Við hér á Rauðu Djöflunum höfum fengið liðsstyrk hér í desember mánuði en með góðfúslegu leyfi Halldór Marteinssonar fáum við að birta Jóladagatal sem hann heldur úti á síðunni; Manchester United jóladagatal. Sökum sofandi hátts meðlima ritstjórnar þá náðum við ekki að birta daginn í gær en Halldór verður með daglegan fróðleiksmola um okkar ástkæra félag út jólamánuðinn.
Cristiano Ronaldo
Árið 2006 var 2. desember laugardagur. Líkt og flesta góða laugardaga þá þýddi það að nokkrir leikir voru spilaðir í ensku úrvalsdeildinni. Stöðfirðingurinn Ívar Ingimarsson fór fyrir sínum mönnum í Reading sem unnu góðan 1-0 heimasigur á Bolton í vafalaust ljómandi hressum og fjörugum sambafótboltaleik. Hermann Hreiðarsson gat hins vegar ekki komið í veg fyrir tap Charlton þegar þeir fóru í heimsókn til Sheffield United, 1-2 urðu lokatölur þar. Charlton hafði reyndar komist yfir í leiknum en Keith Gillespie tryggði Sheffield United sigur stuttu fyrir leikslok. Heiðar Helguson var í byrjunarliði Fulham sem náði ekki að gera mikið gegn Robbie Savage og félögum í Blackburn. Blackburn vann þann leik 2-0, Heiðar Helguson spilaði í 69 mínútur og nældi sér í gult spjald en náði ekki að skora. Arsenal vann svo Tottenham í nágrannaslag 3-0.
Á sama tíma og þessir leikir fóru fram var Manchester United statt í Middlesbrough að spila þar gegn heimamönnum. Boro liðið sá sér þann kost vænstan að henda 5 í vörnina, m.a. Robert Huth, Jonathan Woodgate og hinn skrautlega Abel Xavier. Fyrir aftan þá stóð Mark Schwarzer í markinu og meðal annarra sem byrjuðu fyrir Boro voru Lee Cattermole, Stewart Downing og George Boateng.
Einn af þeim sem byrjaði leikinn fyrir Manchester United var pjakkurinn Cristiano Ronaldo dos Santos Aveiro. Þetta var fjórða tímabilið sem Ronaldo spilaði með United. Þetta tímabil bauluðu stuðningsmenn móterja United stöðugt á Ronaldo eftir atvik sem hafði átt sér stað á HM sumarið á undan þegar Wayne Rooney fékk rautt spjald í leik gegn Portúgal. Ronaldo notaði það mótlæti hins vegar sem hvatningu til að taka sína knattspyrnulegu getu upp í nýjar hæðir. Hann hafði byrjað tímabilið vel og þegar hann mætti með United til Middlesbrough þennan desemberlaugardag hafði hann skorað 5 mörk og verið valinn leikmaður mánaðarins fyrir nóvember.
Leikurinn var fjörugur og sérstaklega voru leikmenn United sprækir. Vörnin var þétt, á miðjunni stjórnuðu þeir Scholes, Giggs og Fletch leiknum og frammi voru svo Ronaldo, Rooney og Saha. Á 19. mínútu fékk Ronaldo stungusendingu og keyrði grimmt að marki Middlesbro. Schwarzer henti sér niður í tilraun til að ná boltann en náði honum ekki og Ronaldo féll í grasið, víti dæmt. Saha tók vítið og skoraði. United var sterkari aðilinn það sem eftir var hálfleiks en náði ekki að skora fleiri mörk. Í hálfleik ákvað Gareth Southgate, stjóri Boro, að breyta aðeins um taktík. Hann tók varnarmanninn Jonathan Woodgate af velli og setti inná í hans stað hinn tvítuga miðjumann James Morrison (sem spilar núna fyrir WBA), breytti í klassíska 4-4-2 uppstillingu. Það borgaði sig því Morrison jafnaði metin á 66. mínútu eftir að hafa laumað sér inn í teiginn með sniðugu hlaupi á fjærstöngina. En það entist ekki lengi. 2 mínútum síðar komst United í góða sókn, Giggs átti fyrirgjöf á Ronaldo sem reyndi skot í fyrsta en varnarmaður Boro náði með góðri tæklingu að koma í veg fyrir að skotið næði á markið. Ronaldo gerði þó mjög vel í að halda boltanum gegn varnarmanninum og Schwarzer, sem kom æðandi út af línunni sinni. Alveg út við endamörk sá Ronaldo ekki fram á að geta komið boltanum í markið eða sent hann fyrir svo hann valdi að gefa aftur út á kantinn þar sem Giggs beið. Giggsy sá Darren Fletcher taka sprettinn inn í teiginn og sendi eitraðan bolta beint á kollinn á Fletch sem stýrði honum í netið. 2-1 sigur varð svo niðurstaðan þar sem Ronaldo var óheppinn að ná ekki að setja mark eða mörk. Hann átti í það minnsta 3 góðar tilraunir sem Schwarzer náði að verja. United jók forskot sitt á toppi deildarinnar, forskot sem það hélt út tímabilið.
