Leikmenn United flugu í dag til Moskvu þar sem þeirra bíður viðureign við CSKA í þriðju umferð Meistaradeildarinnar. Rússneska liðið sigraði PSV í síðustu umferð og er þess að auku á mikilli siglingu heima fyrir, þar sem liðið er taplaust í deildinni. Sögulega séð hefur United ekkert gengið alltof vel í Moskvu en það fellur þó í skuggann af Meistaradeildar-sigrinum árið 2008.
Moskva. 2008. Luzhniki-völlurinn. Cristiano Ronaldo. John Terry. Edwin van der Saar. Þarf að segja meira?
Moskva, eða bara Rússland, hafði þó fyrir þennan leik verið hundleiðinlegur staður fyrir United að heimsækja. Það voru rússnesk lið sem drápu vonir Sir Alex Ferguson um að vinna UEFA-bikarinn sáluga en eins og allir vita var það eini alvöru bikarinn sem honum tókst ekki að bæta við bikarasafn United. Árið 1992 tapaði liðið í vítaspyrnukeppni gegn Torpedo Moskva í fyrstu umferð keppninnar en það þarf líklega ekki að koma á óvart að Ryan Giggs var í leikmannahópi United í þeim leik.
Árið 1995 stóð svo Rotor Volgogrod í vegi fyrir árangri í UEFA-bikarnum en liðið sló United á útivallamörkum samanlagt 2-2. Þessa leiks verður helst minnst fyrir það að Peter Schmeichel skoraði eitt af mörkum United. Árið 2009 tapaði United svo einnig fyrir Zenit í Ofurbikarnum svokallaða en sá leikur fór að vísu fram í Mónakó.
United og Rússland áttu því ekki samleið lengst af. Það breyttist þó auðvitað á þessu fallega vorkvöldi í maí 2008 þegar John Terry rann og United vann. Síðan þá er United ósigrað í Rússlandi sem er magnaður árangur. Liðið hefur reyndar bara spilað einn leik í Rússlandi síðan þá, en hey tapleysi er tapleysi. Það var auðvitað gegn CSKA Moskvu þann 21. október 2009 þegar Antonio Valencia skoraði sigurmarkið í 0-1 sigri okkar manna. Glöggir lesendur taka eftir því að á morgun er 21. október 2015 og því líða nákvæmlega 6 ár á milli leikja. Magnað.
Andstæðingurinn
Þessi lið hafa mæst tvisvar áður enda drógust þau saman í riðlakeppni Meistaradeildarinnar árið 2009. Eins og áður sagði vann United fyrri leikinn í Moskvu en Rússarnir voru ansi nálægt því að stela sigrinum á Old Trafford en aftur gerði Antonio Valencia út um drauma Rússana en mark hans á 92. mínútu tryggði 3-3 jafntefli. Hvert fór þessi Antonio Valencia?
Allavega, CSKA er á mikilli siglingu í rússnesku deildinni og er með fimm stiga forystu á næsta lið, erkifjendurna og lestaráhugamennina í Lokomotiv. Það sem meira er liðið taplaust og með flest mörk skoruð eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Ansi vel af sér vikið. Það er helst Fílabeinsstrendingurinn Seydou Doumbia sem dregur vagninn. Hann hefur skorað sjö mörk í síðustu sex leikjum fyrir félagslið sitt og landslið. Hann er þriðji markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar á tímabilinu með fimm mörk og er þar í ekki ómerkari félagsskap en með stórstjörnum á borð við Cristiano Ronaldo og Hamdi Salihi sem einnig hafa skorað fimm mörk. Doumbia hefur einnig skorað fimm mörk í deildinni og er því augljóslega baneitraður fyrir framan markið.
Maður kannast jafnframt við nokkra aðra leikmenn í þessu liði. Igor Akinfeev er á sínum stað í markinu, en hann hefur reyndar ekki haldið hreinu í þessari keppni frá árinu 2006. Alan Dzagoev á miðjunni og fyrrum leikmaður United, Zoran Tosic, hefur skapað sér ágætan feril þarna í Rússlandi þó að tækifærin hjá United hafi verið af skornum skammti. Hann og Musa eru baneitraðir á köntunum, enda öskufljótir og það verður verðugt verkefni fyrir bakverði United að eltast við þá.
Leikurinn á morgun verður því alls ekki gefins. CSKA hefur ekki tapað í öllum keppnum frá því að Wolfsburg sigraði þá í fyrstu umferðinni. Þetta er gott lið eins og sást gegn Manchester City á síðasta tímabili en CSKA gerði jafntefli gegn þeim heima en vann útileikinn. Þetta verður því erfið viðureign, það er á kristaltæru. Fastlega má gera ráð fyrir því að liðið stilli upp eitthvað á þessa leið:
United
Þegar þetta er ritað er flugvél Aeroflot [footnote]TRAUSTVEKJANDI[/footnote] nýfarinn á loft með leikmenn og starfslið United til Moskvu. Hópurinn er svona:
Semsagt, Þeir 18 leikmenn sem voru í hópnum gegn Everton plús Valencia og Romero. Brjótandi fréttir, það er alveg ljóst.
