Toppslagur!
Það er orðið svolítið síðan síðast. En loksins mætir United í leik tveggja efstu liðanna í deildinni og þá er það Leicester City sem er mótherjinn!
Það er rúmt ár síðan United fór á King Power Stadium, spilaði blússandi sóknarleik og tapaði 3-5. Síðan þá hefur Louis van Gaal lagt áherslu á varnarleikinn svo mjög svö að einhverjum dettur í hug að reka manninn sem búinn er að koma okkur í annað sætið í deildinni og kemur okkur í það fyrsta með sigri á morgun.
Þá var þetta skandall að tapa gegn þessu Leicester liði, nú ári seinna taka þeir á móti okkur sem eina liðið fyrir ofan Manchester United í deildinni. Síðast þegar Leicester var á toppi deildarinnar komu einmitt Manchester United í heimsókn og unnu 3-0 til að hirða toppsætið og það er auðvitað það sem verður að gerast á morgun.
Frammistaða Leicester í haust hefur auðvitað vakið athygli, en kannske ekki eins almenna og ætti að vera, enda hefur Jamie Vardy fengið mestan hluta hennar. Vardy hefur skorað eins og honum sé borgað fyrir það og getur á morgun skorað í 11. leik Leicester í röð. Hann á þó enn 2 leiki í að jafna met Jimmy Dunne hjá Sheffield United sem skoraði í 12 leikjum Sheffield United veturinn 1931-2.[footnote]Metið hjá United er auðvitað í höndum í Ruud van Nistelrooy, sem skoraði í tíu leikjum í röð árið 2003, reyndar á sitt hvoru tímabilinu. Fyrir þau sem halda að fótbolti hafi byrjað árið 1992 er þessi tíu leikja markahrina Ruud og Vardy met á þeim tíma [/footnote] Alls hefur Vardy skorað 13 mörk í 13 leikjum í deild og er augljóslega maðurinn sem þarf að stöðva á morgun. Án efa munu Vardy og stjóri Leicester, gamla brýnið Claudio Ranieri horfa til þess að láta Vardy hlaupa á Daley Blind og vona að hraði Vardy vinni það einvígi.
En annar lykilmaður í frammistöðu Leicester í vetur er alsírski kantmaðurinn Riyad Mahrez. Mahrez hefur skorað átta mörk í deildinni og lagt upp stóran hluta af mörkum Vardy.
Þessir tveir eru því þeir sem Unitedmenn þurfa að hafa mestar gætur á á morgun. En það er ekki kannske allt sem sýnist í uppgangi Leicester. Af efstu níu liðunum í deildinni á síðasta tímabili hafa Leicester keppt við fjögur. Þeir gerðu jafntefli við Tottenham, Stoke og Southampton, og eina tap Leicester í vetur kom gegn Arsenal.
Leikurinn við Manchester United er fyrsti leikurinn i erfiðri leikjahrinu, það sem eftir er árs eiga þeir svo eftir Swansea, Chelsea, Everton, Liverpool og Manchester City. Það er því ekki nema von að Ranieri sé einn að tala um að meginmarkmið þeirra sé að ná fjörutíu stigum og halda sér frá falli.
Þess vegna verður það að vera hlutverk United á morgun að koma Leicester niður á jörðina. Leikurinn verður sannarlega leikur gjörólíkra liða. Leicester hefur skorað í öllum leikjum sínum í deildinni, alls 28 mörk, en hefur á móti fengið á sig 20 og aðeins tvisvar haldið hreinu. United hinsvegar hefur skorað 19, fengið á sig níu og hefur verið að halda hreinu trekk í trekk. Það er því alveg spurning hvort leikurinn á morgun fer núll núll eða 3-3.
Að okkar mönnum. Eftir 10-0 tapið gegn PSV á miðv… ó! Gerðum við jafntefli? Miðað við viðbrögðin eftir leik hefði mátt halda annað. Eftir 0-0 jafnteflið gegn PSV á miðvikudaginn eru ýmsir stuðningsmenn United gallsúrir yfir spilamennsku liðsins og sjá öllu liðinu og Louis van Gaal allt til foráttu. Rio Ferdinand svarar þessu að mörgu leyti í Sun í dag og bendir á að síðustu árin undir stjórn Sir Alex hafi nú ekki alltaf verið fegurðinni fyrir að fara. Hann vill reyndar meina að samt hafi nú verið meiri ákefð í liðinu en engu að síður séu það alltaf úrslitin sem hafi forgang. En að kvarta undan þeirri stöðu sem United er í nú, annað sæti í deild og það fyrsta ef sigur vinnst á morgun er alls ekki málið á þessum tímapunkti.
Að því sögðu þá mun leikurinn á morgun skipta okkur verulegu máli, og það hvernig hann spilast. En við höfum áhyggjur af því eftir leikinn.
Það er sami meiðslalisti og verið hefur en að auki er einhver vafi á því hvort Lingard verði heill
Ég ætla því að skjóta á þetta lið
Mjög stöðluð uppsetning, það er ekki nokkur ástæða til að ætla að Van Gaal veri minna varkár en hann hefur verið og þetta er líklega okkar sterkasta lið miðað við þá sem eru tiltækir.
Leikurinn hefst kl 17.30 á morgun
Keane says
Fyrsta sætið er okkar á morgun, Rooney þarf bara að fara að spila samkvæmt launataxtanum…
Ingvar says
Það þarf eitthvað mikið að breytast svo við náum sigri í þessum leik. Leicester er seigasta lið deildarinnar. Spái 3-2 og Vardy stráir salti í sárið með að fella metið hans Nistelrooy.
Rúnar Þór says
Fer ekki að styttast í næsta podcast strákar?