Ronaldo var í sannkölluðu jólastuði þennan desembermánuð árið 2006. United spilaði 6 leiki í deildinni í mánuðinum, vann 5 þeirra og tapaði 1. Ronaldo skoraði 7 mörk í þeim leikjum, þar af tvennu í síðustu 3 leikjum ársins. Hann var líka valinn leikmaður mánaðarins aftur fyrir desember. Á þeim tíma var það í þriðja skiptið sem það hafði gerst, að leikmaður var valinn leikmaður mánaðarins tvo mánuði í röð. Robbie Fowler gerði það tímabilið 1995-96 og Dennis Bergkamp árið 1997. Frá því þetta gerðist hefur einn leikmaður bæst við í þennan hóp, Harry Kane náði því í janúar og febrúar á þessu ári.
Ronaldo var markahæsti leikmaður United þetta tímabilið með 23 mörk í öllum keppnum, þar af 17 í deildinni. United vann deildina eftir að hafa verið í efsta sætinu nánast allt tímabilið. Yfirburðirnir sáust vel þegar lið tímabilsins var valið. Það var svona skipað:
Fáheyrðir yfirburðir. United liðið var líka með flesta sigra og með flest mörk skoruð (bæði í heildina, á heimavelli og útivelli). Athyglisvert að sjá hvað litla liðið í Manchester var slappt þetta tímabil. Skoruðu aðeins 29 mörk sem var það lægsta í deildinni. Watford skoraði jafn fá mörk og þeir lentu í neðsta sæti deildarinnar en einhvern veginn náði City að hala inn 42 stigum á þetta fáum mörkum og enda í 14. sæti. Náðu t.d. aðeins að skora 10 mörk á heimavelli á meðan United skoraði 46 mörk á sínum heimavelli. United var með 37 mörk á útivöllum, 8 mörkum meira en City náði að skora í heildina.
Ronaldo mokaði inn einstaklingsverðlaunum eftir tímabilið. Hann varð sexfaldur leikmaður tímabilsins eftir að vera valinn PFA Players’ Player of the Year, PFA Young Player of the Year, Fans’ Player of the Year, Barclays Premiership Player of the Season, Football Writers’ Association Players of the Year, Barclays Premiership Player of the Season auk þess að vera valinn í lið ársins. Hann varð fyrsti leikmaðurinn síðan 1977 til að vinna bæði PFA leikmaður tímabilsins og ungi leikmaður tímabilsins. Í stuttu máli: stórstjarnan og knattspyrnulegendið Cristiano Ronaldo mætti á sjónarsviðið.
Spólum svo nákvæmlega tvö ár fram í tímann. Þriðjudagurinn 2. desember 2008 var ekki notaður fyrir leiki í ensku deildinni. Þá var líka vika í næstu leiki í meistaradeildinni og almennt séð ekkert mikið í gangi í fótbolta á Englandi. Og þó, Cheltenham nýtti daginn í að vinna Morecambe á útivelli í FA bikarnum, lokastaðan í þeim leik var 3-2 fyrir Cheltenham eftir að Morecambe hafði tvisvar komist yfir í leiknum.
