Alex Ferguson
Jólahátíðin er upphaflega sólstöðuhátíð. Eftir drungalegt haust og dimman vetur fagnaði fólk því að dagur tók að lengjast á ný með fyrirheit um aukna birtu og meiri hlýju. Afskaplega viðeigandi að gera það á þessum dimmasta tíma ársins með því að halda hátíð kennda við ljós og frið. Að taka frá tíma þegar kuldinn umlykur allt og lundin getur verið þyngri en vanalega í að koma saman með fjölskyldu og vinum og minna sig á það góða sem er nálægt. Gott fólk, góðar minningar, góður matur og góð hátíð. Það má einnig setja trúarlegt yfirbragð yfir hátíðina ef fólk vill það, ef trúin er jákvætt afl í lífi fólks þá er um að gera að fagna henni líka á jólunum.
Sólstöður er sú stund þegar sól fer lengst frá miðbaug himins til norðurs eða suðurs. Vetrarsólstöður er þannig sá tími þegar sólin er lengst frá okkur hér á norðurhveli. Þá er hún komin eins sunnarlega og hún fer, í kjölfarið fer hún að færast norðar sem þýðir að dagurinn byrjar að lengjast. Vetrarsólstöður eru oftast 21. desember hvert ár en geta einnig lent á 20. desember eða 22. desember. Í ár hitta sólstöður á þennan dag, 22. desember. Næsta ár er svo hlaupár og þar með rétta sólstöðurnar sig við og verða 21. desember á næsta ári. Nákvæmur tími á sólstöðunum er klukkan 4:48 þann 22. desember.
Þannig að þetta er allt í áttina núna. Á hverjum degi frá og með þessum og fram í júní fáum við sífellt meiri dagsbirtu á hverjum degi. Vissulega munar bara mínútum á hverjum degi en munurinn verður samt nokkuð greinanlegur frekar fljótt. Ef það er ekki flott tilefni til að halda góða hátíð þá veit ég ekki hvað.
Jólasveinninn sem færir okkur þessa gleði- og birtugjöf í þetta skiptið er Gáttaþefur. Gáttaþefur er mikið fyrir það sem vel ilmar. Hann kemur til byggða á degi sem stundum var kallaður „hlakkandi“, vegna þess að börnin voru byrjuð að hlakka svo mikið til jólanna. Enda bara tveir dagar til jóla. Tveir dagar sem gátu orðið ansi langdregnir.
Ellefti var Gáttaþefur
aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hlálegt
og heljarstórt nef.
Hann ilm af laufabrauði
upp á heiðar fann,
og léttur, eins og reykur,
á lyktina rann.
Gáttaþefur er með nef á heimsmælikvarða og alveg einstaklega lunkinn í að þefa upp sniðuga hluti. Hann er líka mikið fyrir það sem ilmar vel, sérstaklega laufabrauð og kökur. Stundum nægir það honum einfaldlega að finna góða lykt. Enda getur verið mikil nautn í góðri lykt. Nefið hans er ekki bara afspyrnu gott í því sem það á að gera heldur er það líka mjög áberandi, jafnvel svo sumum þykir hlægilegt. En honum gæti ekki verið meira sama, Gáttaþefur er ekki maður (eða jólasveinn) sem gefur mikið fyrir álit annarra á honum eða hans nefi. Þegar hann finnur réttu lyktina, veit hvað hann vill og getur sigtað út nákvæma staðsetningu með nefinu einu saman, þá rennur hann á það ákveðið og lætur ekkert stoppa sig. Lævís eins og reykur, óbundinn af flestu því sem bindur aðra við jörðina, hann getur svifið að takmarkinu.
Það er afskaplega viðeigandi að Alexander Chapman Ferguson, seinna Sir Alex Ferguson CBE, skuli hafa fæðst stuttu eftir vetrarsólstöður, á þessum tíma þegar fólk fær meiri von og upplifir þá tilfinningu að brátt komi betri tíð með blóm í haga. Hann kom í heiminn á heimili ömmu sinnar í Govan hverfinu í Glasgow þann 31. desember 1941. Hann átti nokkuð fínan feril sem knattspyrnumaður í Skotlandi en var snemma búinn að skipta yfir í knattspyrnustjóraferilinn. Þar varð hann fljótur að skapa sér nafn sem harðsnúinn og klár stjóri með nef fyrir góðum leikmönnum og áhrifaríkum þjálfunaraðferðum. Hann tók við Manchester United árið 1986 og tók félagið í ferðalag upp í hæstu hæðir. Bara það að telja upp það sem hann afrekaði að sigra með United tæki líklega heilan svona pistil.
