Streð síðustu vikna ætti, ef allt er með felldu, að taka sér smá frí á morgun. Norwich sem vermir þriðja neðsta sæti kemur í heimsókn og ætti undir öllum venjulegum kringumstæðum að verða auðveld bráð, En það eru erfiðir tímar á Old Trafford og sjálfstraustið er ekki beinlínis í hæstu hæðum.
Tveir slæmir tapleikir í röð komu á eftir þremur andlausum jafnteflum og það er vandfundinn United stuðningsmaður sem er enn stuðningsmaður Louis van Gaal sem stjóra. Venjulega myndi brottrekstur stjóra eins helsta keppinautar United í gegnum tíðina hressa United við verulega, en nú er Chelsea svo langt á eftir að það skiptir litlu og að auki er stór hópur sem nú sér José Mourinho á lausu og hugsar sem svo að þarna sé gráupplagt tækifæri að gá betri stjóra. Það er þrátt fyrir að Mourinho er enn á ný að sanna að þriðja tímabil hans hjá félagi sé alltaf slys og aðrir gallar, svo sem bolti sem jafnast á við Louis van Gaal bolta í leiðindum og enginn stuðningur við unglingastarf o.fl. séu í mínum huga nóg til að vilja ekki sjá hann.
Allt þetta þýðir að leikurinn á morgun verður í mesta lagi stund milli stríða hjá Van Gaal og United, áður en við taka erfiðir leikir við Stoke og Chelsea, og í versta falli lokahöggið ef ekki vinnst þokkalegur sigur
Meiðslavandræði United eru frjarri því leyst og við gætum því enn á ný séð óreynda leikmenn í vörninni. Chris Smalling og Wayne Rooney hafa æft í vikunni og ættu að vera góðir fyrir morgundaginn, Herrera hefur sömuleiðis æft en verið lengra frá og því ekki líklegur í lið. Matteo Darmian verður lengur frá. Það verður í það minnsta mikil styrking í að fá Smalling inn ætti í það minnsta að tryggja öruggt jafntefli.
En jafnteflið er ekki nóg. United er nú þrem stigum á eftir City og fjórum á eftir Arsenal, en slagur þessara liða verður einmitt á mánudagskvöldið kemur. Sigur myndi því ekki einasta koma okkur í betra skap fyrir jólatörnina og halda United í toppsætunum, heldur einnig setja pressu á þessi lið fyrir þann leik. Topplið Leicester á svo enn eina þolraunina fyrir höndum, heimsækja Everton og þurfa enn á ný að sanna sig.
Ætli þetta verði þá ekki einhvern veginn svona
Ashley Young er víst hissa á að fá ekki tækifæri og ég er hissa líka, ef hann er heill heilsu, en skv Van Gaal er svo ekki.
Norwich er búið að tapa síðustu fjórum útileikjum sínum, en hafa að vísu gert jafntefli við Arsenal og Everton á heimavelli ef einhver vill fá ástæðu til að setja X á getraunaseðilinn á morgun. Það þarf ekki að fara mörgum orðum yfir lið þeirra, en þó má nefna að ein af hetjum Íra í undankeppni EM er þeirra skeinuhættastur þegar kemur upp að marki, með þrjú mörk og fjórar stoðsendingar, en þegar litið er á að Norwich hafa verið afskaplega latir við markaskorun og við vonumst eftir fleiri byrjunarliðsmönnum í vörn United en undanfarið þá leyfi ég mér að búast við að De Gea haldi hreinu.
Hins vegar er það svo að ef undan er skilið 6-2 tap fyrir Newcastle hefur Norwich ekki verið að fá á sig of mikið af mörkum og því verður spá mín fyrir leikinn 1-0. En öruggt 1-0!
Leikurinn er klukkan 3 á morgun, laugardag.
Skildu eftir svar