim skrefum á eftir toppsætinu. Tvær góðar sigurhrinur voru það sem skiluðu loks fjórða sætinu en inn á milli og í lokin komu leikir sem voru skelfileg vonbrigði.
Van Gaal var lengi að finna leikaðferð sem hentaði liðinu ekki síst auðvitað vegna mikilla meiðsla. Þegar hún fannst loksins gekk vel gegn betri liðum en við eigum nokkuð í land með að geta unnið meðalgóð lið án þess að hafa of mikið fyrir því. Það verður líka að segja alveg eins og er að oft var alls ekki spiluð nógu skemmtileg knattspyrna og kom það til bæði vegna leikmanna og leikaðferðar.
Sumarið er tíminn, nú þarf að kaupa 5 leikmenn sem þurfa allir að vera byrjunarliðsmenn. Við vitum að það er til mikils ætlast að öll kaup takist en til að við stöndum uppi með topp hóp í haust þá vantar okkur bæði hraða og styrk
Ellioman:
Ánægður og dáldið svekktur á sama tíma, eins furðulegt og það hljómar. Markmið tímabilsins var meistaradeildarsæti, því takmarki var náð og því er ég vel sáttur með þann hluta. Ástæðan af hverju ég er dulítið svekktur líka er sú að frammistaða United gegn Spurs, Liverpool og City fékk mann til að halda að allt væri nú búið að smella saman og að við gætum jafnvel tekið annað eða þriðja sætið.
Hrunið sem kom í kjölfarið með töpunum gegn Chelsea, Everton og WBA. Þessir tapleikir, ásamt tapinu gegn Arsenal í FA Bikanum, sitja enn í mér og gáfu mér smá “reality-check”. Þetta er ekki komið hjá okkur en maður fær þó tilfinninguna að við séum á réttri leið, ólíkt því sem maður upplifði með Moyes við stjórnvölinn. Nú fer maður að gera meiri kröfur til liðsins sérstaklega ef United kaupir einhverja klassaleikmenn í sumar. Spennandi tímar.
Runólfur:
Mjeh. Fær 6.5 í einkunn. Þannig séð var öllum markmiðum liðsins náð (fjórða sætið) en maður hefði nú viljað sjá betri árangur í bikarkeppnum og sjá liðið gera alvöru atlögu að öðru sætinu þegar það var mögulegt.
Sigurjón:
Fyrir tímabilið vildi ég sjá tvo hluti gerast: Númer 1 var að komast aftur í Meistaradeildina og númer 2 var að enda fyrir ofan Liverpool (sem ég taldi þá líklegasta til að berjast við okkur um 4 sætið). Það voru ansi margir þarna úti sem töldu það alveg fáránlegt að United skyldi vera spáð ofar en Liverpool, viðbrögð sem mér persónulega þótti fáránleg. Það var því skemmtilegt að sjá United uppfylla þessa tvo hluti, en eins og tímabilið spilaðist þá bjóst ég við smá meira trukki eftir áramót, og þá sérstaklega eftir leikina þrjá gegn Tottenham, Liverpool og Manchester City. Hefði liðið haldið dampi þá hefðum við hæglega getað endað í 2-3 sæti. Það var því margt gott en það var líka ýmislegt í leik liðsins sem augljóslega þarf að laga fyrir næsta tímabil. Við eigum svolítið í land ennþá til að keyra almennilega á lið eins og Chelsea, en við skulum sjá til hvernig sumarið spilast á leikmannamarkaði.
Hvernig líst ykkur á Van Gaal núna eftir tæplega 1 ár í starfi?
Tryggvi:
Mér líst ágætlega á hann. Hann talar og lætur eins og stjóri Manchester United. Það er 50% af starfinu hans og eitthvað sem forveri hans í starfi réði aldrei við. Hann er svolítið að færa okkur inn í nýja tíma og það hefur ekki verið auðvelt að horfa á þetta á köflum. En eins og komið hefur fram tekur það alltaf tíma fyrir liðin hans LvG að fara á fullt og það er það sem við höfum séð á þessu tímabili. Gríðarleg meiðsli og skammur tími til undirbúnings hafa sett strik í reikninginn en þrátt fyrir það er búið að koma skipinu á flot á nýjan leik eftir algjört skipbrot á síðasta tímabili. Verkefni Louis van Gaal er núna að koma skipinu á fulla ferð á nýjan leik og ég tel að hann sé algjörlega rétti maðurinn í það.
Maggi:
Þegar Louis van Gaal tók við liðinu var sjálfstraust í sögulegu lágmarki. Hann gaf flestum leikmönnum sjensa til að sanna sig á undirbúningstímabilinu og fyrstu leikjunum í deildinni. Svo má ekki gleyma MK Dons leiknum. Hann gerði svo það sem David Moyes gat/þorði ekki að gera. Hann losaði sig við leikmenn sem voru ekki tilbúnir í verkið. Hann hefur þurft að breyta uppstillingum oftar heldur en hann kærir sig um en það var alltaf gert til að finna rétt jafnvægi í liðinu. Hann virðist vera búinn að detta á réttu taktíkina en það myndi alls ekki koma á óvart að sjá United spila 4-2-3-1 og 4-3-3 á næstu leiktíð.
Bjössi
Ég er sáttur. Þetta er maður sem ég var alltaf tilbúinn að gefa séns svo fremi sem hann skilaði lágmarksárangri. Það gerði hann. Þegar ekki gekk vel var maður stundum frekar stressaður yfir því sem hann var að reyna en nú held ég að með fyrrgreindum viðbótum þá geti spilamennskan sem hann ætlar að bjóða upp á verið sú sem maður krefst af Manchester United.
