Frank Barson
Laugardaginn 10. desember 1921 komu leikmenn Bradford City í heimsókn á Old Trafford. Viku áður hafði United farið til Bradford og spilað þar við liðið á Valley Parade vellinum. Þá skoraði Joe Spence mark United en David Pratt og Peter Logan skoruðu mörk Bradford sem vann leikinn. Leikmenn United vildu því ólmir hefna fyrir tapið þegar Bradford kom í heimsókn. Leiktímabilið hafði heldur ekki gengið sem best hjá United-piltum, þegar þarna var komið við sögu hafði liðið spilað 17 leiki, tapað 8 þeirra og var í næst neðsta sæti. Neðsta liðið, Arsenal, átti auk þess leik til góða. Bradford hafði gengið aðeins betur og var í 17. sæti af 22 liðum. En United náði ekki fram hefndum í þessum leik, hann endaði 1-1. Mark United skoraði William Henderson og mark Bradford skoraði Bill Howson. Þetta reyndist ekki gott tímabil fyrir þessi lið, Manchester United endaði að lokum í neðsta sætinu eftir 22 tapleiki af 42. Liðið skoraði aðeins 41 mark en fékk á sig 73. Bradford tapaði síðustu 5 leikjum sínum og endaði í næst neðsta sætinu. Þessi lið féllu því niður í 2. deildina.
Á sama tíma og liðin mættust í desember var Aston Villa í heimsókn á Anfield að spila við Liverpool. Þessi lið höfðu einnig mæst viku fyrr og þá skildu liðin jöfn, 1-1. Í þetta skiptið hafði Liverpool betur með 2 mörkum gegn engu. Liverpool fór við það upp í 2. sæti deildarinnar en Aston Villa var í 10. sætinu. Eftir leikinn leyfði fyrirliði Aston Villa, Frank Barson, vini sínum að koma inn í búningsklefa liðsins svo hann gæti beðið á meðan Frank kláraði að skipta um föt og hafa sig til. Það fór ekki vel í stjórnarmenn Aston Villa því þeir álitu þetta vera brot á reglum félagsins. Þeir sendu Frank í 7 daga bann. Þetta var sannarlega ekki í fyrsta skipti sem Frank Barson hafði átt í útistöðum við yfirmenn sína. Stjórnin hafði lengi verið ósátt við það að Frank bjó í fæðingarbæ sínum, Sheffield, þrátt fyrir að spila með liði frá Birmingham, rúmum 100 kílómetrum frá Sheffield. Hann hafði verið beðinn ítrekað um að flytja nær liðinu en Frank þverneitaði. Stundum kom þessi búseta hans honum um koll. Í eitt skipti var hann að ferðast frá Sheffield til að ná leik með Aston Villa á Old Trafford. Hann þurfti að skipta um lest en missti af seinni lestinni sem þýddi að hann þurfti að ganga rúma 11 kílómetra á völlinn í leiðindarveðri til að ná leiknum. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann spilaði manna best í þeim leik.
Í upphafi tímabilsins 1920-21 missti Frank af leik Aston Villa og Bolton. Bolton vann leikinn sem gerði stjórnarmenn Aston Villa enn brjálaðri yfir því að hann byggi ekki nær liðinu. Þeir settu hann í tveggja vikna æfinga- og keppnisbann og ítrekuðu að þeir vildu að hann flytti. Enn var Frank ekki haggað með þessa ákvörðun sína. Þegar banninu var aflétt var Frank gerður að fyrirliða liðsins. Í raun hefði stjórn Aston Villa getað sagt sér að hún gæti ekki fengið Frank Barson til að flytja frá Sheffield. Frank hafði spilað fyrir Barnsley frá 1911-1919 en fór þaðan einmitt eftir að hafa rifist við stjórnarmeðlimi félagsins sem vildu að Frank flytti nær liðinu.
En þarna var Frank búinn að fá nóg. Í kjölfarið á þessu, sem Frank upplifði sem mikla vanvirðingu, vildi hann komast frá liðinu. Hann óskaði eftir því að vera settur á sölulista og það var gert. Hann kláraði engu að síður tímabilið með Aston Villa, sem endaði í 5. sæti deildarinnar. En eftir það var hann farinn.