Fyrir 25 árum síðan, 22. desember 1990, spilaði United síðasta leik sinn fyrir jól. Þetta var útileikur í deildinni, á leikvellinum Plough Lane og mótherjarnir voru Wimbledon. Það byrjaði ekkert alltof jólalega þegar framherjinn John Fashanu kom Wimbledon yfir á 22. mínútu. Þannig var staðan í hálfleik og Wimbledon barðist vel eins og þeir voru þekktir fyrir á þessum tíma. Baráttan hélt áfram í seinni hálfleik og United leitaði að jöfnunarmarkinu. Á 69. mínútu fékk United síðan vítaspyrnu. Upp steig vítaspyrnuskytta liðsins á þeim tíma, varnarjálkurinn Steve Bruce. Hann skoraði úr vítaspyrnunni og jafnaði leikinn. Rétt rúmlega 10 mínútum síðar kom Mark Hughes liðinu yfir og allt virtist stefna í góðan jólabónus. Það varð svo staðfest rúmelga mínútu fyrir leikslok þegar Steve Bruce skoraði úr annarri vítaspyrnu og tryggði United góðan 3-1 útisigur á Wimbledon. United fór þar með inn í jólin í 6. sæti deildarinnar með 29 stig eftir 18 leiki og markatöluna 26-21. Núna, árið 2015, fer United inn í jólin í 5. sæti deildarinnar með 29 stig eftir 17 leiki og markatöluna 22-14.
Ferguson hefur væntanlega verið ánægður með sína menn eftir þennan leik fyrir 25 árum síðan. Í það minnsta með úrslitin. Ferguson vissi allan sinn stjóraferil að jólatörnin er tíminn sem getur skipt sköpum fyrir framhaldið í deildinni. Þegar svo knappt er leikið gefst tilvalið tækifæri til að byggja á stuttum tíma upp gott mómentum á meðan lið sem ekki höndla þennan annasama kafla á tímabilinu geta lent í alls konar vandræðum á seinni hluta tímabils. Það er auðvelt að missa sjálfstraustið sem unnið hafði verið upp á fyrri hlutanum og svo eiga leikmenn til að meiðast þegar leikjaálagið er jafn mikið og á þessum dögum.
En hann hefur líklega einnig verið farinn að huga að jólunum. Vissulega var framundan leikur gegn Norwich City á Old Trafford á annan í jólum en fyrst var nú alveg hægt að leyfa sér eitthvað. Jólasteikin var rétt handan við hornið og það var ekki úr vegi að íhuga vel og vandlega hvað skyldi drukkið með steikinni. Kannski skipti hann það engu máli, kannski lét hann bara einhvern annan sjá um að velja drykkina eða greip eitthvað með sér úr næstu búð, kippu af öli eða fernu af víni. Á þessum tíma fannst honum eflaust gott að fá sér góðan drykk en hann var enginn vínsérfræðingur. En það átti nú allt eftir að breytast.
Þetta ár hafði Manchester United unnið enska bikarinn, eftir að hafa unnið Crystal Palace í úrslitum. Tvo leiki þurfti til að ná fram úrslitum þar sem fyrri leikurinn endaði 3-3 eftir framlengingu. Seinni leikurinn endaði 1-0 fyrir United. Það þýddi að United fór í Evrópukeppni bikarhafa tímabilið 1990-91. Þegar komið var að jólum hafði United spilað 4 leiki í keppninni og unnið þá alla. Í 1. umferð mætti United ungverska liðinu Pécsi Munkás (sem þarna var ungverskur bikarmeistari, í eina skiptið í sögu félagsins). Fyrri leikurinn fór fram á Old Trafford og endaði 2-0 fyrir United. Seinni leikurinn fór fram í Pécs, fimmtu stærstu borg Ungverjalands, og þann leik vann United 1-0.