Ellioman:
Ég er alveg afskaplega afskaplega afskaplega ánægður með að sjá Van Gaal við stjórnvölinn. Viljið þið vita af hverju? Það er ekki bara það að hann virðist höndla djobbið, að hann viti hvað hann er að gera, að leikmennirnir beri virðingu fyrir honum, að hann er óhræddur að gera kröfur til stjórnar United (varðandi æfingarferðir, æfingaraðstöðu o.s.frv.) og að hann gefi ungu leikmönnunum tækifæri. Það sem heillar mig svo gasalega við manninn ofan á það sem ég taldi hér, er að við erum með alvöru karakter að stjórna liðinu. Eitthvað sem við upplifðum svo lengi með Ferguson en sárvantaði á síðasta tímabili, einhvern sem þolir ekkert kjaftæði og veit hvað hann vill. Ég hef örugglega horft ca. tíu sinnum á BBC viðtalið við hann eftir tapið gegn Chelsea og ég tárast enn úr hlátri þegar hann segir “Okay, that’s good … that you are interested.” . Munið þið hversu vandræðalegt það var orðið að hlusta á Moyes tala á fréttamannafundum?
Ég er sumsé alveg skínandi kátur með kappann og hlakka alveg gríðarlega til að sjá hann stjórna liðinu á næsta tímabili.
Runólfur:
Óvenjulega vel. Svona miðað við það að ég vissi lítið sem ekkert um hann fyrir tímabilið. Jú ég var vissulega pínu þreyttur á hversu þrjóskur hann var í byrjun tímabils en þetta er karakter og virðist vera sú týpa sem Manchester United þarf að hafa í brúnni. Þessi ræða á lokahófi liðsins er heldur ekkert að skemma fyrir.
Sigurjón:
Mér finnst Van Gaal frábær stjóri og það sem mér þykir hvað mikilvægast er að hann ber sig eins og stjóri Manchester United. Ég tel að United hafi misst af ákveðnu tækifæri þegar Ferguson hætti að ráða ekki annað hvort Mourinho and Guardiola, sem ég tel að hafi verið raunhæfur möguleiki. Eftir að hafa klúðrað málunum og ráðið David Moyes í maí 2013 þá er ég mjög sáttur með þá staðreynd að Louis Van Gaal sé stjóri í dag. Hann hefur tekið leikmannamál föstum tökum, sem var ansi nauðsynlegt, þó verður að segjast að þetta sumar verður lokaprófið fyrir hann í þeim efnum. Hann er svolítið þrjóskur, sem er bæði gott og slæmt, til að mynda fannst mér hann hanga full lengi í 3 manna varnarpælingunum sínum og það kostaði okkur einhver stig, en við skrifum það á reynsluleysi hans á Englandi og ég held að næsta tímabil muni fara mun betur af stað en það síðasta.
Flottasta markið?
manutd.com sýnir okkur topp 10 mörkin á síðasta tímabili
Tryggvi:
Fallegasta markið eitt og sér er mark Ángel di Maria gegn Leicester en ef maður tekur mið af aðstæðum og mikilvægi leiksins er erfitt að toppa seinna mark Juan Mata gegn Liverpool.
Maggi:
Di María gegn Leicester og Mata gegn Liverpool á Anfield.
Bjössi:
Algerlega borðleggjandi topp 2
- Juan Mata gegn Liverpool. Sturlað mark í sturlað skemmtilegum leik
- Ángel di María gegn Leicester. Sú tæknin! Þetta var það sem við keyptum og ætluðum að fá í vetur. Í staðinn verðum við að bíða til næsta vetrar.
- Ander Herrera gegn Yeovil. Boom!
Ellioman:
Mata á þetta gjörsamlega. Að skora svona mark á Anfield, sheize!
Runólfur:
Ég held að þetta sé engin spurning. Eins flott og markið hans Angel Di Maria gegn Leicester var þá var markið hans Juan Mata gegn Liverpool hreinlega í öðrum gæða flokki. Hér er átt við markið þar sem hann klippti boltann í netið en hann skoraði vissulega þrjú mörk gegn Liverpool í vetur.
Sigurjón:
Juan Mata gegn Liverpool. Markið var flott en mómentið var enn betra, nagli á bólakaf í kistuna.
Besti leikurinn?
Tryggvi:
Það er erfitt að gera upp á milli sigranna gegn Tottenham, Liverpool og City núna undir lok tímabilsins. Spilamennska liðsins gegn Tottenham var nánast fullkomin og eitt það besta sem maður hefur séð frá liðinu í ansi langan tíma. Það var frábært að sjá liðið koma til baka eftir að hafa lent undir gegn City og valta svo yfir þá enda hefur City haft yfirhöndina í leikjum þessa liða síðustu tímabilin.
Liverpool-leikurinn á Anfield hlýtur þó að standa upp úr. Í fyrsta lagi var mikið undir, Meistaradeildarsæti og allt sem því fylgir. Í öðru lagi hef ég aldrei séð Manchester United lið mæta á Anfield og spila af slíkum yfirburðum og þennan sunnudag í mars.
Maggi:
Það er rosalega erfitt að gera upp á milli Tottenham, Liverpool og City. Það sem rétt hefur vinninginn hjá mér er Liverpool á Anfield. Þetta var svoleiðis langbesta spilamennska United á Anfield og lokastaðan 2-1 var frekar villandi miðað við hvernig leikurinn spilaðist.
Bjössi:
Liverpool. Sigur, frábær bolti, glæsileg mörk og rúsínan í pylsuendanum, glassúrinn á kökuna, kórónan á leiknum. $tevieMe!
Ellioman:
Leikurinn gegn City, nó dát. Fáum á okkur mark snemma og liðið frussar því einfaldlega í burtu og gjörsamlega valtar yfir City liðið. Skemmir svo ekki fyrir að maður var í Íslandsheimsókn og gat horft á leikinn með hinum pennunum hér á rauðudjöflarnir.is. Fullkominn dagur!
Runólfur:
4-2 á móti Manchester City. Hefði viljað sjá hann enda 4-1. Smá hefndar tilfinning yfir því. Verst hvað liðið spilaði svo illa eftir þann leik.