Þarna var jólamyndin Four Christmases með Vince Vaughn og Reese Witherspoon nýkomin í kvikmyndahús og var vinsælasta myndin í Bandaríkjunum. Vinsælasta lagið í Bandaríkjunum þennan dag var Live Your Life með T.I. og Rihanna. Í Bretlandi var fólk að hlusta mest á lagið Greatest Day með Take That. Meðal jólaplatna sem komu út þetta árið voru Christmas with Weezer og Snoop Dogg Presents Christmas in tha Dogg House. Á Íslandi var Páll Óskar að gera allt vitlaust með Silfursafninu sínu.
Þetta var líka góður dagur fyrir Cristiano Ronaldo. Ekki bara var hann lykilmaður í liði ríkjandi Englands- og Evrópumeistara United heldur var þetta dagurinn þegar hann vann Ballon d’Or verðlaunin í fyrsta skiptið. Hann vann kosninguna með miklum yfirburðum, fékk 446 atkvæði á meðan næsti leikmaður þar á eftir fékk 281. Ronaldo var með svipaðan fjölda atkvæða og næstu tveir á eftir honum til samans.
Þetta var líka þokkalega fínt tímabil fyrir Ronaldo. Hann skoraði 26 mörk fyrir United, þar af 18 í deildinni. Hann varð deildarmeistari þriðja árið í röð og komst aftur í úrslit meistaradeildarinnar. United vann líka deildarbikarinn, samfélagsskjöldinn og heimsmeistaramót félagsliða.
Liðið fór taplaust í gegnum þennan desember. Fékk ekki á sig mark í deildinni, vann 3 og gerði 1 jafntefli. Það gerði líka jafntefli í síðasta leiknum í riðlakeppni meistaradeildarinnar, gegn Ålborg BK. Þá spilaði United 2 leiki í mánuðinum sem enduðu 5-3. Fyrri leikurinn var sigur á Blackburn í deildarbikarnum og seinni var sigur á Gamba Osaka í heimsmeistaramóti félagsliða. Í þeim leik skoraði Ronaldo einmitt eina markið sem hann skoraði í þeim desembermánuði. Það kom samt ekki í veg fyrir að hann yrði næst markahæsti leikmaður þess tímabils í deildinni og aftur var hann valinn í lið tímabilsins.
Eftir þetta tímabil yfirgaf hann svo félagið og hélt á vit ævintýra á Spáni. Þar hefur hann nú bara staðið sig alveg nokkuð vel, myndi ég segja.
———-
Aukaefni:
Middlesbro – United, 2. desember 2006:
Ronaldo, Ballon d’Or 2008:
https://www.youtube.com/watch?v=qaCwWiYOl7g
Ronaldo tekur á móti verðlaununum:
———-
Jólamynd dagsins:
Eins og áður sagði kom jólamyndin Four Christmases út árið 2008. Aðalhlutverkin voru í höndum þeirra Reese Witherspoon og Vince Vaughn. Minna hlutverk í myndinni lék Jon Favreau, góðvinur Vaughn en þeir léku til dæmis saman í hinni stórgóðu Swingers frá 1996. Favreau hefur líka leikstýrt bíómyndum og árið 2003, sama ár og Ronaldo kom til Manchester United, kom út jólamynd í hans leikstjórnin. Það var hin stórskemmtilega Elf sem er einmitt jólamynd dagsins í þessu jóladagatali. Skemmtileg tilviljun.
Jólalag dagsins:
Ein af jólaplötunum sem kom út árið 2008 heitir því skemmtilega nafni We Wish You a Metal Xmas and a Headbanging New Year. Þessi plata er þrusuhress safnplata þar sem málmrokkarar í fremstu röð tóku gamla jólaslagara. Út frá leikmanni dagsins er viðeigandi að velja lag #7 af þessum diski, þar er á ferðinni lagið Santa Claus is Back in Town. Það er þarna í flutningi Tim „Ripper“ Owens, Steve Morse, Juan Garcia, Marco Mendoza og Vinny Appicel. Rokk og jól!
Bjarni Ellertsson says
Frábært framtak, Nostalgían yljar manni alltaf í núinu.
Runólfur Trausti says
Mjög skemmtilegt framtak hjá Halldóri og vonandi að með því að birta þetta hér fái hann ennþá meiri umfjöllun á verk sitt!
Svo er auðvitað alltaf gaman að lesa um United – sérstaklega svona yfir jólin (og þegar leikirnir eru jafn óspennandi og undanfarið).