Riðlakeppni Meistaradeildarinnar hefst á morgun þegar United skellir sér í lauflétta heimsókn yfir Norðursjóinn alla leið til Hollands, nánar tiltekið til Eindhoven þar sem hollensku meistararnir PSV ætla að leika hlutverk gestgjafans.
Í gegnum tíðina höfum við hjá United fengið margar góðar gjafir frá PSV og vonandi að ekkert lát verði á morgun. United-legend eins og Park Ji-Sung og Ruud van Nistelrooy komu frá PSV og svo má auðvitað ekki gleyma Jaap Stam sem spilaði mikilvægt hlutverk fyrir United þó að hann hafi kannski ekki yfirgefið United á sem bestan hátt. Svo er það auðvitað Memphisinn okkar, besti leikmaður PSV á síðasta tímabili og algjör lykilmaður þegar liðið nældi sér í sinn fyrsta titil síðan árið 2008.
Hinn lykilmaðurinn var Philip Cocu, knattspyrnustjóri liðsins sem er einn af mörgum fyrrum lærisveinum Louis van Gaal sem eru að gera góða hluti sem knattspyrnustjórar. Í nýlegu viðtali við góðkunningja okkar, Andy Mitten, fór Cocu fögrum orðum um þennan fyrrum lærimeistara sinn.
Hann var frábær þjálfari, hann gerði mann að betri leikmanni. Æfingarnar hans snérust mikið um endurtekningar. Ef leikmaður gerði mistök einu sinni slapp það til, menn gera mistök. Ef leikmaður gerði mistök í annað skiptið fékk hann tiltal. Ef leikmaður gerði svo mistök í þriðja skiptið…
Hann var alltaf vel undirbúinn taktísktlega séð. Stundum varð maður brjálaður en Louis hafði yfirleitt rétt fyrir sér. Ef maður gerði eitthvað vel var hann snöggur að láta mann vita af því. Ég get tekið gagnrýni og mér líkar vel við Louis van Gaal.
Cocu er á sínu 6. ári sem þjálfari hjá PSV. Hann kom heim árið 2008, kláraði þjálfararéttindin og þjálfaði yngri lið PSV áður en hann tók við aðalliðinu árið 2012. Ajax var yfirburðarlið og PSV tók þá ákvörðun að leggja áherslu á unglingastarfið, enda ómögulegt að keppa við stóru liðin í Evrópu um leikmenn. Hjá PSV fá ungir leikmenn mikinn stuðning og segir Toon Gerbraands, sem starfaði með Van Gaal hjá AZ á sínum tíma að það sé mikilvægt fyrir unga leikmenn að fá spilatíma.
Unglingaliðið okkar spilar í næst efstu deild. Þar fá ungu leikmennirnir okkar tækifæri á því að spila alvöru leiki gegn alvöru leikmönnum í alvöru liðum.
Einn þeirra leikmanna sem nýtti þetta tækifæri var Memphis Depay sem skoraði 42 mörk á síðustu tveimur leiktíðum fyrir PSV áður en að United keypti hann núna í vor. Cocu segir að þeir hafi þurft að vinna mikið með hann en hann hafi sýnt það hjá þeim að þarna hafi toppleikmaður verið á ferðinni en Cocu var sá stjóri sem gaf honum sitt fyrsta tækifæri í aðalliði PSV, það var ekki erfið ákvörðun að veita honum það tækifæri.
Hann hafði hraðann, tæknina og sprengikraftinn í heilar 90 mínútur. Hann hafði líka viljann og metnaðinn í það að skora og vilja sigra. Stundum var hann þó of ákafur og það vann gegn honum.
Við unnum mikið með andlegu hliðina, að róa hann örlítið niður. Hann lagði það á sig og kom til baka mun sterkari sem leikmaður. Hann þróaðist fljótt í toppleikmann. Við vildum auðvitað halda honum en áttum okkur á því að leikmenn eins og hann munu ekki staldra lengi við hjá okkur.
Af þeim sem unnu titilinn í fyrra eru aðeins Memphis og Georgiano Wijnaldium horfnir á braut en Cocu segir að það hafi gengið vel að sannfæra leikmennina um að halda áfram og þar hafi Meistaradeildin spilað sinn þátt. Liðið hefur farið ágætlega af stað í Eredivise á tímabilinu og er með 11 stig eftir 5 leiki í 4.sæti, 2 stigum frá toppliði Ajax.