Í 2. umferð dróst United gegn velsku bikarmeisturunum í Wrexham. Aftur fór fyrri leikurinn fram á Old Trafford og í þetta skipti vann United leikinn 3-0. Seinni leikurinn var spilaður á Racecourse Ground vellinum í Wrexham. Völlurinn er í heimsmetabók Guinness sem elsti völlurinn í heiminum sem enn er notaður fyrir landsleiki, fyrsti landsleikurinn sem var spilaður á vellinum fór fram árið 1877. United mætti í stuði á þennan völl og vann 2-0 sigur. Um jólin var liðið því komið í 8-liða úrslit í keppninni eftir að hafa unnið 4 leiki með markatöluna 8-0.
Í 8-liða úrslitum fékk United franskt lið, Montpellier, og enn fór fyrsti leikurinn fram á Old Trafford. Sá var spilaður 6. mars 1991. Strax á fyrstu mínútu leiksins skoraði Brian McClair og þetta virtist ætla að verða meira af svipuðu. En Montpellier var með ansi seigt lið á þessum árum, leitt áfram af fyrirliðanum Laurent Blanc (sem enn í dag er markahæsti leikmaður í sögu félagsins) og þeir náðu að skora fyrsta markið sem United fékk á sig í þessari keppni á tímabilinu. Leikurinn endaði 1-1 og United átti eftir að fara til Frakklands. Seinni leikurinn var settur á 19. mars. Ferguson ákvað að nýta tímann og mæta snemma til Frakklands til að geta skoðað efnilega leikmenn í nágrenninu.
Þegar Ferguson var í Frakklandi gisti hann á ansi fínu hóteli. Framkvæmdastjóri hótelsins notaði tækifærið og kynnti Fergie fyrir heimi Bordeaux vína. Það opnaði augu Ferguson fyrir nýrri veröld sem hann hafði aldrei þekkt áður en fékk þegar í stað mikla ástríðu fyrir. Rauðvín. Hann var kominn á bragðið. Bókstaflega. Í kjölfarið hóf hann að safna flottum vínum og byggja sér upp veglegan vínkjallara. Þar kom sér líka vel að hafa gott nef, á fáum stöðum kemur það sér jafn vel og þegar meta þarf gott vín. Enda er vín ekki eitthvað sem maður þambar bara í sig. Það þarf að njóta með öllum skynfærum. Það þarf smekk, vit, þolinmæði og ástríðu í það að njóta bestu vínanna. Það er áhugamál sem hæfir Ferguson afskaplega vel.
Innblásinn af þessu glænýja áhugamáli, þessum nýja lífsstíl, stýrði Ferguson United til sigurs gegn Montpellier í seinni leiknum, lokastöður í honum var 2-0 fyrir United. Í undanúrslitum fór United til Póllands og vann Legia Warsaw 3-1. 1-1 jafntefli á heimavelli var því meira en nóg til að koma United í úrslitaleikinn í keppninni. Þar mætti United Barcelona (sem hafði á leið sinni í úrslitin meðal annars sigrað íslensku bikarmeistarana í Fram) og vann þann leik 2-1. Ekki ólíklegt að Ferguson hafi nýtt nýfengna sérfræðiþekkingu sína í fínum vínum til að velja eitthvað sérstaklega viðeigandi vín til að fagna þessum glæsta sigri, á fyrsta tímabili enskra liða aftur í Evrópukeppnum eftir bannið í kjölfar atburðanna á Heysel.
Eftir þetta jókst áhugi Ferguson á fínum vínum stöðugt og hann bætti reglulega í safnið sitt úrvalstegundum. Að hans sögn var vínáhuginn og söfnunin góð leið til að dreifa huganum og ná ákveðnu jafnvægi í lífinu á milli þess sem hann þurfti að eiga við álagið og kröfurnar sem hann fann fyrir í starfinu fyrir United. Þetta var streitulosandi og gott til að halda hausnum góðum.
Þetta varð líka að góðri leið til að eiga samskipti við aðra stjóra. Ferguson varð þekktur fyrir það að bjóða alltaf stjóra hins liðsins að deila með sér eðalvíni eftir leik, sama hversu miklir andstæðingar þeir voru þegar kom að fótboltanum. Aðrir stjórar voru farnir að gera slíkt hið sama, koma með góðar flöskur til að gefa Ferguson á móti. Ferguson var sérstaklega hrifinn af því þegar Roberto Mancini kom með Sassicaia vín, það þykir eitt fremsta Bordeaux vín sem framleitt er á Ítalíu og er mjög eftirsótt. Sömuleiðis þótti Ferguson mikið til Arsene Wenger koma þegar kom að því að velja góð vín fyrir þessi tilefni.
