2011 útgáfan af David De Gea
Nú fer að hitna í kolunum. Jólin eru svo rétt handan við hornið að niðurtalningin er komin í eins stafa tölur. Þetta er orðið rosalegt! Það liggur við að maður sé farinn að finna hangikjötslyktina í loftinu og finna bragð af hamborgarhrygg og jólaöli.
Jólasveinarnir halda áfram að streyma til byggða. Að þessu sinni kom hinn eitursvali Þvörusleikir til byggða. Hvað er sagt um þann fella?
Sá fjórði, Þvörusleikir,
var fjarskalega mjór.
Og ósköp var hann glaður,
þegar eldabuskan fór.
Þá þaut hann eins og elding
og þvöruna greip,
og hélt með báðum höndum,
því hún var stundum sleip.
Snemma árs 2011 komu fréttir um að David De Gea væri ekki enn búinn að fá tilboð um nýjan samning við Atlético Madrid. Þar hafði hann verið frá því hann var 13 ára gamall, frá því sama ár og Ronaldo kom til Manchester United. Hann hafði spilað 35 leiki fyrir B lið Atlético og hafði svo unnið sér sæti í aðalliðinu 18 ára gamall, árið 2009. Hann hafði vakið mikla athygli með félaginu og með unglingaliðum Spánar, hann fékk meira að segja tilboð um að fara til Englands. Fyrst vildi QPR fá hann að láni og svo vildi Wigan kaupa hann. En ýmist sagði klúbburinn nei eða De Gea sjálfur.
Ári áður, í febrúar 2010, hafði De Gea skrifað undir nýjan samning. Samning sem tryggðu honum betri laun og gilti til ársins 2013. Hann endaði svo tímabilið á að vinna Evrópudeildina með liðinu með því að vinna Fulham 2-1. Á leiðinni í úrslitaleikinn hafði Atlético unnið viðureignirnar í 16-liða, 8-liða og undanúrslitum allar með því að vinna samanlagt 2-2 og fara áfram á útivallarmörkum. Liðið hélt þá bara alltaf hreinu á heimavelli og skoraði svo 1 eða 2 mörk á útivelli. Sporting, Valencia og Liverpool höfðu engin svör við þeirri taktík.
Í úrslitaleiknum var Atlético sterkara liðið en þurfti þó að treysta á vörslur frá De Gea á mikilvægum tímapunktum í leiknum. Á endanum skoraði Diego Forlán sigurmark spænska liðsins í framlengingu. Þessi sigur þýddi að haustið eftir spilaði liðið í ofurbikar UEFA þar sem það mætti Evrópumeisturunum í Inter Milan. Aftur vann Atlético, í þetta skiptið 2-0. De Gea varði meðal annars víti í þeim leik frá Milito í lok leiksins.
1. apríl 2011 voru aprílgöbbin sívinsælu á sínum stað. Morgunblaðið sagði að stórmerkilegar fornleifar hefðu komið upp með sanddælingum í Landeyjarhöfn. Jafnvel væri talið að þetta væri gullskipið Het Wapen van Amsterdam eða víkingaskip frá landnámsöld. Gripirnir merkilegu voru auglýstir til sýnis í Þjóðminjasafninu en aðeins þennan eina dag, wink wink. Í Fréttablaðinu kom frétt um að Úlfar Eysteinsson matreiðslumeistari myndi bjóða upp á sérstakan rétt í gamla söluturninum á Lækjatorgi í tilefni Hestadaga í Reykjavík. Þessi réttur átti að vera sérstaklega vel til þess fallinn að auka kynorku landsmanna en þar voru á ferðinni steikt tryppaeistu. Eistun væru steikt eftir kúnstarinnar reglum og svo skorin í hæfilega munnbita og borin fram með grænpiparsósu og káli. Og aðeins þennan eina dag að sjálfsögðu, nudge nudge.
Frá Spáni kom hins vegar frétt þennan dag sem var ekkert aprílgabb. Umboðsmaður De Gea á þeim tíma, Hector Rincon, staðfesti þá að Manchester United hefði haft samband og spurst fyrir um leikmanninn. Það þurfti reyndar ekki að koma mikið á óvart, það höfðu gengið ýmsar sögusagnir um áhuga United á De Gea allt frá því í janúar 2010. Þær komust svo verulega á flug þegar fréttir voru fluttar af því í september 2010 að Ferguson hefði misst af deildarbikarleik gegn Scunthorpe til að geta flogið til Spánar og horft á leik með De Gea. Þarna var svo áhuginn staðfestur.