Manchester United var á þeim tíma að leita sér að rétta leikmanninum sem gæti hjálpað liðinu að komast sem fyrst aftur í efstu deildina. Þeir sáu í Frank Barson mann með hæfileika, kraft, dugnað og leiðtogahæfileika sem gæti verið það sem upp á vantaði. Sumarið 1922 keypti Manchester United því Frank Barson frá Aston Villa fyrir 5.000 pund. Það var á þeim tíma metupphæð sem greidd hafði verið fyrir varnarmann.
En þetta var ekki bara hvaða varnarmaður sem var. Frank Barson var þegar búinn að skapa sér nafn á Englandi og orðinn einn þekktasti knattspyrnumaður landsins. Þekktasti og alræmdasti.
Frank fæddist árið 1891 í Grimesthorpe, hverfi í stálborginni Sheffield. Hann byrjaði að spila knattspyrnu með skólaliðum sínum í Firshill Council School og seinna í Grimesthorpe Boys. Það sást strax að hann var ekki einn þeirra stráka sem óðu í náttúrulegum knattspyrnuhæfileikum og var ekki sá flinkasti með knöttinn. En að sama skapi uppgötvaði hann strax þarna á unga aldri að hann gat komist langt á því sem hann hafði, baráttuvilja og áræðni. Hann var auk þess ávallt líkamlega sterkur og mjög fljótur leikmaður. Þetta nýtti hann sér til hins ítrasta.
Þegar hann hætti í skóla hóf hann að vinna sem járnsmiður. Það starf jók mjög líkamlegan styrk hans. Þegar hann var 18 ára samdi hann við áhugamannaliðið Cammel Laird þar sem hann náði að þroskast vel sem leikmaður. 2 árum seinna samdi hann svo við Barnsley. Þar kom strax í byrjun fram sú hlið á Frank Barson sem átti eftir að verða hvað alræmdust á hans ferli. Í byrjun tímabilsins 1911-1912, hans fyrsta tímabils í enska atvinnuboltanum, missti hann af fyrstu 8 vikunum vegna þess að hann var að taka út leikbann. Ástæða leikbannsins var að í æfingarleik fyrir tímabilið hafði Frank lent í áflogum við nokkra leikmenn úr liði Birmingham City.
Frank var hjá Barnsley í 8 ár. Að vísu var engin deildarkeppni í 4 af þessum árum vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar. Alls spilaði hann 92 leiki fyrir félagið og náði svo sannarlega að skapa sér nafn. Strax á þeim árum varð hann orðinn að leikmanni sem stuðningsmenn allra annarra liða elskuðu að hata. Í eitt skipti var Barnsley að spila leik gegn Everton í FA bikarnum. Eftir leikinn þurfti að smygla Frank sérstaklega út af Goodison Park því þar hafði safnast saman áhorfendaskari sem átti sitthvað vantalað við Frank eftir framgöngu hans í leiknum. Í annað skipti var Barnsley að spila gegn Grimsby þegar Frank lenti í samstuði við dómara sem endaði með því að dómarinn lá meðvitundarlaus eftir. Opinbera skýringin í staðarblöðunum var að þetta hefði verið óviljaverk. Hann náði sér einnig í mánaðarlangt keppnisbann eftir að hafa verið rekinn útaf í bikarleik.
Í október 1919 fór Frank frá Barnsley til Aston Villa fyrir 2.850 pund, sem þótti ansi vegleg upphæð á þeim tíma. Þar hélt hann áfram að skapa sér nafn sem einn af hörðustu (og hötuðustu) leikmönnunum í boltanum. Oftar en ekki þurfti hann lögreglufylgd af vellinum vegna æstra áhangenda andstæðinganna. Hann henti sér í þær tæklingar sem þurfti að fara í, nýtti sér hæð og styrk til hins ítrasta og gerði það sem hann þurfti fyrir liðið sitt. Enda elskuðu stuðningsmenn hans lið hann ávallt fyrir það sem hann gaf og hann hafði líka lag á að gera leikmennina í kringum sig betri. Alvöru leiðtogi. Tímabilið 1919-1920 fór Aston Villa alla leið í úrslit FA bikarsins. Á leiðinni þangað vann liðið meðal annars Manchester United. Í leik gegn Chelsea hafði varnarleikur Frank mikið að segja þegar hann klippti helstu stjörnu Chelsea, sóknarmanninn Jack Cock, nánast algjörlega úr leiknum. Í úrslitum mætti liðið svo Huddersfield Town. Fyrir þann leik kom dómari leiksins, J.T. Howcroft, inn í klefa til liðanna og ræddi við leikmenn. Hann aðvaraði Frank sérstaklega og sagði við hann að við fyrsta brot yrði hann sendur af velli („The first wrong move you make, Barson, off you go“). Það má því segja að hann hafi byrjað leikinn á gulu spjaldi, líklega eini maðurinn sem hefur gert það í úrslitaleik FA bikarsins. En hann spilaði eins og engill í leiknum og endaði sem bikarmeistari.
