Eric Cantona
On the twelfth day of Christmas my true love sent to me;
Twelve Cantonas!
6. desember 1992 var, líkt og árið 2015, annar sunnudagur í aðventu. Jólin mjökuðust nær, jólalögin ómuðu sem aldrei fyrr, jólapróf víða í fullum gangi og líkt og sama sunnudag 23 árum síðar var spilað í enska boltanum. Þarna var enska úrvalsdeildin glæný og á sínu fyrsta tímabili. Manchester United hafði átt ansi gloppótta byrjun á tímabilinu. Til að byrja með komu tvö töp, gegn Sheffield United og Everton, áður en liðið gerði jafntefli við Ipswich Town. Þá kom góður sprettur og 5 sigrar í röð, þar á meðal gegn ríkjandi deildarmeisturum í Leeds United. Þann leik vann United 2-0 með mörkum frá Andrei Kanchelskis og Steve Bruce. Eftir það kom lægð, fimm jafnteflisleikir í röð og tveir tapleikir beint í kjölfarið. United var þó aðeins farið að rétta úr kútnum og var á þessum tíma búið að vinna síðustu 2 leiki sína.
Eleven Cantonas!
Fyrir þessa helgi var United í 6. sæti í deildinni með 27 stig. Hafði unnið 7 leiki, gert 6 jafntefli og tapað 4 leikjum. Haldið hreinu í 9 leikjum en að sama skapi ekki náð að skora í 5 leikjum. Í 17 leikjum hafði liðið aðeins náð að skora 18 mörk og fengið á sig 12. Aðeins 5 lið í deildinni voru með færri mörk skoruð en United. Á toppi deildarinnar var Norwich City með 36 stig eftir 11 sigra, 3 jafntefli og 3 töp, hafði skorað 32 mörk sem var það mesta í deildinni. Blackburn kom svo í 2. sætinu með 31 stig eftir að hafa meðal annars haldið hreinu í 10 af 17 leikjum en skorað 26 mörk. Blackburn og United voru þarna með bestu varnirnar og höfðu fengið fæst mörk á sig. Arsenal var svo í 3. sæti með 29 stig og Aston Villa og Chelsea þar á eftir, bæði með 28 stig. Meistararnir í Leeds voru í 13. sætinu með 21 stig.
Ten Cantonas!
Tímabilið 1991-92 hafði Leeds United staðið uppi sem sigurvegari í ensku 1. deildinni síðasta tímabilið sem það var efsta deildin í enskri knattspyrnu. Leeds endaði með 82 lið, 4 stigum meira en Manchester United sem endaði í 2. sæti. Merkilegt nokk þá sló Manchester United Leeds úr báðum ensku bikarkeppnunum þetta tímabilið. Í FA bikarnum gerðist það strax í 3. umferðinni en Manchester United tapaði svo í næstu umferð á eftir gegn Southampton eftir vítaspyrnu þegar tveir leikir höfðu endað með jafntefli. Í deildarbikarnum sló Manchester United Leeds út í 8-liða úrslitum og endaði á að vinna þann bikar. Í febrúar 1992 keypti Leeds Eric Cantona til liðsins og hann hjálpaði þeim að vinna deildina með góðum endaspretti þar sem hann skoraði 3 mörk en lagði upp mun fleiri, flest á markahæsta leikmann Leeds það tímabil, Lee Chapman.
Nine Cantonas!
