Stutta svarið er já, það stefnir allt í það.
Í gærkvöldi fóru stórir miðlar í Bretlandi út með sömu fréttina á sama tíma. Í henni sagði að Louis van Gaal hefði tvo leiki til þess að bjarga sér, tap gegn Stoke í næsta leik eða gegn Chelsea þar á eftir og dagar Louis van Gaal í stjórasæti Manchester United eru taldir.
Frétt Guardian: Van Gaal may have two games to save Manchester United job as Mourinho waits
Frétt Independent: Manager set for Christmas sack if Manchester United lose to Stoke or Chelsea
Efni fréttanna er það sama og það er alveg morgunljóst að einhver háttsettur innan United hefur lekið þessu til þeirra og þessum fregnum ætti að vera vel hægt að treysta. Starf Louis van Gaal er því í verulegri hættu og í raun virðist það nánast bara vera formsatriði að reka hann því að svona í alvöru talað, býst einhver við að United vinni Stoke á útivelli á annan í jólum?
Eflaust er þessi tveggja leikja gálgafrestur ekkert annað en átylla svo að félagið geti komið með hentuga og þægilega afsökun þegar þetta verður tilkynnt.
Hinar eiginlegu ástæður ættu þó að vera flestum stuðningsmönnum United ljósar:
- Liðið hefur tapað þremur leikjum í röð, þar á meðal gegn Watford og Bournemouth, auk þess sem liðið hefur ekki unnið leik síðan 21. nóvember
- Liðið komst ekki upp úr riðlakeppni Meistaradeildarinnar
- Liðið hefur aðeins unnið þrjá af síðustu 13 leikjum
- Leikmenn liðsins virðast hafa glatað trúnni á Van Gaal
- Hann sjálfur virðist meira að segja hafa glatað trúnni á sjálfum sér miðað við ummæli hans eftir síðasta leik
Og svo er það líklega það versta af öllu: Það er skemmtilegra að horfa á Alþingisrásina en að horfa á knattspyrnuleiki United. Það er svo sem hægt að þola það þegar úrslitin eru hagstæð eins og framan af tímabili en þegar spilamennskan er hrottaleg OG úrslitin falla ekki með liðinu er líklega fokið í flest skjól fyrir stjóra liðsins.
Louis van Gaal virðist því vera kominn á endastöð og miðað við fregnir undanfarna daga kæmi það manni mjög á óvart ef hann væri enn í starfi eftir áramót.
Hver tekur þá við?
Það er stóra spurningin. Valmöguleikarnir virðast vera tveir:
A) Pep Guardiola í sumar og einhver, líklega Giggs, klárar tímabilið
Að fá Pep Guardiola er líklega það sem flestir vilja. Það þarf ekkert að fjölyrða um hæfileika hans enda er hann gríðarlega eftirsóttur. Samkvæmt þessari grein Sid Lowe eru auk United, City, PSG og Chelsea öll á eftir honum til að taka við eftir að hann hættir með Bayern í sumar.
Blaðamenn ESPN héldu því fram að í síðustu viku hafi forráðamenn United set aukinn kraft í það að reyna að næla í Guardiola. Flestir virðast þó vera á því að hann sé á leið til City enda hafa þeir eytt miklu púðri undanfarin ár í að reyna að lokka hann þangað. Maður myndi þó halda að ef menn ætli sé að reka Louis van Gaal muni forráðamenn United reyna að næla í Pep.
Fregnir herma þó að þrátt fyrir að City sé á undan í eltingarleiknum sé saga og allt það sem United stendur fyrir heillandi fyrir Pep sem hefur aldrei unnið með lið eins og City sem er ekki fornfrægur knattspyrnurisi þrátt fyrir velgengni síðustu ár. Að auki hefur hann, bæði með Barca og Bayern, unnið með það sem Louis van Gaal hafði byggt upp á undan honum.
Vandamálið er auðvitað það að hann er ekki á lausu fyrr en sumar og einhver þyrfti þá að taka við þangað til. Líklegast yrði það Ryan Giggs en í raun gæti það nánast verið hver sem. Ég myndi sætta mig við Guðjón Þórðarsson svo lengi sem Pep tæki við í sumar. Hann myndi taka þetta United-lið upp á næsta stig og ef hann yrði ráðinn held ég að langflestir stuðningsmenn United myndu verða ánægðir frá degi eitt.