Þegar Frank samdi við Manchester United samdi hann um nokkrar viðbætur við hinn hefðbundna samning. Manchester United samþykkti til dæmis að það væri í samningi hans að hann mætti búa og æfa í Sheffield. United samþykkti einnig ákveðnar kröfur sem ekki fóru í opinbera samninginn. Á þessum tíma var launaþak á leikmenn í deildinni en það var hægt að komast hjá því. Sagan segir að fyrir hvern leik hafi Frank komið inn í klefann og byrjað á leita í hillunni við snagann sinn eftir böggli sem alltaf átti að vera þar. Eitt skipti var hann ekki þar og þá hvæsti Frank að hann færi ekki svo mikið sem úr frakkanum fyrr en hann fengi sitt. Þar hefur líklega verið á ferðinni sá hluti launa hans sem féll utan launaþaksins. Í samningnum hans var líka ákvæði um að ef United næði að komast aftur upp í 1. deildina innan þriggja ára frá komu Franks þá skyldi hann fá sinn eigin bar til eigu. Þarna var John Henry Davis stjórnarformaður. Hann átti bæði brugghús í Manchester og ótal bari sjálfur svo líklega hefur þetta frumlega bónusákvæði verið frá honum komið. Allt þetta hjálpaði til við að lokka Frank til Manchester United því hann var mjög eftirsóttur á þeim tíma.
Frank var vel tekið af samherjum og United stuðningsmönnum og var fljótur að verða mikilvægur partur af United-liðinu. Hann var þegar í stað gerður að fyrirliða liðsins. Hann náði að spila flesta leikina þetta fyrsta tímabil þar sem United endaði í 4. sætinu, einungis 3 stigum frá því að komast aftur upp í 1. deildina. Tímabilið á eftir var ekki eins gott. Gengi liðsins var gloppótt og þegar Frank hlaut alvarleg hnémeiðsli í febrúar var útséð um að United næði að berjast um sæti í fyrstu deild. Á þeim tíma hlaut hann líka alvarleg bakmeiðsl, svo slæm að um tíma lá hann algjörlega rúmfastur.
Tímabilið 1924-25 byrjaði vel og United virtist staðráðið í að vinna sér inn sæti í efstu deild í þetta skiptið. Vörnin var frábær með Frank Barson fremstan í flokki. Andstæðingar United gerðu í því að reyna að espa Frank upp. Það var taktík sem átti það til að virka vel á Frank, ef leikmenn gerðu eitthvað á hans hlut þá svaraði hann fyrir sig. Eins ef einhver vogaði sér að koma illa fram við samherja hans, sérstaklega ef samherjinn var ungur og óreyndur, þá var Frank að mæta. Þetta var svona Bryan Robson týpan. En það þýddi ekki alltaf að Frank gerði eitthvað óíþróttamannslegt, það gæti einfaldlega verið að hann tæki bara fastar á leikmönnum fyrir þetta. En með orðsporið sem Frank hafði þá gat það vissulega verið hættulegur leikur. Um jólin 1924 sagði Frank í viðtali að hann hefði tekið við mörgum föstum höggum í gegnum tíðina en aldrei jafn mörgum og þetta tímabil, hann lýsti því svo að sköflungar hans væru alþaktir marblettum. En hann lét ekki espa sig út í vitleysu í þetta skiptið heldur hélt aganum, bæði hjá sjálfum sér og leikmönnum sínum. Ítrekað minnti hann leikmenn sína á að spila bara boltanum þegar andstæðingarnir einbeittu sér aðallega að því að sparka í United leikmenn. Þegar Frank meiddist virtist United ætla að missa af toppbaráttunni en hann kom til baka í tæka tíð til að leiða liðið í 2. sæti og þar með upp í efstu deildina. Í lokaleiknum gerði United 0-0 jafntefli við Barnsley sem var viðeigandi leið til að tryggja 2. sætið. United fékk aðeins á sig 23 mörk í 42 leikjum þetta tímabil svo það er óhætt að segja að þessi árangur hafi mestmegnis verið vörninni að þakka.