Sigurjón:
Leikurinn gegn Tottenham á Old Trafford. Þó svo leikirnir á eftir gegn Liverpool og Man City hafi líka verið frábærir þá var slátrunin gegn Tottenham held ég besta frammistaða liðsins. Tottenham litu út fyrir að vera áhugamannalið og það var eingöngu vegna þess að United setti þá á þann stall.
Helstu vonbrigði þessa tímabils?
Tryggvi:
Þau eru þríþætt. Í fyrsta lagi er það Falcao. Sár vonbrigði að hann skyldi ekki raða inn mörkum fyrir félagið en þetta gekk ekki upp af ýmsum ástæðum. Í öðru lagi er það Angel di Maria. Leiðinlegt að sjá hvernig spilamennska hans datt niður eftir frábæra byrjun. Fyrir 60 milljónir punda er eðilegt að gera kröfu um að hann spili betur. Ég hef þó fulla trú á honum og geri ráð fyrir því að hann verði lykilmaður á næsta tímabili. Í þriðja lagi olli það mér vonbrigðum hvað menn virtust slaka á eftir frábæra sigurhrinu í mars og apríl. Við hefðum getað endað tímabilið af krafti og komið í veg fyrir að þurfa að fara í umspil í águst.
Maggi:
Mestu vonbrigðin voru þau hvað Radamel Falcao gekk illa. Hann var einungis á lánsamningi en samt. Reyndar galt hann fyrir það hvað færasköpunin á tímabilinu var léleg en samt virtist eitthvað vanta uppá hjá honum. En hann lagði sig alltaf fram og ég vona að hann brilleri í því liði sem hann endar í.
Ángel Di María hefði mátt sýna meira sérstaklega miðað við hann kostaði. Til að vera sanngjarn lenti hann í erfiðleikum heima fyrir og aldrei að vita nema hann hristi þetta af sér og sýni hvað hann getur í haust.
Svo er líka vonbrigði hversu slakur Jonny Evans er orðinn en ég tel hann hafa spilað sinn síðasta leik fyrir Manchester United.
Bjössi:
Radamel Falcao nefna sumir, en það var samt alltaf vitað að hætta var á að hann næði ekki fyrri hæðum vegna erfiðra meiðsla og, jú, Suður Ameríkupiltarnir eiga stundum erfitt uppdráttar í Englandi þannig ekki yrði það til að hjálpa. Á móti kom kemur að væntingarnar til hans ef að allt smylli í gír voru himinháar. En, möguleikinn á svona tímabili var alltaf til staðar.
Ángel di María, dýrasti leikmaður Englands. Hvað er hægt að segja? Byrjaði vel en hvarf svo. En! Hann mun koma til baka á næsta tímabili og það er engin ástæða til afskrifa hann.
Svo er það Adnan Januzaj. Second-season-syndrome, new-contract-syndrome, hver sem ástæðan er þá var grey drengurinn ekki svipur hjá sjón í vetur. En! Hann er nú bara tvítugur og við gefumst ekki upp á ungum leikmönnum svo glatt. Í viðtali nú eftir tímabilið segir hann alla réttu hlutina. Hann segist leggja hart að sér til bæta sig, er að vinna mikið í að styrkja líkmann og að það taki tíma. Hann hefur ekki áhuga á vera lánaður út og ég veit ekki hvort er betra, að halda honum hjá United þar sem gæti verið að hann fengi ekki nægan leiktíma eða lána hann út. Það er alltaf áhætta þegar leikmenn eru lánaðar, þeir þurfa í raun að sýna það í láninu að þeir séu það góðir að ef þeir væru ekki á samningi hjá United þá væru þeir þess virði að kaupa. Það gerist ekki alltaf. Það kemur í ljós hvaða leikmenn koma inn í sumar og svo hvort við komumst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og eftir það sjáum við hvert leikjaálagið verður og hvort að Adnan verði lánaður
En þessi langloka er í raun mínar hugsanir um það að persónlega var ég að vonast eftir miklu meira frá honum í vetur, ef til vill of mikils og að það voru gríðarleg vonbrigði að honum gekk ekki betur. En það er fátt sem ég vil sjá meira en að hann verði framtíðarstjarna liðsins
Ellioman:
Gæti nefnt Falcao en ég einfaldlega var aldrei sérstaklega með í hæpinu varðandi hann. Di Maria hinsvegar… óboj. Alltaf fundist hann einn af mest spennandi leikmönnum í heimi og var maður ansi öfundsjúkur út í Real Madrid. En svo allt í einu var hann leikmaður United! Vúhú! Og ekki byrjaði kallinn illa, skorandi glæsimörk og að hala inn stoðsendingum. En svo kom eitthvað furðulegt hrun hjá kappanum sem hann náði ekki að komast upp úr. Ég vona svo sannarlega að hann verði ekki seldur í sumar (eins og margir orðrómar virðast ýja að) því ég hef tröllatrú á kappanum plús hann er á príma aldri, 27 ára. Aðrir kandídatar: Januzaj & Jonny Evans
Runólfur:
Frammistaða í bikarkeppnum og það að gera ekki meiri atlögu að öðru sætinu þegar það var hægt.
Sigurjón:
Það eru auðvitað vera Falcao í Manchester. Þrátt fyrir heiðarlega tilraun þá gat hann því miður ekkert. Ég er mjög vonsvikinn yfir því og verð ennþá vonsviknari ÞEGAR hann fer að raða inn mörkunum á næsta tímabili fyrir eitthvað annað lið. Varðandi liðið í heild sinni þá var United í góðu færi að fara langt í bikarnum en datt því miður út gegn Arsenal. Hefði liðið klárað þann leik þá værum við að spila á Wembley á laugardaginn, engin spurning. Svo eigum við kannski mestu vonbrigðin eftir ef David De Gea hverfur á braut, en við sjáum þó til með það!
Hvaða leikmenn sýndu mestar framfarir?
