Joe Jordan
Nú er ekki nema vika til jóla. Það er ekki mikið. En samt er það eitthvað svo langt, þegar beðið er eftir jólunum. Jólasveinninn að þessu sinni er hinn harðskeytti Askasleikir.
Sá sjötti Askasleikir,
var alveg dæmalaus.
Hann fram undan rúmunum
rak sinn ljóta haus.
Þegar fólkið setti askana
fyrir kött og hund,
hann slunginn var að ná þeim
og sleikja á ýmsa lund.
Á þessum degi fyrir 38 árum, 17. desember 1978, mætti Manchester United nýliðum Nottingham Forest á heimavelli. Liðin höfðu mæst rúmum mánuði áður á heimavelli og þá fóru Forestmenn með sigur af hólmi. United ætlaði ekki að láta það gerast aftur og hugði á hefndir. Í liðinu þann daginn spiluðu meðal annarra bræðurnir Jimmy og Brian Greenhoff. Brian varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 22. mínútu og bræðurnir náðu ekki að koma í veg fyrir öruggan sigur Nottingham Forest. Lokatölurnar urðu 4-0 fyrir gestina. Á þessum tíma var Brian Clough að stýra Nottingham Forest og bæði honum og liðsmönnum var sléttsama um það að þeir væru nýliðar í efstu deildinni. Forest var í efsta sæti á þessum tíma í deildinni og einnig þegar tímabilinu lauk í maí. Í raun hafði liðið þegar tryggt sér titilinn í apríl þegar 4 leikir voru eftir af tímabilinu.
Það var þó eitt sem þeir áttu sameiginlegt, Brian Clough og Greenhoff bræðurnir. Það var knattspyrnufélagið Leeds United. Clough tók við Leeds í júlí 1974. Það kom mörgum á óvart því áður hafði Clough farið afar ófögrum orðum um leikstíl Leeds, kallað þá lágkúrulega svindlara og sagt opinberlega að það ætti að dæma Leeds niður í 2. deild í refsingarskyni fyrir öll gulu og rauðu spjöldin sem liðið safnaði. Hann var því ekki beint vinsælasti maðurinn sem hefði getað mætt á æfingasvæðið hjá Leeds. Ekki batnaði það þegar hann sagði leikmönnum á einni af fyrstu æfingum sínum að þeir gætu hent medalíunum sínum í ruslið því þeir hefðu ekki unnið þær á sanngjarnan máta. Þáverandi deildarmeisturum Leeds fannst skiljanlega ekkert alltof skemmtilegt að heyra þetta. Það kom því minna á óvart þegar Clough entist ekki lengi sem stjóri hjá liðinu. Það var þó óvanalega stuttur tími því hann stýrði þeim aðeins í 44 daga, náði aðeins 6 leikjum. Hann var rekinn 12. september 1974 eftir að hafa aðeins náð í 1 sigur í þessum 6 leikjum og liðið í 19. sæti.
Jimmy Greenhoff hafði spilað fyrir Leeds áður en þetta gerðist, hann spilaði fyrir liðið á árunum 1963-68. Eftir það fór hann til Birmingham og Stoke og svo til Manchester United árið 1976. Þar hitti hann fyrir yngri bróður sinn, Brian. Brian hafði gengið til liðs við unglingaakademíu United árið sem Jimmy fór frá Leeds og fékk svo sitt fyrsta tækifæri með United árið 1970. Hann var hjá liðinu til 1979 en hélt þá yfir til Leeds United þar sem hann spilaði í 3 ár.
Það vill svo til að Leeds United var einnig að spila þennan dag fyrir 38 árum síðan. Þeir mættu Manchester City á heimavelli sínum, Elland Road. Þeir lentu ekki í sömu vandræðum og Manchester United, enda City ekki í efsta sæti deildarinnar heldur því 8. fyrir leikinn. Leeds skoraði 2 mörk rétt í lok hvors hálfleiks fyrir sig. Fyrst Gordon McQueen og svo Trevor Cherry. Eftir umferð þess dags var Manchester United í 14. sæti (þó með leik til góða sem gæti fært liðið upp um eitt sæti) en Leeds var með 7 stigum meira en United, í 6. sætinu.