Þetta þýddi líka að Frank Barson fékk barinn sinn. Barinn hans Franks hét The George and Dragon. Stuðningsmenn United vissu af þessum ráðahag og þegar Frank mætti á barinn til að taka við honum var mikill fjöldi mættur þar til að fagna Frank, óska honum til hamingju og þakka fyrir sig. Þrátt fyrir að hann væri mikill leiðtogi á velli átti Frank alltaf erfitt með svona margmenni og þoldi illa þegar honum var hrósað of mikið. Hann lét því yfirbarþjóninn á staðnum fá lyklana með þeim orðum að hann mætti eiga staðinn og fór beinustu leið heim. Þetta var í síðasta skipti sem hann steig fæti inn á þann bar.
Þegar tímabilið 1925-26 var að hefjast, og Manchester United komið aftur í 1. deild, fékk Frank Barson bréf þar sem honum var óskað góðs gengis í komandi baráttu. Bréfið kom frá æskuvinum Franks frá Sheffield, bræðrunum William og Lawrence Fowler. Þeir höfðu verið hluti af hinni alræmdu glæpagengjasenu sem varð til í Sheffield upp úr fyrri heimsstyrjöldinni. Vorið áður höfðu þeir lent í rifrildi við mann að nafni William Plommer og endað á því að drepa hann. Þeir sendu því bréfið til Franks úr fangaklefanum á Armley fangelsinu. 2. september 1925 skoraði Frank Barson fyrsta markið í 3-0 sigri United á hans gamla liði Aston Villa í öðrum leik tímabilsins. Þá sömu viku voru Fowler bræður hengdir fyrir glæpi sína. Frank skammaðist sín aldrei fyrir að telja þá sem vini sína.
Fyrsta tímabilið í 1. deildinni gekk bara ágætlega. United hélt sig um miðja deild og náði örugglega að halda sér uppi. Í bikarnum gekk hins vegar betur og United sigraði Ports Vale, Tottenham, Sunderland og Fulham til að komast alla leið í undanúrslitin. Frank sá þarna tilvalið tækifæri til að komast aftur í úrslitaleik bikarsins 6 árum eftir að hann varð bikarmeistari. Ekki skemmdi fyrir að mótherjar United í undanúrslitum voru nágrannarnir í Manchester City, þá var alltaf gaman að vinna. Gríðarmikil spenna byggðist upp fyrir leikinn, sem fram fór 27. mars 1926 á Bramall Lane vellinum í Sheffield, heimabæ Barson. United þótti líka líklegri til sigurs, City gekk ekki eins vel í 1. deild og átti eftir að falla þá um vorið. En leikurinn fór ekki vel fyrir United, Manchester City skoraði 3 mörk sem United náði ekki að svara. Auk þess kom upp atvik í leiknum þar sem Sam Cowan, fyrirliði Manchester City, rotaðist eftir samskipti við United. Bar sjónarvottum ekki saman um hvað hefði gerst, sumir vildu meina að Barson hefði kýlt Cowan en aðrir sögðu að um harða, en heiðarlega, tæklingu hefði verið að ræða. Í kjölfarið fór fram rannsókn hjá enska knattspyrnusambandinu sem endaði á að dæma Frank í tveggja mánaða bann. Þetta er talið fyrsta tilfellið þar sem leikmaður er dæmdur eftir á til refsingar fyrir eitthvað sem honum var ekki refsað fyrir í leiknum. Vildu margir meina að þarna hefði meira verið dæmt út frá orðspori en sönnunargögnum.
Þarna var aldurinn farinn að færast yfir kappann auk þess sem meiðslin tóku sinn toll. Frank hafði alltaf gefið sig allan í hvern leik og hent sér í hverja þá tæklingu sem þurfti. Hann lék alla tíð sem miðvörður eða varnarsinnaður miðjumaður, þar sem hann var þar var barátta. Þegar hann kom til United hafði hann nefbrotnað 4 sinnum. Bakmeiðslin voru orðin að alvarlegum meiðslum á mænu sem háðu honum mikið. Lappirnar þurftu að þola mikið, bæði frá Frank sjálfum og ekki síður frá andstæðingunum. En ef hann gat einhvern veginn tjaslað sér saman til að komast á völlinn, þá gaf hann alltaf allt í verkefnið.