Tryggvi:
Varla hægt að gera upp á milli Marouane Fellaini og Ashley Young. Tveir leikmenn sem maður hélt fyrir tímabilið að ættu enga framtíð hjá United. Þeir hafa þó lagt mikið á sig til þess að koma sér aftur inn í myndina. Fellaini var lykilinn að mörgum góðum sigrum á tímabilinu og það er mjög gott að hafa jafn eitraðan leikmann í hópnum. Það segir allt sem segja þarf um Young að hann hélt Di Maria út úr liðinu á seinni hluta tímabilsins. Hann spilaði ótrúlega vel á kantinum og skoraði og lagði upp fáranlega mikilvæg mörk. Ég er þó á því að hvorugur þessara leikmanna sé nógu góður til þess að vera í byrjunarliði United leik eftir leik ef liðið ætlar sér að vinna deildina eða Meistaradeildina. Það er þó gott að hafa þá í hópnum.
Maggi:
Þrír leikmenn koma upp í hugann. Ashley Young, Marouane Fellaini og Chris Smalling. Engin af þeim er í heimsklassa en hafa sýnt sitt gildi. Það er svo mikilvægt að hafa squad leikmenn sem geta komið inn og skilað hlutverki þegar þarf. Fellaini og Young spiluðu í alvörunni Ángel Di María úr liðinu. Að lokum hefur Chris Smalling stigið upp eftir leikinn á Etihad sem hann vill klárlega gleyma sem fyrst.
Bjössi:
Ashley Young. Hann tók upp á því á gamals aldri að verða lykilmaður í liðinu.
Í öðru sæti, Chris Smalling sem ég vildi hreinlega burt frá klúbbnum eftir rauða spjaldið móti City, og í þriðja sæti Marouane Fellaini, sem kemur reyndar að hluta til af því að loksins voru hæfileikar hans nýttir eins og átti að gera
Ellioman:
Ashley-beeeping-Young! Í hvaða kreisí heimi erum við þegar Ashley-beeeeping-Young er auðveldlega að halda Di Maria út úr byrjunarliðinu, skorandi mörk gegn liðum eins og City og að brillera í öllum leikjum sem hann spilar á þessu tímabili? Alveg ótrúlegt og á kappinn svo sannarlega skilið mikið hrós fyrir sína frammistöðu. Hann var hreint útsagt frábær. Fellaini á einnig skilið klapp á bakið fyrir sína frammistöðu.
Runólfur
Chris Smalling.
Ástæðan fyrir að ég vel hann fram yfir til dæmis Ashley Young og Marouane Fellaini er sú að Young og Fellaini hafa báðir sýnt nákvæmlega sama getustig áður. Young gerði þetta trekk í trekk hjá Aston Villa og Fellaini var baneitraður með Everton í svipaðri stöðu á vellinum áður en hann kom til Manchester United. Hins vegar þá hefur Smalling ekki sýnt þetta getustig áður. Eftir útileikinn gegn Manchester City, þar sem Smalling var rekinn útaf, þá hélt ég að hann ætti ekki aftur snúið í liðið en viti menn, hann snéri ekki bara aftur heldur fékk hann fyrirliðabandið nú í lok leiktíðar og tók við af Marcos Rojo sem eini meiðslalausi og áreiðanlegi hafsent liðsins. Þó að ég reikni með að það verði keyptur hafsent í sumar þá reikna ég líka með því að Smalling muni gefa hverjum sem er ágætis samkeppni um þessa hægri hafsenta stöðu.
Sigurjón
Ashley Young reis eins og Fönixinn á þessu tímabili undir stjórn Van Gaal. Hann fyrst fór að sýna góða takti í æfingaferðinni síðasta sumarið, þá í stöðu vinstri bakvarðar. Hann hélt dampi og vann sig framar á völlinn og endaði á því að henda Di María út úr liðinu. Það væri hægt að minnast á Fellaini líka, en ég ætla að segja að síðasta tímabil hafi ekki verið marktækt á ferli hans, hann var einfaldlega að spila eins og hann á að sér á þessu tímabili.
Hver var besti leikmaður United?
Tryggvi:
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta. David de Gea átti stórkostlegt tímabil og bjargaði liðinu oftar en ég hef tölu á. Hann tekur stórstígum framförum með hverju tímabilinu sem líður og það er bara ekkert annað en ömurleg tilhugsun að missa hann til Real Madrid.
Maggi:
David de Gea. Hann bjargaði svo mörgum stigum fyrir okkur í vetur og hann á mestan heiðurinn á að koma okkur í þessa blessuðu meistaradeild. Ég mun gráta söltum tárum ef hann fer til Real Madrid.
Bjössi:
David de Gea á allan heiður af því að United lenti í fjórða sæti.
Aðra þarf varla að nefna.
Ellioman:
Deivíd de Heyyyja! Engin spurning. Plís ekki fara. Plís plís plís plís plís plís plís plís plís!
Runólfur:
David De Gea. Frekar útskýring er óþörf.
Sigurjón
David De Gea var frábær og vann all nokkur stig fyrir okkur í vetur, hann er því óumdeilanlega leikmaður ársins.
Hvað viljið þið sjá gerast í leikmannamálum núna í sumar?
Tryggvi:
Ég vil fá meiri gæði. Ég vil fá leikmenn sem eru betri en þeir sem fyrir eru. Ég vil fá toppklassa miðvörð og ég vil fá 1-2 toppklassa miðjumenn. Líklega þarf að kaupa hægri bakvörð og jafnvel einn framherja, þeir mega vera ungir og efnilegir en miðvörðurinn og miðjumennirnir þurfa að vera í hæsta gæðaflokki. Ég vil líka að þetta gerist sem fyrst svo að menn geti farið að stilla saman strengi sína fyrir næsta tímabil.
Maggi:
Hægri bakvörður, 1-2 miðverðir, 2 miðjumenn, hægri kantmann og framherja. Einn miðvarðanna og annar miðjumaðurinn verða að vera leikmenn í þeim gæðaflokki að þeir myndu labba inn í hvaða lið sem. Myndi telja það vonbrigði mest af þessu verður ekki afgreitt í sumar.