Það mátti reyndar ekki miklu muna að Cantona hefði farið í annað enskt lið fyrr á þessu tímabili. Í nóvember 1991 var franska liðið Auxerre að keppa í UEFA Cup á Englandi og mættur til að fylgjast með leiknum var þjálfari franska landsliðsins Michel Platini. Platini þekkti vel til Cantona og vissi að það var draumur hans að spila á Englandi. Eftir leikinn fór hann því til enska liðsins og lét þjálfara þess vita að Cantona væri til sölu og tilbúinn að koma til Englands til að spila. Þjálfarinn hafði hins vegar ekki áhuga á að taka áhættu á slíkum karakter, þar sem Cantona var þegar búinn að skapa sér orðspor sem hálfgerður vandræðagemlingur, og afþakkaði boðið. Þarna var á ferðinni Graeme Souness, þjálfari Liverpool. Þótt það sé auðvelt að gera grín að slíkri ákvörðun eftir á þá verður að segjast að sóknarlína Liverpool á þeim tíma var hreint ekkert slor. Aðallega er þetta samt léttir að Eric Cantona hafi ekki endað hjá Liverpool.
Eight Cantonas!
Það munaði heldur ekki miklu að ekkert enskt félag fengi þann heiður að nota Cantona í sínu liði. Undir lok árs 1991 var Cantona að spila leik með franska liðinu Nimes Olympique gegn St. Etienne. Dómarinn hafði flautað á eitthvað sem Cantona var ekki par hrifinn af og til að láta sína skoðun í ljós hafði hann hent boltanum í dómarann og strunsað svo beinustu leið útaf vellinum áður en dómarinn hafði tíma til að átta sig, hvað þá lyfta rauða spjaldinu. Vegna þessa atviks þurfti Cantona að mæta fyrir aganefnd franska knattspyrnusambandsins. Á þeim fundi var Cantona úrskurðaður í 4 leikja bann, þar voru tekin með í reikninginn fyrri agabrot Cantona bæði innan og utan vallar. Cantona fannst illa að sér vegið og aganefndin ósanngjörn við sig. Aganefndin sagði þá að það væri ekki hægt að dæma Cantona eins og aðra leikmenn, til þess væri hann of mikill villingur sem færi sínar eigin leiðir. Honum væri ekki treystandi. Cantona brást við þessu með því að ganga að hverjum og einum meðlimi aganefndarinnar og hvæsa kaldhæðnislega „hálfviti!“ í eyrað á honum. Bannið var samstundis lengt í 2 mánuði og Cantona svaraði því með því að tilkynna að hann væri hættur öllum afskiptum af knattspyrnu. Knattspyrnuferli hans virtist lokið.
Seven Cantonas!
Michel Platini var stórkostlegur knattspyrnumaður. Sem forseti UEFA hefur hann oft verið gríðarlega umdeildur og margir hafa ekki gefið mikið fyrir skoðanir Platini á knattspyrnutengdum málefnum. En árið 1991 var Platini einn þeirra sem Cantona treysti hvað mest og tók mest mark á. Það var líka Platini sem sannfærði Cantona um að gefa fótboltanum annað tækifæri. Það var Platini sem stakk upp á því við Cantona að hann reyndi fyrir sér á Englandi. 16. desember 1991 samþykkti Eric Cantona að hætta við að hætta í fótbolta. Með hjálp Platini og Gerard Houllier fór Cantona til Englands og eftir reynslutíma hjá Sheffield Wednesday endaði hann hjá Leeds United.
Six Cantonas!
Cantona vann ekki bara deildina með Leeds. Tímabilið 1992-93 hófst á góðgerðarskildinum þar sem deildarmeistarar Leeds mættu bikarmeisturum Liverpool. Cantona gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í 4-3 sigri Leeds, hann varð þar með einn af fáum leikmönnum sem hefur skorað þrennu á Wembley. Þegar tímabilið í deildinni hófst bætti hann við þrennu gegn Tottenham Hotspur í ágúst sem er fyrsta þrennan sem skoruð var í ensku úrvalsdeildinni. En Leeds gekk ekki vel í deildinni. Þegar komið var fram í seinni hluta nóvember var liðið í 13. sætinu. Liðið hafði aðeins unnið 5 leiki af 16. Það gekk í sjálfu sér vel að skora mörkin, það vantaði ekki. Leeds var með 28 skoruð mörk, aðeins topplið Norwich var með fleiri mörk, 29. En liðið var að fá alltof mörg mörk á sig. 27 mörk hafði Leeds fengið á sig og einungis 2 lið í deildinni búin að fá fleiri mörk á sig.