Tímabilið 1926-27 náði hann að spila 24 leiki í deild og bikar og skora í þeim 2 mörk. Liðið endaði í 15. sæti deildarinnar. Tímabilið eftir það urðu leikirnir aðeins 11. Líkaminn var farinn. En hann var áfram mikill leiðtogi. Jafnt innan vallar sem utan var hann sífellt að leiðbeina yngri leikmönnum og kenna þeim á fótboltann og lífið.
Í mars árið 1928 spilaði hann sinn síðasta leik fyrir United. Það var í tapleik gegn Pourtsmouth. Hann reyndi eins og hann gat að hvetja sína menn til dáða og keyra þá áfram en þegar hann nefbrotnaði, í fimmta sinn á ferlinum, gat hann ekki haldið áfram lengur. Hann fylgdist með af hliðarlínuni þar sem strákarnir hans kláruðu tímabilið með því að enda í 18. sæti, 1 stigi frá fallliði Tottenham. Í kjölfarið fór Frank til Watford, sem þá spilaði í þriðju deildinni. Þar spilaði hann 10 leiki en var þá dæmdur í 7 mánaða bann af enska knattspyrnusambandinu. Aftur fannst mörgum sem verið væri að dæma mestmegnis út frá orðsporinu. Hann spilaði ekki meira með Watford eftir það. Hann spilaði með nokkrum liðum og endaði svo ferilinn hjá Wigan. Í lokaleik sínum, á annan dag jóla 1930, var hann rekinn af velli á 83. mínútu, að sögn fyrir að stökkva á mótherja sinn.
Frank Barson var harðjaxl. Hann var leikmaður sem myndu láta Roy Keane og Vinnie Jones líta út eins og kórdrengi, hvað þá leikmenn nútímans. Tæklingar hans voru víðfrægar, fengu viðurnefnið The Barson Barge, og þá vildi enginn fá hann í öxl í öxl baráttu. Hann var nautsterkur og gat notað öxlina til að senda menn fljúgandi.
En hann var svo miklu meira en harðjaxl. Hann var leiðtogi og líklega einn besti fyrirliði sem United hefur haft. Eitt af því sem hann innleiddi hjá félaginu var að gefa allt í botn þegar leikur var að klárast og United þurfti mark. Þegar á þurfti að halda öskraði fyrirliðinn „Now then, let’s have a Barnsley Rally!“ Allir vissu hvað það þýddi, nú skyldi farið í stríð. Leikmenn hlupu meira, spörkuðu meira og bara það að heyra þetta skaut andstæðingnum skelk í bringu. Oftar en ekki virkaði þetta líka álíka vel og hjá Ferguson mörgum árum síðar.
Frank Barson var líka hæfileikaríkur leikmaður. Hann hafði útsjónarsemi í sendingum og kunni að dreifa spili. Hann var líka einstaklega góður skallamaður. Þegar andstæðingarnir áttu hornspyrnur vílaði hann ekki fyrir sér að senda hárnákvæma skallasendingu aftur á markvörðinn sinn jafnvel þótt teigurinn væri fullur af leikmönnum. Þegar hann þurfti að hreinsa með sköllum þá gat hann gefið nákvæmar sendingar á hvorn kantinn sem var úr teignum og hafið þannig álitlegar sóknir. Í leik með Aston Villa gegn Sheffield United skoraði hann skallamark af rúmlega 30 metra færi. Í öðrum leik, gegn Tottenham, bar hann boltann upp allan völlinn, endana á milli, með því að nota einungis höfuðið. Hann skallaði boltann 86 sinnum á leið sinni upp völlinn.
Hann var harður, hann var fær, hann var góður. Hann gerði aðra leikmenn í sínu liði betri og hann gerði stuðningsmenn annarra liða vitlausa. Honum fannst sjálfum hann ekki hafa staðið sig vel nema það væri púað hressilega á hann. Hann var helvítis legend!
Aukaefni:
Manchester United vinnur Fulham í bikarnum 1926:
Manchester United gerir 2-2 jafntefli við Tottenham í bikarnum ‘26:
Bikarleikurinn alræmdi gegn City:
Jólamynd dagsins
Jólamynd dagsins er Bad Santa. Af því það passar eitthvað svo vel.
Jólalag dagsins
Nafni Barson, Frank Sinatra, á jólalag dagsins. Christmas Waltz
Hanni says
Hressandi grein. Því miður aðeins 1% sem les hana til enda.