Þá er það síðasta geinin í jóladagatali Halldórs. Við þökkum honum kærlega fyrir þá gríðarlegu flottu vinnu sem hann lagði í verkefnið!
—–
James W. Gibson
Það var desember, árið var 1931. Þetta hafði ekki verið gott ár fyrir Manchester United. Um vorið hafði liðið lent í neðsta sæti 1. deildarinnar eftir að hafa byrjað tímabilið á að tapa fyrstu 12 leikjunum í röð og aðeins unnið 2 leiki fyrir áramót. Eftir áramót bættust 5 sigurleikir við en það dugði skammt og United varð langneðst eftir að hafa tapað 27 leikjum. Markatalan að loknu tímabili var 53-115.
Fjórum árum áður hafði maðurinn sem bjargaði United á ögurstundu rétt eftir aldamótin, John H. Davies, látist. Það voru í sjálfu sér sorgarfréttir en komu sér sérstaklega illa fyrir United á þessum tíma. Félagið hafði fyrr á því ári, 1927, ákveðið að kaupa Old Trafford frekar en að leigja svæðið eins og það hafði verið að gera frá því liðið flutti þangað árið 1910. Félagið tók þessa ákvörðun í þeirri trú að liðinu myndi ganga vel og að það hefði áframhaldandi stuðning frá Davies. En eftir að hann dó lenti félagið í slæmum vítahring. Gengið á vellinum fór síversnandi, skuldirnir jukust mikið og tekjurnar drógust saman. Ekki batnaði það þegar heimskreppa skall á. Og svo féll liðið, vorið 1931.
Hafi reksturinn á félaginu gengið illa fyrir þá varð það mun verra þegar United þurfti að spila í 2. deildinni. Ævintýralega slakt gengi tímabilið á undan og staða liðsins í 2. deildinni olli því að mun færri áhorfendur mættu á leiki. Á fyrsta heimaleikinn tímabilið 1930-31 mættu 18.004 áhorfendur. Á fyrsta heimaleikinn tímabilið 1931-32 mættu aðeins 3.507. Stjórinn Herbert Bamlett hætti í nóvember 1931 og United hafði ekki efni á að ráða nýjan stjóra, í staðinn var ritari félagsins, Walter Crickmer, fenginn til að stýra liðinu með öðrum störfum. Til aðstoðar hafði hann aðalnjósnara félagsins, Louis Rocca. En staðan varð bara verri. Félagið hætti að geta greitt leikmönnum laun. 18. desember tilkynnti bankinn félaginu að það fengi ekki frekari frest á að greiða skuldirnar og allar heimildir voru afturkallaðar. Félagið var komið í greiðslustöðvun og útlitið mjög svart. Það þurfti jólakraftaverk ef félagið átti hreinlega að geta haldið áfram að vera til.
Daginn eftir, laugardaginn 19. desember, spilaði United heimaleik gegn Bristol City. Sá leikur tapaðist 0-1. Það gekk hreinlega ekkert upp hjá félaginu. En það var í þann mund að breytast. Sama dag ákvað Walter Crickmer að heimsækja James W. Gibson og óska eftir aðstoð í fjárhagserfiðleikunum. Gibson hafði efnast mjög á framleiðslu búninga fyrir herinn og fleiri aðila. Hann var einnig þekktur fyrir mikinn íþróttaáhuga, hann fylgdist af ástríðu með rugby og krikket. Hann hafði fæðst í Salford og var mikill Manchester-maður, lagði mikið af mörkum til samfélagsins í borginni. Þrátt fyrir að hann væri ekki mikill knattspyrnuáhugamaður á þessum tímapunkti þá þótti Crickmer þess virði að athuga hvort ekki væri hægt að sannfæra Gibson um að Manchester United væri verkefni sem væri þess virði að styrkja.
Gibson hélt það nú. Hann sá þegar í stað hversu mikils virði félagið gæti verið fyrir borgina. Á þessum tíma var Manchester City í ágætis málum sem nokkuð stöðugur miðjumoðsklúbbur í efstu deildinni. En Gibson sagði að það væri sannarlega nægt pláss í Manchester fyrir tvö knattspyrnufélög. Hann lét Crickmer strax fá ávísun upp á 2.000 pund sem nota átti til að greiða laun fyrir jólin. Auk þess keypti hann kalkún í jólamatinn fyrir alla leikmenn og starfsmenn félagsins. Á mánudeginum, 21. desember, samþykkti Gibson að greiða reikninga fram í janúar og gangast í ábyrgð fyrir skuldir félagsins þangað til stjórn United gæti komið saman. Sannkallað jólakraftaverk!