13. apríl staðfesti svo Gil Marín, stjórnarformaður Atlético Madrid, að félagði hefði fengið tilboð bæði frá Manchester United og Chelsea í markmanninn efnilega. Miðað við hvernig hann orðaði það þá mátti skilja að félögðin hefðu ekki boðið klásúluupphæðina í De Gea, sú upphæð var á þeim tíma 25 milljón evrur, eða 22,5 milljón pund. Marín sagði einnig að De Gea hefði sömuleiðis verið boðinn nýr samningur frá Atlético og að þeir vildu gjarnan halda markmanninum. 18. apríl birtist frétt um að Martin Ferguson, bróðir Sir Alex og njósnari hjá United, hafi skroppið yfir til Spánar til að fylgjast með leik Atlético Madrid og Espanyol daginn áður. Sá leikur endaði 2-2.
Um miðjan maí staðfesti David Gill að United vildi fá De Gea. Hann sagði að þeir hefðu vitað í nokkurn tíma að van der Sar væri að hætta og nýtt tímann vel til að skoða þá markmenn sem komu til greina. Að vandlega íhuguðu máli væri De Gea rétti markmaðurinn fyrir liðið. Nokkrum dögum síðar kom Ferguson í fjölmiðla og sagði að United hefði náð samkomulagi um kaup á De Gea. Hann sagði við það tækifæri að þeir hefðu ákveðið fyrir löngu að hann væri markmaðurinn sem þeir ætluðu að fá til að fylla skarð Edwin van der Sar. Hann hefði marga sömu kosti og Hollendingurinn.
De Gea kláraði tímabilið með Atlético sem endaði í 7. sæti deildarinnar. Eftir það fór hann með U21 liði Spánar á Evrópumót U21 liða í Danmörku. Þar sem Spánverjar voru í sama styrkleikaflokki á mótinu og Íslendingar slapp hann við að þurfa að mæta þeim. Hann hefur líklega verið feginn því. En Spánverjar unnu sinn riðil og fóru á endanum alla leið í úrslitaleikinn. Þar mættu þeir Svisslendingum þann 25. júní. Svissneska liðið var ekki amalegt á þessu móti, þeir höfðu unnið leikina sína í riðlinum 1-0, 2-0 og 3-0 áður en þeir unnu Tékkana 1-0 (eftir framlengingu) í undanúrslitum. Þeir áttu því enn eftir að fá á sig mark. Þeir höfðu hins vegar skorað í öllum leikjunum til þess. Það átt þó bæði eftir að breytast í þessum leik. Spánverjarnir unnu leikinn 2-0 með mörkum frá Ander Herrera og Thiago og urðu þar með Evrópumeistarar U21. De Gea toppaði gott mót á því að vera valinn í 23 manna úrvalshóp mótsins. Þar var hann með leikmönnum eins og Chris Smalling, Ander Herrera, Juan Mata og Kolbeini Sigþórssyni.
Tveimur dögum síðar var De Gea mættur til Manchester. Þar var tekið vel á móti honum og hann vafinn í lak á leið sinni í læknisskoðun. Ef til vill átti það að koma í veg fyrir að hann þekktist, hafi það verið tilgangurinn þá mistókst það rækilega. Varla hefur það verið til að verja Spánverja frá sólinni en maður veit svosem aldrei. Hann stóðst læknisskoðunina með glans og skrifaði undir samning við United 29. júní.
Stuðningsmenn United voru flestir nokkuð spenntir fyrir þessum unga Spánverja. Það var margt jákvætt við hann, hann var með hina þokkalegustu tölfræði fyrir félag og U21 liðið, hafði þegar náð að vinna sér inn aðalmarkmannsstöðuna hjá fínu félagi þrátt fyrir ungan aldur og hafði átt sinn þátt í að vinna ýmislegt, bæði leiki og titla. Sumir voru þó neikvæðari, fannst til dæmis að United hefði frekar átt að kaupa Manuel Neuer, sem fór frá Schalke til Bayern þetta sama sumar. Einstaka stuðningsmaður hefur enn ekki fyrirgefið United það að hafa ekki elt meira markmann sem aldrei var að fara neitt annað en til Bayern Munchen.
