Minnum á Mánudagspælingar sem eru hér að neðan. Þær voru í jákvæðari kantinum og það á svo sannarlega við um Jóladagatal dagsins.
David Beckham
Þegar David Beckham var ungur drengur voru kirkjuferðir ekki það sem honum fannst nauðsynlegur hluti af jólahaldi. Í raun fannst honum kirkjuferðir ekkert sérstaklega merkilegar yfir höfuð. En hann fór samt í kirkju í hverri viku með foreldrum sínum, ekki þó af trúarrækni heldur vegna þess að hann þurfti að gera það til að geta æft fótbolta. Þegar hann var 8 ára byrjaði hann að æfa með liðinu Ridgeway Rovers en Ted, faðir hans, var einn af þjálfurum félagsins og hafði sjálfur spilað fótbolta þar. Þegar David var 10 ára hafði hann skoraði yfir 100 mörk fyrir Ridgeway Rovers.
Foreldrar David höfðu mikinn áhuga á fótbolta og voru miklir stuðningsmenn Manchester United. Reglulega fóru þau frá London til Manchester til að heimsækja Old Trafford og sjá liðið spila. David fór snemma að fara með þeim og byrjaði að halda með United af sömu ástríðu og foreldrarnir. Hann var líka strax í æsku búinn að gera það upp við sig að hann ætlaði að verða knattspyrnumaður þegar hann yrði stór, ekkert annað kom til greina. Hann hafði þó áhuga á fleiri íþróttum, var til dæmis einn besti víðavangshlauparinn í sínum aldursflokki. En fótboltinn var alltaf númer 1, 2 og 3.
Árið 1986 var gott ár. Þá tók Alex Ferguson við Manchester United. Fyrr á því ári hafði 11 ára gamall David Beckham haldið til Manchester til að taka þátt í knattspyrnuskóla Bobby Charlton. Í skólanum var haldin sérstök hæfileikakeppni þar sem sigurvegarinn gat unnið ferð til Barcelona til að fá að taka þátt í æfingu með FC Barcelona. David Beckham rúllaði keppninni upp og fékk að fara í þessa ferð. Á þeim tíma var Terry Venables þjálfari Barcelona og undir hans stjórn hafði liðið unnið spænsku deildina 1985 í fyrsta skipti í 11 ár og var árið 1986 spænskur bikarmeistari. Þetta sama ár komu leikmenn til Barcelona frá Englandi, Gary Lineker kom frá Everton og Mark Hughes frá Manchester United. Beckham fékk þarna góða innsýn inn í heim atvinnumannsins og hefur vafalaust látið sig dreyma um að stíga sjálfur á stóra sviðið og spila knattspyrnu með þeim bestu í Evrópuboltanum. Sama ár fékk hann einnig að leiða leikmann Manchester United út á völlinn í leik gegn West Ham og hefur það án efa gert hann enn meiri stuðningsmann United.
David Beckham æfði til reynslu með liðum í heimaborginni London, hjá Leyton Orient, Norwich City og Tottenham Hotspur. En þegar United bankaði á dyrnar þá svaraði David kallinu án þess að hika. Á 14 ára afmælisdaginn sinn samþykkti hann að koma og æfa með krakkaflokkum félagsins. Þegar hann var 16 ára skrifaði hann svo undir samning um að fara í unglingaakademíu United. Elsti sonur David Beckham, Brooklyn Joseph, verður 17 ára á næsta ári. Þá verður hann jafngamall og faðir hans þegar hann fékk fyrst tækifæri með aðalliði Manchester United. Það tækifæri kom í deildarbikarleik gegn Brighton & Hove Albion í september 1992. Þá kom Beckham inn á sem varamaður fyrir Andrei Kanchelskis á 72. mínútu.