Fiiiiiiive Cantooonaaas!
Howard Wilkinson, stjóri Leeds, vissi að hann þurfti að gera eitthvað. Hann sá að Manchester United var að gera eitthvað rétt í varnarleiknum, verandi með bestu vörn deildarinnar. Hann fékk því stórsniðuga hugmynd og bað formann Leeds, Bill Fotherby, um að bjalla í formann Manchester United, Martin Edwards, og athuga hvort United væri tilbúið að selja þeim Denis Irwin. Edwards var akkúrat á fundi með Alex Ferguson þegar Fotherby hringdi. Það tók Edwards og Ferguson nákvæmlega engan tíma að komast að þeirri niðurstöðu að Denis Irwin væri ekki til sölu. En Ferguson vissi að Manchester United sárvantaði góðan sóknarmann. Félagið hafði stuttu áður reynt að kaupa David Hirst, Matt Le Tissier og Brian Deane en án árangurs. Það gekk herfilega að skora eitthvað að ráði svo það var nauðsynlegt að gera eitthvað í málunum. Ferguson sá sér þarna leik á borði og fékk Edwards til að spyrjast fyrir um Cantona. Fotherby setti upp smá leikrit þar sem hann sagði með semingi að hann væri eiginlega ekki til sölu. Sannleikurinn var sá að Howard Wilkinson fannst Cantona ekki passa inn í liðið sitt. Það vantaði eitthvað upp á tengingu milli leikmanns og stjóra. Auk þess var alveg að koma að þeim tímapunkti þar sem Leeds þyrfti að greiða 500.000 pund í viðbót fyrir Cantona vegna klausu í sölusamninum hans. Það voru töluvert miklir peningar á þeim tíma og Wilkinson fannst það ekki þess virði. Það varð því úr að 26. nóvember 1992 var Cantona seldur frá Leeds til Manchester United. Söluverðið var 1,2 milljón punda sem var algjört útsöluverð. Á þeim tíma var metupphæðin fyrir knattspyrnumann 5,5 milljón punda. Þegar Bryan Robson var keyptur til United frá WBA kostaði hann 1,5 milljónir punda sem þá var metfé. En það var líka 11 árum fyrr, árið 1981.
Four Cantonas!
Aftur að sunnudeginum 6. desember 1992. Þá átti Manchester United leik við nágrannana í Manchester City. City var þarna 2 sætum fyrir aftan United með 2 stigum minna. Leikurinn var spilaður fyrir framan 35.408 áhorfendur á Old Trafford. Paul Ince kom United yfir á 20. mínútu en Írinn Niall Quinn jafnaði metin á 34. mínútu. Í hálfleik gerði Ferguson tímamótaskiptingu þar sem Ryan Giggs fór útaf og Eric Cantona kom inn á í sínum fyrsta keppnisleik fyrir Manchester United. Þarna var hann í treyju númer 12 sem var harla óvenjulegt fyrir hann. Í raun var óvenjulegt fyrir hann að koma inn á sem varamaður, sérstaklega hjá United. Þetta var í eina skiptið sem það gerðist á United-ferlinum hans. Mark Hughes skoraði sigurmark United korteri fyrir leikslok og sigurganga liðsins hélt áfram. Næsti leikur á eftir var gegn toppliði Norwich City þann 12. desember. Það var fyrsti leikur Cantona í byrjunarliði United. United vann leikinn 1-0 með marki frá Mark Hughes. Leikurinn eftir það var gegn Chelsea þann 19. desember. Í þeim leik skoraði Cantona sitt fyrsta mark fyrir United þegar hann jafnaði leikinn eftir að David Lee hafði komið Chelsea yfir. Hann var ekki hættur í desember og skoraði í næstu tveimur leikjum líka, jafntefli gegn Sheffield Wednesday (þar sem Cantona jafnaði leikinn í 3-3 á 84. mínútu eftir að Wednesday hafði verið 3-0 yfir þegar 25 mínútur voru eftir af leiknum) og Coventry. Þegar lokaumferð ársins hafði farið fram var United komið upp í 2. sætið, aðeins 3 stigum á eftir Norwich. Vörnin var áfram sú sterkasta í deildinni en liðið hafði bætt rækilega í markaskorunina.
