Það eru leikir á þriggja daga fresti núna hjá United, alveg nákvæmlega eins og maður vill hafa það. Í vikunni var það Ipswich, á morgun er það Sunderland og á miðvikudaginn er það Wolfsburg.
Önnur helgi, annar hollenskur stjóri. Dick Advocaat tók við stjórnartaumunum í Sunderland á síðasta tímabili. Hann sneri við gengi liðsins og bjargaði þeim frá falli en eitthvað hefur honum brugðist bogalistin það sem af er tímabili enda eru Sunderland-menn á botninum, rétt fyrir neðan erkifjendurna í Newcastle. Ekki bjartir tímar í norðaustur-Englandi þessa dagana.
Stjórarnir tveir, Van Gaal og Dick Advocaat, ættu að þekkjast ágætlega. Þeir eru á svipuðum aldri og hafa lengst af verið hluti af fótbolta-elítunni í Hollandi. Þegar Ajax-lið Louis van Gaal var upp á sitt besta stýrði Advocaat PSV en alls hafa þessir stjórar mætt hvor öðrum níu sinnum á vellinum, síðast árið 2007 þegar Louis van Gaal stýrði AZ og Advocaat stýrði Zenit. Það hallar reyndar á Van Gaal í þessum viðureignum en hann hefur aðeuns unnið einn af tíu, fimm hafa endað með jafntefli á meðan Advocaat hefur staðið uppi sem sigurvegari í þrjú skipti.
Sunderland
Eins og áður sagði hefur þetta Sunderland-lið ekki farið vel af stað, vægast sagt. Liðið er steindautt á botninum og hefur í raun varla mætt neinu af þeim liðum búist er við að endi í efri hluta deildarinnar. Um síðustu helgi tapaði liðið fyrir nýliðum Bournemouth auk þess sem nýliðar Norwich unni sigur á Sunderland fyrir skömmu. Það er því ekki hátt risið á leikmönnum liðsins þessa stundina en þeir fengu frekar háðulega útreið gegn City í deildarbikarnum í vikunni og var Advocaat hræddur um að stuðningsmennirnir myndu ganga af vellinum eftir að liðið lenti 0-4 undir í hálfleik.
Það gengur hreinlega hvorki né rekur hjá liðinu en þar geta menn ekki verið sáttir eftir að hafa fengið nokkra sterka leikmenn til sín fyrir tímabilið. Það er algjört andleysi yfir leik liðsins þessa dagana og gullið tækifæri til þess að keyra almennilega á þá og brjóta liðið niður í upphafi leiks.
Okkar menn Wes Brown og John O’Shea mega muna sinn fífill fegurri en Younes Kaboul hefur litlu bætt við varnarleik liðsins. Það er helst lánsmaðurinn Yann M’VIla sem getur borið höfuðuð hátt en leikmenn á borð við Jermain Defoe, Ola Toivonen og Jeremain Lens hafa ekki verið að skora hátt að undanförnu.
Advocaat, líkt og Van Gaal, var ekki mikið í því að hvíla leikmenn í deildarbikarnum í vikunni og stillti upp tiltölulega sterku liði, Defoe var á bekknum en að öðru leyti var byrjunarliðið hefðbundið. Þeirra leikmenn ættu því að vera í álíka góðu standi og okkar menn og því fær Sunderland enga forgjöf í þeirri deild.
Fastlega má gera ráð fyrir að Sunderland muni liggja í vörn, leyfa United að stýra leiknum og vona það besta. Það getur gefist vel en í sannleika sagt er þetta Sunderland-lið bara það slakt um þessar mundir að allt annað en þægilegur sigur á morgun verða mikil vonbrigði.
United
Það sem helst angrar United akkúrat núna eru, surprise surprise, meiðsli í vörninni. Luke Shaw er fótbrotinn og það hefur haft ruðningsáhrif á vörnina. Rojo spilaði meiddur gegn Southampton og getur ekki spilað leikinn á morgun, eitthvað sem Louis van Gaal á að vera ósáttur með en sögur segja að Rojo hafi ekki sagt frá því að hann væri eitthvað tæpur. Paddy McNair er svo einnig meiddur og því virðist varnarmeiðslaólukkan gríðarlega að vera að hefjast á nýjan leik.
Fastlega má gera ráð fyrir því að Ashley Young spili vinstri bakvörðinn líkt og gegn Ipswich enda ljóst að Louis van Gaal vill ekki mikið vera að hræra í miðvarðarstöðunni með því að færa Blind til vinstri. Svo má einnig velta því fyrir sér hvort að Darmian víkji fyrir Valencia en Ítalinn okkar hefur, eftir frábærja byrjun, aðeins verið að hiksta.
Að öðru leyti veltur liðið svolítið á því hvernig menn jafna sig eftir Ipswich-leikinn líkt og Louis van Gaal sagði á blaðamannafundi áðan. Carrick kemur líklega inn ásamt Memphis og Martial. Fastlega má gera ráð fyrir Mata sem spilaði ekki allan leikinn í vikunni. Best væri ef Herrera gæti haldið áfram á miðjunni og spilað við hlið Carrick. Það er algjör óþarfi að spila með Schneiderlin í þessum leik og Herrera ætti að nýtast mun betur.
Byrjunarliðið verður líklegast eitthvað á þessa leið:
United er í ágætis færi til þess að halda þrýstingnum á City sem á erfiðan útileik gegn Tottenham fyrir höndum. Sunderland mun án efa reyna að fá United til þess að gefa boltann fram og til baka fyrir vörnina án þess að gefa leikmönnum liðsins færi á að skapa neitt. Það mun án efa reyna á þolinmæðina og ég held að þessi leikur muni spilast nákvæmlega eins og þessi viðureign á síðasta ári.
Þá hélt Sunderland út í um klukkutíma þangað til Falcao af öllum fiskaði víti og eftir það var eftirleikurinn auðveldur. Það kæmi mér afskaplega lítið á óvart ef eitthvað slíkt ætti sér stað á morgun. Ég vona þó auðvitað að liðið byrji af krafti og skori snemma leiks, þá gætum við fengið að sjá einhverja veislu enda er korter í brottrekstur Advocaat. Martial hefur komið með nýja vídd inn í sóknarleikinn og spilamennska liðsins er hægt og rólega að nálgast það skemmtanagildi sem við gerum kröfu um.
Allt annað en sigur er skandall. Ég set 4-0 á þetta morgun. Martial skorar tvö, bæði í hægra hornið, Memphis setur opnunarmarkið og væri ekki bara fínt ef Carrick sett eitt?
Leikurinn hefst klukkan 14.00. Dómari er Mike Jones.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Flott upphitun :) Ég ætla að spá 4-1 sigri, held að við rúllum upp leiknum en undir lokin verðum við klaufar og fáum eitt mark á okkur.
Annars að þá er ég í skýjunum með að Wilson skrifaði undir. Bind vonir við Wilson, Memphis, Januzaj, Shaw og Martial næstu árin :)
Hjörvar Ingi Haraldsson says
http://www.bbc.com/sport/football/predictor
Alltaf gaman af svona spádómsleikjum :)
Keane says
Wilson að framlengja, góður dagur!
Runar says
Hvenær kemur næsta PodCast?