Hjá Manchester United leist mönnum ekki alveg á blikuna. Það gekk ekki nógu vel fyrir þeirra smekk og þeir leituðu nú að einhverjum góðum til að bæta við í hópinn, einhverjum sem gætu hjálpað liðinu að komast á sigurbrautina. Þeir veltu þessu fyrir sér yfir jólin og ákváðu svo að þeir þurftu einhverja góða blöndu af hæfileikum, baráttu og hörku. Það lá því beint við að kíkja á hvað var í gangi hjá Leeds liðinu. Í kjölfarið kom framherjinn Joe Jordan til liðsins 4. janúar 1978 fyrir 350.000 pund.
Joseph „Joe“ Jordan fæddist í Cleland, Skotlandi (ekki langt frá Motherwell) 15. desember 1951. Hann hóf sinn knattspyrnuferil með skoska liðinu Greenock Morton í Greenock. Árið 1970 fór hann til Leeds fyrir 15.000 pund. Þar varð hann hluti af því sem var kallað „skoska mafían“ hjá Leeds þegar 6 skoskir leikmenn voru áberandi hjá Leeds liðinu. Hann vann sér fast sæti í liðinu og fékk það orð á sér að vera gríðarlega hættulegur sóknarmaður, bæði fastur fyrir og mikill baráttuhundur en einnig flinkur og góður skallamaður. Hann spilaði 8 tímabil hjá Leeds og á þeim tímabilum spilaði hann 223 leiki og skoraði í þeim 47 mörk. Hann varð deildarmeistari með liðinu 1974 og fékk silfur í Evrópukeppni meistaraliða 1975, Evrópukeppni bikarhafa 1973, góðgerðarskildinum 1974 auk þess sem liðið endaði einnig í 2. sæti deildarinnar árin 1971 og 1972. Þegar Joe kom til United hafði félagið aldrei greitt hærra verð fyrir leikmann. Hann toppaði þar með Ian Storey-Moore sem kom frá Nottingham Forest á 200.000 pund í mars 1972. En það entist reyndar ekki mjög lengi. Mánuði seinna kom Gordon McQueen til United, einnig frá Leeds. McQueen kom fyrir 495.000 pund. Það var ekki aðeins það mesta sem United hafði greitt fyrir leikmann á þeim tíma, það var það mesta sem enskt lið hafði greitt fyrir leikmann á þeim tíma.
Skotarnir voru ákveðnir í að bæta baráttuanda í liðið. En það gekk ekkert alltof vel til að byrja með hjá Joe. Fyrstu 11 leiki hans með United náði liðið ekki að vinna leik. En svo fylgdu 4 sigurleikir í röð. Í lok tímabilsins var liðið búið að koma sér upp í 10. sæti og Joe hafði skorað 3 mörk.
Joe var kominn með gælunafn á þessum tíma. Það var The Jaws, eftir hákarlinum fræga úr samnefndri bíómynd (og bók og þremur framhaldsmyndum). Viðurnefnið er ansi lýsandi fyrir karakter hans sem knattspyrnumanns. Hann var deadly, gat verið mjög árásárgjarn, hræddist engan og ekkert, ískaldur og yfirvegaður. Auk þess hafði hann mjög sérstakt útlit í knattspynuleikjum, sem einmitt var afleiðing af spilamennsku hans. Í byrjun 8. áratugarins hafði hann verið að spila æfingaleik með Leeds United. Verandi slétt sama um það hvort um æfingaleik væri að ræða eða ekki hélt hann bara áfram að spila eins og hann var vanur. Eitt af því sem gerði hann að hákarlinum var að hann réðst óhikað á hvaða bolta sem var, með öllum tiltækum ráðum. Vílaði ekki fyrir sér að henda hausnum í boltann ef það gat hugsanlega orðið að marki. Í þessum leik gerðist það að boltinn datt fyrir hóp leikmanna úr báðum liðum í týpísku boltaklafsi í teignum. Joe sá þarna tækifæri á hugsanlegu marki svo hann henti sér á boltann í tilraun til að reyna að skalla hann. Akkúrat á sama tíma fékk einhver annar leikmaður, annað hvort andstæðingur eða samherji, gætu þess vegna hafa verið fleiri en einn, þá hugdettu að sparka af krafti í lausan boltann. Ekki vildi þó betur til en svo að sparkið hitti akkúrat í andlitið á Joe sem missti við það efri framtennurnar. Hann fékk gervitennur en gat ekki notað þær í leikjum svo hann var ansi illvígur þegar hann var að spila, hálftannlaus. Útlitið jók orðspor hans til muna sem eins harðasta leikmannsins í boltanum. Þarna má segja að útlit og leikstíll hafi farið nokkuð vel saman.