Því var þó ekki að neita að De Gea bar það vel með sér að vera ungur þegar hann kom til United. Hávaxinn mjög en á þeim tíma bæði slánalegur og grannur. Fjarskalega mjór, einmitt eins og Þvörusleikir.
Þarna var hann, dýr en ungur markmaður. Hávaxinn en mjór. Kominn til Englandsmeistaranna í Manchester United. Átti þar að fylla í hanskana hans Edwin van der Sar, eins besta markmanns sem Evrópuboltinn hefur séð. Fjölmiðlar voru tilbúnir til að sjá hann falla á því prófi. Eða öllu heldur, þeir voru tilbúnir að sjá Ferguson og United falla á því prófi að finna næsta markmann félagsins. Það hafði svosem gerst áður, tímabilin eftir að Schmeichel hætti og áður en van der Sar kom til liðsins voru æði skrautleg í þessari deildinni.
Byrjunin var líka blendin. Leikur um samfélagsskjöldinn gegn Manchester City. Margir vildu kenna De Gea um bæði mörk City. En United vann þó, aldrei leiðinlegt að vinna medalíur og svona, sérstaklega í sínum fyrsta leik hjá United. Fyrsti deildarleikurinn var svipuð saga. United mætti WBA, De Gea fékk á sig klaufalegt mark frá Shane Long og lenti í töluverðu basli með baráttuna inní teignum en United endaði þó á að vinna leikinn. Seinna í sama mánuði sýndi þó De Gea úr hverju hann var gerður þegar hann varði víti frá Van Persie í 8-2 sigri á Arsenal. Hann átti auk þess aðra stórkostlega markvörslu í leiknum frá Van Persie en neikvæðnisraddirnar tuðuðu þó um að mark Walcott í leiknum skrifaðist á De Gea.
Októbermánuður var viðburðarríkur hjá kallinum. Í byrjun mánaðarins þurfti hann að svara þeim ásökunum að hann hefði verið að ræna sér kleinuhringjum úr Tescobúð í Manchester. Það er reyndar ansi jólasveinalegt, að stökkva inn í búð og ræna sér kleinuhring. De Gea sagði að um einfaldan misskilning hefði verið að ræða, hann hefði mætt í búðina svangur, nartað í kleinuhring á staðnum og uppgötvað svo að hann hefði gleymt veskinu sínu í bílnum. Þegar hann ætlaði að skutlast eftir því hélt starfsfólkið að hann ætlaði að stinga af án þess að borga öll heilu 1,19 pundin sem hringurinn kostaði og því var öryggisvörður kallaður til. De Gea talaði litla ensku og því varð málið fyrirferðarmeira en það hefði þurft að vera en leystist þó farsællega á endanum. Samherjar De Gea hjá United sáu sér leik á borði og færðu honum kleinuhringjakassa að gjöf á æfingu. Kannski hefur þeim bara fundist hann vera of mjór og viljað hjálpa til. 15. október mætti United svo Liverpool á Anfield. Þar reyndi heldur betur á De Gea en hann stóð sig glimrandi vel og varði markið hvað eftir annað þegar liðin gerðu 1-1 jafntefli. Eftir á fékk hann meira að segja hrós frá Kenny Dalglish, sjóra Liverpool
Desembermánuður var hins vegar verri fyrir Þvörusleikinn De Gea. 7. desember mætti United til Sviss og keppti þar við Basel í riðlakeppni meistaradeildarinnar. Eftir að hafa einungis náð að sigra neðsta lið riðilsins og gert 3 jafntefli við hin 2 liðin var staðan þannig að United var einu stigi fyrir ofan Basel. Jafntefli myndi duga United til að komast upp úr riðlinum, til að sigra riðilinn þyrfti United líklega að vinna Basel. Strax á 9. mínútu skoraði Basel. Þá átti Shaqiri fasta fyrirgjöf inn í teig United frá vinstri, De Gea varði fyrirgjöfina í burtu með löppinni en beint á Marco Streller utar í teignum sem skoraði úr frákastinu. Enn kviknaði duglega í neikvæðniskórnum sem vildi kenna De Gea um allt sem miður fór. Ekki skánaði það þegar United endaði á að tapa leiknum og falla þar með úr leik í meistaradeildinni. Liðið sem hafði farið í 3 úrslitaleiki á síðustu 4 tímabilum á undan komst núna ekki einu sinni upp úr riðlinum.