Gibson mætti svo á völlinn á sjálfan jóladag 1931 og sá þar United vinna góðan 3-2 sigur á Wolverhampton Wanderers fyrir framan 33.123 áhorfendur. Það var mesti fjöldi áhorfenda á heimaleik United á því tímabili. Í janúar festi hann svo formlega niður loforð sitt um hjálp þegar hann tók við sem stjórnarformaður hjá United og gekk í bankaábyrgð fyrir félagið. Sú ábyrgð var oft kölluð The Gibson Guarantee. Framtíð félagsins var þar með borgið. Liðið svaraði þeim fréttum með því að fara á 8 leikja taplausa hrinu þar sem 7 leikjanna unnust.
Þegar tímabilinu lauk var nýr stjóri ráðinn til starfa, Scott Duncan. Duncan þessi hafði verið leikmaður sjálfur áður en hann fór út í að stýra liði. Það er í sjálfu sér alvanalegt nú á tímum en þarna þótti það afskaplega frumlegt og óhefðbundið. Gibson sá að hann þyrfti að leggja frekari fjármuni í félagið til að koma upp góðum stöðugleika til að hægt væri að ná almennilegum árangri. Hann setti 40.000 pund í félagið og sá oftar en ekki um að greiða fyrir leikmannakaup úr eigin vasa. Hann var dyggilega studdur af fjölskyldu sinni, eiginkonu hans Lillian og syninum James Alan (sem var alltaf kallaður Alan).
Þetta var þó ekki auðvelt til að byrja með. Skuldirnar voru áfram miklar og oft gat verið erfitt að fá leikmenn til félagsins. Gengið var upp og ofan, til dæmis náði United rétt svo að bjarga sér frá falli í 3. deild 1934 með sigri í lokaleiknum þegar jafntefli eða tap hefði þýtt fall. En 1936 vann United 2. deildina og komst upp í 1. deild. Þar entist liðið bara eitt tímabil og féll strax aftur. En stoppið í 2. deildinni varð jafn langt og 1938 náði liðið að komast aftur upp í 1. deild. Í þetta skiptið náði liðið að halda sér í 1. deildinni. En þá braust út stríð, seinni heimsstyrjöldin, og enska deildarkeppnin fór í pásu.
Gibson tengdist strax stuðningsmönnum félagsins sterkum böndum og vildi hag þeirra sem mestan. Á þessum tíma voru samgöngur á svæðinu ekki sem bestar og ekki óalgengt að áhorfendur þyrftu að ganga í nokkra kílómetra til að komast á Old Trafford. Á tímabilinu 1933-34 samdi hann um það að lestir myndu stoppa reglulega á lítilli lestarstöð stutt frá Old Trafford á leikdögum. Það bætti til muna aðgengi stuðningsmanna að leikvangnum sem skilaði sér í því að áhorfendafjöldi á leiki jókst stöðugt næstu ár á eftir. Lestarstöðin varð að mikilvægu kennileiti á svæðinu sem var þægilegt að nota þegar fólk þurfti að hittast. Stöðin er ekki lengur notuð sem lestarstöð en er enn fyrir utan Old Trafford, sértaklega merkt Gibson.
Gibson nýtti þarna viðskipta- og markaðsvit sitt með því að finna breytingar sem skiluðu bæði betri árangri í rekstri fyrirtæksins og juku til muna ánægju stuðningsmanna af að fylgja United. Annað dæmi um slíkt er þegar Gibson setti fjármuni tímabilið 1936-37 í að stofna Manchester United Junior Athletic. Það var í raun grunnurinn að unglingastarfi félagsins eins og það hefur síðan verið. Í þessu fólst hagræðing, með því að ala upp færa leikmenn var hægt að fá þá til félagsins unga og efnilega í stað þess að þurfa að kaupa þá dýrum dómi þegar þeir væru orðnir eldri og þekktari. En þetta var líka frábært fyrir stuðningsmenn félagsins því þeir vissu að verið væri að leggja rækt við heimatilbúna hæfileika. Gibson tryggði líka að unglingarnir hefðu stað til að æfa á með því að semja um langtímaleigu á æfingarsvæðinu Old Broughton Rangers Rugby Ground, sem seinna fékk nafnið The Cliff. Seinna keypti United svo svæðið og það er enn notað í unglingastarfi félagsins.
Gibson byggði félagið upp á tíma þegar efnahagurinn var ekki sem bestur, í Bretlandi sem og annars staðar. Í seinni heimsstyrjöldinni varð Old Trafford fyrir sprengjum nasista. Gibson samdi um að United fengi að spila heimaleikina á Maine Road og lagði pening í að endurbyggja Old Trafford. Hann var alltaf í þessu af ástríðu fyrir félaginu, hann horfði sífellt til framtíðar og vildi sjá United komast á toppinn. Hann vissi líka að það var hægt, hann sá hvað bjó í þessu félagi.
Þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk var það James Gibson sem réð Matt Busby til starfa sem knattspyrnustjóri. Það var mikið gæfuskref og Gibson og Busby unnu saman ásamt fleiri góðu starfsfólki hjá félaginu í að efla enn innviði félagsins og unglingastarf. Það skilaði sér í enn öflugra liði og United fór að berjast um titla.