Miðvikudagurinn 7. desember 1994. Skemmtiþátturinn Á tali hjá Hemma Gunn var sýndur á Rúv þetta kvöldið en Stöð 2 sýndi spjallþáttinn Eirík og Melrose Place. Hvorugri sjónvarpsstöðinni datt í hug að sýna beint frá meistaradeild Evrópu í knattspyrnu sem var í fullum gangi á þessum degi. Íþróttaþyrstir Íslendingar gátu hins vegar skellt sér á völlinn ef þeir höfðu áhuga á að horfa á handbolta. Víkingur rúllaði upp Selfossi og Haukar völtuðu yfir HK. Í Garðabænum hafði Stjarnan betur gegn ÍR-ingum í nokkuð spennandi leik og fóru þar með í efsta sæti deildarinnar. Að vísu áttu þá Valsmenn enn eftir að leika sinn leik í þesssari 14. umferð. Manchester United stuðningsmaðurinn Hilmar Þórlindsson gat ekki farið með sínum mönnum í KR til Mosfellsbæjar, það hefur líklega verið helsta skýringin fyrir því að Afturelding átti ekki í teljandi vandræðum með KR-ingana. Á sama tíma í Manchester átti Manchester United heimaleik í meistaradeildinni.
Á þessum tíma var meistaradeild Evrópu, áður þekkt sem Evrópukeppni meistaraliða, eingöngu fyrir landsmeistara hvers lands í Evrópu. Manchester United var að taka þátt í keppninni annan veturinn í röð. Fyrra tímabil, 1993-94, hafði United mætt ungversku meisturunum í Kispest Honvéd FC í 1. umferðinni. Honvéd, sem heitir reyndar núna Budapest Honvéd, er fornfrægt lið innan Ungverjalands. Það er líklega þekktast fyrir að hafa alið af sér Ferenc Puskás, einhvern besta knattspyrnumann sem uppi hefur verið. Á 6. áratug síðustu aldar var félagið eins konar æfingarbúðir fyrir ógnarsterkt landslið sem Ungverjaland hafði á að skipa á þeim tíma. Það hafði töluverða reynslu af Evrópukeppnum og tvisvar komist í 8-liða úrslit í Evrópukeppni bikarhafa. Þeir reyndust samt ekki mikil fyrirstaða fyrir United. Fyrri leikurinn fór fram í Ungverjalandi og þar vann Manchester United 3-2 með tveimur mörkum frá Roy Keane og einu marki frá Eric Cantona. Seinni leikinn vann United líka, í það skiptið með tveimur mörkum Steve Bruce gegn 1 marki Honvédmanna. Í 2. umferð dróst United gegn Galatasaray. Fyrri leikurinn fór fram á heimavelli og endaði 3-3 eftir að United hafði tvisvar komist yfir og Galatasaray einu sinni. Seinni leikurinn endaði svo 0-0 og var úr leik á útivallarmörkum. Galatasaray fór í A-riðil (þarna voru bara tveir riðlar í riðlakeppninni) og endaði þar í neðsta sæti, fyrir neðan Barcelona, Monaco og Spartak Moscow.
Þetta tímabil(‘94-’95) var búið að fjölga riðlunum í 4 og það þýddi að Manchester United fór beint í riðlakeppnina. Þar dróst liðið í A-riðil með Barcelona, IFK Göteborg og Galatasaray. United byrjaði vel í keppninni, í fyrsta leik vann liðið 4-2 sigur á IFK Göteborg með 2 mörkum frá Giggs auk marka frá Kanchelskis og Íslandsvininum Lee Sharpe. IFK hafði reyndar komist yfir eftir tæpan hálftíma með marki frá Stefan Pettersson en það dugði skammt. Annar leikurinn í riðlinum var útileikur gegn Galatasaray. Annað árið í röð fór United til Tyrklands og annað árið í röð endaði þessi leikur 0-0. Á meðan vann IFK nokkuð óvæntan sigur gegn Barcelona í Svíþjóð og United því komið í efsta sæti riðilsins. Í þriðju umferð kom Barcelona í heimsókn til