Tímabilið er formlega hafið og því tímabært að fara af stað með Mánudagspælingarnar sem verða vonandi fastur liður hjá okkur í vetur. Í þetta skipti snúast pælingarnar um leikform leikmanna, smá tölfræði og ástæður þess að David de Gea sat uppi í stúku.
Leikform?
Ég missti af leiknum á laugardaginn gegn Tottenham en fylgdist þó með samfélagsmiðlunum meðan á leik stóð. Sú mynd sem ég fékk af leiknum þar var frekar neikvæð og ég bjóst því að ég væri að fara að horfa á einhverja hörmung þegar ég horfði á leikinn í endursýningu í gær.
Sú var ekki raunin að mínu mati. Nú ætla ég ekki að halda því fram að United hafi spilað einhvern blússandi sýningarbolta og það er margt sem má laga en heilt yfir stóð vörnin sig vel, hápressan gekk ágætlega og við fenguð að sjá nokkra lipra sóknartilburði. Betur má ef duga skal en það má ekki gleyma því að þrjú stig komu í hús á sama tíma og Arsenal og Chelsea töpuðu stigum.
Þegar ég horfði á leikinn fannst mér augljóst að leikmenn beggja liða væru ekki komnir í almennilegt leikform og líklega hefur 25 stiga hitinn á hádegi í Manchester ekki hjálpað til. United spilaði náttúrulega bara 4 æfingarleiki og enginn af þeim leikmönnum sem spilaði í dag kláraði 90 mínútur á undirbúningstímabilinu. Þetta hafði hafði að mínu mati mest áhrif á spilamennsku liðanna á laugardaginn. Það ætti að koma meira flæði í leik liðsins þegar menn verða komnir í 100% leikform en það er nóg af leikjum framundan í þessum mánuði og því næg tækifæri fyrir menn að komast í þetta fræga leikform.
Þetta á sérstaklega við um Wayne Rooney en ábyrgð hans á þessu tímabili er mikil. Ef hann stendur sig illa á tímabilinu mun það ekki enda vel. Hann virðist oft koma þungur undan sumri en þegar leikirnir koma í hrönnum er ég viss um að hann mun standa undir nafni.
Skora fyrst/gengi gegn efstu liðum
Á síðasta tímabili vorum við svolítið að skoða tölfræðina á bakvið tímabilið hjá United. Meðal þess sem kom í ljós að liðið varð bara hreinlega að verða fyrri til að skora en andstæðingurinn til þess að vinna leikinn. Það gekk eftir í gær og við færðist algjör ró yfir mannskapinn, United náði yfirhöndinni og hefði með smá heppni getað bætt við fleiri mörkum áður en að Tottenham-menn unni sig aftur inn í leikinn síðustu 10 mínútur leiksins eða svo.
Svona leit þetta út á síðasta tímabili:
Það verður fróðlegt að sjá hvort að þetta haldi áfram á þessu tímabili.
Á síðasta tímabili gekk United einnig mjög vel gegn liðunum í efri hluta deildarinnar. Svo vel reyndar að ekkert lið fékk fleiri stig [footnote]City fékk jafnmörg[/footnote] út úr viðureignunum gegn liðunum sem enduðu í 7 efstu sætunum en Manchester United. Það var mjög vel af sér vikið og líklega aðal ástæðan fyrir því að United vann sér inn sæti í Meistaradeild Evrópu á nýjan leik.
Fastlega má gera ráð fyrir því að Tottenham raði sér í eitt af efstu sætunum 7 og því er gott að sjá United vinna eitt af betri liðum deildarinnar í fyrsta leik. Það lið sem ætlar sér titilinn verður að vinna þessa leiki. Það er þó ekki nóg enda þarf að vinna hin liðin líka! United gekk ágætlega gegn efsta og neðsta hluta deildarinnar en það var gegn liðunum í miðhluta deildarinnar sem illa fór:
Þetta þarf að laga!
David de Gea
David de Gea sat upp í stúku á laugardaginn og Sergio Romero varði mark United og gerði það þokkalega. Í kjölfarið gusu auðvitað upp orðrómar að þetta væri búið hjá De Gea, Louis van Gaal vildi losna við hann og David de Gea yrði leikmaður Real Madrid innan skamms.