Bjössi:
Þetta sem allir vita: Haffsent, hægri bakk, miðjutröll og/eða miðjuskapara (helst einn með hvoru tveggja eiginleikana). 20 marka maskínu.
Svo er líka alveg spurning hvort að hægri kantmaður myndi ekki nýtast vel. Mata er ágætur sem slíkur en mætti alveg við samkeppni.
Og að De Gea verði áfram. ElskubestigóðiDavid, ekki fara!
Ellioman:
Halda í De Gea! Það væru án efa bestu kaup sumarsins. Annars þá þarf United einfaldlega að uppfæra nokkrar stöður með betri leikmönnum. Einn eða tvo miðverði, hægri bakvörð, einn eða tvo miðjumenn og svo framherja. Þetta er afskaplega augljóst fyrir þá sem horfa á United og verður fróðlegt að sjá hvaða leikmenn koma inn í sumar. Erum nú þegar búnir að gera ein virkilega góð kaup í Memphis Depay. Vonandi heldur það áfram.
Runólfur:
Úff. Þegar stórt er spurt. Ég er almennt á móti öllum breytingum allstaðar svo ég vill bara fá Vidic, Fletcher og Anderson til baka. Ef það er ekki hægt þá væri ég til í að sjá einn hafsent koma inn þar sem ég reikna með því að einn verði seldur. Ég vill sjá Antonio Valencia fara svo Van Gaal neyðist til að nota Rafael í hægri bakverði. Einnig vill ég sjá liðið kaupa einn ef ekki tvo miðjumenn (hverja hef ég ekki hugmynd um, Joey Barton er á Free Transfer). Hvað varðar framherja mál þá treysti ég alveg Wayne Rooney, Robin Van Persie og James Wilson til að leysa þá stöðu. Sérstaklega ef liðið spilar eingöngu 4-3-3.
Ég reikna þó með því að það verði keyptur hægri bakvörður, hafsent, einn eða tveir miðjumenn og framherji (og líklega markvörður). Á móti kemur að Anders Lindegaard, Ben Amos, Jonny Evans (líklega), Rafael, Tom Cleverley og Nani fara örugglega allir í sumar svo það verður að fylla inn í hópinn.
Sigurjón
Við fórum nú nokkuð vel yfir þetta í síðasta podkasti en ég ætla að segja að United vanti nauðsynlega einn hægri bakvörður, einn heimsklassa miðvörð og tvo miðjumenn (þar af a.m.k einn í heimsklassa). Ég veit að margir vilja sjá framherja á þessum lista en ég hef ekki trú á því að það muni gerast. Rooney verður framherji númer eitt og ég hef enga trú á því að Van Persie sé að fara eitthvað, mér þykir því ólíklegt að einhver stjarna komi inn í þá stöðu, t.d. eins og Karim Benzema sem hefur verið orðaður við okkur undanfarið.
Hverjar eru væntingar ykkar til næsta tímabils?
Tryggvi:
Í fyrsta sinn síðan 2012 er United að fara inn í sumar þar sem ekki verður skipt um sjóra. Louis van Gaal fær því heilt sumar og rólegt æfingarferðalag til þess að undirbúa liðið fyrir komandi átök. Ef það gengur vel að ná í nýja leikmenn í sumar sé ég enga ástæðu til annars en að ætla að liðið verði í titilbaráttu og það verður að segjast að það er einfaldlega lágmarkskrafan. Einnig býst ég við góðum árangri í Meistaradeildinni.
Maggi:
Þetta fer rosalega eftir því hvað gerist hjá United á leikmannamarkaðinum í sumar. En ég held að rökrétt krafa sé að liðið geri atlögu að titlinum, komist langt í meistaradeildinni og vinni bikar.
Bjössi:
Þær fara algerlega eftir leikmannakaupum. Ef réttu mennirnir eru keyptir eins og að ofan er lýst, þá eigum við að vera í titilbaráttu fram á síðasta dag.
Ef einhver af ofangreindum aðalstöðum verður ófyllt, þá yrði annað sætið alveg ásættanlegt.
Vil sjá okkur amk í 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Og hirða annan hvorn bikarinn.
Semsé, ef leikmannakaupin ganga vel í vetur þá á Manchester United að vera komið á sinn rétta stall í knattspyrnuheiminum
Ellioman:
Sjá United spila í hverjum leik eins og þeir gerðu gegn Spurs, Liverpool og City. Það væri æði! Ef liðið gerir það þá er það sjálfkrafa að fara keppa um alla titla sem í boði eru. Við þurfum að fara sjá United spila skemmtilegan fótbolta aftur. Þetta er ekki búið að vera nógu gott síðustu tímabil.
Runólfur:
Gefa Chelsea alvöru samkeppni um dolluna. Vinna Deildarbikarinn eða FA bikarinn og fara í 8 liða úrslit í Meistaradeildinni.
Sigurjón
Sko, mikið er að talað um að United eigi að berjast um titilinn á næsta ári og get ég svo sem tekið undir það að einhverju leyti. Ég tel þó að þessi endurnýjun á liðinu undir stjórn Van Gaal taki í raun 3 ár, ég ætla því ekki beint gera þá kröfu um að United fari í alvöru titilbaráttu á næsta ári. Það sem ég vil sjá er framför frá þessu tímabili, meiri stöðugleika frá upphafi til enda og klára helst ekki neðar en 3. sæti. Komast upp úr riðlinum í Meistaradeildinni (gef mér að við komust í gegnum umspilið) og gera alvöru atlögu í bikarkeppnum. Tímabilið 2016/2017 verður vonandi það tímabil sem Manchester United mun vinna sinn 21. Englandsmeistaratitil!
Sigurjón says
Það væri gaman að sjá lesendur svara sömu spurningum!
————-
Hver er ykkar skoðun á þessu tímabili með United?
Hvernig líst ykkur á Van Gaal núna eftir tæplega 1 ár í starfi?
Flottasta markið?
Besti leikurinn?
Helstu vonbrigði þessa tímabils?
Hvaða leikmenn sýndu mestar framfarir?