Þarna eru líka strax komin líkindin við jólasveininn íslenska, Askasleiki. Jólasveinarnir þóttu ekki mannanna fríðastir til að byrja með svo það að sérstaklega þyrfti að taka fram að Askasleikir væri með ljótan haus hlýtur að þýða að hann hafi verið alveg áberandi ófrýnilegur. Ekki að ég vilji nú gera Joe Jordan það að kalla hann beinlínis ljótan, hann er enginn Iain Dowie, Dirk Kuyt eða Martin Keown. En hann var svakalega ófrýnilegur á velli, því getur varla nokkur neitað. Það hefur ekki verið árennilegt að þurfa að mæta honum og sjá hann koma hlaupandi á móti sér, tannlausan, og vita að það væri von á einhverju rosalegu. Alan Hansen spilaði í vörn Liverpool á þeim tíma og hann sagði að það hefði alltaf fylgt andvarp þegar varnarmennirnir lásu nafn Joe Jordan á leikskýrslunni.
Askasleikir rekur hausinn ljóta undan rúminu, þykir alveg dæmalaus. Þar er auðvelt að sjá líkindin við Joe, leikmann sem var dæmalaus á sínu sviði og átti það til að poppa upp á óvæntum stöðum. Oftar en ekki endaði það líka með marki frá hákarlinum. Jólasveinninn var slunginn að ná askana áður en hundarnir og kettirnir náðu þeim. Það er bara einföld knattspyrnumyndlíking. Hundarnir og kettirnir eru varnarmenn og markmenn andstæðingana, askurinn er boltinn sem Joe var svo slunginn að ná og hann gerði sér auðvitað mat úr því.
Joe náði því miður ekki að vinna neina titla með Manchester United. Hann komst nálægt því þegar liðið fór alla leið í úrslit enska bikarsins árið 1979. Joe hafði skoraði 2 mörk á leið United í úrslitin. Þar mættust United og Arsenal á Wembley fyrir framan 99.219 áhorfendur. Arsenal byrjaði vel og komst í 2-0 strax í fyrri hálfleik með mörkum frá Brian Talbot og Frank Stapleton. Arsenal virtist ætla að sigla þessu nokkuð öruggu í land, í 85 mínútur var lítið að frétta í leiknum. En á 86. og 88. mínútu skoraði United tvö mörk og jafnaði leikinn. Mörkin skoruðu Skotinn Gordon McQueen og Norður-Írinn Sammy McIlroy. Allt í einu virtist leikurinn ætla beinustu leið í framlengingu. En, nei, það var eitt twist eftir enn í leiknum. Aðeins mínútu eftir að McIlroy jafnaði leikinn skoraði Alan Sunderland sigurmark Arsenal. Þessi úrslitaleikur hefur oft verið kallaður „Five-minute Final“ eða fimm mínútna leikurinn. Enda eru fimm mínútur alveg nóg fyrir flesta góða leiki, say no more…
Joe skoraði 10 mörk það tímabilið og spilaði 37 leiki. Í deildinni varð liðið í 9. sætinu. Tímabilið 1979-80 varð Joe svo markahæsti leikmaður liðsins með 13 mörk í 36 leikjum, öll í deildinni (spilaði 32 deildarleiki). Þá gekk ekki jafn vel í bikarleikjum en í deildinni gekk mun betur og endaði United í 2. sætinu, 2 stigum á eftir Liverpool.
Í janúar 1980 var United að keppa við Tottenham í bikarkeppninni. Til að byrja með gerðu liðin jafntefli á White Hart Lane 5. janúar, sá leikur endaði 1-1. Liðinu þurftu því að spila aftur 9. janúar, í það skiptið á Old Trafford. Í markinu hjá Tottenham var Milija Aleksic. Þeir Joe áttust oftar en ekki við þegar boltinn kom inn í teiginn, markvörðurinn keyrði þá af fullum þunga í skoska framherjann. Joe svaraði fyrir sig og keyrði á móti í markmanninn, þarna var barist af fullri hörku um alla bolta. Eftir ein slík viðskipti lá markvörðurinn eftir, kjálkinn bæði brotinn og úr lið. Þarna var góður hálftími eftir af leiknum. Tottenham átti skiptingu eftir en bara eina og var ekki með markmann á bekknum, ekki frekar en tíðkaðist á þessum tíma. Það varð því úr að miðjumaðurinn John Pratt kom inná fyrir Aleksic og Glen Hoddle fór í markið. Þar þurfti hann að standa út leikinn og svo einnig í framlenginguna sem fylgdi. Í henni skoraði Argentínumaðurinn Ossie Ardiles sigurmark Tottenham. Joe Jordan kláraði leikinn, fékk líklega ekki einu sinni áminningu fyrir samstuðið.
