Það eru 495 dagar síðan við skrifuðum upphitun fyrir leik Manchester United í Meistaradeild Evrópu. Það var fyrir seinni leik United við Bayern München í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar tímabilið 2013/2014. David Moyes var við stjórnvölinn og þökk sé honum hafa aðeins þrjár færslur (fjórar með þessari) bæst í flokkinn Meistaradeild Evrópu hér á síðunni frá því að liðið datt úr keppninni á vormánuðum 2014.
Það var erfitt að vera án Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili en á morgun mun þetta frábæra lag hljóma á Old Trafford á nýjan leik eftir. United er mætt aftur í Meistaradeildina.
Áður en að dregið verður í riðlakeppnina þarf félagið að sigra belgíska félagið Club Brugge í tveimur leikjum. Sá fyrri fer fram á morgun og verður spilaður á Old Trafford. Verkefnið er einfalt, ná í þægilegan og öruggan sigur.
Club Brugge
Club Brugge er eitt af sigursælustu liðum Belgíu. Það hefur unnið flesta bikartitla allra liða þar og aðeins Anderlecht státar af fleiri deildartitlum. Club Brugge hefur einnig náð góðum árangri í Evrópukeppnum í gegnum tíðina, það er t.d eina belgíska liðið sem hefur komist í úrslitaleik forvera þeirrar keppni sem spilað verður í á morgun. Árið 1978 fór liðið alla leið í úrslitaleik Evrópukeppni Meistarahafa en tapaði því miður gegn Liverpool, tveimur árum áður kepptu þessi lið einnig um UEFA-bikarinn en því miður, aftur, tapaði belgíska félagið þeim leik.
Club Brugge lenti í efsta sæti belgísku deildarinnar á síðasta tímabili en þar sem fyrirkomulag deildarinnar er alveg gjörsamlega fáránlegt vann liðið ekki belgíska meistaratitilinn. Nei, efstu sex liðin fara semsagt í umspil um titilinn þar sem hvert lið byrjar með þann stigafjölda sem það fékk úr innbyrðis viðureignum liðanna. Þau leika svo við hvert annað í deildarfyrirkomulagi, heima og að heiman. Gent sem stóð uppi sem sigurvegari í umspilinu en andstæðingar okkar á morgun máttu sætta sig við annað sæti.
Það þýddi að líkt og okkar menn þurfa Brugge-menn að fara í gegnum umspil ætli þeir sér sæti í riðlakeppninni. Belgarnir hófu þó leik örlítið fyrr en okkar menn eða í síðustu umferð. Þar mættu Panathinaikos og verandi staðsett í hjarta ESB fóru þeir tiltölulega illa með Grikkina, 4-2 samanlagt.
Belgíska deildin hófst frekar snemma og fór fyrsta umferðin fram 24. júlí sl. Eftir fjórar umferðir er liðið í öðru á markatölu með sjö stig en fjögur önnur lið eru einnig með sama stigafjölda. Liðið er búið að vinna tvo, tapa einum og gera eitt jafntefli. Líkt og United átti Brugge leik á föstudaginn þar sem liðið lagði KV Kortrijk 2-1.
Ég ætla ekki að reyna að halda því fram að ég þekki einhverja í þessu liði. Það eina sem ég veit er að Eiður Smári tók auðvitað nokkra leiki með liðinu fyrir ekki svo löngu. Maður kannast þó aðeins við þjálfarann, markmanninn Michel Preud’Homme, sem var einn af betri markmönnum heimsins þegar ég var að byrja að horfa á fótbolta. Hann hefur þjálfað í Belgíu, Hollandi og Sádi-Arabíu en er líklega best þekktur fyrir að gera Standard Liege nokkuð óvænt að Belgíumeisturum árið 2008. Þar spilaði Marouane nokkur Fellaini undir stjórn hans og Preud’Homme talaði fallega um Belgann okkar fyrir leikinn á morgun:
Meeting Fellaini again will be special. He is looking forward to it. When I returned to my office from the training pitch after the draw I received a text message from Marouane which said: ‘Good luck.’ I immediately replied with: ‘You too, haha.’ I always had a good bond with him. After all, he is one of my lads. The mutual respect is huge between us. He certainly has not forgotten that I launched his career at Standard.