Manchesterborgar. Á 19. mínútu kom Mark Hughes United yfir en Brasilíumaðurinn Romário jafnaði fimmtán mínútum síðar. Fljótlega í síðari hálfleik kom Spánverjinn José Maria Bakero Barcelona yfir í leiknum. En það var seigt í United og þegar 10 mínútur voru eftir skoraði Lee Sharpe jöfnunarmarkið og tryggði United annað stigið. Á meðan vann IFK Galatasaray og komst upp að hlið United, United þó með betur í innbyrgðis viðureignum. En það gekk ekki eins vel hjá United þegar liðið þurfti að fara til Spánar og heimsækja Barcelona. Hristo Stoichkov og Romario skoruðu sitt hvort markið í fyrri hálfleik og staðan 2-0 í hálfleik. Í seinni hálfleik bætti Stoichkov við öðru marki og Albert Ferrer kláraði dæmið undir lokin, 4-0 sigur Barcelona staðreynd. Á meðan vann IFK sinn þriðja leik í röð þegar Magnus Erlingmark skoraði sigurmark þeirra í Tyrklandi á 86. mínútu. Þessi úrslit þýddu að bæði IFK og Barcelona færðust uppfyrir Manchester United. Ekki skánaði það í næst síðustu umferðinni. Þá fór Manchester United til Gautaborgar. Verðandi United-leikmaðurinn Jesper Blomqvist kom IFK yfir strax á 11. mínútu. Mark Hughes jafnaði á 64. mínútu og allt virtist horfa til betri vegar. En sú gleðitilfinning entist ekki nema rétt mínútu, þá var Magnus Engilmark búinn að koma IFK aftur yfir. Pontus Kåmark skoraði þriðja mark IFK stuttu seinna og þannig endaði leikurinn. Með þessum sigri tryggði IFK sér efsta sætið í riðlinum. Það eina sem bjargaði deginum fyrir Manchester United var að á sama tíma vann Galatasaray óvæntan heimasigur gegn Barcelona. Þar hafði Romario komið Barca yfir eftir korter en Hakan Sukur jafnaði úr víti á 71. mínútu. Jafnteflið hefði tryggt Barcelona áfram en undir lok leiksins varð markvörður Barcelona, Carles Busquets(pabbi Sergio Busquets), fyrir því óláni að skora sjálfsmark og halda þannig á lífi vonum Manchester United um að komast upp úr riðlinum og í 8-liða úrslit. Til þess að það yrði að veruleika þurfti Manchester United að vinna Galatasaray á heimavelli og Barcelona mátti ekki fá stig á sínum heimavelli gegn IFK.
Útileikurinn gegn Galatasaray tímabilið á undan hafði verið hrikalegur fyrir leikmenn og aðstandendur Manchester United. Ógnandi stuðningsmenn höfðu skapað gríðarlega óvinveitt andrúmsloft allt frá því að United lenti í Tyrklandi og náði hámarki á vellinum sjálfum. Leikvangurinn varð að suðupotti sem endaði með að Eric Cantona fékk rautt spjald um leið og leik lauk fyrir að senda dómaranum tóninn. Á leiðinni út af vellinum urðu nokkrir leikmanna United fyrir árásum frá lögreglumönnum og rúta liðsins var grýtt steinum á leiðinni frá vellinum. Cantona var sannfærður um að dómarinn Kurt Röthlisberger, sem hafði dæmt úrslitaleikinn í meistaradeildinni árið áður, hefði þegið mútur fyrir þennan leik. Seinna var Röthlisberger að vísu dæmdur í lífstíðarbann fyrir að þiggja mútur og hagræða úrslitum en það hefur aldrei verið sannað að hann hafi þegið mútur fyrir þennan leik. Afleiðingarnar fyrir Cantona hins vegar voru að hann fékk 5 leikja bann í Evrópuleikjum. Fyrsti leikurinn hans eftir þetta bann var einmitt þessi heimaleikur gegn Galatasaray í lokaumferðinni 1994.