B) Jose Mourinho tekur við strax
Jose Mourinho er skyndilega á lausu og miðað við fregnir hefur hann áhuga á starfinu. Það vita það held ég flestir að hann þráði ekkert heitar en að verða eftirmaður Sir Alex Ferguson en Sir Bobby Charlton og félagar hans í stjórn United tóku það ekki í mál.
Í gegnum stjórnartíð Ed Woodward hefur hann reytt sig mjög á umboðsmann fótboltaheimsins, Jorge Mendes sem er auðvitað umboðsmaðurinn hans Mourinho. Það þarf ekkert að leggja tvo og tvo saman til þess að átta sig á því að þetta er langlíklesti kosturinn í stöðunni. Þetta er eiginlega svo einfalt að meira segja Woodward getur varla klúðrað þessu, hann þarf bara að hringja í vin sinn Mendes til þess að græja þetta.
Við þekkjum öll Mourinho, hans styrkleika og galla. Þarna er á ferðinni frábær stjóri sem nær allstaðar árangri áður en hann virðist sprengja allt saman upp. Hann er erfiður og stuðningsmannahópur United myndi held ég klofna ef hann yrði ráðinn. Það eru margir sem vilja fá hann en það eru margir sem vilja ekki sjá hann.
Ég persónulega er algjörlega á báðum áttum varðandi Mourinho en ég er þó ánægður með að hann eða Pep virðist vera einu kostirnir sem eru ræddir. Þetta eru tvær hæfileikaríkustu stjórarnir í knattspyrnunni í dag og við þurfum annan hvorn þeirra. Við höfðum kost á þeim sumarið 2013 en enduðum af ástæðum sem ég mun aldrei fyllilega átta mig á með David Moyes. Mistök af þeirri stærðargráðu mega ekki endurtaka sig.
Hvor?
Spurning er hvort að menn eigi að taka áhættuna og freista þess að ná í stóra vinninginn með því að næla í Pep en eiga þar af leiðandi á hættu á því að missa af Mourinho enda viðbúið að eltingaleikurinn við Pep taki einhverjar vikur. Mourinho bíður ekki endalaust og nennir eflaust ekki að díla við United ef hann veit að hann er kostur númer 2.
Mér þykir líklegast að Mourinho verði fyrir valinu miðað við Mendes-tenginguna sem ég minntist á áðan. Blaðamenn ESPN segja frá því í dag að forsvarsmenn United og umboðsmenn Mourinho hafi átt í viðræðum.
Hvað sem gerist virðist það í öllu falli vera ljóst að Louis van Gaal verður ekki stjóri Manchester United mikið lengur.
[poll id=“17″]
Atli says
Hvernig væri að henda í könnun með þessum tveim valkostum? Bara svona til að sjá hvar stuðningsmenn standa? :)
Orri says
Getum við ekki kvatt Lingard og félaga úr akademíunni ef Mourinho tekur við?
Mér er alveg sama hvort það verði Giggs eða LVG sem klárar tímabilið núna ef Pep tekur við í sumar.
Vill helst ekki sjá Mourinho en auðvitað mun maður styðja við manninn ef hann tekur við.
Tryggvi Páll says
Góð hugmynd, skelli könnun inn.
Haukur Guðmundsson says
en hvernig væri að ráða núna Mourinho og síða reka hann í sumar og þá ráða guardiola í staðinn??
Kristjans says
Verður fróðlegt að sjá hvað gerist á næstu dögum.
Velti fyrir mér nokkrum atriðum varðandi Guardiola og Mourinho.
Hvernig mun Guardiola vegna hjá liði sem þarf að fara í gegnum uppbyggingar- og breytingafasa?
Hefur almennilega reynt á hann sem stjóra? Hefur hann ekki haft það ansi þægilegt með Barcelona og Bayern, nánast á auto-pilot?
Eru ekki ákveðnir aðilar innan Utd sem vilja alls ekki fá Mourinho til félagsins? Fer ekki Bobby Charlton þar fremstur í flokki?
Ef Mourinho kemur í stað Van Gaal – hvað verður um Mata?
Og ef það á að skipta um stjóra – væri ekki ráð að fá annan mann til að sinna Woodward? Er Woodward er ekki stór hluti af því vandamáli sem félagið glímir við?