Three Cantonas!
Áhrif Cantona á liðið voru gríðarleg og sáust nánast um leið og hann steig á völlinn í United treyju. Liðið sem hafði verið í 6. sætinu og með sjöttu slökustu sóknina þegar Cantona kom til félagsins endaði tímabilið í efsta sætinu, 10 stigum á undan næsta liði. Markatalan var 67-31 sem var langbesti markamunurinn í deildinni. Liðið fékk á sig 7 mörkum færra en næstbesta varnarliðið og aðeins eitt lið í deildinni skoraði fleiri mörk. United tapaði aðeins einum leik allt tímabilið af þeim sem Eric Cantona spilaði. Stundum vantar bara herslumuninn hjá mjög góðum liðum til að verða frábær, bara eitt rétt púsl sem skilur á milli þess að lenda í 2. sæti eða taka dolluna. Eric Cantona er hvorki herslumunur né eitt púslstykki. Hann er svo miklu meira en það. Hann kom inn í Manchester United eins og einhvers konar náttúrukraftur, eins og hvirfilbylur með þandan brjóstkassa og uppbrettan kraga og bara breytti öllu. Cantona spilaði 185 leiki fyrir United, 117 þeirra vann liðið. Cantona hafði gaman af að spila með United í desember. Það gerði hann 29 sinnum og tapaði aðeins 3 af þeim leikjum. Í desemberleikjum United skoraði hann 15 mörk.
Two Cantonas!
Eric Cantona spilaði 5 tímabil hjá Manchester United. United vann deildina 4 sinnum, eina tímabilið sem liðið vann ekki dolluna á meðan Cantona var þar var þegar hann gat ekki klárað tímabilið vegna leikbanns. Hann vann FA bikarinn tvisvar með United. Áður en hann kom til félagsins hafði United aldrei unnið tvennuna, eftir að hann kom til félagsins vann það tvennuna tvisvar á þremur árum. Maðurinn var einfaldlega sigurvegari og meistari. Það er engin furða að hann skuli ennþá vera svona mikils metinn meðal stuðningsmanna United. Hann er ennþá hylltur reglulega með söng og er vel að því kominn. Auk þess eru stuðningsmannalögin um hann alveg sérstaklega skemmtileg. Og maður veit fyrst fyrir víst að jólin eru handan við hornið þegar 12 days of Cantona fer að óma á knattspyrnuvöllunum þar sem Manchester United er að spila.
And an Eric Cantona!
Aukaefni:
Kóngurinn mætir á Old Trafford:
Öll 82 mörkin sem King Eric skoraði fyrir United, vel hægt að mæla með þessu frábæra myndbandi:
Cantona lög á Bishop Blaize:
12 Cantonas!
Jólamynd dagsins:
Joyeux Noël er frönsk jólamynd frá árinu 2005. Hún er byggð á sönnum atburðum og fjallar um það þegar stríðandi fylkingar í fyrri heimsstyrjöldinni lögðu niður vopnin á jólunum 1914 og sameinuðust í söng, jólagleði og fótbolta.
Jólalag dagsins:
Auðvitað er það 12 Days of Christmas!
https://www.youtube.com/watch?v=8bzHBUKLHfs
Bjarni Sveinbjörn says
Snilld, þarf ekkert að ræða þetta meira, Cantona var idolið og klassa fyrir ofan allt og alla. Leiðtogi.