Tímabilið 1980-81 varð Joe aftur markahæsti leikmaður liðsins. Í þetta skipti skoraði hann 15 mörk í 33 deildarleikjum. En liðið náði ekki að byggja ofan á árangur fyrra tímabils og endaði að lokum í 8. sæti deildarinnar, árangurinn í bikarkeppnunum var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Eftir tímabilið var stjórinn Dave Sexton látinn fara og Ron Atkinson tók við. Um sumarið var Frank Stapleton svo keyptur. Joe fór líka frá félaginu það sumar og til Ítalíu. Þar var hann tvö tímabil með AC Milan, þar sem hann féll með félaginu fyrra tímabilið og hjálpaði liðinu að vinna B deildina seinna tímabilið. Svo tók hann eitt ti´mabil með Hellas Verona. Á Ítalíu var viðurnefni hans þýtt og staðfært í Lo Squalo. Hann sneri aftur til Englands og spilaði með Southampton og Bristol City áður en hann lagði skóna á hilluna. Þá spilaði hann líka 52 leiki með skoska landsliðinu og skoraði í þeim 11 mörk. Hann er eini skoski leikmaðurinn sem hefur náð að skora í þremur mismunandi heimsmeistaramótum, það gerði hann 1974, 1978 og 1982.
Það gengur reglulega um netið tilvitnun sem eignuð er Joe Jordan. Þegar hann var eitt sinn í viðtali að tala um tíma sinn hjá United var hann spurður að því hvort United félagið hann ætti nú við. Þá á hann að hafa svarað: „Which United? There’s only one United, Manchester United. And don’t you forget it!“
Eins skemmtileg og sú lína er þá er hægt að efast um sannleiksgildi hennar. Í það minnsta tókst mér ekki að finna heimildina. En ef einhver lumar á henni þá væri hún sannarlega velkomin.
Önnur góð tilvitnun er frá samherja Joe bæði hjá Leeds og United, Gordon McQueen. McQueen var lengur hjá United en vinur hans og samlandi Joe og náði að vinna medalíu þegar United vann enska bikarinn 1983. Þegar hann kom til United þá á hann að hafa sagt: „Ask all the players in the country which club they would like to play for and 99% would say ‘Manchester United’. The other 1% are liars.“
Aukaefni:
Syrpa með hákarlinum:
Fyrri leikurinn gegn Tottenham í bikarnum 1980:
Tottenham mætir svo á Old Trafford og hefur sigur:
Joe Jordan og Gattuso skiptast á skoðunum:
Jólamynd dagsins
Árið 1951 fæddist Joe Jordan. Þá kom einnig úr kvikmyndin Scrooge (gefin út sem A Christmas Carol í Bandaríkjunum) með Alastair Sim. Að margra mati er þetta besta útgáfan af þessu klassíska jólaævintýri eftir Charles Dickens. Þessa mynd má sjá í heild sinni á YouTube.
Jólalag dagsins
Rokkhljómsveitin The Killers hefur síðustu 10 ár gefið út jólalag á hverju ári. Í jólalaginu í ár njóta þeir hjálpar Richard Dreyfuss. Dreyfuss lék í kvikmyndinni The Jaws. The Jaws var viðurnefni Joe Jordan. Joe Jordan er jólasveinn dagsins. Svona tengist þetta allt saman!
Bjarni Ellertsson says
Ertu ekki að grínast, ég fæ gæsahúð, margir góðir leikmenn og karektarar hafa spilað með United í gegnum tíðina og Joe Jordan er sannarlega einn þeirra, hrikalega harður nagli og naut sín best þegar harkan var mest. Í dag eru fáir svona leikmenn til í nútíma bolta, sennilega D. Costa hjá Chelsea sá sem líkist honum mest. Annars frábær grein og það eru einmitt svona einstaklingar sem hafa lagt grunninn að þeirri stofnun sem United er í dag.
MTFBWY
Kjartan Ingi Jónsson says
Joe Jordan, gamli maðurinn sem „át“ skalla frá Gattuso. Það hefði verið flott að sjá þá tvo eigast við jafngamla.
https://www.youtube.com/watch?v=HKUnGoEwlUw
http://www.telegraph.co.uk/sport/football/teams/tottenham-hotspur/8328089/Joe-Jordan-Why-Gennaro-Gattuso-picked-the-wrong-man-to-headbutt-in-Champions-League-clash.html