Góðan og blessaðan daginn dömur mínar og herrar.
Mánudagspælingarnar í dag eru í raun Mánudagspæling. Ég er einfaldlega að velta fyrir mér hvort Louis Van Gaal sé of varfærinn í leikaðferð sinni (þið, lesendur góðir, megið endilega segja hvað ykkur finnst í kommentakerfinu).
Nú geri ég mér fulla grein fyrir að Van Gaal er ekki Sir Alex Ferguson og hver stjóri er með sinn eigin leikstíl. Einnig skil ég að Van Gaal metur possession fótbolta og á meðan maður hefur boltann er ekki hægt að fá á sig mark. Það sem truflar mig óstjórnlega er samt hversu rosalega passífur hann er oft á tíðum. Eins og í leiknum á laugardaginn þegar hann tekur Bastian Schweinsteger af velli. Vissulega, til að halda sama formi á liðinu er eðlilegast að setja Michael Carrick inn á, EN þú ert að spila á Old Trafford, það eru 59 mínútur búnar og mótherjinn er Newcastle. Með fullri virðingu. Það er í góðu lagi að skella Ander Herrera inn á og fá aðeins meira flæði í sóknarleikinn, sérstaklega ef miðað er við hversu vel Herrera og Mata náðu saman á síðari hluta síðasta tímabils.
Nú er ég alls ekki að kenna Van Gaal um að leikurinn hafi farið 0-0. Á öðrum degi hefði þessi leikur geta endað 3-0 fyrir Manchester United, slíkir voru yfirburðir þeirra en léleg færanýting beit þá í rassinn. Ég er þess þó minnugur þegar United liðið mætti Stoke undir stjórn David Moyes. Vondur leikur, mjög vondur í rauninni. Hann tapaðist 2-1 en í stöðunni 1-0 fyrir Stoke þá meiðist Phil Jones í lok fyrri hálfleiks, að ég held. Verandi marki undir ákveður David Moyes að setja Danny Welbeck inn á og færa Michael Carrick í hafsent, Wayne Rooney á miðjuna og Danny Welbeck fer upp á topp. Vissulega tapaðist leikurinn (sem er ekki skrýtið þegar Charlie Adam gerir þetta. En þarna sýndi Moyes þó ákveðið eðli til að vinna leikinn. Hér er ég ekki að verja Moyes, stjórnartíð hans var hrein og bein hörmung, en þessi tiltekna skipting situr eftir. Í stað þess að setja annan varnarmann inn og sjá hvað gerist næstu 20-30 mínúturnar og blása þá til sóknar ákveður Moyes að gera það strax. United jafnaði svo leikinn áður en Adam dró þessa kanínu hér að ofan úr hattinum.
Varkárni Van Gaal er skiljanleg upp að vissu marki. Hann er að slípa saman nýja varnarlínu, sem og markmann, og er að reyna bæta varnarleik liðsins frá því í fyrra en þá fékk liðið á sig 37 mörk í 38 leikjum (sem var samt sem áður fjórði besti varnarárangur deildarinnar). Einnig tapaði liðið þremur leikjum í fyrra 1-0. Ég verð þó að segja að eins mikilvæg og þessi þrjú stig sem gætu unnist með því að halda stöðunni í 0-0 þá eru þau níu sem gætu unnist með smá áhættu talsvert meira virði (og ég er ekki einu sinni góður í stærðfræði).
Það sem ég er að segja er að það gæti verið þess virði að taka einstaka áhættur. Þó mig gruni að Van Gaal haldi áfram því sem hann er að gera þá vona ég að við sjáum hann þó taka einstaka áhættur í vetur. Við United stuðningsmenn erum vanir þessum áhættum og mig grunar að við fyrirgefum honum fljótt ef hann ákveður að púlla þessa týpu í jöfnum leik í vetur;
Pillinn says
Ég er eiginlega á því að þessi passíva spilamennska LvG hafi byrjað hjá Utd eftir tapið á móti Leicester í fyrra. Eftir það fór hann að vera passívur og hefur verið það síðan. Hins vegar skildi ég breytinguna með Carrick um helgina og Carrick kom alveg fínt inn í leikinn. Ég skildi bara ekki af hverju Rooney fékk áfram sénsinn, hann á varla skilið að komast á bekkinn svo lélegur hefur hann verið í byrjun tímabils. Okkar aðal framherji og hann á 4 skot á markið og tvö á rammann í þremur leikjum, þetta er ekki boðlegt.