Ég kaupi þetta ekki. Ég hef enga trú á því að eftir að hafa eytt öllu sumrinu í það að spila hard-ball við Real Madrid ætli félagið, korter fyrir lokun gluggans, að lúffa fyrir Real Madrid og selja hann á einhverju afsláttarverði. Það meikar hreinlega ekki sens miðað við hvernig sumarið hefur spilast. United hefur ítrekað gefið það út að De Gea fari ekki neitt nema Sergio Ramos komi í staðinn eða að Real borgi toppverð. David de Gea verður markmaður United í vetur nema annað af þessu gerist og ég sé það bara ekki gerast úr þessu. United myndi líta afskaplega illa út ef félagið myndi gefast upp á þessum tímapunkti.
Að mínu mati var ástæða þess að De Gea sat upp í stúku og Romero varði markið ósköp einföld. Þarna var Van Gaal að sparka í rassinn á David de Gea og láta hann vita að hann væri ekki í áskrift af byrjunarliðssæti, þrátt fyrir að vera einn besti, ef ekki sá besti, markmaður í heiminum í dag þyrfti hann að leggja sig fram til þess að fá að spila alveg eins og allir aðrir, jafnvel þótt að Real Madrid sé næsti áfangastaður hans. Það er enginn afsláttur veittur en mörgum þótti David de Gea ekki vera með hugann við verkið í æfingarleikjunum fyrr í sumar.
Bjarni Ellertsson says
Satt er það að liðið er að spila sig í form í næstu leikjum og vonandi hefur það ekki áhrif á stigasöfnunina. Sást best í þesum leik og það virðist vera planið hjá fleiri liðum. Samt vantar okkur miðvörð (reynsla + geta) og sóknarmann en þeir þurfa náttúrulega að fitta inn í leikplanið hjá bossanum, það er jú hann sem ræður. Hef trú á að það skýrist fljótlega.
Karl Garðars says
Góður pistill. Sammála með leikinn, það var margt jákvætt að gerast sem sárvantaði í fyrra og árið þar á undan (og jafnvel árið þar á undan ef nánar er út í það farið). En menn klárlega ekki komnir í toppform. Varðandi vörnina, ef miðjan funkerar þá klára þessir varnarmenn sem við höfum rest, það er ég fullviss um en að sjálfsögðu að því gefnu að blessaðir mennirnir haldist heilir til tilbreytingar.
Ég er nokkuð viss um DDG leiki þetta tímabil með okkur og mér finnst sjálfsagt að prófa hann aftur á einhverjum tímapunkti ef hausinn er rétt skrúfaður á. En ef Romero er að virka vel þá er ég persónulega það passlega reiður út í DDG til þess að vilja leyfa honum að dunda sér með varaliðinu eða í Ludo á tréverkinu. Veit að það væri ekki rétt en mér finnst hann hafa gefið skít í félagið sem kom honum til manns. Ég efast reyndar alls ekki um að LVG taki einmitt hárrétt á svona prímadonnum. :)
Keane says
Takk fyrir góðan pistil Tryggvi, flottir pistlar frá ykkur. Ég er með eina spurningu,
Hver er staðan á þessu Pedro máli? Af hverju er ekki búið að geirnegla það miðað við alla þessa umfjöllun. Nú heyrði ég að City hafi áhuga á kauða.
Auðunn A Sigurðsson says
Spurning hvort að LVG og United vilji bíða með að versla meira þar til það er 100% pottþétt að liðið komist í riðlakeppni meistaradeildarinnar?
Ég neita að trúa því að hann kaupi ekki miðvörð komist liðið í riðlakeppnina með meiðslasögu Evans og Jones sér til hliðssjónar. Ég held að það hafi komið í ljós í þessum Spurs leik að Blind á ekki heima í þeirri stöðu, hann var út-vöðvaður af framherjum Spurs hvað eftir annað.
Eins með framherjastöðuna, á mjög erfitt með að sjá þetta lið fara langt með núverandi framherja úrval, þessu liði sár vantar topp klass framherja en þeir liggja nú ekki á lausu því miður.
Ef svo slysalega vildi til að liðið kæmist ekki í riðlakeppnina þá er alveg eins víst að það verði ekki gerðar frekari breytingar á hópnum.
Þar spila bæði tekjur og álag inn í að sjálfsögðu.
En hvað varðar DDG þá skil ég hvorki United eða DDG sjálfan í þessu máli.
Ef hann vill fara til real afhverju kemur hann þá ekki bara hreinn og beinn fram og biður um sölu? Hvern er hann að reyna að blekkja? Hann þykist vera í einhverju haltu mér slepptu mér dæmi þessa dagana.
