Um leikinn
Já, þið lásuð það rétt. Á morgun föstudag mun Manchester United mæta á Villa Park og leika gegn heimamönnum í Aston Villa. Þegar nýji sjónvarpssamningurinn var gerður sem hefur tryggt liðunum í deildinni töluverða peninga var ákveðið að einhverjir leikir myndu fara fram á föstudögum. En það mun ekki byrja fyrr en á tímabilinu 2016-2017. Ástæðan fyrir þessari tímasetningu mun vera vegna hægri-öfgasamtakanna EDL (English Defence League) sem ætla að marséra um nágrannabæinn Walsall á laugardeginum og mun þurfa allt fáanlegt lögreglulið svæðisins. United að fara að spila í Meistaradeildinni á þriðjudeginum og þar af leiðandi var sunnudagurinn úr myndinni. Því var ákveðið að leika á morgun.
Aston Villa
Aston Villa liðið hefur tekið töluverðum breytingum í sumar. Liðið hefur selt tvo bestu leikmenn sína; Christian Benteke til Liverpool og Fabian Delph til Manchester City. Einnig hefur liðið losað sig við nokkra minni spámenn. Tim Sherwood hefur fengið til liðs sig hvorki færri nei fleiri en 9 leikmenn fyrir þetta tímabil. Alls kosta þeir um 43.000.000 punda en liðið seldi fyrir um 44.000.000 og er því samt í plús. Af nýju leikmönnunum bera hæst þeir Jordan Ayew, Micah Richards, Scott Sinclair og Rudy Gestede sem skoraði sigurmarkið gegn Bournemouth í fyrstu umferðinni. Einnig má nefna að Richards var gerður að fyrirliða liðsins.
Manchester United
Louis van Gaal sagði á blaðamannafundinum í dag að United einfaldlega verði að bæta útivallargengið á þessu tímabili. Á síðasta tímabili var liðið með heimavallargengi á við meistaralið en útivallargengið var á við lið um miðja deild (jafnvel neðar). Samkvæmt fréttum frá Spáni hafa Real Madrid gefist upp á að fá De Gea í þessum glugga. Fregnir af nýjum samningi Sergio Ramos munu hafa séð til þess að ekkert samkomulag náist. Þrátt fyrir þetta mun David de Gea ekki koma við sögu annað kvöld.
Síðasti leikur sem var gegn Tottenham var engin flugeldasýning en ásættanlegur sem fyrsti leikur og mikilvægast var að ná þremur stigum. United mun vilja byggja á frammistöðuna þar og því býst ég við þessu liði á morgun:
Olgeir Pétursson says
Ég næ ekki alveg upp í þessa tvo djúpa miðjumenn hjá Van Gaal. Mér finnst Carrick alltaf bestur þegar hann fær að vera einn fyrir framan vörnina en ekki með einhvern við hliðina á sér. En síðan spyr ég mig að því hvað annað sé í boði. Hvað segja sparkfræðingar?
Snorkur says
Vissulega líklegt lið .. myndi þó vilja sjá annan djúpa miðjumanninn hvíldan á morgun. Vörnin á ekki að þurfa svona mikla hjálp á móti Villa, og því tækifæri á að nota Herrera.
Annars er föstudagur bara fínn leikdagur :) mætti vera algengara
Runólfur Trausti says
Skil vel pælinguna með tvo djúpa … gegn Stóru liðunum. En gegn Aston Villa til að mynda þá myndi ég halda að það væri algjör óþarfi. Ég persónulega væri til í að sjá Herrera og Schweinsteiger í byrjunarliðinu fyrir framan Carrick með Mata og Memphis út á vængjunum.
Hvað varðar leikinn á morgun þá hef ég vissar áhyggjur af vinstri hluta varnarinnar – Rudy Gestede er 193 cm á hæð og gæti orsakað þó nokkur vandræði í loftinu.
Reyndar gætu svo sem tveir djúpir miðjumenn gegn akkúrat Aston Villa verið málið til að a) gefa liðinu betri varnaroption gegn lurkinum Gestede og b) til að verjast betur hraðanum sem Scott Sinclair og Gaby Agbonlahor bjóða upp á.
En sama hvernig liðið verður, mikið er gaman að fá leik á föstudegi.
– RTÞ
Pillinn says
Ég reikna nú með að Morgan Schneiderlin verði fyrsti kostur á miðjuna fyrir framan vörnina. Hann er með aldurinn með sér en bæði Schweini og Carrick þurfa kannski smá hvíld. Svo auðvitað getur hann haft Schweini aðeins framar. En ég reikna með Schneiderlin og svo annað hvort Carrick eða bara Herrera, væri helst til í Herrera með.
Ég reikna samt alveg með að Gaal fari smá varfærnislega í þetta þar sem hann vill ná betri árangri á útivöllum. Ég er hins vegar bara á þeirri skoðun að við eigum bara að ráðast til atlögu, sérstaklega gegn liði eins og Aston Villa. Mæta þeim bara og valta yfir þá strax frá fyrstu mínútu. Vil ekki sjá eitthvað 0-1 og við að berjast í lokin, best að vera búinn að klára leikinn í fyrri hálfleik. Þannig spiluðum við ansi oft hjá Fergie og þannig spilamennska hefur nýst vel í ensku, þó að í Evrópu hafi reynst betur að spila varfærnislega.
Annars spái ég sigri 0-2 fyrir okkar mönnum. Mata og Herrera með mörkin.
Rúnar Þór says
Hræddur um að Herrera spili lítið :(
hann á skilið að spila mikið á þessu tímabili miðað við frammistöðurnar á seinasta tímabili, hann er svo góður!!!
Keane says
Ég vona nú bara að stigin 3 liggi flöt eftir þennan leik, ekki verra að halda hreinu, mikilvægt að bæta útivallaskorið miðað við í fyrra. Ég man nú enn hvernig leikirnir voru síðustu árin hjá Ferguson, það var ekki beint einhver sýningabolti, yfirleitt hundleiðinlegt að horfa á.
Djöfull er ljúft að fá leik á föstudegi!