Manchester United
Okkar menn hafa gert það sem var krafist af þeim í leikjunum tveimur hingað til og ekki mikið meira en það. Þetta hafa ekki verið miklar flugeldasýningar en sex stig og ekkert mark fengið á sig er ágætis niðurstaða úr fyrstu leikjunum. Það að við höfum bara skorað tvö mörk hingað til er þó áhyggjuefni. Ég er þó á því að leikformið spili mikið inn í það enda virðist vera augljóst að okkar menn, margir hverjir, séu ekki komnir í 100% leikform. Kannski ekki skrýtið þar sem enginn leikmaður fyrir utan Samuel Johnstone kláraði 90 mínútur á undirbúningstímabilinu.
Þessvega er það eiginlega bara ágætt að fá þessa tvo umspilsleiki inn í dagskránna núna til þess að koma mönnum í betra stand. Svo ég haldi því til haga finnst mér það alls ekki einskorðast við United að leikmennirnir séu ekki í fullu formi í upphafi móts eins og sjá má t.d. á Chelsea og jafnvel Tottenham. Aston Villa menn virtust t.d. alveg vera sprungnir eftir rúman klukkutíma. Leikurinn á morgun og í næstu viku er því fínt tækifæri til að ná upp leikformi hjá þeim leikmönnum sem þurfa á því að halda.
Svo er þetta einnig kjörið tækifæri til þess að gefa einhverjum af þeim leikmönnum sem ekki hafa verið að spila tækifæri. Ég er reyndar á því að ekki eigi að hrófla við öftustu fimm enda algjörlega nauðsynlegt að þeir nái að mynda með sér tengingu. Það er svo afskaplega mikilvægt og eitthvað sem aldrei tókst á síðasta tímabili vegna meiðsla. Á miðjunni má þó rótera og ég væri il í að sjá Schweinsteiger og Herrera byrja þennan leik. Framar mætti Januzaj byggja á ágætri frammistöðu gegn Villa um helgina auk þess sem að það væri gaman að sjá Pereira fá mínútur. Það er algjörlega nauðsynlegt að Rooney spili 90 mínútur til þess að byggja upp formið sitt en hann hefur virkað ansi þungur í fyrstu leikjunum. Liðið ætti því að vera einhvernveginn svona:
Club Brugge hefur spilað fleiri leiki en United og það gæti haft sín áhrif. Lið eins og United á þó alltaf að labba í gegnum lið eins og Brugge og allt nema þægilegur heimasigur sem svo gott sem tryggir okkur sæti í riðlakeppni verða vonbrigði.
Bjarni Ellertsson says
Fyrri leikurinn ætti að duga til koma okkur áfram en til þess að svo megi verða þurfa menn að girða sig í brók og starta tímabilinu, nú hefst alvaran. Fyrstu deildarleikirnir hafa sýnt okkur að liðið er að komast í meira og betra spilaform en ég get ekki verið annað en sáttur með fullt hús stiga eftir 2 leiki. En hugsum samt um það að svona spilamennska gæti snúist í höndunum á okkur einn daginn.
GGMU
Auðunn Atli says
það skiptir oft miklu máli í svona leikjum að byrja af krafti og reyna að ná marki snemma, keyra svo yfir þá í kjölfarið og gera út um leikinn í fyrrihálfleik.
Vill sjá Rooney á bekknum, Herrera, Hernandes og Wilson í byrjunarliðinu, það eru allt leikmenn sem þurfa og vilja sanna sig.
van Gaal á líka að vera kaldur og setja sóknarlið inn á til að byrja með, menn þurfa að hafa kjark til að sækja í svona leikjum og það á heimavelli, annars komast menn ekkert í þessari keppni.
panzer says
LOKSINS! Eftir árs fjarveru verður unaðslegt að heyra þetta lag óma. Get ekki beðið.
Rooney er, þrátt fyrir slakan leik á móti Villa, ennþá í heimsklassa og ég hef enga trú á að LVG droppi fyrirliðanum í þessum leik – hann einfaldlega alvöru partner á toppnum og mun koma til.