Hver var besti leikmaður United?
Hvað viljið þið sjá gerast í leikmannamálum núna í sumar?
Hverjar eru væntingar ykkar til næsta tímabils?
————-
Bjarni Ellertsson says
Aðdáendi United í 40 ár, stoltur af því :) Hef haft mikla skoðun á United í gegnum tíðina sem fellur ekki alltaf í kramið hjá normal aðdáendum, þoli ekki Liverpool.
Hver er ykkar skoðun á þessu tímabili með United? Einfalt svar, hundleiddist spilamennskan framan af en var sáttur með að komast í umspil í lokin. Hæfileg blanda af gæða leikmönnum og slökum leikmönnum, enginn leiðtogi í liðinu en samt menn að reyna sitt besta með nýjan stjóra og nýjar áherslur. Væntingarnar skotnar í kaf snemma á tímabilinu enda kannski ekki von á öðru með mikið breyttum leikmannahóp og lélegu sjálfstrausti.
Hvernig líst ykkur á Van Gaal núna eftir tæplega 1 ár í starfi? Hann hefur sína kosti og galla, ekkert ósvipaður SAF að mörgu leiti, á sennilega allt skilið sem hefur verið sagt um hann bæði jákvætt og neikvætt en það hvernig hann kom inn og breytti áherslum frá fyrra ári er nákvæmlega það sem þurfti til og það mun taka hann þau 3 ár að byggja upp sterkt lið en hvort allir verði sáttir við það að lokum er ekki gott að segja. Hann verður alltaf umdeildur sem persóna og stjóri.
Flottasta markið? Seinna mark Mata á móti LFC.
Besti leikurinn? Leikurinn á móti LFC, en elska að vinna þá, en get því miður ekki horft á LFC spila þar sem ég þoli þá ekki, hef aldrei gert. Líkleg skýring á því er að ég þurfti að þola ýmislegt á menntaskólaárunum kringum 85-89 þegar þeir voru upp á sínu besta á meðan við gátum ekki Jack.
Helstu vonbrigði þessa tímabils? Stjörnuleikmenn okkar, ADM, RF og RVP.
Hvaða leikmenn sýndu mestar framfarir? Blind, framför frá fyrsta leik. Young, árásagjarn. Smalling, skoraði mörk. Fellaini, töffari.
Hver var besti leikmaður United? De Gea by far.
Hvað viljið þið sjá gerast í leikmannamálum núna í sumar? Það þarf að styrkja liðið rétt og LVG mun gera það, segi að við verðum komnir með 6-8 nýja leikmenn næstu 2 árin, tökum þetta í skrefum, ekki bara kaupa stjörnur, þær skila misjöfnu í búið. En ég segi það enn og aftur, við þurfum leiðtoga í liðið, leikmann sem lemur menn áfram til dáða, sem sýnir fordæmi og fórnar sér fyrir liðið. Týpuna einsog Robson, Cantona og Keane. Þetta voru leiðtogar.
Hverjar eru væntingar ykkar til næsta tímabils? Liðið mun alltaf berjast um titla, stundum gengur það upp en stundum ekki. FA bikar eða litla bikarinn, topp 4 og komast í meistaradeildina og upp úr riðlinum.
Ási says
Hver er ykkar skoðun á þessu tímabili með United?
-Ánægður að mestu leyti, komnir í meistaradeildina aftur sem að er crucial. Gífurlega ánægður að Van Gaal hætti í þessari 3-5-2 taktík sem var engan veginn að ganga upp! Framtíðin er björt
Hvernig líst ykkur á Van Gaal núna eftir tæplega 1 ár í starfi?
-Rosalega vel, er með helvíti mikið sjálfstraust og lætur engan vaða yfir sig!
Flottasta markið?
-Di Maria að mínu mati, rosaleg tækni.
Besti leikurinn?
-Liverpool á útivelli, klárlega.
Helstu vonbrigði þessa tímabils?
– Di Maria, Falcao. Dýrasti leikmaður EPL og hann virðist vera andlega handónýtur.
Hvaða leikmenn sýndu mestar framfarir?
-Herrera og Fellaini aðallega held ég. Young var rosalega flottur en hann hefur alltaf getað þetta, átti bara slæmt season síðast.
Hver var besti leikmaður United?
-1. De Gea
2. Mata/Fellaini
Hvað viljið þið sjá gerast í leikmannamálum núna í sumar?
– Tvo hafsenta, einn striker. Finnst það meira áríðandi heldur en að fá miðjumann, myndi setja það í forgang að fá tvo vel spilandi hafsenta. Persie er ekki að skila miklu þessa dagana, ef það er hægt að fá Cavani á ca 35m punda væri það flott, myndi ekki borga mikið meira en það.
Hverjar eru væntingar ykkar til næsta tímabils?
– Topp 3 og 16liða úrslit
Stefán Arason says
Hver er ykkar skoðun á þessu tímabili með United?
heildina er ég sáttur, náðum okkar lágmarkstakmarki, þ. e. Meistaradeildarsætið í hús!
En bikarkeppnir það er önnur saga, saga sem að gleymist bara strax :)
Spilamennskan í ár var samt ekkert til þess að hrópa húrra fyrir, ansi margir drepleiðinlegir leikir og ég vona innilega að þessi 3 5 2 taktík sjáist aldrei aftur á Old Trafford!
Hvernig líst ykkur á Van Gaal núna eftir tæplega 1 ár í starfi?
Mér lýst rosalega vel á hann, hann er með bein í nefinu, er þrjóskur, þó að það hafi kostað einhver stig í vetur, en þá held ég að hann hafi bara lært að því og mun ekki gera sömu mistök á næsta ári, hef fulla trú á því að hann skili titlum í hús mjög fljótt.
Flottasta markið?
Mark Juan Mata á Anfield er klárlega besta markið í ár, það er fallegt, það kom á Anfield, það útilokaði meistaradeildar vonir Liverpool og það þaggaði niður í tvíburabróðir mínum, (sem btw er pollari), ásamt því að þagga niður í öllum hinum úlpunum!
