Í kvöld kl. 20.05 að íslenskum tíma tekur United á móti Barcelona á Levi’s vellinum í Santa Clara, nýjum heimavelli San Francisco 49ers. Eftir tiltölulega létta leiki í þessari ferð er kominn tími að takast á við aðeins erfiðara verkefni.
Louis van Gaal og Wayne Rooney voru með blaðamannafund í gærkvöld þar sem fátt merkilegt kom fram utan það að Bastian Schweinsteiger er lítilsháttar meiddur og Van Gaal tekur ekki séns á honum í kvöld. Að öðru leyti eru allir heilir. Þeir Ángel di María, Marcos Rojo og Javier Hernandez koma allir til San Francisco í dag en auðvitað of seint til að vera með í leiknum. Síðan var Van Gaal óvenju skýr með það að vilja ekki tjá sig um leikmannakaup,
Van Gaal gaf það út að í leiknum í kvöld væri kominn tími á að sjá hvernig liðið ætti að líta út gegn Tottenham eftir tvær vikur. Byrjunarliðið fær 60 mínútur, en ekki 45 eins og hingað til og hann ætlast til þess að það standi sig.
Þessi hópur útileikmanna var að æfa saman á æfingu í gær og er því mjög líklegt að þetta sé byrjunarliðið, og þá nákvæmlega eins og í síðustu leikjum. David de Gea fleygði sér til og frá á æfingu í gær og er því orðinn góður af þessum bakmeiðslum sem hann vildi meina að væru að hrjá hann. Valencia ætti að vera orðinn góður líka. Miðvarðarspurningin er nokkuð opin, og þar sem við fáum Rojo ekki inn fyrr en síðar og allt bendir til að einhver annar miðvörður komi til okkar þá segir það ekki allt um hverjir verða miðverðirnir í vetur. Darmian hefur staðið sig vel og Valencia er að koma til baka frá meiðslum þannig að orð Van Gaal um að Darmian sé á eftir Valencia í röðinni munu ekki gilda í kvöld. Schweinsteiger myndi líklega komið inn ef hann væri ekki meiddur.
Barcelona er búið að leika einn leik á æfingaferðalaginu, unnu LA Galaxy 2-1. Þeir verða væntanlega aðeins meira í innáskiptingum og eru Messi- og Neymar-lausir vegna Copa América en auðvitað með gríðarsterkt lið. Einhverjir eru að gera því skóna að Arda Turan og Aleix Vidal geti komið við sögu, þar sem þeir geta spilað vináttuleiki þó að kaupbannið á Barcelona geri það að verkum að þeir geta ekki spilað alvöruleiki með liðinu fyrr en á næsta ári.
Einna forvitnilegast verður að sjá hvort Pedro verður látinn spila… og þá með hvoru liðinu! En án gríns, þá virðast auknar líkur á að við ætlum okkur að fá hann til okkar og ef hann spilar ekki þá munu þær sögur aukast. Síðan ef myndavélarnar spotta Sergio Romero í stúkunni eins og sögusagnir eru um, þá getum við alveg bókað að hann sé að ganga til liðs við United.
Þessi leikur er öllu meira spennandi fyrirfram en síðustu leikir og tímasetningin alveg prýðileg. Helmingur ritstjórnar ætlar að fleygja dauðum dýrum á grill og horfa á leikinn og hver veit nema í kjölfarið fylgi podkast.
Manchester United 3:0 Barcelona
Það er síðan ekki úr vegi að hita upp fyrir leikinn með að horfa á einhvern besta leik á Old Trafford fyrr og síðar, leik United og Barcelona í Evrópukeppni bikarhafa vorið 1984. Ef þú hefur ekki séð þennan leik þá er þetta skylduáhorf!
Hjörvar Ingi Haraldsson says
http://unitedlive.manutd.com/watch-BarcelonaFC/register
Hérna er hægt að kaupa aðgang að leiknum, $13 en þar sem þetta er gegn Barcelona að þá gæti það verið vel þess virði :)
DMS says
Blindarinn í miðverði. Er það einhver tilraunastarfsemi? Veit svo sem að hann leysti þessa stöðu af og til hjá Ajax en var að mestu í vinstri bak í landsliðinu og svo á miðjunni hjá Ajax.
Hefði frekar haldið að LvG myndi vilja sjá samstarf Jones og Smalling en hann er væntanlega með þetta alveg á hreinu kallinn.
Hvaða stöðu var Memphis að leysa hjá PSV? Var hann meira út á kanti eða fyrir aftan framherjann?