Hvað er samt að frétta með CB?! Otamendi er í lækniskoðun hjá City og þær ÓTRÚLEGA óvæntu og ófyrirsjáanlegu tíðindi eru að berast frá Madrid að Ramos að hann hafi skrifað undir nýjan samning. Vel spilað Ramos, ekki einu sinni Ed Woodward sá í gegnum þetta útspil!
Pedro og ekki Pedro, ef við signum CB með Smalling og svo striker við hlið Rooney erum við með lið sem getur barist á flestum vígstöðum.. þangað til mun liðið spila á seinni fiðluna í topp-4 kvartetinum
Björn Friðgeir says
Enn og aftur, öllum blaðamönnum sem einhver tengsl þykjast hafa við United ber saman um að sagan úr herbúðum United sé að liðið hafi aldrei haft áhuga á Otamendi.
Auðvitað vissu allir, þar á meðal Woody hver líkleg niðurstaða yrði. Það þýddi ekki að það ætti ekki að reyna við Ramos.
Louis virðist vera með það á hreinu að ef kaupa á miðvörð þá verði að kaupa algeran heimsklassa. Ég er alveg sammála þar, hann þarf að vera marktækt betri en Rojo/Blind/Smalling/Jones. Slíkir menn eru ekki víða.
Siggi says
Ætla að vera ósamála Birni.
Rojo/Blind/Smalling/Jones/Evans geta verið ágætir sérstaklega í leikjum þar sem Utd þarf varla að verjast en heilt yfir eru þetta miðlungs eða rétta fyrir ofan miðlings miðverðir og eru til margir betri í heiminum. Að hugsa sér að einu sinni voru Stam og Rio í miðverðinum í toppformi. Það vantar einn heimsklassa miðvörð en ef hann er ekki til þá eru samt til sterkari miðverðir en þessir(Þótt að Smalling hafi verið að koma sterkur inn í byrjun).
Runólfur Trausti says
Ég ætla að vera ósammála Sigga.
Marcos Rojo sýndi mjög góðar frammistöður í fyrra miðað við ungan hafsent sem er að spila í einni mest krefjandi deild í heimi – ef menn muna eftir frammistöðum Nemanja Vidic fyrsta hálfa árið hjá Manchester United þá er nokkuð augljóst að það er erfitt að labba inn í þessa deild og standa sig. Mangala hjá City í fyrra er annarr sem strögglaði rosalega á sínu fyrsta tímabili.
Hvað varðar nýja hafsenta þá vita allir sem horfa á United að Van Gaal er mjög „einstakur“ maður og hann vill ekki hvern sem er. Hann virðist heldur ekki vera tilbúinn að borga 50+ milljónir (ala PSG) fyrir hafsent. En fyrir alla þarna úti sem telja United vanta „heimsklassa“ hafsent þá spyr ég einfaldlega, hver er í boði? Gary Neville hefur talað um að hreinir varnarmenn séu að verða útdauðir og það sést best á bestu hafsentum heims í dag. Fyrir mína parta eru rosalega fáir í boði sem styrkja United liðið það mikið að þeir séu virði 50+ milljóna punda/evra/dollara.
Hvað varðar allt tal um Stam og Rio þá var Róm ekki byggð á einum degi. Jaap kom í raun fullmótaður til Untied 26 ára gamall (allir hafsentar United eru yngri fyrir utan Evans), það sem skyggir á Stam er auðvitað að hann var seldur aðeins 29 ára gamall þökk sé sérvisku / þrjósku Ferguson. Rio er svo keyptur 23 ára gamall (varð 24 það árið) og United vinnur deildina á hans fyrsta tímabili en svo var hann ef ég man rétt í tómu tjóni í rauninni þangað til 2006 (4 árum síðar) þegar hann og Vidic taka sig til og verða besta hafsentapar í heimi. Þá er hann 28 ára, sem er aftur, eldri en allir hafsentar United í dag. Þannig að við vitnum bara í orðatiltækið; „Þolinmæði er dyggð“ og treystum á Smalldini (sem er hægt og rólega að verða líkari og líkari Rio) og vonum að Rojo þróist í nýjan Vidic. „It´s a process“.