Ef hann vill ekki skrifa undir samning þá á United að setja hann á sölu og taka besta tilboðinu. Það skiptir stuðningsmenn akkurat ekki neinu máli hvort hann fer núna eða næsta sumar,
Það er alveg eins gott að hann fari bara núna og málið sé þá bara frá.
Það er amk betra fyrir klúbbinn að fá eitthvað fyrir hann núna í stað þess að fá ekkert fyrir hann eftir 12 mán.
Liðið hefur hvort eð er selt menn á blússandi útsölum í allt sumar til þess eins að losna við þá, fyrst það var hægt að selja einn besta leikmann í heimi með 12 eða 15 milj punda afslætti þá skiptir engu hvort DDG fari á 20 eða 30 milj.
LVG talar núna um að United þurfi alltaf að borga topp verð sem er rétt, sem á svo að réttlæta það að Real borgi topp verð fyrir DDG en afhverju lét hann þá ekki PSG borga topp verð fyrir Di Maria? Það var aldrei talað um þetta þá.!!
Þetta er allt saman tóm steypa finnst mér.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Ég er persónulega ekkert pirraður út í De Gea, hann vill fara en hann er ekki að fara í blöðin að vera með læti eða þykjast vera veikur. Hann vill spila meðan hann er hjá United en ég skil alveg ástæðuna fyrir því að Van Gaal var með hann á bekknum.
Annars vil ég bara segja, áfram WBA í kvöld :D
Ingvar says
Hjartanlega sammála þér Hjörvar. Menn geta verið brjálaðir við DDG en fyrir hvað? Hefur hann með einhverju móti verið annað en professional í þessu máli? Hann vill fara til Real og skil ég hann bara ósköp vel, en hann hefur ekki verið með neina stæla, hann hefur ekki farið fram á sölu eingöngu af virðingu við félagið og stuðningsmennina. Ef menn myndu hætta að vera alveg United blindir þá mynduð þið alveg skilja af hverju hann vill fara. Tek hátt minn ofan fyrir David og vona innilega að hann verði áfram og skrifi jafnvel undir samning í kjölfarið:)
Keane says
Ég verð nú að viðurkenna að ég er orðinn ansi óþolinmóður varðandi þessi leikmannamál. Á ekkert að fara að hundskast til að kaupa miðvörð og sóknarmann??? Ætlum við bara að treysta á Rooney og hina larfana þarna frammi? Þetta verður ekkert vit í þessu tímabili ef þeir andskotast ekki til að bæta við leikmönnum.
Auðunn A Sigurðsson says
Nú er það allavega orðið ljóst að Ramos er búinn að skrifa undir nýjan samning, þar með er þá hægt að snúa sér að öðrum miðvörðum.Það hefði reyndar átt að gera það fyrir mörgum vikum síðan.
Aftur og enn er Man.Utd að láta nota sig íllilega af leikmönnum stóru liðana á Spáni, því miður virðast þeir aldrei ætla að læra.
Púðrið og tíminn sem búin er að fara í þetta er með ólíkindum og hreint ótrúlegt hvað Woodward og co lára draga sig á asnaeyrum svo vikum og vikum skiptir, í þessu tilviki öllu helv sumrinu nánast. Kæmi mér ekki á óvart ef Pedro sé í sama pakkanum.
Og ef menn halda það að De Gea fari ekki því Ramos skrifaði undir þá skulu menn bara bíða og sjá.
De Gea fer alveg pottþétt, bara spurning hvort hann fari núna eða eftir 10 mánuði, fyrir mér skiptir það ekki nokkru einasta máli.
United vinnur kannski orrustuna um hann þetta sumarið en stríðið er tapað.
Löngu kominn tími til að United leiti á önnur mið og hætti að láta leikmenn þessara tvo risa á Spáni hafa sig að fífli aftur og aftur.
Runólfur Trausti says
Varðandi þetta Ramos mál þá bjuggust vissulega flestir við því að hann myndi skrifa undir, hins vegar virðast þó nokkrar öruggar heimildir halda því fram að hann hafi alvarlega íhugað að yfirgefa Real Madrid. Með Manchester United sem næsta áfangastað. Að bíða og ekki bíða eftir ákvörðun hans er mögulega umdeilanlegt en ég tel nú að enginn hafi verið dreginn á asnaeyrum. Ef hann var skotmark númer eitt þá tel ég það meika sens að bíða eftir að hann tekur ákvörðun.