Um helgina spilaði liðið ansi þægilegan leik gegn Caambur sem fór 0-6 meisturunum í vil. Þeir spiluðu manni fleiri í næstum því 90 mínútur og ættu því að vera úthvíldir. Nú þekki ég ekki þetta PSV lið mjög vel en gegn Feyenoord í síðasta leik fyrir landsleikjahlé stillti liðið svona upp þannig að ég geri ráð fyrir því að þetta sé um það bil þeirra sterkasta lið.
Luuk de Jong er þeirra helsti markaskorari með fimm mörk á tímabilinu. Þarna eru nokkur nöfn sem maður kannast við. Bruma í miðverðinum, Guardado og Maher á miðjunni ásamt Narsingh á kantinum, engar stórstjörnur en Cocu virðist geta náð miklu útúr þessu liði og ljóst að þeir verða sýnd veiði en alls ekki gefin á heimavelli sínum, Phillips Stadion, annað kvöld.
United
Okkar menn hljóta að vera ansi sprækir eftir flottan sigur á erkifjendunum í Liverpool á laugardaginn. Anthony Martial kynnti sig fyrir alheiminum á meðan vörnin okkar steig varla feilspor sem farin að vera venjan, frekar en hitt sem við höfum kannski verið vanari sl. 2-3 tímabil.
Vörnin velur sig sjálf og varla ástæða til þess að hrófla mikið við henni á meðan menn haldast ómeiddir. Vissulega þurfa menn eins og Rojo og Jones að fara fá mínútur en á meðan Blind og Smalling halda áfram að spila eins og Rio og Vidic verða þeir Rojo og Jones bara að bíða átekta.
Næsti leikur er á sunnudaginn þannig að það þarf ekkert að hafa miklar áhyggjur af því að vera að hvíla leikmenn en Morgan Schneiderlin ætti að koma inn fyrir annaðhvort Bastian eða Carrick, það er óþarfi að píska þeim út á gamals aldri. Skemmtilegast væri að sjá Herrera og Schneiderlin á miðjunni en líklega fer bara annar af gömlu mönnunum okkar á bekkinn af miðjunni.
Van Gaal mun líklega ekki taka áhættuna með Rooney og þá er stóra spurningin hvort að Martial fái sénsinn eða hvort að Fellaini haldi áfram að leiða framlínunna. Van Gaal hefur mikið rætt um að vernda þurfi Martial en hann hefur ágæta reynslu af Meistaradeildinni og ég sé enga ástæðu afhverju hann ætti ekki að fá að vera frammi. Memphis verður eiginlega að fá sénsinn gegn sínum gömlu félögum þrátt fyrir dapran leik gegn Liverpool en það verður erfitt að neita Ashley Young um byrjunarliðssæti eftir frábæra innkomu.
Lausnin á því er einföld. Tökum Fellaini út, setjum Mata í sína uppáhaldsstöðu og Memphis og Young á kantana. Byrjunarliðið ætti því að verða einhvernveginn á þessa leið.
Það er mikilvægt að byrja vel í Meistaradeildinni og fínt að byggja á góðum sigri gegn Liverpool. United spilar oft best þegar leikirnir koma í hrönnum og því er frábært að geta notið þess að horfa á United í Meistaradeildinni á nýjan leik. Þetta verður örugglega góður leikur enda er PSV með ungt og spennandi lið. United ætti þó alltaf að taka þetta og þar mun reynsla LvG vega þungt.
Ég vil sjá liðið okkar fara langt í þessari keppni og fyrsta skrefið að því þarf að taka á morgun. Leikurinn hefst klukkan 18.45 og hann mun fara 1-3 fyrir United. Martial, Smalling og Memphis skora mörkin.
Rúnar Þór says
vá hvað ég er sammála þessari uppstillingu. Er búinn að bíða lengi eftir að Mata verði færður í 10una (hans besta staða) og United séu með eldfljóta menn á báðum köntum (eins og það á að vera)
Bjarni Ellertsson says
Frábært að hefja leik í meistaradeildinni í kvöld, en það sem ég er hræddastur við er næsti leikur í deildinni eftir meistaradeildarkvöld, sérstaklega ef það er útileikur. Það er engin regla en oft er erfitt fyrir leikmenn að „gíra sig niður“ og sáum við það oft í gegnum tíðina. En ég set smá spurningarmerki við Memphis í þessum leik, verður hausinn á honum rétt skrúfaður. Hann hefur ekki alveg náð að heilla mig af því sem komið er, verið slakur í síðustu leikjum en á vissulega helling inni. Fær væntanlega tækifæri til að berja á fyrrum liðsfélögum í kvöld og vona ég að hann blómstri.