Besti leikurinn?
4-2 sigurinn á Man City eða 1-2 Sigurinn á Liverpool, get ekki gert uppá milli þessara leikja.
Helstu vonbrigði þessa tímabils?
Kárlega Falcao og Angel Di Maria, bjóst við svo miklu en fékk svo lítið til baka, sérstaklega frá honum Falcao, ég hef aldrei verið eins ánægður og þegar að það stóð loks (staðfest) á dílinn á lokadegi gluggans í fyrrasumar, en það breyttist fljótt í martröð, bæði fyrir okkur aðdáendurna og sjálfan Flopcao, eins og ég kallaði hann síðustu mánuðina.
Hef samt ekkert nema gott um hann að segja, barátta og vilji, það vantaði ekki hjá okkar manni en því miður sáum við ekki Falcao í sínu besta formi, hann mun væntanlega sína okkur það með öðru ensku liði á næstu árum :/
Hvaða leikmenn sýndu mestar framfarir?
Young og Fellaini, ég vildi helst gefa þá tvo fyrir tímabilið en það sem að þeir tróðu skítugum sokknum uppí mig! Sem betur fer, án þeirra værum við ekki í þessu heilaga 4 sæti!
Svo fær Smalling að vera þarna líka, stóð svo sannarlega fyrir sínu undir lok tímabils.
Hver var besti leikmaður United?
Kind David De Gea það þarf ekki fleiri orð um það.
Hvað viljið þið sjá gerast í leikmannamálum núna í sumar?
Að það séu menn keyptir sem að hafa sannað sig og eru með bein í nefinu, Hummels og Schveinsteiger eru menn að mínu skapi, svo vantar annan heimsklassa framherja, hver það á að vera kemur vonandi í ljós í sumar. Svo vantar fleiri miðjumenn, Carrick ekki með skrokk í heilt tímabil
Hverjar eru væntingar ykkar til næsta tímabils?
Að berjast um titilinn, spila vel í FA cup, allavegana í undanúrslit og að komast í 8 liða úrslit CL.
Hafsteinn says
Hver er ykkar skoðun á þessu tímabili með United?
Upp og niður klárlega. Komu tveir virkilega góðir kaflar hjá liðinu en mjög oft var þetta voða þunglamalegt. En að lokum náðist alger lágmarksárangur. Fögnum því að liðið er aftur komið í keppni þeirra bestu í Evrópu. Eftir á að hyggja verður líka að segja að maður var líklega með of miklar væntingar miðað við hvað er raunhæft, ástand hóps og þá staðreynd að það var nýr maður í brúnni, sem kom að auki seint til starfa síðasta sumar.
Hvernig líst ykkur á Van Gaal núna eftir tæplega 1 ár í starfi?
Ég er ánægður með LvG. Hann er þrjóskur hrokagikkur en hann veldur hins vegar starfinu og hefur virðingu leikmanna, ólíkt forvera sínum. Sést e.t.v. best á Rooney, þ.e. hvernig hann hefur ekki kvartað yfir að þurfa að leysa stöður inn á miðjunni. Þá talar hann eins og stjóri Manchester United!
Flottasta markið?
Seinna mark Juan Mata gegn Liverpool á Anfield. Kudos samt á Di Maria gegn Leicester!
Besti leikurinn?
Erfitt val milli Tottneham heima, Liverpool úti og City heima. Lékum trúlega best í fyrsta leiknum heilt yfir en ástríðan og tilfinningarnar eru meiri í hinum. Set þetta á…. Liverpool úti. Aðallega af því Gerrard lét reka sig útaf eftir 38 sek. Hámarks schadenfreude!
Helstu vonbrigði þessa tímabils?
Þrennt sem kemur í hugann við þennan lið:
1) Falcao. Besta „nía“ í heimi var líklega ein versta „nía“ í sögu liðsins. Samt hélt ég með honum fram á síðasta dag eins og hann væri sonur minn.
2) Angel Di Maria. Á helvíti mikið inni.
3) Formið hjá liðinu eftir City-leikinn heima. Það er algjörlega óásættanlegt að Manchester United tapi þremur leikjum í röð og skori ekki mark.
Hvaða leikmenn sýndu mestar framfarir?
Í réttri röð að mínu mati:
1) Smalling. Er loks að sýna hvers vegna bæði Man. Utd. og Arsenal voru á eftir honum. Ætlast til mikils af honum á næstu leiktíð.
2) Young. Endurfæddur undir LvG. Ætti undir venjulegum kringumstæðum samt ekki að vera byrjunarliðsmaður.
3) Fellaini. Sama og með Young. Getur samt farið alveg ógeðslega í taugarnar á manni þegar hann hægir á spilinu. Ef allt er eðlilegt og Woodward vinnur vinnuna sína í sumar þá verður hann ekki í jafnstóru hlutverki á næstu leiktíð. Góður plan B leikmaður sbr. WBA úti.
Hver var besti leikmaður United?
David de Gea. Orð eru óþörf.
Hvað viljið þið sjá gerast í leikmannamálum núna í sumar?
Væntanlega eru allir með sömu áherslur hér, meira eða minna:
Markvörður. Sponsið mig út og ég skal neyða DDG til að skrifa undir. Fari hann þá eru það Cech eða Lloris fyrir mig.
Hægri bakvörð, helst vil ég Darmian hjá Torino en Clyne er líka fínn kostur.
Miðvörð, jafnvel tvo, Hummels er fyrsti kostur. Otamendi annar.
Miðjumann eða tvo. Gundogan eða Schweinsteiger og Vidal eða Pogba.
Framherja: Hér vandast málið. Ég er samt mjög spenntur fyrir Benzema. Einnig gæti verið frábær hugmynd að kaupa Cristiano Ronaldo sem níu.
Hverjar eru væntingar ykkar til næsta tímabils?