Það er tvennt sem Louis van Gaal þarf að hafa í huga fyrir þennan leik:
NÚMER EITT: Tapið gegn PSV í fyrstu umferðinni þýðir það að verkefni United, að ná fyrsta sæti riðilsins, er orðið örlítið erfiðara en það þurfti að vera. Til þess að ná fyrsta sætinu þarf United að minnsta kosti að vinna heimaleiki sína og einn útileik. Þá værum við með 12 stig sem ætti mögulega að sleppa miðað hvað þessi riðill er hnífjafn. Mögulega þurfum við að vinna rest en jafntefli á einum útivelli ætti nú að duga. Það þarf því að stilla upp tiltölulega sterku liði gegn CSKA á morgun til þess að næla sér í þennan eina útisigur.
NÚMER TVÖ: Eeeeen… á sunnudaginn er stærsti leikur tímabilsins. Manchester-slagurinn bíður okkar ásamt frábæru tækifæri til að sýna öllum hvað þetta United-lið getur í raun og veru. Það er því kannski ekki alveg fullkomnlega hentugt að eiga erfiðan útileik í Meistaradeildinni í Rússlandi af öllum löndum á meðan City-menn eiga heimaleik. Fyrir leikinn gegn Arsenal spilaði United mjög erfiðan leik gegn Wolfsburg og það sást vel að okkar menn voru þreyttir í stórleiknum gegn Arsenal helgina eftir.
Louis van Gaal þarf því að finna eitthvað jafnvægi á liðsskipan sinni í leiknum á morgun. Hann þarf að stilla upp liði sem er nógu sterkt til þess að ná úrslitum á erfiðum heimavelli CSKA en sem á sama tíma hvílir lykilmenn fyrir leikinn gegn City. Mikið væri fínt að hafa Evans og jafnvel Januzaj ennþá í hópnum…
Ég væri því til í að sjá liðið eitthvað á þessa leið:
Og nota svo skiptingarnar eftir að liðið er komið í 0-2 og gefa Wilson og Lingard smá Meistaradeildarsmjörþef, ok?
Best væri auðvitað að sjá Everton-frammistöðu í þessum leik, skora snemma og krúsa svo á í öðrum gír út leikinn enda fáranlega mikilvægur leikur framundan gegn City. Ég set 0-2 á þetta, treysti því að Smalling haldi uppteknum hætti í markaskorun og neglum svona einu marki á Pereira, beint úr aukaspyrnu.
Leikurinn hefst klukkan 18.45 og ég veit ekki betur en að hann sé í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Dómari leiksins er Carlos Velasco Carballo frá Spáni.
Runólfur Trausti says
Það gæti reynst þrautinni þyngra að gefa Wilson mínútur þar sem hann var víst veikur/meiddur og flaug því ekki með liðinu til Moskvu. Auðvitað er algjör skelfing að eiga útileik í Rússlandi fyrir City leikinn. Eðlilegast væri ef sá leikur færi fram næsta mánudag en ekki sunnudag.
Annars er augljóst að það þarf að róteita liðinu upp að vissu marki. Uppsett byrjunarlið lítur ágætlega út en mikið er ég sammála með Evans/Januzaj. Breiddin er ekki mikil.
Hvað varðar leikinn þá verður þetta 0-1 eða 1-2 basl útisigur. Svo lengi sem liðið nær í 3 stig þá er mér sama. Það eru svona leikir þar sem úrslit skipta meira máli en fílósófían.
Binni says
Þess má geta að leikurinn er á morgun.. Ekki tekið neinstaðar fram í póstinum :)
Tryggvi Páll says
Eða hvað?
„Glöggir lesendur taka eftir því að á morgun er 21. október 2015 og því líða nákvæmlega 6 ár á milli leikja.“
„Leikurinn á morgun verður því alls ekki gefins“
„Það þarf því að stilla upp tiltölulega sterku liði gegn CSKA á morgun til þess að næla sér í þennan eina útisigur.“
„Louis van Gaal þarf því að finna eitthvað jafnvægi á liðsskipan sinni í leiknum á morgun.“
:)
Valdi says
Getur einhver staðfest að leikurinn sé í opinni dagskrá?
Örn says
Já hann er í opinni dagskrá. http://www.stod2.is/framundan-i-beinni/
Halldór Marteinsson says
„Glöggir lesendur taka eftir því að á morgun er 21. október 2015 og því líða nákvæmlega 6 ár á milli leikja.“
Þetta er ekki það eina. Árið 2009 var Wolfsburg einnig með United og CSKA í riðli eins og núna.
Allir leikir milli þessara þriggja liða hitta á sömu dagsetningar núna og þær gerðu fyrir 6 árum síðan.
Í leiknum við Wolfsburg um daginn var m.a.s. sami dómari og í sama leik fyrir 6 árum. Sá leikur þróaðist líka eins; Wolfsburg komst yfir en United vann 2-1.
Helvíti magnað
Halldór Marteinsson says
Hefði annars viljað sleppa við cska, einmitt út af svona ferðalögum. Grábölvað að fá þetta svona rétt fyrir Manchester-slaginn.
Dogsdieinhotcars says
Getur einhver staðfest að leikurinn sé á morgun?