Björn Friðgeir says
Ágætis innlegg í þessa umræðu hér http://cdn2.streamable.com/video/9l2p.mp4 þar sem Gary Neville er að tala um hvernig vörn United hefur fengið á sig færri mörk en nokkuð annað lið síðan Carrick kom inn í liðið í fyrravetur, og fer yfir hversu góð hollningin á vörninni hefur verið.
Grímur says
Runólfur hittie naglann á höfuðið. Fyrstu ár Rio voru enginn dans á rósum en mögulega muna yngri stuðningsmenn lítið eftir því. Hann var mikið gagnrýndur milli þess sem hann átti stórleiki. Ekki ólíkt Smalling, Rojo og Jones. Ég má hundur heita ef ekki rætist í það minnsta úr einum þeirra. Það er svolítið þannig í þessum aftari stöðum þs staðsetning og leikskilningur er mikilvægari en hraði og tækni að menn ná ekki fullum þroska í stöðunni fyrr en fer að nálgast þrítugt.
Pillinn says
Ég hef alveg trú á þessum varnarmönnum okkar ef þeir haldast heilir. Það hefur verið gallinn að bæði Smalling og Jones hafa verið of mikið meiddir í gegnum tíðina. Vonandi að það breytist en miðað við byrjunina og að Jones sé meiddur hef ég ekki endilega trú á því.
Hins vegar er það sem mestu máli skiptir, eins og Gary Neville kemur inná í viðtalinu, er miðjan. Carrick og svo auðvitað núna Schneiderlin verja vörnina svo svakalega vel að reynir minna á miðverðina. Við sáum hjá Southampton að Lovren leit vel út með Schneiderlin fyrir framan sig en var svo mjög slæmur í fyrra hjá Liverpool. Það virðist svo vera að skána núna hjá honum með meiri vörn frá miðjunni í Milner, því miður :)
En að leiknum á eftir þá er auðvitað frábært mál að fá aftur CL, vonandi að þessi tónlist eigi eftir að heyrast oftar á Old Trafford á þessu tímabili en bara í kvöld. En það sem verður að gerast í kvöld er að skapa færi, 1-0 leikur myndi ekkert endilega duga, þó að það sé reyndar mjög sterkt að fá ekki á sig mark á heimavelli þá bara held ég að þurfum að vinna allavega 2-0 til að vera öruggir.
Rooney hefur ekkert getað og ég verð að vera sammála því sem hefur komið fram hjá sumum á þessari síðu að Rooney er búinn sem topp striker. Ferguson virðist hafa verið búinn að sjá það og ef Fergie hefði verið eitt tímabil í viðbót væri Rooney farinn fyrir 50 milljónir til Chelsea, sem hefði verið vel ásættanlegt. Ég segi að okkur vantar nauðsynlega striker, Pedro væri mjög öflugur svona kantframherji sem gæti þá skorað mörkin í staðin fyrir Rooney sem getur nú ekki einu skotið á rammann. Samkvæmt síðustu fregnum liggur samkomulag fyrir við Pedro, Guillem Balague segir það og hefur hann oft haft rétt fyrir sér. Hann sagði það reyndar minnir mig fyrir svolitlu síðan að samkomulag hefði verið í höfn og bara eftir að semja við Barcelona.
Ég hef ekki og mun líklega ekki fyrirgefa Rooney þetta seinna kjaftæði þegar hann hótaði að fara. Skildi fyrra skiptið því þá leit svolítið út sem að Glazer væru að klúðra klúbbnum, sem hefði líklega gerst ef ekki hefði verið fyrir kraftarverkamanninn Sir Alex Ferguson. En framherji og markmaður og miðvörður er það sem vantar en við fáum líklega bara framherja.
Spáin fyrir kvöldið er svo 3-0 fyrir Utd. Ætli Rooney troði ekki sokk upp í mig og verði með tvö og Mata eða Januzaj með eitt.
Pillinn says
Afsakið að ég setti ekki þetta inn áðan, vonum að þetta sé bara rétt
http://www.skysports.com/football/news/11667/9954527/pedro-and-manchester-united-agree-personal-terms
Bjarni Ellertsson says
Mín spá er 2-1 en gæli við 3-1.
Keane says
Fíla litla broskallinn neðst á siðunni
Cantona no 7 says
Vid vinnum 3 null
G G M U