Manchester United plc birti í dag ársreikning félagsins fyrir fjárhagsárið 1. júlí 2014 til 30. júní 2015. Í raun kom þar líltið á óvart enda birtir félagið reikninga ársfjórðungslega og allar niðurstöður síðasta árs voru fyrirsjáanlegar, þar með talin tekjulækkunin vegna fjarveru klúbbsins úr Evrópukeppnum. Tekjur vegna auglýsinga jukust auðvitað verulega.
Það sem helst er hins vegar að frétta er þetta:
Nettóskuldir lækka um 20 milljónir punda
Skuldir hækkuðu úr 341m í 411 milljónir, en á móti kom að laust fé hækkaði um 89 milljónir. Skuldaaukningin er aðallega vegna veikingar punds á móti dollar, en ekki vegna lántöku. Nettó skuld er nú 255 milljónir punda, var 275 milljónir. Endurfjármögnun á árinu þýðir lækkun vaxtagjalda um 10 milljónir dollara.
Eða, í stuttu máli: Skuldir eru algerlega viðráðanlegar.
Spáð er verulegri tekjuaukningu
Það kemur engum á óvart að United býst við stórauknum tekjum á komandi árum. Adidas samningurinn gefur 75m á ári frá 1. ágúst s.l., greiðslur fyrir sjónvarpsrétt Úrvalsdeildarinnar verða 70% hærri árin 2017-19 en næstu þrjú ár þar á undan, og greiðslur fyrir Meistaradeildina 25% hærri fyrir árin 2016-18. Tekjum fyrir fjárhagsárið sem er nýhafið, er spáð í 510 milljónum punda, en voru 395 milljónir síðasta ár. Hagnaði fyrir fjármagnsliði er spáð 165-175m punda, eða hækkun um 45-55milljónir.
Eða, í stuttu máli: Manchester United er peningavél.
Glazerar fá sitt
En þá er líka komið að því að eigendurnir fái að njóta þess að þetta risastóra veðmál sem þeir tókust á árið 2005, með líf félagsins að veði, hafi gengið upp.
Eigendurnir, þ.e.a.s. Glazer systkinin sex, hafa tilkynnt um mögulega sölu á 24 milljónum hluta í félaginu, sem myndi gefa þeim um 400 milljónir dollara í aðra hönd, eða 257m punda. Hlutirnir yrðu að sjálfsögðu af A-tegund, en þannig hlutabréf hafa nær ekkert atkvæðismagn í félaginu og því mun ekkert saxast á ráð þeirra.
Að auki hafa eigendur tilkynnt að nú verði tekið að greiða arð úr félaginu og spáð árlegum greiðslum allt að 20 milljónum punda. Þar af fá Glazer systkinin 15 milljónir punda.
Eða, í stuttu máli: Manchester United verður eini stórklúbbur knattspyrnunnar sem verður tekjulind fyrir eigendur sína.
Niðurstaða
Niðurstaðan kemur engum á óvart, United stefnir í að verða ríkasta félag Evrópu ef félagið heldur áfram að komast í Meistaradeildina og standa sig þar með við viðunandi hætti. Úrvalsdeildarpeningarnir eftir 2 ár geta séð til þess að klúbburinn skoppi yfir Real Madrid hvað það varðar
Given new TV deal, would be surprised if #mufc were not most valuable club in global sport by 2016-17.
— Mike Keegan (@MikeKeegan_DM) September 17, 2015
Þá er bara eitt smámál eftir: Að koma knattspyrnuliðinu á sama stall og fjárhagshliðin setur klúbbinn.
Snorkur says
Vinalegt að þetta sé að ganga vel .. nú bara að vona að fjárfestingar í leikmönnum haldi áfram (innan jákvæðra marka) .. persónulega er ég alltaf mest spenntur þegar ungir guttar sem geta dottið svo gott sem beint inn í liðið eru keyptir .. þessi gluggi gaf tvo slíka :)