Það var því ýmislegt sem vann saman að því að gera andrúmsloftið fyrir þennan leik magnþrungið. Alex Ferguson ákvað samt sem áður að nota þennan leik til að gefa nokkrum ungum leikmönnum tækifæri í bland við reynslumeiri leikmenn. Sumir þessara ungu höfðu farið með liðinu til Tyrklands og upplifað andrúmsloftið þar. Einn þeirra sem fékk tækifærið í þessum leik var David Beckham. Eftir að hann fékk fyrstu reynslu sína með aðalliði United 17 ára gamall þurfti hann að bíða í 2 ár eftir þeirri næstu. Í september og október 1994 spilaði hann tvo leiki gegn Port Vale í deildarbikarnum. United vann báða þá leiki, þann fyrri 2-0 með mörkum frá Paul Scholes í sínum fyrsta leik fyrir aðallið United. Í lok október byrjaði hann aftur inn á í deildarbikarleik, í þetta skipti gegn Newcastle og sá leikur tapaðist, 0-2. Þarna var sem sagt komið að 5. leik Beckham fyrir United og hans fyrsta Evrópuleik. Og það var ekki leikur sem skipti engu máli, þetta var leikur sem þurfti að vinnast til að United ætti séns á að komast áfram í keppninni.
Liðið sem spilaði leikinn var eftirfarandi:
United byrjaði af krafti og það voru rétt rúmar 2 mínútur búnar af leiknum þegar hinn tvítugi Walesverji Simon Davies skoraði laglegt mark úr nokkuð þröngu færi. Davies þessi var þarna að koma upp úr unglingastarfi United á svipaðan hátt og David Beckham og hafði til að mynda spilað sömu leiki og Beckham á tímabilinu. En framhaldið var gjörólíkt. Davies spilaði 20 leiki fyrir United á næstu 3 tímabilum og náði aldrei að brjótast inn í aðalhóp liðsins. Þetta reyndist hans eina mark og hann hélt til Luton Town árið 1997. Eftir flakk á milli nokkurra liða með stuttu stoppi á hverjum stað endaði hann á að fara aftur heim til Wales og spila þar meðal annars fyrir liðið Total Network Solutions frá smábænum Llansantffraid-ym-Mechain (nei, ég veit ekki hvernig á að bera þetta fram).
Næst var komið að David Beckham. Á 38. mínútu settu Cantona og McClair góða pressu á varnarmenn Galatasaray sem endaði með að boltinn hrökk út fyrir teiginn. Þar kom aðvífandi David Beckham og smellti laglegu skoti niðri í fjærhornið. Skoraði þar með sitt fyrsta mark fyrir United í sínum fyrsta Evrópuleik. Staðan 2-0 og útlitið gott Manchestermegin. Stuttu fyrir leikhlé munaði minnstu að allt færi í háaloft. Þá áttust þeir við Tyrkinn Tugay og Gary Neville. Tugay varð eitthvað pirraður á 19 ára guttanum í United gallanum sem endaði með að hann hrækti á Neville. Þegar hitt liðið inniheldur leikmenn eins og Roy Keane og Eric Cantona þá er margt skynsamlegra í heiminum en að ögra þeim með þessum hætti. Allt virtist stefna í 15 manna hópslagsmál en það náðist að róa mannskapinn og merkilegt nokk þá sluppu allir við spjald, meira að segja Tugay. Hálfleiksstaðan 2-0 fyrir United. Í hinum leiknum hafði Barcelona verið meira með boltann og átt fleiri marktilraunir en IFK átti fleiri tilraunir sem hittu á rammann og voru næst því að skora. Þeir sænsku höfðu átt eitt dauðafæri sem Busquets varði mjög vel í markinu og tvær efnilegar aukspyrnur sem reyndu á markmanninn.
Fljótlega í seinni hálfleik fékk United góða sókn. Boltinn barst þá frá vinstri kantinum hægra megin í teig Galatasaray þar sem Roy Keane fékk boltann. Hann tók við boltanum og sendi þrjá varnarmenn Galatasaray í sturtu með gabbhreyfingum áður en hann lagði boltann snyrtilega í vinstra hornið. Enn var allt í járnum í Barcelona en Barcelonamenn fikruðu sig þó upp á skaftið með álitlegum tilraunum frá Stoichkov og Romario. Beckham fékk tækifæri á að skora annað mark þegar hann tók aukaspyrnu á hættulegum stað. Hann setti einn Beckham-special snúning á tuðruna yfir vegginn sem olli markverðinum nokkrum vandræðum en hann náði þó að koma honum frá.