Skelfilegt að missa bæði Ferguson og Gill á sama tíma og fá Moyes og Woodward í staðinn…
Tryggvi Páll says
Blaðamennirnir tveir sem skrifuðu þessar fréttir sem ég vísaði í efst í greininni komu aftur með mjög keimlíkar fréttir í kvöld og aftur er efni þeirra nánast það sama.
Guardian: Manchester United consider José Mourinho but remain wary of his antics
Independent: Jose Mourinho waits to take charge at Manchester United as Louis van Gaal buys time with work behind scenes
Þeir segja að það sé vinna Louis van Gaal bak við tjöldin sem helst haldi honum enn í starfi og hann hafi í raun og veru næstu leiki til að bjarga sér.
Einnig segja þeir að United hafi fengið skilaboð frá tengiliðum Mourinho um að hann hafi áhuga á starfinu en þeir taka einnig fram að stjórn United hafi efasemdir um hann, aðallega vegna slæmrar hegðunar hans hjá öðrum liðum og þeirri staðreynd að hann sé ekki mikið í því að vinna með unglingastarfið.
Verði honum boðið starfið verði það gert með því skilyrði að hann hagi sér betur sem stjóri Manchester United og að hann komi ungum leikmönnum upp í liðið.
Miðað við þetta má ljóst vera að Louis van Gaal verður ekki rekinn fyrr en í fyrsta lagi eftir Stoke-leikinn en það verður mjög fróðlegt að sjá hvað gerist eftir þann leik fari hann illa.
Bjarki Georg Ævarsson says
Ég mun aldrei sætta mig við að fá Móra á Old Trafford. Hann er algjör andstæða við það sem United stendur fyrir. United stendur fyrir að spila fallega knattspyrnu með leikmönnum úr unglingastarfi… frekar mikil einföldun, en þið vitið öll hvað ég á við.
Ef Móri tekur við þá mun hann jú vinna leiki og mjög líklega einhverja titla…áður en hann sprengir allt upp einsog hann er vanur að gera. Og ef hann tekur við þá getum við alveg eins rekið alla úr U21 og U18 liðinu, því Móri mun aldrei nokkurn tímann nota þá.
Björn says
Sorrí en þetta meikar bara engan sens fyrir mér… LVG er búinn að gera allt sem hann sagðist ætla að gera, kom okkur aftur í meistaradeildina á fyrsta árinu sínu, síðan tók hann það skýrt fram að það yrðu líklegast engir bikarar í ár, þrátt fyrir það höfum við verið við toppinn á deildinni langstærstan hluta tímabils, og t.a.m slátrað liðum eins og Liverpool töluvert ólíkt því sem gerðist undir Moyes… Svo núna í fyrsta sinn kemur smá erfiður kafli, sem má kannski helst rekja til meiðsla og þá á bara að reka þjálfarann, af því að guð forði því að kannski séu vandamálin aðeins flóknari en þjálfarinn… Ókei kannski einhverjum sem finnst leiðinlegt að horfa á spilamennskuna (kvartaði reyndar enginn eftir góðu leikina)… En svo sér maður valkostina, Mourinho??? Bíddu kom hann ekki betri leikmannahóp en okkar í næstum því fallsæti, og það með því að spila ömurlega leiðinlegan fótbolta.
Ég skil það alveg að menn vilji Guardiola til United enda virðist hann vera lógískt val sem eftirmaður LVG, ekkert ósvipuð hugmyndafræði hjá þeim í grunninn…. En ætlið þið nú að fara að reka þjálfarann bara svo að kannski sé hægt að keppast um einhvern einn næsta sumar, og er þá ekki betra að leyfa LVG að klára þetta tímabil?
Endilega haldið áfram að væla og kvarta ef það hjálpar ykkur eitthvað, en þegar búið er að fara í gegnum tvo þjálfara eru þá ekki vandamálin einhver önnur en þeir?
sh says
„sem hefur aldrei unnið með lið eins og City sem er ekki fornfrægur knattspyrnurisi þrátt fyrir velgengni síðustu ár“. Það er ljóst hað Tryggvi þarf í endurmenntun eins og Þorgerður Katrín orðaði það svo kemmtilega.