Laddi says
Mínir tveir aurar: Á vissan hátt er ég sammála LvG, spilamennskan var á löngum köflum mjög fín í þessum leik en það vantaði sárlega að klára færin! Chicarito átti að klára sitt færi, Memphis átti að klára færið þar sem hann er settur einn í gegn og svo var Rooney á mörkunum að vera rangstæður. Þannig að munurinn á 0-0 og 3-0 var í raun bara spurning um smá heppni eða jafnvel ákveðni upp við markið.
Rooney er svo nía að spila eins og tía sem gerir það að verkum að hann er að hlaupa of mikið (eins fáránlegt og það hljómar). Fyrir vikið er hann ekki alltaf í stöðu þegar sendingarnar koma eða, jafnvel, þegar þær koma þá er hann bara orðinn of þreyttur eftir öll (vitlausu) hlaupin. Hann kemur of djúpt að sækja boltann. Sá áhugaverða mynd um meðalstaðsetningu leikmanna og þar eru Rooney og Januzaj basically á nákvæmlega sama stað. Januzaj er á réttum stað en Rooney bara of djúpt á vellinum.
Skiptingin á Basti var eðlileg, hann er enn að komast í form og tæknilega séð var hollningin á liðinu fín á þessu svæði, maður fyrir mann þar. Hefði samt vilja sjá Herrera koma inn fyrir Rooney (eftir að hann var kominn í holuna) til að koma með nýja vídd framávið og ferska fætur. Svo var synd að Fellaini var í banni, hann hefði getað brotið þetta aðeins upp.
Spilamennskan var annars heilt yfir MUN betri en í fyrstu tveimur leikjunum og einu færi Newcastle komu þegar United voru komnir með nánast allt liðið fram til að þrýsta inn marki.
Niðurstaða: Vörnin mjög góð, miðjan fín, Mata alltaf að skapa, Memphis vonbrigði eftir þriðjudaginn og Rooney týndur. Vona að LvG sæki alvöru framherja (Zlatan?) fyrir næsta þriðjudag og þá held ég að við séum í toppmálum!
Snorkur says
Hann er svolítið passívur maðurinn .. en eins og leikirnir eru að spilast þá ætti það ekki að vera vesen ef við hefðum alvöru framherja .. en WR kæmist sennilega ekki í byrjunarliðið hjá Skallagrím eins og hann er að spila í dag :/
Ef við fáum alvöru framherja með honum, gæti þetta orðið gaman:) .. að öðrum kosti sennilega langur vetur
Auðunn Atli says
Er alveg sammála þér með að Van Gaal er oft og tíðum of varkár, hann þarf að vera hugaðri í sumum ákvörðunartökum. Ég vildi einmitt sjá Herrera koma inn í stað Carrick í þessum leik, hann er sóknarsinnaðri leikmaður.
Það eru nokkrir hlutir sem pirra mig við van Gaal,
það fyrsta er að það eru nokkrir menn sem virðast eiga fast sæti í liðinu sama hvernig þeir standa sig eins og Rooney og Blind. Og svo eru aðrir sem fá bara ekki séns.
Valencia fékk alltaf að spila s.l tímabil þrátt fyrir að vera á hælunum leik eftir leik, maður eins og Rafael fékk bara ekki séns. Núna virðast menn eins og Herrera, Rojo, Young og Wilson ekki eiga séns þarna.
Maður hefði haldið að það væri gott að koma manni eins og Rojo sem allra fyrst inn í liðið, gefa honum einhverjar mín og láta hann spila sig í form. Hann er jú miðvörður en ekki Blind.
Þótt liðið sé ekki að fá á sig mörk með Blind í þessari stöðu þá er það alveg á tæru að hann er ekki maður í þetta hlutverk, þetta er svona accident waiting to happen svo maður sletti.
Annað með Van Gaal er eins og komið var inn á að hann er allt of passívur sérstaklega á heimavelli í svona leikjum.. taka smá séns maður, Ferguson vann marga leiki á því að vera hugaður.
Ég skil reyndar vel að Van Gaal vilji ekki gera miklar breytingar á liðinu á milli leikja, hann er eflaust að vonast til þess að liðið finni taktinn svona.
Ég sagði það nokkrum sinnum á síðustu leiktíð að holningin á hópnum sé ekki rétt, það finnst mér ennþá vera vandamál. Það þarf ennþá að laga samsetninguna á hópnum, við erum með of marga menn í sumum stöðum eins og þessu no 10 hlutverki og svo of fáa í öðrum eins og þessu no 9 hlutverki.
Í þessum Newcastle leik erum við með fjórar 10-ur inn á vellinum en engan afgerandi markaskorara og bara einn afgerandi vængmann, mér finnst bara þessir menn ekki ná saman því þeir eru of líkir og vilja allir sækja í sömu holurnar ef svo má segja.
Þetta er bara mín tilfinning, kannski er þetta bara rugl í manni.