Árið 1948 vann Manchester United enska bikarinn. Það var fyrsti titill félagsins í 37 ár. Því miður náði James Gibson ekki að fara með liðinu á völlinn í það skipti vegna þess að hann hafði fengið heilablóðfall og var því fastur heima hjá sér. En liðið sýndi Gibson virðingu og þakklæti sitt með því að koma við heima hjá Gibson á heimleiðinni til að leyfa honum að prófa bikarinn og gefa honum tækifæri til að taka þátt í sigurfögnuðinum.
Í september 1951 fékk Gibson annað heilablóðfall og lést. Liðsmenn United heiðruðu hann með því að vinna enska deildartitilinn þetta tímabil, í fyrsta skipti sem United varð deildarmeistari í 41 ár. Ekkja Gibson, Lillian Gibson, hélt áfram að mæta á leiki og styðja félagið. Sonur þeirra, Alan Gibson, var auk þess orðinn stjórnarmaður hjá United á þessum tíma. Lillian stýrði félaginu í gegnum tímann eftir að James lést. Alan varð stjórnarmeðlimur árið 1948 og svo stjórnarformaður á árunum 1957-85. Meira að segja þegar Alan var kominn á eftirlaun og orðinn rúmlega sjötugur var hann enn jafn spenntur fyrir að mæta á leiki og horfa á liðið sitt spila. Hann náði líka að sjá Alex Ferguson taka við liðinu og koma því aftur á toppinn áður en hann lést.
James Gibson var stjórnarformaður United í 20 ár. Hann tók við félagi sem rambaði á barmi gjaldþrots og glötunnar. Þegar hann kom inn var þetta ekki spurning um vikur eða mánuði, United hafði bara daga til stefnu. James Gibson bjargaði félaginu. Hann var jólakraftaverkið. Og hann lét ekki staðar numið þar, hann kom félaginu upp á hæsta stall. Hann skildi við liðið með þeim hætti að framtíðin var tryggð. Manchester United sem við horfum á núna á sitt að þakka því starfi sem Gibson vann, hann skapaði það sem varð ímynd og sjálfsmynd félagsins.
Það er aðfangadagur. Síðasti jólasveinninn kominn til byggða. Jólahátíðin að ganga í garð. Hátíðin til að vera þakklátur fyrir það góða í lífinu og líta yfir farinn veg með gleði í hjarta. Kertasníkir elskar kerti, upphaflega er hann sérvitur karl sem borðar kerti. En núna er hann aðalkallinn, hann er flottasti jólasveinninn. Hann er sá sem kemur með jólin með sér, oftar en ekki er það hann sem gefur veglegustu jólasveinagjöfina.
Þrettándi var Kertasníkir,
þá var tíðin köld,
ef ekki kom hann síðastur
á aðfangadagskvöld.
Hann elti litlu börnin,
sem brostu glöð og fín,
og trítluðu um bæinn
með tólgarkertin sín.
Manchester United hefur gefið okkur stuðningsmönnum ófáar gjafir í gegnum tíðina. Sigrar og mörk, gleðirík augnablik og magnþrungin spenna. Eftirminnilegar hetjusögur, mismunandi upplifanir hvers stuðningsmanns og sagan sem fylgir okkur. Ef ekki væri fyrir James W. Gibson þá hefðum við aldrei fengið þessar gjafir.
Ef við förum svo til Manchester, aftur til jólanna 1931, og sjáum fyrir okkur leikmenn Manchester United, starfsmenn félagsins og fjölskyldur þeirra, á heimilum sínum að borða jólamatinn sem Gibson tryggði að þau myndu fá. Búin að fá launin sín og óvissunni um framtíðina hafði verið eytt. Í staðinn fyrir óvissu og óöryggi þá var eitthvað jákvætt í loftinu, það var bjartsýni og von. Og ómæld jólagleði. Bara eins og beint upp úr gömlu jólaævintýri eftir Dickens.
Gleðileg jól!
Aukaefni
Maðurinn sem bjargaði United, fyrri hluti
Maðurinn sem bjargaði United, seinni hluti
Jólamynd dagsins
Jólamynd dagsins er að mínu mati besta jólamynd allra tíma. Það er myndin It’s a Wonderful Life frá árinu 1946. Í henni er sögð falleg jólasaga sem snýst um ‘ef’ og ‘hefði’, það hvernig sagan hefði getað orðið mikið öðruvísi. Hvað ef ein manneskja hefði ekki verið til? Hvað ef til dæmis James Gibson hefði ekki verið til?
Svo sakar ekki að aðahlutverkið í myndinni er leikið af Jimmy Stewart. Frábær leikari og fáir leikarar ná jafn vel að fanga kjarna nostalgíu og Jimmy Stewart.
Jólalag dagsins
Jólalag dagsins er Silent Night, flutt af King’s College Choir í Cambridge
Cantona no 7 says
Guð blessi James Gibson.
Amen.