Varðandi hafsenta stöðuna þá er ég ekki jafn svartsýnn og allir aðrir. Fyrir mér er Smalling með frambærilegri hafsentum á Englandi í dag. Menn tala ítrekað um John Stones en Smalling er aðeins 26 ára og gæti leitt Untied vörnina næstu 6-8 árin ef hann helst meiðslalaus. Ef frá er talinn meiðsladragurinn þá er liðið ágætlega mannað af hafsentum. Ég tel það spila hvað mest inn í enda sást það á Chelsea í fyrra hversu miklu það skiptir að sleppa við meiðsli (þeir eru í rauninni bara með þrjá hafsenta, fjóra með Ivanovic). Ég viðurkenni fúslega að Ramos eða Otamendi væru mjög spennandi kostir en ef þeir koma ekki þá hef ég litlar áhyggjur (sem stendur). Menn gleyma því oft að Rojo var mjög flottur meiri hlutann af tímabilinu í fyrra og hann og Smalling geta vel myndað öflugt hafsenta par.
Hvað varðar vin minn hann De Gea þá hafa menn beðið eftir þessu í þónokkurn tíma. Og núna virðist United vera draga Real á asnaeyrum. Real vill fá hann ódýrt núna en fá það greinilega ekki og þurfa því að bíða í ár eftir að fá hann. Hvað varðar það að láta hann fara frítt þá er það auðvitað visst svekkelsi og væri maður til í að sjá De Gea skrifa undir nýjan samning með klásúlu að Real gæti keypt hann á 30-35 milljónir en það virðist ekki vera inn í myndinni (kannski er hann ósáttur með Van Gaal – hvað veit maður).
En með því að halda honum í eitt ár í viðbót þá kaupir United sér tíma því ég held að liðið hafi ekki verið búið að finna eftirmann hans. Sergio Romero kom mjög flottur inn í leikinn gegn Tottenham og er vissulega landsliðsmaður en ég held að hann sé ekki framtíðin. Með því að halda De Gea í eitt ár þau kaupa Van Gaal og Frans Hoek sér tíma við það að finna / scouta nýjan markmann.
Varðandi Pedro þá virðist hann nú vera að koma, hann vill ekki peninga heldur spiltíma segir hann. Og United getur boðið upp á það, verst er að City og Chelsea geta það nefnilega líka. Gæti orðið hörkubarátta um hinn spænska Nani.
Þið afsakið langlokuna. Næturvakt og allt það.
Lifið heil.
– RTÞ
Auðunn Sig says
Skil ekki hvernig United er að draga real á asnaeyrum þegar þeir treysta sér ekki einu sinni til að nota hann..!!
Greinilega finnst Van Gaal eitthvað vanta upp á hugarfarið og einbeitningu.
Hver er gróði Man.utd í því? það liggur þá alveg ljóst fyrir að hann vill fara og það helst strax.
Real fær hann svo frían næsta sumar, einn af bestu markmönnum í heimi.
Þeim finnst örulega ekkert að þeim díl hefði ég haldið
Runólfur Trausti says
Van Gaal hefur sagt að útaf þessu öllu vilji hann ekki nota De Gea, en eftir 1. september þegar glugginn lokar þá er hægt að skoða þetta. Meðan glugginn er opinn er einbeiting De Gea augljóslega ekki 100%, hann er jú mennskur (þó frammistöður hans síðustu ár hafi verið nánast ómennskar).
Og er hægt að blame-a De Gea að vilja fara, hann er frá Madrid, kærasta hans til 5 ára eða svo býr þar, ætla að leyfa mér að giska að öll stór-fjölskyldan sé frá Madrid.
Hvað varðar dílinn þá er ljóst að Real vill hann núna, þeir treysta ekki markmönnunum sem þeir hafa. Í ljósi aðstæðna þá hefur United tæklað þetta ágætlega og sagt að annað hvort komi Ramos til United í stað De Gea eða þá að Real borgi hæsta mögulega verð.
Sé lítið að þeirri niðurstöðu.
Að sama skapi kaupir United sér tíma í markmannsmálum og getur fundið arftaka De Gea eða séð hvort Romero hafi það sem til þarf til að standa í búrinu hjá stærsta liði Englands.
Win – Win í ljósi aðstæðna.
-RTÞ