United spilaði leiki við Fulham og Wigan sitt hvoru megin við jólin og vann báða leikina 5-0. Það var sannkallað jólastuð í gangi. En De Gea spilaði hvorugan leikinn. Ferguson hafði ákveðið að taka hann úr liðinu fyrir hinn danska Lindegaard.
Síðasti leikur United árið 2011 kom á gamlársdag, 31. desember. Hann var gegn Blackburn Rovers. Þá var De Gea kominn aftur í markið. En þetta var strembinn leikur. De Gea ekki vanur því að þurfa að spila deildarleiki á þessum tíma, var vanari því að vera bara í solid og góðu jólafríi heima að borða taco. Þarna þurfti hann allt í einu að standa í markinu í ensku deildinni í skítakulda í Manchester gegn Blackburn liði sem virtist hafa það að markmiði að keyra menn niður alltaf þegar boltinn kæmi fljúgandi inn í teiginn. Blackburn komst í 2-0 með tveimur mörkum frá Yakubu. Seinna markið var eftir klaufaskap í vörninni en sumum fannst samt endilega að það væri hægt að kenna De Gea um að hafa ekki varið skot einn á móti sóknarmanni. Berbatov jafnaði leikinn á 10 mínútum strax í kjölfar seinna marks Yakubu. En í lokin kom sigurmark Blackburn eftir mark frá Grant Hanley. Þá fór De Gea út í boltann eftir hornspyrnu frá Blackburn. En hann komst lítið áleiðis gegn stærri leikmönnum fyrir framan sig. Hann reyndi að kýla boltann en hann var sleipur eins og þvara og skaust rétt svo áfram til Hanley sem náði að koma honum í markið.
Þar með kláraðist árið 2011 hjá David De Gea. Þetta viðburðarríka ár var uppfullt af hæðum og lægðum. Hann hafði unnið ýmislegt og sannað sig á ýmsum sviðum en á þessu stærsta sviði hans ferils átti hann enn eftir að sanna sig. Hann fékk þó strax stuðning á bak við sig frá flestum aðdáendum United, það var líka flestum augljóst að hann var efnilegur. Enda átti það líka eftir að koma í ljós á næstu árum. De Gea byggði sig upp, massaði sig verulega og hélt áfram að þróa það sem höfðu alltaf verið hans styrkleikar í bland við að vinna á sínum veikleikum. Enda hefur það skilað sér í það sem hann er núna, einn af 2 bestu markmönnum heims og mögulega sá besti.
Ekki amalegt fyrir Þvörusleiki.
Aukaefni
Myndband frá 2011 sem sýnir De Gea hjá Atlético:
Myndband frá desember 2011 sem sýnir fyrstu mánuðina hjá United auk brota frá Spáni líka:
Samfélagsskjöldurinn 2011, United vs. City:
Manchester United – Blackburn á gamlársdag 2011:
Jólamynd dagsins
David De Gea hefur oftar en ekki verið líkt við karaktera úr verkum Dr. Seuss. Það er því bara viðeigandi að jólamynd dagsins sé Dr. Seuss’ How the Grinch Stole Christmas frá árinu 2000.
Jólalag dagsins
Jólalag dagsins kom út 20 árum áður en De Gea fæddist. Árið 1970 kom út líklega vinsælasta jólalag á spænsku, Feliz Navidad eftir Jose Feliciano frá Púertó Ríkó. Það er hresst og það er jólalag dagsins.
https://www.youtube.com/watch?v=PM70hBp2Fjk
Hannes says
Einn af mínum uppáhaldsleikjum þegar við tókum City 2-3 eftir að vera 2-0 undir í hálfleik. Þarna vissi maður þegar Smalling minnkaði muninn að þeir væru alltaf að fara jafna, öðruvísi tímar núna.