Jákvæðir mánudagar?
Nú hugsa margir; hvað í fjandanum er til að vera jákvæður yfir?
Mjög góð spurning. Eftir einhver átta 0-0 jafntefli í síðustu 20 leikjum er eðlilegt að menn séu orðnir pirraðir, guð einn veit að ég er orðinn það (hér er augljóslega átt við Eric „God“ Cantona en ekki faðir Jesú Krists).
Á morgun er mikilvægasti leikur tímabilsins hjá United, og þá fyrst sjáum við úr hverju liðið er gert. Það er bókstaflega, að duga eða drepast. Eða svona næstum. Sigur og liðið er áfram í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar. Tap og endurkoma Manchester United í Meistaradeildina er jafn aumingjaleg og endurkoma Liverpool í fyrra.
Því miður verður þessi pistill hálf gagnslaus ef leikurinn tapast þar sem volæði, pirringur og reiði mun taka yfir. Þar á meðal hjá mér. En allavega, það eru merki á lofti að hlutirnir séu hægt og rólega að mjakast í rétta átt. Að því sögðu þá snúast þeir auðvitað 99% um það að Louis Van Gaal, og þjálfarateymi, taki réttar ákvarðanir. Helstu áhyggjurnar eru auðvitað öll meiðslin sem liðið er að glíma við, ef þau halda áfram þá verður jólatörnin algjört basl. Hins vegar eru meiðsli eins tiltekins leikmanns mögulega jákvæð hvað varðar liðið í heild. Hér kemur listinn;
a) Meiðsli Wayne Rooney.
Ljótt að segja það en meiðsli Rooney gætu verið það jákvæðasta sem hefur komið fyrir liðið lengi. Liðið skoraði tvö mörk gegn Watford, og þrátt fyrir að skora ekki gegn West Ham á laugardaginn þá spilaði liðið vel framan af leik, og skapaði sér ágætis færi. Hins vegar þurfa menn að koma tuðrunni á bévítans markið. Það stefnir í að Rooney sé meiddur gegn Wolfsburg og vonandi að aðrir leikmenn grípi tækifæri. Í fyrra leiddu meiðsli framherja liðsins til breytinga á leikstíl liðsins og unnust þar nokkrir bestu sigrar tímabilsins.
b) David De Gea & Chris Smalling.
Liðið hefur fengið á sig eitt mark í deildinni á Old Trafford. Og aðeins tvö í heildina að ég held, það kom gegn mótherjum morgundagsins. Varnarleikur liðsins er almennt mjög þéttur og þar af leiðandi má segja að grunnur liðsins sé mjög öflugur. Að því sögðu er ekkert leyndarmál að liðinu gengur afleitlega að finna netmöskvana sjálft. Hins vegar, með auknu sjálfstrausti aftarlega á vellinum má vonandi reikna með að leikmenn fái að taka aukna sénsa og mörkin fara vonandi að streyma inn.
c) Anthony Martial & Memphis Depay.
Vissulega hefur Martial ekki skorað í þó nokkurn tíma og Memphis er upp og niður. En þeir eru báðir ungir að árum og eiga framtíðina fyrir sér. Það sem ég er helst að pæla í hér er hversu vel mér finnst þeir tengja við hvorn annan. Það skiptir litlu máli hversu stuttan tíma þeir hafa saman inn á vellinum, þeim tekst alltaf að búa til þetta „magic moment“, koma áhorfendum á fætur. Kveikja smá vonarneista í stuðningsmönnum, minna okkur á að við erum að horfa á Manchester United.
Að því sögðu, þá væri ennþá skemmtilegra að sjá þá fleiri mínútur saman inn á vellinum en raun ber vitni. Ef Memphis fengi 4-5 leiki í byrjunarliðinu þá myndi hann örugglega sýna sínar réttu hliðar. Drengirnir þurfa smá sjálfstraust, þeir fá það aðeins með mínútum. Markið sem James Wilson skoraði fyrir Brighton um helgina er sönnun þess hvað mínútur og sjálfstraust geta gefið mönnum.
d) Bastian Schweinsteiger.
Þarf ég að segja meira? Við erum með BASTIAN SCHWEINSTEIGER Á MIÐJUNNI. Ekki Tom Cleverley. Ekki Anderson. Ekki Darron Gibson. Ekki John O’Shea. Ekki Phil Jones. Ekki Wayne Rooney. Við erum með BASTIAN SCHWEINSTEIGER aka Deutscher Fußballmeister.
Halldór Marteinsson says
a) Sammála því að það verður áhugavert að sjá hvaða áhrif þetta hefur á spil liðsins. En það er spurning með þetta áfengisslúður, er það eintómt bull eða hafa einhverjir traustverðir verið að tjá sig um þetta?
b) Þau eru reyndar 3 í heildina. En Carrick skoraði þetta þriðja svo það er spurning hvort það telji með ;) Þá var líka Romero ennþá í markinu, það gæti allteins hafa verið á einhverju öðru tímabili.
Það er svo fáránlegt hvað manni finnst heimsklassamarkvörslur allt í einu orðnar svo gott sem sjálfsagt mál. Sóknarmaður hins liðsins kemst einn inn fyrir vörn United og maður hugsar: „Jájá, De Gea á þennan bara…“ Enda étur hann þá oftast.
c) 100% sammála þessu. Get bætt Lingard inn í þetta, finnst hann flottur, með mikla vinnusemi en á það til að vera klaufi fyrir framan markið. Eitthvað sem gæti lagast hjá honum með fleiri mínútum.
d) Sehr gut
Bjarni Ellertsson says
a) Ágætir punktar en mér finnst samt sorglegt að sjá Rooney vera dottinn niður á annað plan og ná ekki að rífa sig upp hvað sem veldur því.
b) Einnig sammála því að andstæðingarnir eru að fá fáranlega góð færi á móti okkur og það þurfi snilldarmarkvörslu til að bjarga því í horn, það mun vonandi ekki koma í bakið á okkur. Get ekki alveg sætt mig við það þegar leikirnir eru svona jafnir eins og þeira hafa verið hingað til.
c) Ungu strákarnir munu kom til en það verður nú að segjast að við höfum engan alvöru striker í liðinu sem er 15 marka maður og því ekki að ætlast til að mörkin komi frá miðju og kantmönnum.
d) Hef alla mína tíð haft óþol fyrir þýskum leikmönnum nema einum og það er Basti. Hér áður fyrr var hann allt í öllu og gaf andstæðingunum engan grið, ekki ósvipaður Keane, box to box leikmaður. Hef svipað álit og Kínverjarnir sem telja hann hinn fullkomna aríska mann, bæði í útliti og hegðun. Það þarf að afhenda honum fyrirliðabandið strax, Rooney höndlar það ekki lengur og það veikir liðið, og gefa Der Fuhrer lausan taum á miðjunni til að stjórna leiknum og skipa leikmönnum að framkvæma það sem fyrir er lagt.
Hef trú á að við vinnum á morgun annars verður bara að hafa það.
Amen með efninu.