Eitt skipti mættust United og Chelsea í knattspyrnuleik og skiptust stjórarnir, Ferguson og Mourinho, á vínflöskum. Ferguson leist ekki alveg nógu vel á vínið frá Mourinho og hafði orð á því. Abramovich tók ekki í mál að skilja þannig við málin og brást við þessu með því að senda Ferguson heilan kassa af Tignanello víni. Tignanello er framleitt af Marchesi Antinori Srl, ítalskt vínframleiðslufyrirtæki sem getur rakið sögu sína aftur til 1385 og er 10. elsta fjölskyldufyrirtæki í heimi. Ferguson var afskaplega kátur með þessa reddingu frá Rússanum.
Eftir að Ferguson hætti sem stjóri hjá Manchester United ákvað hann að losa sig við hluta af vínsafni sínu með því að selja það á uppboði. Fyrsta slíka uppboðið var í maí 2014 og var haldið í Hong Kong. Þar hafði hann til sölu 257 flöskur. Auk þess lét hann fylgja með smáræðis minjagripi fyrir væntanlega kaupendur. Til dæmis var hann að selja sex flöskur af 1999 árgangnum af Romanée-Conti Grand Cru og þótti viðeigandi að láta áritaða United-treyju frá úrslitaleiknum í meistaradeildinni ‘99 fylgja með þeim kaupum.
Romanée-Conti vínin eru afskaplega fín og dýr vín. Dýrasta flaska kvöldsins var af þeirri gerðinni, 1997 árgangur af víninu seldist fyrir lítil 94.815 pund. Flöskurnar sem seldust þetta kvöld fóru á samtals 2,3 milljón pund. Nokkrum vikum seinna var haldið annað uppboð í London. Þar voru nokkrar flöskur til viðbótar seldar fyrir um það bil 500.000 pund. Dýrustu flöskurnar það kvöldið var Pétrus vín, franskt vín af Bordeaux skólanum, enda frá Bordeaux. 1990 árgangur af því víni fór á 26.000 pund og flaska af 2000 árgangnum á 28.000 pund.
En kallinn er ekkert hættur að sötra eða safna víni þótt hann hafi verið að selja þarna hluta af vínkjallaranum sínum. Hann leit einfaldlega þannig á að fyrst hann væri kominn á eftirlaun þá gæti hann sinnt þessu áhugamáli sínu enn betur, til dæmis með því að ferðast til ólíkra staða í heiminum sem framleiða gæðavín. Hann er því hvergi nærri hættur í víninu og mun áfram nota sitt góða nef til að þefa uppi bestu þrúgurnar og bestu dílana rétt eins og þegar hann þefaði uppi bestu leikmennina og bestu kaupin fyrir Manchester United.
Held það sé nokkuð óhætt að spá því að jólin hjá Ferguson fjölskyldunni verði rauð þetta árið.
Aukaefni:
Ferguson spjallar um vínáhugann
Bernard Black og Manny Bianco úr Black Books fræða okkur um allt sem þarf að vita til að verða vínsérfræðingur
Góð myndasyrpa með Gáttaþefnum honum Ferguson
Sir Alex Ferguson – Secrets of Success. Klukkutíma heimildarmynd um kallinn
Jólamynd dagsins:
Þegar Ferguson varð 6 ára kom út ein besta jólamynd allra tíma. Miracle on 34th Street. Frábærlega jólaleg mynd sem snýst um einlæga trú og von og eldri kall sem getur látið kraftaverk gerast. Smellpassar:
Jólalag dagsins:
Ástralski grínistinn Tim Minchin vinnur mikið með tónlistargrín sem er blanda af gáfulegu orðagríni og beittri samfélagsádeilu. Árið 2009 gaf hann út upptökur af uppistandstónleikum sínum, upptökurnar hétu Ready for This? og á þeim var meðal annars jólalag sem hann samdi í kjölfar þess að hann eignaðist dóttur. Lagið heitir White Wine in the Sun og það er jólalag dagsins:
Skildu eftir svar