Titilbarátta, a.m.k. fram í mars. Lágmarksárangur er þriðja sæti. Og það er krafa að spila miklu mun betur gegn „minni“ liðinum. Vinna aðra hvora bikarkeppnina, helst FA-cup. 8 liða úrslit í CL væri góður árangur.
Jón Þór Baldvinsson says
Hver er ykkar skoðun á þessu tímabili með United?
Að við komumst á lífi í gegnum öll meiðslavndræðin í byrjun tímabilsins. Ég segi bara eins og Van Gaal, hugsið ykkur hvar við hefðum endað ef ekki hefði verið fyrir þau?
Ég rosalega ánægður með Van Gaal og hvernig hann vinnur, ég hef líka trú á að það séu minni líkur að hann verði rekinn eins og hjá fyrri liðum fyrir að móðga einhverjar grenjuskjóður í stjórninni, United eru vanir að hafa fólk sem segir hlutina beint út og jafnvel sparkar frá sér af og til.
Það er engin tilviljun að stjórar sem hafa fylgt í kjölfar hans hjá stóru klúbbunum gefa honum mestan heiður á uppbyggingu liðana s.s Bayern ofl.
Hvernig líst ykkur á Van Gaal núna eftir tæplega 1 ár í starfi?
Van Gaal var draumastjórinn minn einfaldlega vegna þess að hann byggir upp lið eins og SAF.
Hann er ekki gaur sem bara kaupir lið eða tekur við fullbúnu liði til að vinna sína titla eins og Mourhino og fleiri. Hann er þekktur fyrir vinnu sína með yngri flokkana og að gefa ungum og efnilegum leikmönnum sénsa og við fengum fullt af því í ár sem var eitt það besta við tímabilið að mínu mati.
Flottasta markið?
Mata gegn Liverpool, ekki bara hvað það var hrikalega flott heldur líka að þetta voru erkifjendurnir Liverpool, þvílíkur stíll á aflífun pollsins.
Helstu vonbrigði þessa tímabils?
1. Meiðslin í byrjun
2 Falcao, vildi svo sjá hann finna sitt venjulega form.
3.Januzai, gaurinn var engan veginn að nýta sénsana sína, vill svo sjá hvað í honum býr raunverulega en verð víst að bíða lengur eftir því
4. Di Maria seinni hlutann á tímabilinu, þegar allt liðið var að taka við sér fór hann á rassinn. Vona hann komi sterkur inn á næsta ári.
Hvaða leikmenn sýndu mestar framfarir?
1. Smalling
2. Young
3. Fellaini
Nokkurnveginn búið að segja það allt hér á undan.
Hver var besti leikmaður United?
Bjargvætturinn De Gea, þvílíkt sem hann er að blómstra, held það væru mestu mistök lífs hans ef hann fer of snemma, getur enn vaxið hjá United og ansi hræddur um að hann gæti dalað all verulega ef hann færi of snemma.
Hvað viljið þið sjá gerast í leikmannamálum núna í sumar?
Topp varnarmenn, helst einhvern óþekktann eins og Vidic, eitthvað austurevrópskt tröll sem við höfum lítið sem ekkert heyrt um eða einn þeirra reyndu sem við heyrum alltaf minnst á í hverri viku í miðherjan og svo einhverja eldfljóta og framsækna á báða kantanna, þurfum að eiga minnst tvo í báðar stöður svo okkur vantar einn á vinstri og helst tvo á hægri ef Rafael er að fara. Vill helst ekki sjá Valencia þar en hann átti samt ágæta leiki þar stundum í ár, betri en enginn víst. ég var stórefins þegar Rojo kom til liðsins en hann er að vaxa all verulega hryggurinn og ég er farinn að halda hann eigi eftir að verða stórstjarna með þessu áframhaldi svo lengi sem hann haldi áfram á sömu braut.
Topp miðjumenn með svipaða stíl og Garrick, hann er orðin gamall og lúin og okkur vantar annann eins. Einnig gaur eins og Pogba eða Vidal til að fylla skarðið sem Scholes skildi eftir. Vidal væri minn kostur, var unun að horfa á hann á móti Real Madrid um daginn og mér finnst hannn betri kostur þar sem hann er meiri blanda milli sóknar og varnar, stendur sig vel á báðum sviðum meðan Pogba vill helst vera bara framar.
Ég er ekkert spenntur fyrir að kaupa einhvern framherja persónulega. Ég myndi vilja sjá Wilson spila stærra hlutverk enda finnst mér hann vera tilbúin að skína. Með hann og Rooney sem aðal stjörnur og RVP sem varaskeifu sem vill enn sanna sig held ég við séum góðir í þeirri deild. Þó Ronaldo væri alltaf gaman að sjá koma aftur held ég að það sé óraunhæft með meiru og myndi kosta allt, allt of mikið af peningum sem væri betur farið í mikilvægari stöður sem verður að fylla.
Svo vill ég sjá algjöra hreinsun af slökum leikmönnum, vill sjá okkur klára hreinsunina með sölum en ekki lánum. Einnig myndi ég vilja sjá minni spámenn eins og Valencia sem virðist á hraðferð í áhugaleysi eins og vinur hans Nani fara enda Mata og Di Maria miklu betri sem hægri vængir en hann í seinni tíð.
Hverjar eru væntingar ykkar til næsta tímabils?
Leggja til atlögu að öllum titlum, stórum sem smáum, koma tilbaka eins og öskrandi ljón.
Myndi vilja sjá meira af 4-3-3 og 4-5-1 sem mér fannst skemmtilegustu kerfin í vetur en held samt að við gætum notast við 4-4-2 inná milli með smá tilfæringum.
Eins og ég sagði fyrr vill ég sjá Wilson í stærra hlutverki, ég held að við séum með einn mest spennandi framherja framtíðarinnar í okkar höndum.
Svo vill ég fleiri skot frá Van Gaal á allt og alla, búið að vera stórskemmtilegt að lesa svör hans á blaðamanna fundum í vetur, rétt eins og SAF var alltaf, hnyttinn og sísparkandi fyrir neðan belti. :P