óli says
Mér finnst orðinn hálfinnantómur frasi þetta að það springi allt í loft upp hjá Mourinho. Hann var hjá Porti í þrjú tímabil, skildi það félag eftir í ótrúlegti stöðu og fór af augljósum ástæðum – næsta skref. Hjá Chelsea bjó hann til svo gott lið að ég þoldi það ekki þrátt fyrir að Eiður Smári væri einn aðalmaðurinn. Það endaði með einhverju ‘mutual agreement’ dæmi sem má þakka Roman Abramovich fyrir. Hjá Inter er hann svo í guðatölu þegar hann fer. Hjá Real Madrid er árangurinn ekkert sérstakur, lái honum hver sem er að eiga ekki svar við Barcelona og Lionel Messi. Alex Ferguson ætti tvo Evrópubikara í viðbót ef ekki væri fyrir það veldi. Ég held svo að Mourinho hafi einfaldlega verið ringlaður eftir veru sína hjá Real, og gert stór mistök með því að fara í eitthvað sem hann var búinn að gera áður og endar núna með ósköpum og það virðist hreinlega allt vera rotið þar á bæ.
Mourinho er kominn yfir fimmtugt, búinn að vinna titla í fjórum löndum, og er kannski tilbúinn að setjast niður. Hann skilur hvað Manchester United stendur fyrir og ég er handviss um að stuðningsmennirnir myndu gjörsamlega elska manninn.
Siggi P says
Góð greining á United, Van Gaal og Guardiola í Monday night football í gær, byrjar ca 20:00 mín
http://youtu.be/R2L_hM910ZI
Van Gaal og Guardiola eru með mjög svipaða fílosofíu hvað varðar vörnina og mjög agaðan leik. Þar sem þeir gera öðru vísi er lokaparturinn upp við mark andstæðinganna. Ótrúlegt að sjá hvað allir eru niðurnjörfaðir þarna frammi og Martial fastur úti á kanti. Það skorar enginn þaðan! Þannig að grunnurinn að spili fyrir Guardiola er til staðar, eins og var hjá Barcelona og Beyern áður. Það þarf að leyfa leikmönnum að leika lausum hala í síðasta þriðjungnum á vellinum. Henry lýsir því hvernig þetta var hjá Barcelona og munurinn er sjokkerandi.
Er ekki viss að Mourinho henti United, eða United henti Mourinho. En eitthvað verður að gera.
Auðunn Atli says
Ég er alveg á báðum áttum að skipta Van Gaal út fyrir Móra.
Við þekkjum allir kosti og galla Móra og því óþarfi að telja það upp.
Ef það er einhver möguleiki að landa Guardiola næsta sumar þá myndi ég lofa Van Gaal að klára tímabilið.
Ef Guardiola er hinsvegar að fara að taka við City sem allt bendir til þá veit ég ekki alveg hvað er best að gera í stöðunni.
Það verður að segjast alveg eins og er að hugsunin um að hafa Guardiola og Móra sem stjóra í Manchester á sama tíma kítlar óneitanlega mjög mikið. Það gæti verið gaman að fylgjast með þeim ósköpum, myndi klárlega gefa þessu mikið boost.
Hvort Móra takist betur upp með núverandi Man.Utd lið en Gaal er ég ekki sannfærður um, leikmenn liðins þurfa líka að lýta í eigin barm, hætta að jarma í fjölmiðlum og fara að sýna eitthvað á vellinum.
Ég treysti Sir Alex að taka þessar ákvarðanir, ég er alveg viss um að hans skoðun og vilji í þessu verði það sem ræður á endanum.
Hann þekkir alveg stöðuna sem Gaal er í ásamt því að þekkja og vita bæði framtíðar stefnu Gaal og svo (sem er mjög mikilvægt) hvernig mórallinn er innan hópsins, treysta núverandi leikmann liðsins Gaal og vilja þeir að hann haldi áfram með liðið.
Þetta eru allt þættir sem við höfum ekki hugmynd um en eru gífurlega mikilvægir.
Liðinu gengur alls ekki vel en það er svo sem enginn heimsendir í gangi finnst mér.
Liðið er í mikilli lægð en samt bara 3 stigum á eftir City og 5 stigum á undan Liverpool sem dæmi.
EN næstu leikir eru mikilvægir og það er grátlegt að hafa ekki náð nema í tvö stig út úr síðustu 4 leikjum þar sem við höfum spilað gegn Leicester, West Ham, Bournemouth og Norwich.
Lið eins og United á að taka amk 10 stig út úr þessum leikjum.
Ég myndi gefa Gaal nokkra leiki í viðbót, er samt orðinn mjög pirraður á þessu getuleysi.