Þegar 10 mínútur voru til leiksloka fékk Stoichkov nóg af þessu í Barcelona. Hann tók hornspyrnu frá vinstri kantinum og bombaði henni inn að nærstöng. Þar kom fyrirliði Barcelona, Jose Maria Bakero, og skallaði boltann í fallegum boga yfir Thomas Ravelli markvörð og varnarmanninn á fjærstönginni í stöngina alveg upp við skeytin og inn í markið. Þar með leit þetta ansi illa út fyrir United. En það var samt tími til að bæta við marki. Eftir sókn Galatasaray vann United boltann og brunaði í skyndisókn. McClair bombaði boltanum upp kantinn þar sem Cantona kom á sprettinum. Hann sá að Keane var á leiðinni inn í teiginn og kom með góða fyrirgjöf fyrir. Bülent Korkmaz í vörn Galatasaray höndlaði þá pressu ekki vel, ætlaði að hreinsa boltann í burtu en hitti hann illa og setti hann yfir markmanninn sinn í staðinn. Lokastaðan í þessum leik var því 4-0 fyrir United. Á næst síðustu mínútunni jafnaði Stefan Rehn metin fyrir IFK en þar með voru bæði lið sátt og leikurinn endaði 1-1. United var þar með úr leik þrátt fyrir virkilega flottan lokaleik. IFK vann riðilinn sinn og Barcelona fór með þeim í 8-liða úrslit. Þar töpuðu bæði lið sínum viðureignum, IFK gegn Bayern á útivallarmörkum eftir tvo jafnteflisleiki og Barcelona gegn PSG. Sigurvegari keppninnar þetta árið var ungt Ajax lið undir stjórn ansi litríks stjóra.
Beckham fór síðan á lán síðar á tímabilinu til Preston North End þar sem hann skoraði 2 mörk í 5 leikjum, annað þeirra beint úr hornspyrnu. Hann náði samt sem áður að spila sína fyrstu leiki í FA bikarnum og í deildinni fyrir United þetta sama tímabil. Það var upphafið að fallegu ferðalagi hans með Manchester United. Á 10 tímabilum með Manchester United spilaði hann 83 leiki í Evrópukeppnum og skoraði í þeim 15 mörk. Hann hélt áfram að spila í meistaradeildinni eftir að hann hætti hjá United og varð fyrsti breski leikmaðurinn til að spila yfir 100 meistaradeildarleiki. Alls spilaði hann 118 leiki í Evrópukeppnum fyrir 4 mismunandi félög.
Aukaefni:
Manchester United í Tyrklandi 1993, óblíðar móttökur:
Manchester United – Galatasaray, 7. desember 1994:
Barcelona – IFK Göteborg:
David Beckham á láni hjá Preston (og skorar úr horni):
Jólamynd dagsins:
Árið 1994 kom út jólamynd sem fjallaði um hjón sem lenda í klónum á mannræningja. Þegar ég sá þessa mynd fyrst bar hún titilinn Hostile Hostages en upprunalegi titill myndarinnar er samt The Ref. Það er fátt jólalegra en virkilega pirraður Denis Leary.
https://www.youtube.com/watch?v=xY3vOMox0pQ
Jólalag dagsins:
Í nóvember 1994 kom út eitt allra vinsælasta jólalag allra tíma, lag sem hefur halað inn yfir 50 milljón dollara í stefgjöld. Hér er ég að tala um jólalag dagsins, stuðlagið All I Want for Christmas Is You með Mariah Carey
Bjarni Ellertsson says
Meistari Beckham, gæfi hægri handlegg fyrir að hafa hann í liðinu 15 árum yngri. Baneitraðar sendingar, framherjarnir þurftu nánast ekki að gera neitt annað en að pota honum inn með skalla eða sparki. Ég svaf vel í nótt eftir lestur á þessu dagatali. Ef fram sem horfir, sem allt bendir til, þá mun ég ekki þurfa neina jólagjöf í ár. Jóladagatalið hressir og kætir í stressi dagsins. Takk fyrir mig.