Pillinn says
Ég efast um að þetta verði liðið þó svo að flestir stuðningsmenn vilji það líklega. Hafa tvo hraða kantara væri mun skemmtilegra. Líklegast þykir mér að Martial verði geymdur á bekknum, Herrera verður í tíunni og Mata á hægri kantinum. Fellaini verður svo frammi, því miður. LvG virðist vera alveg með fastmótaðar hugmyndir um hvernig liðið á að spila þannig að miðað við það held ég að þetta verði byrjunarliðið.
Væri gaman að sjá menn aðeins missa sig og spila skemmtilegan sóknarbolta með óvæntu spili en þetta þarf allt að vera fyrirfram ákveðið og aldrei missa boltann. Ekki skemmtilegasta í heimi en meðan við erum að vinna þá sættir maður sig við þetta. Þetta er bara eitt og hálft ár í viðbót og svo förum við aftur í einhvern svona bolta þar sem menn fara að gera óvænta hluti og gera eitthvað skemmtilegt. Ég allavega vona að það verði þannig þegar Giggs tekur við :)
Keane says
„It’s a process“. Á þessum tímapunkti set ég öryggið ofar því óvænta, þetta mun taka tíma að rétta úr kútnum, mikið ofboðslega var spilamennskan leiðinleg síðustu ár Ferguson og hjá hinum útvalda í framhaldinu. Við værum ekki að fagna endurkomu í CL í dag ef sá hryðjuverkamaður hefði fengið að stunda sína iðju áfram.
Mikið djöfull er gaman að vera kominn aftur!
Ander Herrera says
Herrera á alltaf að byrja. Þeir sem fylgjast með leikjum hans ættu að vita að hann er gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir liðið
Pillinn says
Ég get nú ekki verið sammála því að Moyes sé einhver hryðjuverkamaður eða ótrúlega glataður og eigi skilið allt slæmt umtal frá okkur, stuðningsmönnum Utd. Ég vildi láta reka hann á sínum tíma og hann var ekki starfinu vaxinn, þetta reyndist honum ofviða, en ég er alveg viss um að hann var að reyna sitt besta og hann vildi að þetta hefði gengið betur hjá sér. Þannig að eins og ég segi ég var á #MoyesOut vagninum en finnst við stuðningsmenn Utd samt skulda honum að bera virðingu fyrir því sem hann reyndi.
En já „It’s a process“ og öryggið er klárlega mikilvægt. Ég er alveg sammála því, þess vegna gef ég þessu eitt og hálft ár í viðbót og þá verða menn orðnir vel þjálfaðir í þessu. Þá vonandi tekur bara Giggs við og þá verður einhver svona bræðingur af Ferguson og LvG spilamennsku sem ég held að gæti orðið mjög áhugaverð.
Báðir þjálfarar hafa skilað af sér leikmönnum sem síðar hafa orðið fínir þjálfarar, þó að LvG hafi þar yfirhöndina þá hafa menn frá Ferguson líka skilað sér í stjórastóla og orðið fínir. En kominn aðeins „off-topic“ ætlaði að spá fyrir leikinn í kvöld. Verður líklega erfitt en spái 1-2 sigri Utd. Fellaini og Herrera með mörkin.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Tek undir með Pillinn hérna um að Moyes hafi alls ekki verið „hryðjuverkamaður“ þar sem ég held að hann hafði þráð rosalega að ná árangri og virkilega lagt allt sitt í þetta. Hann var bara ekki í þeim flokki að ráða við starfið.
En ég sá þetta á 433.is og hló: http://433.moi.is/fastirlidir/mynd-dagsins-mourinho-baetir-met-moyes/
Halldór Marteinsson (@halldorm) says
Skemmtileg upphitun :)
Mig langar að sjá Mata í holunni en mig langar líka að sjá Herrera spila. Held þó að 2 af Schmidfield+Carrick þurfi að byrja til að hafa þéttan pakka og góða dekkningu fyrir bakverðina.
Samt vil ég líka sjá bæði Memphis og Martial byrja…
Annars er ég fyrst og fremst glaður með að United sé komið aftur í CL. Húrra!
jón says
https://www.facebook.com/368083450012157/videos/562460757241091/
það eru öll brögð beytt til að koma okkar mönnum úr jafnvægi !! vonandi slatrum við þessu liði.